Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 496. máls.

Þingskjal 638  —  496. mál.


Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof,
með síðari breytingum (hækkun greiðslna og lenging).

(Lagt fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi 2012–2013.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „þrjá“ í 1. mgr. kemur: fjóra, og í stað orðsins „þremur“ í sömu málsgrein kemur: fjórum.
     b.      Í stað orðanna „36 mánaða aldri“ í 2. mgr. kemur: 18 mánaða aldri, sbr. þó 1. mgr. 17. gr.
     c.      Í stað orðsins „níu“ í 4. mgr. kemur: tólf.
     d.      Í stað orðanna „36 mánuðum eftir að barnið kom inn á heimilið“ í 5. mgr. kemur: 18 mánuðum eftir að barnið kom inn á heimilið, sbr. þó 1. mgr. 17. gr.
     e.      Í stað tölunnar „36“ tvívegis í 8. og 9. mgr. kemur: 18.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      Orðin „að fjárhæð 200.000 kr. og 75% af þeirri fjárhæð meðaltals heildarlauna sem umfram er“ í 1. málsl. 2. mgr. falla brott.
     b.      Í stað orðanna „fæðingardag barns eða þann dag“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: fæðingarmánuð barns eða þann mánuð.
     c.      Í stað fjárhæðarinnar „300.000 kr.“ í 3. mgr. kemur: 350.000 kr.
     d.      Orðin „að fjárhæð 200.000 kr. og 75% af þeirri fjárhæð meðaltals reiknaðs endurgjalds sem umfram er“ í 5. mgr. falla brott.
     e.      Orðin „að fjárhæð 200.000 kr. og 75% af þeirri fjárhæð meðaltals heildarlauna og reiknaðs endurgjalds sem umfram er“ í 6. mgr. falla brott.
     f.      Í stað fjárhæðarinnar „65.227 kr.“ í 7. mgr. kemur: 94.938 kr., og í stað fjárhæðarinnar „91.200 kr.“ kemur: 131.578 kr.
     g.      Í stað orðanna „fæðingardag barns eða þann tíma“ í 11. mgr. kemur: fæðingarmánuð barns eða þann mánuð.

3. gr.

    Í stað 1. og 2. mgr. 17. gr. laganna kemur ein málsgrein, 1. mgr., svohljóðandi:
    Heimilt er að framlengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs um allt að sjö mánuði ef um er að ræða alvarlegan sjúkleika barns eða alvarlega fötlun sem krefst nánari umönnunar foreldris. Rökstyðja skal þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi með vottorði sérfræðilæknis. Vinnumálastofnun skal meta hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg og er stofnuninni heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni við matið. Þrátt fyrir 2. og 5. mgr. 8. gr. fellur réttur foreldra til fæðingarorlofs vegna fæðingar barns niður er barn nær 19 mánaða aldri auk þess sem réttur foreldra til fæðingarorlofs vegna ættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur fellur niður 19 mánuðum eftir að barnið kom inn á heimilið komi til fullra sjö mánaða framlengingar á sameiginlegum rétti foreldra til fæðingarorlofs samkvæmt ákvæði þessu.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „þrjá“ tvívegis í 1. mgr. kemur: fjóra.
     b.      Á eftir orðunum „18 mánaða aldri“ í 1. mgr. kemur: sbr. þó 1. mgr. 22. gr.
     c.      Í stað orðsins „níu“ í 2. mgr. kemur: tólf.
     d.      Í stað fjárhæðarinnar „40.409 kr.“ í 3. mgr. kemur: 57.415 kr.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 19. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „þrjá“ tvívegis í 1. mgr. kemur: fjóra.
     b.      Á eftir orðunum „18 mánaða aldri“ í 1. mgr. kemur: sbr. þó 1. mgr. 22. gr.
     c.      Í stað orðsins „níu“ í 2. mgr. kemur: tólf.
     d.      Í stað fjárhæðarinnar „91.200 kr.“ í 3. mgr. kemur: 131.578 kr.

6. gr.

    Í stað 1. og 2. mgr. 22. gr. laganna kemur ein málsgrein, 1. mgr., svohljóðandi:
    Heimilt er að framlengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarstyrks um allt að sjö mánuði ef um er að ræða alvarlegan sjúkleika barns eða alvarlega fötlun sem krefst nánari umönnunar foreldris. Rökstyðja skal þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi með vottorði sérfræðilæknis. Vinnumálastofnun skal meta hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg og er stofnuninni heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni við matið. Þrátt fyrir 1. mgr. 18. gr. og 1. mgr. 19. gr. fellur réttur foreldra til fæðingarstyrks vegna fæðingar barns niður er barn nær 19 mánaða aldri auk þess sem réttur foreldra til fæðingarstyrks vegna ættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur fellur niður 19 mánuðum eftir að barnið kom inn á heimilið komi til fullra sjö mánaða framlengingar á sameiginlegum rétti foreldra til fæðingarorlofs samkvæmt ákvæði þessu.

7. gr.

    Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir 8. gr. skal sjálfstæður réttur foreldris til fæðingarorlofs vera þrír mánuðir og sameiginlegur réttur foreldra til fæðingarorlofs vera þrír mánuðir vegna barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2013. Sjálfstæður réttur foreldris til fæðingarorlofs skal vera þrír mánuðir vegna barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2014. Sjálfstæður réttur foreldris til fæðingarorlofs skal vera þrír og hálfur mánuður vegna barna sem fæðast, eru ættleidd eða eru tekin í varanlegt fóstur á árinu 2015.
    Þrátt fyrir 18. og 19. gr. skal sjálfstæður réttur foreldris til fæðingarstyrks vera þrír mánuðir og sameiginlegur réttur foreldra til fæðingarstyrks vera þrír mánuðir vegna barna sem fæðast, eru ættleidd eða eru tekin í varanlegt fóstur á árinu 2013. Sjálfstæður réttur foreldris til fæðingarstyrks skal vera þrír mánuðir vegna barna sem fæðast, eru ættleidd eða eru tekin í varanlegt fóstur á árinu 2014. Sjálfstæður réttur foreldra til fæðingarstyrks skal vera þrír og hálfur mánuður vegna barna sem fæðast, eru ættleidd eða eru tekin í varanlegt fóstur á árinu 2015.

8. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2013 og eiga við um foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2013 eða síðar, sbr. þó 7. gr.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er lagt fram til breytinga á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum. Samráð var haft við Vinnumálastofnun við gerð frumvarpsins en jafnframt var frumvarpið sent Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Kennarasambandi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins og starfsmannaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytis til kynningar.
    Í kjölfar þrenginga í ríkisfjármálum haustið 2008 þótti ljóst að draga þurfti úr útgjöldum Fæðingarorlofssjóðs. Var því þegar í desember 2008 gripið til ráðstafana sem leiða áttu til sparnaðar í útgjöldum sjóðsins. Þar á meðal var hámarksfjárhæðin, sem foreldrar gátu átt rétt á úr Fæðingarorlofssjóði, lækkuð í áföngum úr 535.700 kr. í desember 2008 í 300.000 kr. samkvæmt gildandi lögum, sbr. lög nr. 173/2008, nr. 70/2009 og nr. 120/2009. Enn fremur var því hlutfalli af meðaltali heildarlauna eða reiknaðs endurgjalds, sem foreldri sem er á vinnumarkaði á rétt til í fæðingarorlofi, breytt, sbr. lög nr. 120/2009. Í stað þess að hlutfallið sé 80% af meðaltali heildarlauna á tilteknu viðmiðunartímabili eins og verið hafði frá árinu 2001 nemur greiðsla til foreldra í fæðingarorlofi 80% af meðaltali heildarlauna eða reiknaðs endurgjalds að fjárhæð 200.000 kr. en 75% af þeirri fjárhæð meðaltals heildarlauna eða reiknaðs endurgjalds sem er umfram þá fjárhæð. Við gerð þessara breytinga var þannig leitast við að verja rétt þeirra sem höfðu lægstu tekjurnar.
    Í samræmi við markmið laganna um fæðingar- og foreldraorlof hefur ávallt verið lögð áhersla á mikilvægi þess að tryggja að foreldrar hafi sömu tækifæri til að sinna fjölskyldu og starfi utan heimilis en reynslan hefur sýnt að einn af lykilþáttum þess að unnt sé að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf er að foreldrar eigi jafnan rétt til fæðingarorlofs. Í þessu sambandi þykir ekki síst mikilvægt að börnum séu tryggð tækifæri til samvista við báða foreldra sína. Þrátt fyrir nauðsynlegar ráðstafanir til að draga úr útgjöldum sjóðsins hafa stjórnvöld verið meðvituð um að þær aðhaldsaðgerðir, sem ráðist hefur verið í með lagabreytingum frá því haustið 2008, kunni að ganga gegn framangreindum markmiðum laganna. Á það sérstaklega við um hámark á greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði sé hámarkið ákveðið mjög lágt miðað við tekjur foreldra á innlendum vinnumarkaði. Velferðarráðuneytið hefur á undanförnum missirum fylgst mjög náið með þróuninni á töku fæðingarorlofs meðal karla og kvenna. Svo virðist sem feðrum sem taka fæðingarorlof hafi fækkað auk þess sem þeir hafa verið að taka færri daga í fæðingarorlof eftir árið 2008 samanborið við tölulegar upplýsingar um töku fæðingarorlofs feðra fyrir þann tíma. Fjöldi mæðra virðist hins vegar vera stöðugri milli þessara tímabila sem og fjöldi þeirra daga sem þær hafa tekið í fæðingarorlof.
    Ein leið til að meta hugsanleg áhrif lækkunar á hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á fæðingarorlofstöku foreldra er að skoða hvort margir foreldrar hafi orðið fyrir skerðingum vegna lækkandi hámarksgreiðslna úr Fæðingarorlofssjóði miðað við þær greiðslur sem þeir hefðu að öðrum kosti fengið. Þegar litið er til tekjudreifingar kvenna og karla á innlendum vinnumarkaði hafa líkur þótt standa til þess að lægra hámark á greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði dragi frekar úr nýtingu feðra á rétti sínum til fæðingarorlofs heldur en mæðra þar sem karlar virðast enn að jafnaði hafa hærri laun en konur. Tölulegar upplýsingar sýna að hlutfallslega fleiri foreldrar hafa fengið greiddar hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á síðastliðnum árum samanborið við árin fyrir 2009 og jafnframt lægri greiðslur en sem nemur því hlutfalli af viðmiðunartekjum sem lögin gera ráð fyrir. Má því leiða að því líkur að sú staðreynd að hlutfallslega fleiri foreldrar fá greiddar hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og jafnframt lægri greiðslur en sem nemur því hlutfalli af viðmiðunartekjum sem lögin gera ráð fyrir samanborið við árin fyrir 2009 hafi haft þau áhrif að færri foreldrar taki fæðingarorlof en áður.
    Það má hins vegar ekki líta fram hjá því að ýmsir aðrir þættir kunna einnig að hafa haft áhrif. Ætla má að hinar miklu breytingar sem hafa orðið í íslensku samfélagi frá haustmánuðum 2008, ekki síst á innlendum vinnumarkaði, hafi haft áhrif á fæðingarorlofstöku foreldra sem eru þátttakendur á vinnumarkaði. Má í því sambandi nefna lækkun kaupmáttar, óöryggi á vinnumarkaði og auknar skuldir heimilanna. Þegar einstaka tekjuhópar feðra sem hafa fengið greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eru skoðaðir kemur fram að feðrum, sem höfðu haft lægri tekjur en 400.000 kr. á viðmiðunartímabili og nýttu sér rétt sinn til fæðingarorlofs, fækkaði milli áranna 2008, 2009, 2010 og 2011 og er mesta fækkunin í tekjuhópunum 200–300.000 kr. og 300–400.000 kr. Þetta hefur þótt athyglisvert í ljósi þess að hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna barna sem voru fædd, ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2009 miðuðust við hærri meðalmánaðartekjur en 400.000 kr. og hefðu því ekki átt að hafa áhrif á greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hjá foreldrum í þessum tekjuhópum. Má segja að sama eigi við um hámarksgreiðsluna vegna barna sem eru fædd, ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2010 en hámarksgreiðslan miðaðist þá við meðalmánaðartekjur að fjárhæð 387.000 kr. Verður því að ætla að aðrar ástæður en lækkun á hámarksgreiðslu úr Fæðingarorlofssjóði hafi orðið til þess að draga úr fjölda þeirra feðra í þessum tekjuhópum sem tóku fæðingarorlof. Á sama tíma fjölgaði bæði mæðrum og feðrum með mánaðartekjur yfir 750.000 kr. sem nýttu rétt sinn til fæðingarorlofs milli áranna 2008 og 2009. Feður í tekjuhópnum 400–500.000 kr. og 500–750.000 kr. fjölgaði milli áranna 2008 og 2009 en fækkaði síðan aftur milli áranna 2010 og 2011. Án þess að unnt sé að fullyrða það með ákveðinni vissu þykja líkur benda til að þær efnahagslegu forsendur sem breyttust hjá mörgum fjölskyldum í landinu í kjölfar efnahagsþrenginganna haustið 2008 sem og sú óvissa sem hefur ríkt á vinnumarkaði frá þeim tíma kunni að hafa haft meiri áhrif á töku fæðingaorlofs foreldra en lækkun hámarksgreiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Þá gefa tölulegar upplýsingar frá Fæðingarorlofssjóði til kynna að þessir þættir hafi haft meiri áhrif á fæðingarorlofstöku feðra en mæðra.
