Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 475. máls.

Þingskjal 613  —  475. mál.


Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um dómstóla, nr. 15/1998,
með síðari breytingum (fjöldi dómara).

(Lagt fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi 2012–2013.)
1. gr.

    2. málsl. 1. mgr. 8. gr. laganna orðast svo: Varadómari skal fullnægja skilyrðum til að skipa megi hann í embætti hæstaréttardómara, sbr. 2. og 3. mgr. 4. gr., en ákvæði 5. mgr. 31. gr. um aldurshámark gilda ekki um varadómara.

2. gr.

    Á eftir 1. málsl. 3. mgr. 9. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Þó er heimilt að setja dómara skv. 1. mgr. þótt hann hafi náð 70 ára aldri.

3. gr.

    Í stað ártalsins „2013“ í 43. gr. laganna kemur: 2014.

4. gr.

    44. gr. laganna fellur brott.


5. gr.

    Við lögin bætist ný grein, 46. gr., svohljóðandi:
    Ef sérstaklega stendur á vegna anna má ráðherra þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 8. gr. skipa varadómara samkvæmt tillögu forseta Hæstaréttar til að taka sæti í tilteknu máli við dóminn þótt sæti einskis hæstaréttardómara sé autt vegna vanhæfis, leyfis eða forfalla.


6. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2013.
    Ákvæði 46. gr. laganna, sbr. 5. gr. laga þessara, fellur úr gildi 31. desember 2016.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta er samið að tilhlutan innanríkisráðherra að höfðu samráði við réttarfarsnefnd. Með frumvarpinu er lagt til að rýmkuð verði heimild til að setja varadómara við Hæstarétt Íslands. Þetta felst annars vegar í þeirri breytingu að 70 ára aldurshámark taki ekki til setningar varadómara í tiltekið mál eða til skemmri tíma allt að einu ári og hins vegar í tímabundinni heimild til að setja varadómara þótt sæti einskis dómara sé autt við réttinn. Jafnframt er lagt til að fjöldi héraðsdómara verði áfram 43 út árið 2013 en eftir þann tíma verði ekki skipað í þau embætti sem losna þar til fjöldi dómara er 38.
    Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga um dómstóla, nr. 15/1998, eiga níu dómarar sæti í Hæstarétti. Hefur sá fjöldi dómenda átt sæti í réttinum frá árinu 1994 þegar fjölgað var um einn dómara með lögum nr. 39/1994, um breytingu á þágildandi lögum um Hæstarétt Íslands, nr. 75/1973. Með lögum nr. 12/2011 var dómurum við Hæstarétt fjölgað tímabundið í 12 en sú fjölgun á að ganga til baka með því að skipa ekki í embætti hæstaréttardómara sem losna frá 1. janúar 2013 fyrr en þess gerist þörf svo að þeir verði aftur níu að tölu. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til þeirra laga kom fram að nauðsynlegt væri að fjölga dómendum við Hæstarétt og einnig við héraðsdómstóla vegna þess mikla viðbótarálags sem dómstólar stóðu þá frammi fyrir. Því til stuðnings var einkum nefnt fyrirsjáanlegt álag vegna mikils fjölda ágreiningsmála frá slitastjórnum vegna krafna við slit fjármálafyrirtækja. Var reiknað með að þessi mál kæmu fyrir héraðsdóm af fullum þunga á árinu 2011 og mundi álag af þeim sökum standa yfir fram eftir ári 2012. Jafnframt var gert ráð fyrir að fjölmörg slík mál kæmu til kasta Hæstaréttar frá og með árinu 2011. Þá var gert ráð fyrir að álag á dómstólum mundi aukast vegna mála frá sérstökum saksóknara en þau mál mundu dreifast jafnar yfir lengra tímabil fram til ársins 2013 eða 2014. Með lögum nr. 147/2009 var héraðsdómurum fjölgað um fimm, úr 38 í 43. Var sú fjölgun talin nauðsynleg svo að dómstólar réðu við þann fjölda mála sem fyrirsjáanlegt var að kæmu til kasta dómstóla vegna ágreiningsmála við slit fjármálafyrirtækja og mála frá sérstökum saksóknara. Þær áætlanir sem gerðar voru á árinu 2010 um aukið álag hjá dómstólum hafa að verulegu leyti gengið eftir. Að því er varðar Hæstarétt má nefna að undanfarin þrjú ár hefur þungum og erfiðum málum við réttinn fjölgað og allt stefnir í að fjöldi mála á árinu 2012 verði meiri en hann hefur nokkru sinni verið. Má gera ráð fyrir að á því ári berist réttinum yfir 800 mál til meðferðar en fjöldi þeirra var innan við 500 þegar dómurum var fjölgað í níu árið 1994. Með fjölgun dómara við réttinn hefur verið komið í veg fyrir að óafgreiddum málum fjölgi með óhjákvæmilegum drætti á málsmeðferðinni. Því hefur ekki verið dregið úr þeirri skilvirkni sem einkennt hefur störf réttarins á liðnum árum. Hefur þetta reynst afar mikilvægt á þeim sviðum þar sem brýn þörf hefur verið fyrir fordæmisgefandi úrlausn réttarins um knýjandi þjóðfélagsmál og má í þeim efnum nefna dóma um svonefnd gengislán og uppgjör þeirra. Ef svo fer fram sem horfir má gera ráð fyrir að sú fjölgun dómara við Hæstarétt, sem leiddi af lögum nr. 12/2011, gangi til baka á næstu tveimur til þremur árum. Með hliðsjón af starfsálagi við réttinn kæmi vissulega til álita að fresta því um sinn að dómurum fækki. Verði á hinn bóginn skipaðir dómarar við réttinn í stað þeirra sem hætta á næstu árum má gera ráð fyrir að hugsanlega yrðu ekki næg verkefni fyrir þann fjölda dómara þegar það álag er fylgdi fjármálaáfallinu sem hér varð haustið 2008 væri að mestu gengið yfir. Er þess einnig að gæta að uppi eru hugmyndir um að koma á fót millidómstigi á næstu árum en tilkoma þess gæti fækkað verulega málum til meðferðar fyrir Hæstarétti. Þótt allt þetta sé vissulega nokkurri óvissu háð þykir ástæðulaust að fresta því að dómurum við réttinn fækki frá 1. janúar 2013 eftir því sem þeir láta af embætti. Þess í stað þykir fullnægjandi að lögfesta tímabundna heimild til ársloka 2016 til að setja varadómara til að taka sæti í einstökum málum þótt ekkert sæti dómara við réttinn sé autt vegna vanhæfis, leyfis eða forfalla. Samhliða þessu er lagt til að setja megi varadómara við réttinn þótt hann hafi náð 70 ára aldri og er gert ráð fyrir að setja megi dómara úr hópi allra þeirra sem fullnægja öðrum skilyrðum um embættisgengi, hvort sem viðkomandi hefur látið af starfi eða ekki. Í þessu felst breyting frá reglu 2. málsl. 1. mgr. 8. gr. laganna eins og hún hljóðar nú. Þetta felur til dæmis í sér að fyrrverandi hæstaréttardómarar með mikla reynslu gætu tekið sæti í einstökum málum en slíkt ætti að stuðla að meiri skilvirkni en ef varadómarar kæmu úr röðum þeirra sem ekki búa yfir slíkri starfsreynslu. Má þá frekar gera ráð fyrir að bregðast megi við auknu tímabundnu álagi með því að fá varadómara til starfa í stað þess að fjölga skipuðum dómurum við réttinn. Ástæðulaust er að þessi heimild verði tímabundin, enda engin haldbær rök sem mæla gegn því að kvaddir yrðu til þeir sem hafa af miklu að miðla. Af sömu ástæðu er jafnframt lagt til í 2. gr. að heimilt verði að setja dómara vegna forfalla skipaðs dómara til skemmri tíma allt að einu ári þótt setti dómarinn hafi náð 70 ára aldri. Hvað varðar héraðsdómstólana þá hefur munnlega fluttum einkamálum í heildina fækkað hjá héraðsdómstólunum frá árinu 2009. Hins vegar hefur fjöldi ágreiningsmála vegna gjaldþrotaskipta tæplega tífaldast en þau mál eru þung og tímafrek í vinnslu. Þannig hefur álag aukist á héraðsdómstólana vegna breyttrar samsetningar þeirra mála sem þar eru til úrlausnar. Á árinu 2013 munu tveir héraðsdómarar hætta störfum vegna aldurs. Þannig er ljóst að héraðsdómarar yrðu 41 strax á árinu 2013. Þá er sá möguleiki ávallt fyrir hendi að fleiri hætti störfum. Samkvæmt laganna hljóðan ætti ekki að ráða í þær stöður sem losna á árinu 2013. Gæti héraðsdómurum því fækkað mjög snögglega og án þess að leyst hafi verið úr þeim málum sem bíða úrlausnar. Er því lagt til að ákvæði laganna um að fjöldi dómara verði 43 verði framlengt áfram um eitt ár og falli brott 1. janúar 2014. Eftir það tímamark verði ekki ráðið í þær stöður sem losna. Verði millidómstig að veruleika hér á landi á næstu árum má gera ráð fyrir að þeir sem nú starfa sem héraðsdómarar hafi áhuga á að starfa við hið nýja áfrýjunardómstig og því muni fækka í hópi héraðsdómara verði millidómstig sett upp.Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um dómstóla, nr. 15/1998,
með síðari breytingum (fjöldi dómara).

