Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 494. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 635  —  494. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum nr. 45/2012, um breytingu á lögum um sjúkratryggingar,
nr. 112/2008, og lyfjalögum, nr. 93/1994, með síðari breytingum
(greiðsluþátttaka í lyfjakostnaði, frestun).


Flm.: Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.


1. gr.

    1. mgr. 6. gr. laganna, sbr. lög nr. 105/2012, orðast svo:
    Lög þessi öðlast gildi 4. maí 2013.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með lögum nr. 45/2012, um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, og lyfjalögum, nr. 93/1994, var gerð breyting á greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga Íslands í lyfjakostnaði. Breytingin felur í sér að í stað þess að lyfjanotendur greiði tiltekið hlutfall fyrir hverja lyfjaávísun, eins og verið hefur, er gert ráð fyrir ákveðnum fjárhæðarþrepum í hinu nýja kerfi. Þannig greiði einstaklingur lyfjakostnað að fullu upp að ákveðinni fjárhæð en eftir það munu sjúkratryggingar greiða ákveðið hlutfall af lyfjakostnaðinum. Við tiltekið þrep mun lyfjakostnaður verða að fullu endurgreiddur af ríkinu og því mun hið nýja kerfi nýtast þeim best sem þurfa á mestum lyfjum að halda. Greiðsluþátttaka sjúkratrygginga miðast við eitt ár eftir fyrsta skipti sem greitt er fyrir lyf og því er mismunandi eftir einstaklingum og lyfjanotkun þeirra hversu mikið ríkið endurgreiðir hverju sinni. Gert er ráð fyrir að öll þau lyf sem sjúkratryggingar hafa hingað til tekið þátt í að greiða, að hluta eða að fullu, falli undir nýja kerfið.
    Fyrrgreind lög voru samþykkt á Alþingi 1. júní sl. og áttu þau að taka gildi 1. október sl. Fljótlega kom þó í ljós að sá tími var ekki nægilegur til undirbúnings fyrir kerfisbreytinguna og því voru samþykkt á Alþingi 26. september sl. lög nr. 105/2012, um breytingu á lögum nr. 45/2012, þar sem gildistöku þeirra laga var frestað til 1. janúar 2013. Í nefndaráliti velferðarnefndar (þskj. 171) kom fram að samstaða væri um það milli velferðarráðuneytisins og Sjúkratrygginga Íslands að mögulegt væri að taka kerfið í notkun 1. janúar 2013 og nauðsynlegri vinnu yrði þá lokið og kerfið tilbúið til notkunar. Lagði nefndin því til að frumvarpið yrði samþykkt óbreytt enda hafði komið fram á fundum nefndarinnar með fulltrúum velferðarráðuneytisins og Sjúkratrygginga Íslands að dagsetningin væri raunhæf og vert að stefna að henni þó svo að ljóst væri að menn þyrftu að hafa hraðar hendur við undirbúning. Taldi nefndin sig ekki hafa fullnægjandi forsendur til að leggja til frekari frestun á gildistöku laganna.
    Fljótlega eftir að lög nr. 105/2012 voru samþykkt komu fulltrúar lyfsala á fund nefndarinnar og lýstu þeirri skoðun sinni að ómögulegt væri að taka kerfið í notkun um áramótin þar sem umfangsmiklar breytingar á tölvukerfum og prófanir í kjölfar þeirra, breytingar á kassakerfum vegna breytinga á lyfjaskírteinum og útfærsla á samskiptum tölvukerfa apóteka við kerfi sjúkratrygginga mundu ekki verða tilbúnar á þessum tíma. Í kjölfarið óskaði nefndin eftir því að allir aðilar sem koma að kerfisbreytingunni mundu vinna tímasetta áætlun um innleiðingu kerfisins þar sem gert væri ráð fyrir öllum nauðsynlegum þáttum. Í kjölfarið hefur velferðarráðuneytið unnið áætlunina sem hefur verið samþykkt af Sjúkratryggingum Íslands, Lyfjastofnun, lyfjagreiðslunefnd, Samtökum verslunar og þjónustu, Félagi atvinnurekenda, EMR/TMS, Advania og Frumtaka. Felur áætlunin í sér að gangsetning nýja greiðsluþátttökukerfisins geti orðið helgina 4.–5. maí 2013. Er þá gert ráð fyrir nægum tíma fyrir prófanir á kerfinu hjá apótekum og Sjúkratryggingum og gefinn er einn mánuður sem slaki vegna ófyrirséðra atvika og tveir mánuðir til heildarprófana á kerfinu. Ekki skiptir máli hvort kerfið sé tekið í notkun um mánaðamót þar sem nýja kerfið miðast ekki við almanaksár heldur við fyrstu lyfjaafgreiðslu hvers lyfjanotanda og frá þeirri afgreiðslu telst 12 mánaða tímabil greiðsluþátttöku sjúkratrygginga fyrir þann lyfjanotanda. Fyrir nefndinni hefur þó komið fram að betra sé að kerfið verði gangsett yfir helgi frekar en í miðri viku. Er því í frumvarpi þessu miðað við að gildistaka laganna verði 4. maí 2013 og kerfið verði þá tekið í notkun. Er það forsenda þess að lögð er til þessi dagsetning að allir aðilar sem koma að innleiðingu nýja kerfisins hafa talið hana raunhæfa.