    Engu að síður þykir mikilvægt að stuðla að því að markmið laganna nái fram að ganga en til þess að svo megi verða er mikilvægt að röskun á tekjum heimilanna verði sem minnst þegar foreldrar þurfa að leggja niður störf vegna tilkomu barns í fjölskylduna sem þarfnast umönnunar þeirra. Þykir því mikilvægt að hefja endurreisn fæðingarorlofskerfisins þannig að kerfið verði í það minnsta jafnsett því kerfi sem var í gildi fyrir árið 2009 enda hefur ávallt við breytingarnar á lögunum frá því haustið 2008 verið lögð áhersla á að um tímabundnar aðhaldsaðgerðir væri að ræða sem yrðu endurskoðaðar um leið og aðstæður í ríkisfjármálum leyfðu. Ljóst er þó að kerfið verður ekki endurheimt nema í áföngum. Er því lagt til í frumvarpi þessu að foreldrar í fæðingarorlofi fái 80% af meðaltali heildarlauna á tilteknu viðmiðunartímabili eins og gilti áður en grípa þurfti til nauðsynlegra aðhaldsaðgerða, sbr. þó ákvæði um hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Enn fremur er gert ráð fyrir að hámarksgreiðsla samkvæmt lögunum verði 350.000 kr. í stað 300.000 kr. en gert er ráð fyrir að sú fjárhæð komi til með að hækka á næstu tveimur árum þannig að verði sambærileg þeirri fjárhæð sem miðað var við fyrir árið 2009. Þetta gerir það að verkum að greiðslur til foreldra með 437.500 kr. eða minna í mánaðartekjur að meðaltali verða 80% af meðaltali heildarlauna á tilteknu viðmiðunartímabili. Samkvæmt gildandi lögum fá foreldrar með 387.000 kr. eða minna í mánaðartekjur að meðaltali á tilteknu viðmiðunartímabili 80% af meðaltali heildarlauna að fjárhæð 200.000 kr. og 75% af þeirri fjárhæð meðaltals heildarlauna sem er umfram þá fjárhæð.
    Enn fremur hefur verið lögð áhersla á mikilvægi þess að foreldrar geti verið sem lengst heima með ungum börnum sínum. Er því með frumvarpi þessu jafnframt lagt til að fæðingarorlof foreldra verði lengt úr níu mánuðum í tólf mánuði í áföngum þannig að lengingin verði komin að fullu til framkvæmda á árinu 2016. Áhersla er áfram lögð á að foreldrar eigi jafna möguleika á að taka fæðingarorlof og er lagt til að sama skipting og verið hefur verði áfram þegar þriggja mánaða lengingin hefur að fullu komið til framkvæmda. Er því lagt til að einn mánuður bætist við sjálfstæðan rétt hvors foreldris og jafnframt að einn mánuður bætist við sameiginlegan rétt foreldra. Jafnframt þykir enn mikilvægt að sjálfstæður réttur foreldra verði ekki framseljanlegur milli foreldra enda talið einn af lykilþáttum þess að lögin um fæðingar- og foreldraorlof nái markmiðum sínum. Í því sambandi verður að líta til reynslu síðustu ára en ljóst er að ytri aðstæður virðast hafa haft meiri áhrif á nýtingu feðra á rétti sínum til fæðingarorlofs en á nýtingu mæðra. Er þar einkum litið til tölulegra upplýsinga frá Fæðingarorlofssjóði sem sýna að færri feður hafa nýtt rétt sinn til fæðingarorlofs eftir árið 2009 á sama tíma og fjöldi mæðra hefur verið mun stöðugri. Enn fremur virðast mæður nýta stærsta hlutann af sameiginlegum rétti foreldra til fæðingarorlofs. Þykir því ljóst að enn er ekki tímabært að hafa skiptinguna þannig að allir tólf mánuðirnir séu sameiginlegir sem foreldrar geti skipt með sér að eigin vild þar sem reynslan sýnir að miklar líkur eru á að mun fleiri mæður en feður nýti sér þann rétt. Þá virðist sem konur verði fyrir meiri félagslegum þrýstingi frá samfélaginu varðandi gildi þess að taka fæðingarorlof en karlar. Þó verður að gera verður ráð fyrir að mæður hafi engu að síður en feður orðið fyrir tekjurýrnun við að fara í fæðingarorlof eftir að greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði voru lækkaðar sem og upplifað óöryggi á vinnumarkaði eftir haustið 2008. Enn fremur gæti komið til að feður verði fyrir auknum félagslegum þrýstingi frá samfélaginu í þá átt að taka ekki fæðingarorlof þegar móðirin getur hvort sem er nýtt réttinn.
    Miðað við það kerfi, sem lagt er til með frumvarpi þessu, má leiða að því líkur að mæður haldi áfram að taka stærsta hluta sameiginlega réttarins sem verður átta mánuðir í stað sex mánaða og verði því mun lengur frá vinnumarkaði vegna barneigna en feðurnir. Má ætla að slík þróun vinni gegn markmiðinu um að jafna stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði. Gera má ráð fyrir að því markmiði væri óneitanlega betur náð með því að jafna réttinn milli foreldra þannig að hvort foreldri um sig ætti rétt á sex mánuðum sem ekki væri framseljanlegur milli foreldra og þar með enginn sameiginlegur réttur sem foreldrar gætu skipt milli sín. Kostir þessa væru þá aðallega þeir að auka töku feðra á fæðingarorlofi sem ætti að sama skapi að auka líkur á að jafna stöðu foreldra á vinnumarkaði. Eftir að hafa farið vandlega yfir kosti og galla þeirra skiptinga, sem til greina koma, þykir engu að síður rétt að viðhalda því kerfi sem hefur verið í gildi frá árinu 2001. Þá verður jafnframt að líta til þess að ákveðin sátt hefur ríkt um það kerfi sem hefur jafnframt leitt til þess að mikill meiri hluti feðra á innlendum vinnumarkaði hefur tekið fæðingarorlof til að annast ung börn sín.
    Lagt er til að í fyrsta áfanga að lengingu fæðingarorlofs foreldra á vinnumarkaði verði mánuði bætt við sameiginlegan rétt foreldra þannig að foreldrar barna sem fæðast, verða ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2014 eigi rétt á þremur mánuðum hvort um sig auk þess sem þeir geti skipt á milli sín fjórum mánuðum að eigin vild. Þannig verði réttur þessara foreldra til fæðingarorlofs samtals tíu mánuðir. Gert er ráð fyrir að í öðrum áfanga fái hvort foreldri um sig hálfan mánuð til viðbótar þannig að hvort um sig eigi rétt á þremur og hálfum mánuði í fæðingarorlof ásamt fjórum mánuðum í sameiginlegan rétt vegna barna sem fæðast, verða ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2015. Að endingu koma foreldrar barna sem fæðast, verða ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2016 til með að eiga samtals tólf mánaða rétt til fæðingarorlofs sem skiptist þannig að hvort foreldri um sig á fjögurra mánaða fæðingarorlof auk þess sem foreldrar eiga sameiginlega rétt á fjórum mánuðum til viðbótar sem þeir geta skipt á milli sín að eigin vild.


Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Lagt er til í ákvæði þessu að fæðingarorlof foreldra á vinnumarkaði verði lengt úr níu mánuðum í tólf mánuði. Líkt og fram kemur í 7. gr. frumvarpsins er þó gert ráð fyrir að breytingin taki gildi í áföngum á árunum 2014, 2015 og 2016 þannig að foreldrar barna sem fæðast, verða ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2016 geti samtals verið tólf mánuði frá störfum til að annast ungt barn sitt. Eingöngu er verið að leggja til fjölgun mánaða en gert er ráð fyrir að sama kerfi verði áfram í gildi þannig að hvort foreldri eigi sjálfstæðan rétt á fæðingarorlofi í tiltekinn mánaðafjölda eða fjóra mánuði sem þeir geta ekki framselt sín á milli. Jafnframt eigi þeir sameiginlegan rétt í fjóra mánuði í stað þriggja mánaða samkvæmt gildandi lögum sem þeir geti skipt á milli sín að eigin vild. Með þessari breytingu er verið að koma almennt til móts við aðstæður foreldra en lengi hefur tíðkast að annað foreldrið, þó aðallega mæður, sé frá vinnumarkaði í allt að tíu til tólf mánuði og dreifi þá fæðingarorlofi sínu yfir lengra tímabil og fái jafnframt launalaust leyfi hjá vinnuveitanda sínum á móti fæðingarorlofi á sama tíma. Að öðru leyti vísast til almennra athugasemda við frumvarp þetta og athugasemda við 7. gr.
    Enn fremur er lagt til að færður verði til fyrra horfs sá tími sem foreldrum er heimilt að dreifa fæðingarorlofi sínu á þannig að heimilt verði að dreifa fæðingarorlofi á fyrstu átján mánuðina í lífi barnsins eða á fyrstu átján mánuðina eftir að barn kemur inn á heimili vegna ættleiðingar eða töku í varanlegt fóstur í stað 36 mánaða. Ástæðan er einkum sú að tilgangur fæðingarorlofs er fyrst og fremst að annast barnið á fyrstu mánuðunum í lífi þess þegar það þarf á mikilli umönnun foreldra að halda og að barnið eigi þess kost að mynda sterk tilfinningatengsl við báða foreldra sína. Hið sama gildir þegar börn eru nýkomin á framtíðarheimili sín vegna ættleiðingar eða töku í varanlegt fóstur en þá skiptir mjög miklu máli að börn fái tækifæri til að mynda sterk tilfinningatengsl við báða foreldra á fyrstu mánuðunum. Raunin er einnig sú að flest börn foreldra á vinnumarkaði eru komin í dagsvistun um átján mánaða aldur hjá dagforeldrum eða á leikskólum og því talið líklegra að hafi foreldri ekki nýtt fæðingarorlofsrétt sinn fyrir þann tíma komi foreldrið ekki til með að nýta þann rétt sinn. Þó ber að líta til þess að skv. 3. og 6. gr. frumvarps þessa er gert ráð fyrir að í tilteknum undantekningartilvikum falli réttur foreldra til fæðingarorlofs vegna fæðingar barns niður er barn nær 19 mánaða aldri auk þess sem réttur foreldra til fæðingarorlofs vegna ættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur falli niður 19 mánuðum eftir að barn kom inn á heimilið og vísast í því sambandi til athugasemda með 3. og 6. gr. frumvarpsins.