    Í frumvarpi þessu er lagt til að heimilt verði að skipa varadómara við Hæstarétt Íslands sem og að setja dómara til skamms tíma við réttinn þó svo að viðkomandi hafi náð 70 ára aldri. Einnig verði heimilt að skipa varadómara í ákveðið mál þó svo að sæti einskis dómara sé laust við réttinn. Þá er lagt til að ákvæði um að dómarar í héraði skuli vera 43 verði framlengd um eitt ár eða fram til 1. janúar 2014, en eftir þann tíma verði ekki skipað í þau embætti sem losna þar til fjöldi dómara er orðinn 38.
    Með lögum nr. 12/2011 var dómurum við Hæstarétt fjölgað tímabundið úr níu í 12 en sú fjölgun á að ganga til baka með því að skipa ekki í embætti dómara sem losna eftir 1. janúar 2013. Í Hæstarétti hefur þungum og erfiðum málum fjölgað sl. þrjú ár og allt stefnir í að fjöldi mála á árinu 2012 verði meiri en hann hefur nokkru sinni verið. Ljóst er að starfsálag á réttinn sem mætt var með fjölgun dómara mun ekki léttast á næstunni. Til að mæta auknu starfsálagi þykir fullnægjandi að lögfesta tímabundna heimild til ársloka 2016 til að setja varadómara til að taka sæti í einstökum málum þótt ekkert sæti dómara við réttinn sé autt vegna vanhæfis, leyfis eða forfalla. Samhliða þessu er lagt til að setja megi varadómara við réttinn þótt hann hafi náð 70 ára aldri og er gert ráð fyrir að setja megi dómara úr hópi allra þeirra sem fullnægja öðrum skilyrðum um embættisgengi, hvort sem viðkomandi hefur látið af starfi eða ekki.
    Með lögum nr. 147/2009 var héraðsdómurum fjölgað í héraði úr 38 í 43 af sömu ástæðu og fjölgað var dómurum við Hæstarétt, en þrátt fyrir að munnlega fluttum einkamálum hafi í heildina fækkað þá hefur fjöldi ágreiningsmála vegna gjaldþrotaskipta tæplega tífaldast en þau mál eru mjög þung og tímafrek í vinnslu. Þannig hefur álag aukist á héraðsdómstólana vegna breyttrar samsetningar þeirra mála sem þar eru til úrlausnar. Er lagt til að ákvæði laganna um að fjöldi dómara verði 43 verði framlengd áfram um eitt ár og falli niður 1. janúar 2014.
    Verði frumvarpið að lögum mun tímabundinn kostnaður vegna fimm dómara í héraði nema samtals 76,6 m.kr. Þá er áætlað að tímabundinn kostnaður vegna varadómara í Hæstarétti geti numið um 6 m.kr. á ári eða sem svarar til á bilinu 50–75 mála, miðað við að kostnaður fyrir hvert mál er áætlaður á bilinu 80–120 þús. kr. Þannig er áætlað að útgjöld ríkissjóðs muni aukast sem nemur samtals 82,6 m.kr. á árinu 2013 en 6 m.kr. á ári frá árinu 2014 til ársloka 2016. Í fjárlögum ársins 2013 er gert ráð fyrir framangreindum 76,6 m.kr. viðbótarkostnaði við dómara í héraði en ekki 6 m.kr. vegna varadómara í Hæstarétti.