Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 261. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 653  —  261. mál.




Svar



atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn
Kristjáns Þórs Júlíussonar um starfsemi skilanefnda.


    Við vinnslu fyrirspurnarinnar var leitað upplýsinga hjá Fjármálaeftirlitinu (FME) og byggjast eftirfarandi svör að mestu á upplýsingum þaðan.

     1.      Hvernig var staðið að skipun í skilanefnd SPRON, síðar Dróma? Var skipað í hana á einhvern annan hátt en í skilanefndir stóru föllnu bankanna og gilda önnur lög eða reglur um starfsemi Dróma en skilanefndir stóru bankanna?
    Í svari Fjármálaeftirlitsins kom fram að við skipun skilanefnda hafi verið leitast við að skipa endurskoðendur og lögfræðinga með starfsreynslu og/eða þekkingu á fjármálastarfsemi og eftir atvikum skiptarétti. Þá hafi einnig verið lögð áhersla á það að einhverjir fulltrúar þekktu til starfsemi viðkomandi fjármálafyrirtækis til að tryggja það að framkvæmd ákvarðana eftirlitsins gengi hratt og skilmerkilega fyrir sig. Rétt er að hafa í huga að Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hf. (SPRON) varð ekki að Dróma sem slíkur heldur eru bæði félögin til í dag. Drómi er dótturfélag í 100% eigu SPRON og heldur utan um allar eignir SPRON.
    Staðið var að skipun skilanefndar SPRON með sama hætti og hjá öðrum fjármálafyrirtækjum. Hægt er að nálgast ákvörðunina hér:
     www.fme.is/utgefid-efni/frettir-og-tilkynningar/gagnsaeistilkynningar/nr/1217.
    Þess skal getið að þann 21. mars 2009 tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun um ráðstöfun eigna og skulda SPRON á grundvelli þágildandi heimildar í 100. gr. a í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 (svokölluð neyðarlög). Samhliða vék Fjármálaeftirlitið stjórn sparisjóðsins frá störfum og skipaði skilanefnd yfir sjóðnum. Við gildistöku laga nr. 44/2009, um breyting á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, varð skilanefnd SPRON sjálfkrafa að bráðabirgðastjórn í skilningi laganna, sbr. I. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009. Þann 19. júní 2009 lagði bráðabirgðastjórn SPRON beiðni fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur um að sparisjóðurinn yrði tekinn til slita. Féllst héraðsdómur á beiðni bráðabirgðastjórnar þann 23. júní 2009 og skipaði félaginu þriggja manna slitastjórn.
    Að teknu tilliti til þess sem að framan greinir er vert að taka fram að það er ekki skilanefnd yfir Dróma heldur var skilanefnd hjá SPRON. Í dag eru engar skilanefndir starfandi heldur slitastjórnir, sbr. t.d. slitastjórn SPRON sem skipuð var þann 23. júní 2009. Sömu lög og reglur gilda um starfsemi slitastjórnar SPRON og slitastjórnir annarra fjármálafyrirtækja. Rétt er að árétta að Drómi er ekki fjármálafyrirtæki, en hlutverk þess félags er að halda utan um eignir SPRON ásamt því að standa skil á greiðslum skuldabréfs þess sem stendur til tryggingar greiðslu til Arion banka vegna yfirtekinna innstæðna.

