Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 376. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 651  —  376. mál.




Svar



velferðarráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur
um atvinnuleysisbætur og atvinnuleitendur.


     1.      Hvað hefur mörgum verið synjað um atvinnuleysisbætur frá 2008, sundurliðað eftir árum, kyni og aldri?
    Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun hefur 8.750 atvinnuleitendum verið synjað um greiðslu atvinnuleysistrygginga frá árinu 2008, sbr. töflu.

25 ára og yngri 25–40 ára 40–55 ára 55 ára og eldri
karlar konur karlar konur karlar konur karlar konur Samtals
2008 239 178 193 276 95 119 74 59 1.233
2009 380 284 401 373 210 141 102 51 1.942
2010 258 231 482 417 341 185 206 114 2.234
2011 316 242 351 324 171 128 91 44 1.667
jan–nóv 2012 274 209 357 352 143 149 109 81 1.674
Heimild: Vinnumálastofnun.

     2.      Hverjar eru helstu ástæður þess að atvinnuleitendum er synjað um atvinnuleysisbætur?
    Helsta ástæða þess að atvinnuleitendum hefur verið synjað um greiðslu atvinnuleysistrygginga er að viðkomandi einstaklingar uppfylla ekki skilyrði um ávinnslutímabil samkvæmt lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum, og hafa því ekki áunnið sér rétt innan atvinnuleysistryggingakerfisins með þátttöku á vinnumarkaði.

     3.      Hvað hafa margir nýtt sér úrræði um nám á atvinnuleysisbótum?
    Í eftirfarandi töflu má sjá tölur er sýna þátttöku atvinnuleitenda í námsúrræðum frá árinu 2008 og eru upplýsingarnar greindar eftir aldri og kyni viðkomandi atvinnuleitenda.

Allir Karlar Konur 16–29 30– 39 40– 49 50
2008 6 0 6 5 1 0 0
2009 1.503 688 815 729 435 202 137
2010 1.465 655 810 741 372 195 157
2011 1.429 575 854 699 348 219 163
jan–okt 2012 1.050 350 700 418 328 154 150
Heimild: Vinnumálastofnun.

    Þá tóku yfir 900 atvinnuleitendur þátt í sérstöku námsátaki, Nám er vinnandi vegur, haustið 2011 auk þess sem yfir 200 atvinnuleitendur tóku þátt í sambærilegu átaki haustið 2012, sbr. töflu.

Allir Karlar Konur 16– 29 30– 39 40– 49 50
2011 939 441 498 575 238 86 40
jan– okt 2012 216 94 122 140 43 17 16
Heimild: Vinnumálastofnun.

     4.      Hvað hafa margir nýtt sér úrræði um atvinnu með atvinnuleysisbótum? Hve margir þeirra nýta úrræðið í nýsköpunarfyrirtækjum?
    Á árunum 2009–2011 stóð Vinnumálastofnun að gerð samninga við yfir 1.000 atvinnuleitendur um starfsþjálfun, reynsluráðningu eða þátttöku í sérstökum átaksverkefnum. Við gerð þeirra samninga samþykktu viðkomandi atvinnuleitendur að Vinnumálastofnun greiddi grunnatvinnuleysisbætur þeirra ásamt 8% mótframlagi í lífeyrissjóð beint til hlutaðeigandi fyrirtækja eða stofnana sem greiddu þeim laun. Haustið 2011 var lögum um atvinnuleysistryggingar breytt þannig að Vinnumálastofnun greiðir til fyrirtækjanna eða stofnananna ígildi grunnatvinnuleysisbóta hlutaðeigandi en gildistími samningsins telst ekki hluti bótatímabils skv. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Á vormánuðum 2012 var ráðist í sérstakt átaksverkefni sem bar yfirskriftina „Vinnandi vegur“ í samvinnu stjórnvalda, sveitarfélaga og samtaka aðila vinnumarkaðarins þar sem gerðir voru um 1.400 samningar um starfsþjálfun.     Í töflunni má sjá hvernig fjöldi þeirra atvinnuleitenda sem hefur nýtt sér þátttöku í slíkum úrræðum skiptist á milli starfsþjálfunar, reynsluráðningar og sérstakra átaksverkefna annars vegar og starfa hjá nýsköpunarfyrirtækjum hins vegar.

Starfsþjálfun, „Vinnandi vegur“, reynsluráðning og sérstök átaksverkefni.
Allir Karlar Konur 16–29 30–39 40–49 50
2008 82 47 35 34 15 14 19
2009 1.062 682 380 461 239 170 192
2010 1.331 857 474 528 317 210 276
2011 1.120 664 456 381 325 189 225
jan–okt 2012 1.987 1.199 788 606 562 324 495
Starf hjá nýsköpunarfyrirtækjum (Starfsorka).
Allir Karlar Konur 16–29 30–39 40–49 50
2008 0 0 0 0 0 0 0
2009 87 59 28 23 35 21 8
2010 136 84 52 34 53 34 15
2011 87 48 39 18 39 21 9
jan–okt 2012 57 32 25 12 24 11 10
Heimild: Vinnumálastofnun.