Um 2. gr.

    Mikilvægt þykir að röskun á tekjum heimilanna verði sem minnst við tilkomu barns á heimili þannig að markmið laganna um að barn njóti samvista við báða foreldra sína nái fram að ganga sem og að báðum foreldrum verði gert kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Er því lagt til að það hlutfall af meðaltali heildarlauna á tilteknu viðmiðunartímabili sem greiðslur foreldra í fæðingarorlofi skuli miðast við verði fært til fyrra horfs. Þannig er gert ráð fyrir að foreldrar fái 80% af meðaltali heildarlauna á tilteknu viðmiðunartímabili eins og gilti áður en grípa þurfti til nauðsynlegra aðhaldsaðgerða, sbr. þó ákvæði um hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Enn fremur er lagt til að hámarksgreiðslan, sem foreldrar geta átt rétt á úr Fæðingarorlofssjóði, verði hækkuð úr 300.000 kr. í 350.000 kr.
    Lagt er til að orðalag 2. mgr. ákvæðisins verði breytt þannig að skýrt sé að við útreikninga á meðaltali heildartekna skuli miða við tólf mánaða viðmiðunartímabil og er þá átt við tólf almanaksmánuði. Enn fremur er lagt til að skýrt verði kveðið á um að átt sé við almanaksmánuði þegar talað er um þá tvo mánuði sem miða skal við í þeim tilvikum þegar um er að ræða útreikning á meðaltekjum foreldra á innlendum vinnumarkaði sem eiga rétt til fæðingarorlofs skv. 8. gr. laganna en uppfylla hins vegar ekki 1. mgr. 13. gr. laganna og eiga þar af leiðandi rétt á fæðingarstyrk.
    Þá eru lagðar til breytingar á fjárhæðum lágmarksgreiðslna frá því sem er í gildi skv. 6. mgr. 3. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, sbr. einnig reglugerð nr. 1223/2011, um breytingu á reglugerð nr. 1208/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, með síðari breytingum. Um er að ræða hækkun sem nemur 3,25% og er það í samræmi við frumvarp til fjárlaga 2013. Að öðru leyti vísast til almennra athugasemda.

Um 3. gr.

    Lagt er til að hætt verði að líta til þess hvort barn þurfi að dvelja á sjúkrahúsi í beinu framhaldi af fæðingu þegar kemur til álita að lengja fæðingarorlof foreldra vegna alvarlegs sjúkleika eða alvarlegrar fötlunar barns. Í stað þess er gert ráð fyrir að eingöngu verði litið til þess að ástand barnsins krefjist nánari umönnunar foreldranna umfram það sem eðlilegt er við umönnun ungbarna án tillits til þess hvort barn liggi í lengri eða skemmri tíma á sjúkrahúsi. Þannig yrðu heimildir til lengingar á fæðingarorlofi skv. 1. og 2. mgr. 17. gr. laganna sameinaðar og þá heimilt að lengja fæðingarorlof um allt að sjö mánuði að undangengnu mati sérfræðilæknis ef um er að ræða alvarlegan sjúkleika barns eða alvarlega fötlun sem krefst nánari umönnunar foreldris. Ástæða þessa er einkum sú að töluverðar breytingar hafa orðið á því hversu lengi mæður og nýfædd börn þeirra dvelja á sjúkrahúsi eftir fæðingu barnanna. Lengi tíðkaðist að mæður lægju inni á sjúkrahúsi með nýfædd börn sín í allt að sjö daga frá fæðingu þeirra en á síðustu árum hefur það orðið venja að mæður fari heim með börn sín innan sólarhrings frá fæðingu þeirra þegar allt virðist í lagi með bæði móður og barn. Er barnið þá undir eftirliti ljósmóður sem kemur heim til barnsins tvisvar á dag fyrstu dagana eftir heimkomu. Oft kemur alvarleg fötlun eða sjúkdómar, svo sem hjartagallar, ekki fram þegar við fæðingu en getur hins vegar komið fram á fyrstu dögunum í lífi barna sem greinast þá eftir að þau hafa farið í fyrsta skipti heim af sjúkrahúsi eftir fæðingu. Sem dæmi má nefna að svokölluð fimm daga skoðun ungbarna, sem er ítarleg skoðun barnalækna, fer fram eftir að flest ungbörn eru farin heim en ætla má að þar komi oft á tíðum fram merki um sjúkdóm eða fötlun sem ekki var unnt að greina áður en barnið fór nýfætt heim af sjúkrahúsi. Í slíkum tilvikum fellur heimild til framlengingar skv. 1. mgr. 17. gr. gildandi laga sjálfkrafa niður en þegar heimildin var sett fyrst í lög fór þessi skoðun fram meðan barnið var enn á sjúkrahúsi eftir fæðingu. Ekki er gert ráð fyrir öðrum breytingum á þessari heimild til framlengingar á fæðingarorlofi foreldra. Áfram er miðað við að barn greinist með alvarlegan sjúkdóm eða alvarlega fötlun og er þá ekki átt við tilfallandi veikindi barna, svo sem hlaupabólu, eyrnabólgu eða aðra álíka sjúkdóma enda þótt veikindin geti verið þrálát. Þykir eðlilegt að líta til þeirra tilvika er eiga undir lög nr. 22/2006, um greiðslur foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, með síðari breytingum, þegar meta skal hvort einstök tilvik geta fallið undir ákvæði þetta enda stefnt að því að tryggja foreldrum þessara barna heildstæðan rétt að þessu leyti. Þá er gert ráð fyrir að komi til fullrar sjö mánaða framlengingar samkvæmt ákvæði þessu falli réttur til fæðingarorlofs vegna fæðingar barns niður þegar barn nær 19 mánaða aldri í stað 18 mánaða, sbr. 1. gr. frumvarps þessa, og að réttur foreldra til fæðingarorlofs vegna ættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur falli niður 19 mánuðum eftir að barnið kom inn á heimilið. Er þetta lagt til í því skyni að tryggja að foreldrar þessara barna geti nýtt rétt sinn samkvæmt ákvæði þessu í samtals 19 mánuði þegar lenging á fæðingarorlofi foreldra skv. 1. gr. frumvarps þessa, sbr. 7. gr. frumvarpsins, verður að fullu komin til framkvæmda á árinu 2016.