     2.      Er það réttlætanlegt og eðlilegt séð frá sjónarhóli ráðherra og öðrum eftirlitsaðilum ríkisins, t.d. Fjármálaeftirlitinu, að útibústjóri SPRON og stjórnarmaður í stjórn SPRON á einhverjum tíma sé starfsmaður skilanefndar SPRON/Dróma?
    Í svari Fjármálaeftirlitsins segir að ekki séu fyrir hendi sérstakar reglur um hæfi einstakra starfsmanna fjármálafyrirtækja og aðkomu þeirra við afgreiðslu eða meðferð einstakra mála. Við mat á framangreindu er m.a. horft til 19. gr. laga um fjármálafyrirtæki um heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti. Ekki er reglum til að dreifa um hvað felst í framangreindu. Ber því að leggja almennan hlutlægan mælikvarða til grundvallar, eftir atvikum með hliðsjón af meginreglum um hvenær aðili telst vanhæfur til að taka þátt í meðferð máls. Í þessu sambandi má nefna þá meginreglu að aðilar teljast almennt vanhæfir til að endurskoða fyrri ákvarðanir sem þeir hafa tekið, taka þátt í undirbúningi eða meðferð máls sem tengist endurskoðun á þeim eða ef ætla má að persónulegir hagsmunir ráði för. Jafnframt er unnt að horfa til annarra þátta, eins og t.d. orðspors og trúverðugleika viðkomandi fyrirtækis við slíkar aðstæður.
    Samkvæmt 1. mgr. 101. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki hefur Fjármálaeftirlitið eftirlit með rekstri fjármálafyrirtækis sem er stýrt af slitastjórn, óháð því hvort viðkomandi fyrirtæki hefur starfsleyfi eða takmarkað starfsleyfi eða hvort starfsleyfi þess hefur verið afturkallað. Dótturfélag fjármálafyrirtækis í slitameðferð sem heldur utan um eignir þess skal jafnframt heyra undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins. Eftirlitið nær m.a. til viðskiptahátta þess sem felur m.a. í sér að framganga þess gagnvart viðskiptavinum skal vera í samræmi við það sem almennt tíðkast hjá fjármálafyrirtækjum með gilt starfsleyfi. Fjármálaeftirlitið hefur ekki tekið málefni fyrrum útibússtjóra SPRON og/eða fyrrum stjórnarmanna í SPRON vegna starfa fyrir Dróma til sérstakrar skoðunar með hliðsjón af framangreindu. Hins vegar hefur Fjármálaeftirlitið nýverið lokið athugun á starfsemi Dróma þar sem m.a. var tekið til skoðunar hæfi fyrrum starfsmanns Frjálsa fjárfestingarbankans sem nú starfar hjá Dróma. Í því tilviki taldi Fjármálaeftirlitið ekki tilefni til athugasemda en lagði áherslu á að Dróma, líkt og öðrum eftirlitsskyldum aðilum, bæri ávallt að leggja mat á hæfi starfsmanna og hættu á hagsmunaárekstrum vegna starfa þeirra ásamt því að gæta þess að komið sé í veg fyrir að upp komi aðstæður þar sem með réttu megi draga í efa hæfi starfsmanna til að sinna tilteknum verkefnum. Gagnsæistilkynning vegna athugunar þessarar var birt á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins þann 21. nóvember sl.

     3.      Eiga fyrrverandi stjórnarmenn eða tengdir aðilar í stjórn SPRON einhverjar kröfur, t.d. launakröfur, í þrotabú SPRON? Ef svo er, hve margar og hversu háar eru þær?
     4.      Hvaða fyrrverandi stjórnarmenn SPRON hafa unnið fyrir og eru hugsanlega enn starfsmenn hjá þrotabúi SPRON/Dróma?
     5.      Hve margir einstaklingar og lögaðilar, sem voru með gjaldeyrislán hjá SPRON og annaðhvort greiddu þau upp eða skuldbreyttu þeim í íslensk verðtryggð lán, hafa ekki fengið endurútreikning og leiðréttingu á ólöglegum gjaldeyrislánum hjá skilanefnd SPRON/Dróma?


    Ráðuneytið býr ekki yfir umbeðnum upplýsingum. Í svari Fjármálaeftirlitsins kom fram að það heldur hvorki utan um kröfulýsingar né skrá yfir starfsmenn slitastjórnar SPRON og fyrri störf þeirra eða skrá yfir það hversu margir hafi ekki fengið endurútreikning og leiðréttingu á ólöglegum gjaldeyrislánum hjá SPRON.
    Samkvæmt 1. mgr. 57. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, getur alþingismaður óskað upplýsinga eða svars frá ráðherra um opinbert málefni. Í 3. mgr. 49. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, segir:
    „Með opinberu málefni er átt við sérhvert málefni er tengist hlutverki og starfsemi ríkisins og stofnana þess, svo og félaga og annarra lögaðila sem eru að hálfu eða meira í eigu ríkisins og annast stjórnsýslu eða veita almenningi opinbera þjónustu á grundvelli laga, stjórnvaldsfyrirmæla eða samnings.“
    Fyrir liggur að þrotabú SPRON er ekki ríkisstofnun eða félag sem annast stjórnsýslu eða veitir opinbera þjónustu. Þá eru störf slitastjórna lögbundin og framkvæmd undir eftirliti kröfuhafa og dómstóla.
    Eins og sjá má á upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu hefur það ekki umbeðnar upplýsingar og bendir á að þær sé hægt að nálgast hjá slitastjórn SPRON. Að framangreindu virtu er vandséð hvernig rökstyðja megi að þær upplýsingar sem um er beðið séu „opinber málefni“ á sviði ráðuneytisins. Ráðuneytið er því ekki í aðstöðu til að krefjast þess að slitastjórn SPRON veiti þær upplýsingar sem óskað er eftir í 3.–5. lið fyrirspurnarinnar.
    Í tilefni af fyrirspurninni hefur ráðuneytið hins vegar sent slitastjórn SPRON bréf þar sem vakin er athygli á fyrirspurninni. Slitastjórn SPRON er því meðvituð um efni hennar og getur því lagt mat á það hvort að hún telur ástæðu til að veita fyrirspyrjenda umbeðnar upplýsingar.