Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 109. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Prentað upp.

Þingskjal 648  —  109. mál.
Leiðrétting.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu

um frumvarp til bókasafnalaga.

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Agnesi Guðjónsdóttur og Eirík Þorláksson frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Ingibjörgu Sverrisdóttur frá Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni, Stefaníu Júlíusdóttur frá Háskóla Íslands, Tryggva Þórhallsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Margréti Sigurgeirsdóttur og Söru Stefáns Hildardóttur frá Upplýsingu – félagi bókasafns- og upplýsingafræða, og Pálínu Magnúsdóttur frá samtökum forstöðumanna almenningsbókasafna. Umsagnir bárust frá Háskóla Íslands og Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni.
    Með frumvarpinu er lagt til að sett verði heildarlöggjöf um starfsemi almenningsbókasafna, skólabókasafna og Blindrabókasafns Íslands. Felld verði niður lög um almenningsbókasöfn, sem og ákvæði um bókasöfn í sjúkrahúsum, dvalarheimilum aldraðra og í fangahúsum. Einnig er kveðið á um að stofnaður verði bókasafnasjóður sem hafi það að markmiði að efla starfsemi bókasafna með því að styrkja rannsóknir og þróunar- og samstarfsverkefni í greininni. Þá er lagt til það nýmæli að stofnað verði bókasafnaráð sem verði ráðherra og stjórnvöldum til ráðgjafar og vinni m.a. að stefnumótun um starfsemi bókasafna. Að lokum er í frumvarpinu gert ráð fyrir skýrum heimildum til gjaldtöku vegna útlána, þjónustu, dagsekta og bóta.
    Við meðferð málsins komu fram athugasemdir um að nauðsynlegt væri að bókasafnaráð gæti tekið upp mál að eigin frumkvæði. Nefndin vill í þessu sambandi benda á að hlutverk ráðsins á að vera ráðgefandi um málefni bókasafna, og er það m.a. í samræmi við hlutverk safnaráðs um málefni safna samkvæmt safnalögum, nr. 141/2011.
    Í nefndinni var rætt um áhrif þess að felld eru út ákvæði um bókasöfn í sjúkrahúsum, dvalarheimilum aldraðra og fangahúsum. Fram kemur í 2. mgr. 7. gr. frumvarpsins að almenningsbókasöfn séu menningar-, upplýsinga- og menntastofnanir sem reknar eru af sveitarfélögunum. Jafnframt segir að allir landsmenn skuli eiga kost á að njóta þjónustu almenningsbókasafna. Nefndin tekur undir þau sjónarmið sem fram komu um að miklar breytingar hafa átt sér stað í skipulagi og starfsemi slíkra stofnana og einnig hafa möguleikar til afþreyingar stóraukist á síðari árum. Eigi að síður vill nefndin árétta mikilvægi þessarar þjónustu en samkvæmt frumvarpinu verður hún hluti af almanna- og grunnþjónustu sveitarfélaga en með ákvæðinu er verið að mæla skýrar fyrir um skyldur sveitarfélaganna við bókasöfnin.
    Í 11. gr. frumvarpsins er kveðið á um starfsfólk og búnað bókasafna. Þar er tekið fram að forstöðumaður bókasafns skuli hafa lokið prófi í bókasafns- og upplýsingafræði, sé þess kostur að ráða mann með slíka menntun til starfans. Við meðferð málsins kom fram nokkur gagnrýni á að ekki væri kveðið á um skyldu sveitarstjórna til að ráða forstöðumann sem lokið hefði prófi í faginu. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið að vissu leyti en bendir á að líta verði til þess að slíkt geti verið íþyngjandi fyrir fámennari sveitarfélög og einnig verði að horfa til þess að bókasöfn geta verið ólík að stærð og umfangi. Nefndin leggur því til að ákvæðið verði óbreytt. Einnig var bent á samræmi 11. gr. frumvarpsins við 16. gr. þar sem kveðið er á um forstöðumann Hljóðbókasafns Íslands, en þar var bent á mikilvægi þess að forstöðumaður hefði lokið prófi í bókasafns- og upplýsingafræði, og að starfsfólk hefði sérmenntun sem hæfir safninu. Nefndin bendir á að um sambærileg starfsgengisskilyrði forstöðumanns er að ræða og gilda um forstöðumann í lögum um Náttúruminjasafn Íslands, nr. 35/2007, og lögum um Þjóðminjasafn Íslands, nr. 140/2011. Nefndin leggur til að ákvæðið verði óbreytt.
    Nefndin leggur til nokkrar breytingar sem eru lagatæknilegs eðlis.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 4. mgr. 7. gr.
              a.      2. málsl. falli brott.
              b.      Orðin „þ.m.t. í sjálfstæðri leit upplýsinga“ í 3. málsl. falli brott.
     2.      Á eftir orðunum „sem glatast“ í 1. málsl. 3. efnismgr. 24. gr. komi: eða skemmist.

    Siv Friðleifsdóttir og Tryggvi Þór Herbertsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 28. nóvember 2012.

Björgvin G. Sigurðsson,
form., frsm.
Skúli Helgason.
Þráinn Bertelsson.

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.
Þorgerður K. Gunnarsdóttir.
Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Birgitta Jónsdóttir.