Um 4. og 5. gr.

    Lagt er til að réttur foreldra til fæðingarstyrks lengist á sama hátt og fæðingarorlof foreldra á vinnumarkaði. Um frekari skýringar vísast því til almennra athugasemda við frumvarp þetta sem og athugasemda við 1. gr. frumvarpsins. Þá eru lagðar til breytingar á fjárhæðum fæðingarstyrkja fyrir þá sem standa utan vinnumarkaðar og þeirra sem eru námsmenn frá því sem er í gildi skv. 2. mgr. 14. gr. og 2. mgr. 15. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, sbr. einnig reglugerð nr. 1223/2011, um breytingu á reglugerð nr. 1208/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, með síðari breytingum. Um er að ræða hækkun sem nemur 3,25% og er það í samræmi við frumvarp til fjárlaga 2013.

Um 6. gr.

    Ákvæði þetta varðar breytingar á framlengingu á sameiginlegum rétti foreldra til fæðingarstyrks sem er efnislega samhljóða þeim breytingum sem fjallað er um í 3. gr. frumvarps þessa um framlengingu á sameiginlegum rétti foreldra til fæðingarorlofs. Er því vísað til athugasemda við 3. gr. frumvarpsins.

Um 7. gr.

    Lagt er til að við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða þar sem kveðið verði á um að lenging á fæðingarorlofi úr níu mánuðum í tólf mánuði komi til framkvæmda í þremur áföngum á árunum 2014, 2015 og 2016. Þannig er gert ráð fyrir að fæðingarorlof foreldra lengist í fyrsta áfanga um einn mánuð sem bætist við sameiginlegan rétt foreldra barna sem fæðast, verða ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2014. Ári síðar lengist síðan fæðingarorlof beggja foreldra um hálfan mánuð hjá hvoru um sig þannig að hvort foreldri á þá rétt til fæðingarorlofs í 3½ mánuð vegna barna sem fæðast, verða ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2015. Samtals eiga þá foreldrar rétt á fæðingarorlofi í ellefu mánuði vegna barna sem fæðast, verða ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2015. Lokaáfanginn kemur til framkvæmda árið 2016 þegar foreldrar fá hálfan mánuð til viðbótar við sjálfstæðan rétt sinn. Munu því foreldrar barna sem fæðast, verða ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2016 eiga samtals rétt á tólf mánaða fæðingarorlofi sem skiptist þannig að hvort foreldri um sig á rétt til fjögurra mánaða fæðingarorlofs auk sameiginlegs fjögurra mánaða réttar sem þeir geta skipt á milli sín að eigin vild.

Um 8. gr.

    Lagt er til að lögin öðlist gildi 1. janúar 2013 og gildi fyrir foreldra barna sem fæðast, verða ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2013, sbr. þó 7. gr. frumvarps þessa.


Fylgiskjal.

Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 95/2000,
um foreldra- og fæðingarorlof, með síðari breytingum
(hækkun greiðslna og lenging).

    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á fæðingarorlofskerfinu með það að markmiði að taka fyrsta skrefið í átt að því að greiðslur til foreldra verði aftur sambærilegar og þær voru árið 2008 þannig að auka megi rétt foreldra, og þá einkum feðra, á greiðslum í fæðingarorlofi. Einnig eru lagðar til í frumvarpinu breytingar um að lengja fæðingarorlof foreldra í áföngum og breytingar varðandi réttindi í tengslum við veikindi barna. Meginbreytingar frumvarpsins eru í fimm liðum.
    Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar sem munu hafa áhrif á orlofsgreiðslur til foreldra. Í núgildandi lögum fá foreldrar 80% af meðallaunum, allt að 200 þús. kr. en 75% af meðallaunum umfram það. Þó getur heildargreiðsla til foreldra ekki farið umfram skilgreinda hámarksfjárhæð sem er í dag 300 þús. kr. á mánuði. Lagt er til í frumvarpinu að 75% viðmiðið verði fellt niður þannig að einungis verði viðmið um 80% af meðallaunum en það fyrirkomulag tíðkaðist fram til ársins 2010. Einnig er lagt til að hámarksgreiðslur til foreldra hækki í 350 þús. kr. á mánuði en þær voru um 536 þús. kr. árið 2008 og voru lækkaðar í þrepum fram til ársins 2010 til að draga úr útgjöldum sjóðsins. Þá er lagt til að lágmarksfjárhæðir til foreldra í 25–49% starfi hækki úr um 92 þús. kr. í um 95 þús. kr. á mánuði og að lágmarksfjárhæðir til foreldra í 50–100% starfi hækki úr um 127 þús. kr. í 132 þús. kr. á mánuði. Hlutfallsleg hækkun á þessum fjárhæðum nemur um 3,25% og er það sama hækkun og lögð er til vegna hækkunar á fæðingarstyrkjum til foreldra fyrir komandi ár.
    Gera má ráð fyrir því að framangreindar breytingar, og þá einkum breytingar á hámarksgreiðslum, hafi áhrif á það að hversu miklu leyti launahækkanir milli ára skila sér í hærri útgreiðslum til feðra og mæðra. Undanfarin ár hafa meðalgreiðslur til feðra vegna barna sem eru fædd, ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árunum 2010–2012 staðið nánast í stað þrátt fyrir að laun á viðmiðunartímabilum foreldra hafi almennt hækkað. Hjá mæðrum hafa greiðslurnar hins vegar hækkað en þó ekki sem nemur hækkun undirliggjandi launa og skýrist það af þeim skerðingum sem fyrir eru á greiðslum til foreldra. Miðað við 3% hækkun á launum foreldra á ári má ætla að útgjöld, sem rekja megi til breytinganna í frumvarpinu, muni aukast um 40 m.kr. á ársgrundvelli. Áætlað er að framangreindar breytingar muni leiða til þess að meðalgreiðslur til feðra hækki um 11% en mæðra um 7% og að útgjaldaaukning vegna þeirra verði um 540 m.kr. á ársgrundvelli. Áhrifa af þessum breytingum mun einkum gæta hjá feðrum, sér í lagi hvað varðar breytingar á hámarksgreiðslum til foreldra. Miðað við bráðabirgðatölur vegna feðra barna sem fædd eru á yfirstandandi ári má ætla að um helmingur feðra fái skertar greiðslur vegna hámarksins samanborið við um 20% mæðra.
    Við mat á fjárhagsáhrifum frumvarpsins er einnig gert ráð fyrir því að breytingarnar leiði til aukinnar töku feðra á fæðingarorlofi. Annars vegar er reiknað með að fleiri feður taki orlof en þeim hefur fækkað umtalsvert á undanförnum árum. Hins vegar er gert ráð fyrir að þeir feður sem taki fæðingarorlof taki fleiri daga en þeir gera í dag. Óvissa er um hversu mikil aukning verður í orlofstöku feðra en hér er gert ráð fyrir um 7% fleiri feðrum í orlofi og um 6% fjölgun daga. Áætluð útgjaldaaukning vegna þessa er um 350 m.kr. á ársgrundvelli. Hér er ekki er gert ráð fyrir breytingum á orlofstöku mæðra vegna fyrrgreindra breytinga á greiðslum til foreldra í ljósi þess að lítið hefur dregið úr orlofstöku mæðra á undanförnum árum þótt orlofsgreiðslur hafi lækkað. Við mat á fjárhagsáhrifum frumvarpsins er gert ráð fyrir að barnafjöldi til grundvallar réttindum foreldra sé rúmlega 4.500 börn á ári eða sá sami og árið 2011. Samanlagt er áætlað að framangreindar breytingar á greiðslum til foreldra auki útgjöld ríkissjóðs um 850 m.kr. á ársgrundvelli en því til viðbótar má áætla að árlega muni útgjöldin aukast um 40 m.kr. vegna aukinna áhrifa af launahækkunum foreldra.
    Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á fjárhæðum fæðingarstyrkja til handa foreldrum sem eru utan vinnumarkaðar. Annars vegar er um að ræða foreldra sem eru í minna en 25% starfi eða algjörlega utan vinnumarkaðar og hins vegar foreldra sem hafa verið í fullu námi. Lagt er til að styrkirnir hækki um 3,25% sem er í samræmi við launa- og verðlagsforsendur í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2013. Áætlað er að útgjöld Fæðingarorlofssjóðs aukist um 20 m.kr. vegna þessara hækkana á ársgrundvelli.
    Í þriðja lagi er lagt til að réttur foreldra til að dreifa fæðingarorlofi sínu verði færður aftur til fyrra horfs þannig að heimilt verði að dreifa fæðingarorlofi á fyrstu 18 mánuðina eftir fæðingu barns, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur í stað 36 mánaða. Núverandi fyrirkomulag hefur gilt fyrir börn sem fædd hafa verið 1. júlí 2009 eða síðar en ekki liggja fyrir endanlegar tölur um í hvaða mæli foreldrar hafa nýtt sér það að geta dreift orlofinu yfir lengra tímabil. Hins vegar gefa bráðabirgðatölur vegna barna sem fædd voru, ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2009 til kynna að tæplega 3% þeirra orlofsdaga sem feður nýta sér eru á bilinu 19–36 mánuðum eftir fæðingu barns, ættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur en innan við 0,5% hjá mæðrum. Ef gert er ráð fyrir því að foreldrar færi ekki til töku þessara daga innan 18 mánaða tímabilsins mundi breytingin leiða til einhverrar lækkun útgjalda fyrir ríkissjóð. Fremur má þó gera ráð fyrir að foreldrar reyni að nýta rétt sinn innan 18 mánaða tímabilsins og verða þá útgjöld Fæðingarorlofssjóðs óbreytt.
    Í fjórða lagi er lagt til að réttur foreldra til töku fæðingarorlofs vegna fæðingar, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur verði lengdur. Lengingin nær bæði til foreldra sem eru á vinnumarkaði og þeirra sem eru utan hans og fá greidda fæðingarstyrki. Lagt er til að sameiginlegur réttur foreldra til töku fæðingarorlofs verði lengdur um einn mánuð á árinu 2014 en sjálfstæður réttur hvors foreldris um sig verði lengdur um hálfan mánuð 2015 og hálfan mánuð 2016. Foreldrar barna sem fæðast 2016 eða síðar munu því hafa samanlagt tólf mánaða rétt til töku fæðingarorlofs í stað níu mánaða eins og núgildandi lög gera ráð fyrir. Við mat á fjárhagsáhrifum vegna lengingar réttindanna er gengið út frá því að mæður nýti meginhluta sameiginlega réttarins líkt og raunin er í dag með þá þrjá mánuði sem foreldrar hafa til skiptanna. Gert er ráð fyrir því að mæður fullnýti sín viðbótarréttindi en að feður nýti einungis hluta þeirra viðbótarréttinda sem þeir muni fá. Það byggist á því að einungis um 60% feðra barna sem voru fædd, ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2011 hafa tekið þrjá mánuði eða meira í fæðingarorlof. Áætlað er að þessi viðbótarréttindi muni kosta ríkissjóð um 2,7 mia.kr. á ársgrundvelli ef gert er ráð fyrir að aðrar breytingar frumvarpsins gangi eftir. Ekki hefur verið gert ráð fyrir slíkri útgjaldaaukningu í ríkisfjármálaáætlun stjórnvalda og ekki eru til staðar fjárheimildir innan núverandi útgjaldaramma Fæðingarorlofssjóðs til að mæta þessum viðbótarútgjöldum.
    Í fimmta lagi er lagt til að sameinuð verði tvö lagaákvæði í eitt en þau tengjast veikindum barna eftir fæðingu. Í frumvarpinu er kveðið á um að heimilt verði að framlengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs um allt að sjö mánuði ef um er að ræða alvarlegan sjúkleika barns eða alvarlega fötlun sem krefst nánari umönnunar foreldris. Nú er annars vegar heimilt að framlengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs um þann dagafjölda sem barn dvelst á sjúkrahúsi fyrir fyrstu heimkomu, í allt að fjóra mánuði þurfi barn að dveljast á sjúkrahúsi lengur en sjö daga í beinu framhaldi af fæðingu. Hins vegar er heimilt að framlengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs í allt að þrjá mánuði ef um er að ræða alvarlegan sjúkleika barns sem krefst nánari umönnunar foreldris. Fæðingarorlofssjóður greiðir árlega um 150–200 foreldrum barna vegna fyrrgreindra lengingar réttinda og nema árlegar greiðslur um 40–60 m.kr. vegna þess. Ekki er gert ráð fyrir að útgjöld vegna þessa aukist að ráði þar sem í lögunum er gert ráð fyrir að miðað verði áfram við alvarlega sjúkdóma eða fötlun við ákvörðun um lengingu á sameiginlega réttinum.
    Við mat á fjárhagsáhrifum breytinganna sem lagðar eru til í frumvarpinu þarf að hafa í huga að áhrif þeirra koma ekki að fullu fram fyrr en að einu til tveimur árum liðnum eftir að breytt réttindi taka gildi. Skýrist það af því að foreldrar hafa rétt á því að dreifa fæðingarorlofi sínu á 36 mánuði miðað við núverandi fyrirkomulag en á 18 mánuði gangi frumvarpið eftir. Það þýðir til að mynda að útgjöld ársins 2013 fela í sér greiðslur vegna barna sem fædd eru árin 2010–2013. Almennt má ætla að fyrir feður sé helmingur útgjalda tiltekins árs vegna barna sem fæðast innan þess árs en afgangurinn vegna barna sem fæddust á fyrr. Hjá mæðrum má ætla að um tveir þriðju hlutar útgjalda tiltekins árs séu vegna barna sem fæðast innan ársins en einn þriðji vegna barna sem fædd eru fyrr. Stuðst er við þessar forsendur þegar lagt er mat á áhrif lagabreytinganna á útgjöld ríkissjóðs.
    Í frumvarpi til fjárlaga 2013 er gert ráð fyrir að fjárheimildir komandi árs verði 7.850 m.kr. vegna orlofsgreiðslna til foreldra en 625 m.kr. vegna greiðslu á fæðingarstyrkjum til foreldra utan vinnumarkaðar, eða alls 8.475 m.kr. Veitt var 800 m.kr. viðbótarfjárheimild í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2013 til að gera breytingar á fæðingarorlofskerfinu en þær breytingar sem eru lagðar til í þessu frumvarpi munu hins vegar auka útgjöld ríkissjóðs samtals um rúmlega 3,7 mia.kr. þegar þær hafa að fullu komið til framkvæmda líkt og sjá má í meðfylgjandi töflu. Þar af nemur útgjaldaaukning vegna breytinga á orlofsgreiðslum um 850 m.kr. auk þess sem útgjöld aukast um 40 m.kr. til viðbótar árlega vegna áhrifa af launahækkunum foreldra umfram núverandi kerfi. Í töflunni hér á eftir koma fram metin útgjaldaáhrif af þessum breytingum á fæðingarorlofskerfinu miðað við núverandi fjárheimild í fjárlagafrumvarpinu 2013 sem alls nemur 8.475 m.kr., þar af 7.850 m.kr. vegna foreldra á vinnumarkaði en 625 m.kr. vegna foreldra utan vinnumarkaðar.

Tafla 1: Núverandi fjárheimildir og áætluð útgjöld Fæðingarorlofssjóðs eftir lagabreytingar.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Verði frumvarpið lögfest í núverandi mynd er áætlað að útgjöld Fæðingarorlofssjóðs árið 2013 verði rúmlega 8,4 mia.kr. og þar af leiðandi innan fjárheimilda í fjárlagafrumvarpinu 2013. Á árinu 2014 er hins vegar áætlað að útgjöld sjóðsins verði rúmlega 9,6 mia.kr. eða rúmum 1,1 mia.kr. umfram fjárheimildir og forsendur í gildandi ríkisfjármálaáætlun því þá má ætla að fram verði komin að mestu leyti áhrif af hækkun á greiðslum til foreldra sem og fyrstu áhrif af viðbótarréttindum foreldra til töku lengra fæðingarorlofs. Í lok árs 2017 er áætlað að útgjöldin verði 12,1 mia.kr. eða 3,6 mia.kr. umfram núverandi fjárheimildir. Ljóst er að frumvarpið er ekki í samræmi við útgjaldaforsendur í fyrirliggjandi ríkisfjármálaáætlun stjórnvalda til næstu ára þar sem ekki hefur verið gert ráð fyrir slíkum útgjaldavexti fæðingarorlofs í þeirri stefnumörkun. Í ljósi þess verður að gera ráð fyrir því að gripið verði til viðeigandi ráðstafana á útgjalda- eða tekjuhlið þannig að forsendum ríkisfjármálaáætlunarinnar verði ekki raskað og að unnt verði að standa við þau markmið sem sett hafa verið fram um jöfnuð í ríkisfjármálum árið 2014.