Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 380. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 657  —  380. mál.




Svar



velferðarráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur um kjör eldri borgara
á hjúkrunar- og dvalarheimilum.


     1.      Telur ráðherra það samrýmast eignarréttarákvæði og jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að eldri borgarar missi fjárhagslegt sjálfstæði sitt við það að flytjast á hjúkrunar- eða dvalarheimili?
    Eins og fram kemur í svari við 2. tölul. hér á eftir byggist sú regla að lífeyrisgreiðslur til heimilismanna á dvalar- og hjúkrunarheimilum falli niður þegar um varanlega búsetu þar er að ræða á ákvæðum laga um málefni aldraðra, nr. 125/1999, og lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum. Hliðstæð ákvæði voru einnig í eldri löggjöf.
    Þetta fyrirkomulag hefur um alllangt skeið sætt gagnrýni, m.a. af hálfu samtaka eldri borgara sem hafa talið að með því sé fjárhagslegt sjálfstæði eldri borgara skert og að það kunni jafnvel að ganga gegn eignarréttar- og jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Í þessu sambandi er rétt að vekja athygli á sérstakri athugun umboðsmanns Alþingis sem hann gerir nánari grein fyrir í bréfi til félags- og tryggingamálaráðherra 10. júní 2008. Tilefni þeirrar athugunar var að umboðsmanni Alþingis höfðu borist ýmis erindi og kvartanir sem beindust að tilteknum álitaefnum sem vörðuðu réttarstöðu aldraðra og stjórnsýslu málefna þeirra. Ekki er vikið að því í bréfi umboðsmanns Alþingis að framangreind tilhögun kunni að fara gegn eignarréttar- og jafnræðisreglum stjórnarskrárinnar. Hann vakti hins vegar athygli stjórnvalda á þeim sjónarmiðum sem fram komu í fyrrnefndum erindum með það í huga að tekin yrði afstaða til þess við endurskoðun lagareglna og fyrirkomulags þessara mála og þá hvort þörf væri á breytingum.
    Ráðuneytið telur að fyrrgreint greiðslufyrirkomulag gangi ekki gegn eignarréttar- og jafnræðisákvæðum stjórnarskrárinnar. Engu síður er talið æskilegt að breyta þessu fyrirkomulagi og er unnið að undirbúningi þess í tengslum við tilfærslu á málefnum aldraðra frá ríki til sveitarfélaga með það að markmiði að komið verði til móts við sjónarmið og gagnrýni eldri borgara á fyrrgreint fyrirkomulag.

     2.      Á hvaða lagagrunni hvílir sú regla að eldri borgarar láti allar sínar lífeyrisgreiðslur og bætur almannatrygginga renna til hjúkrunar- eða dvalarheimilis meðan á dvöl stendur?
    Um lífeyrisgreiðslur til heimilismanna á dvalar- og hjúkrunarheimilum og þátttöku þeirra í kostnaði við dvöl fer samkvæmt lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, og lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum. Þá er í gildi reglugerð nr. 1112/ 2006, um stofnanaþjónustu fyrir aldraða, með síðari breytingum, og reglugerð nr. 47/2012, um daggjöld fyrir hjúkrunar-, dvalar- og dagvistarrými sem ekki eru á föstum fjárlögum árið 2012.
    Samkvæmt 1. mgr. 21. gr. laga um málefni aldraðra, nr. 125/1999, og 4. mgr. 48. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, falla lífeyrisgreiðslur niður frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir upphaf dvalar þegar um varanlega búsetu á dvalar- eða hjúkrunarheimili er að ræða. Ef lífeyrisþegi dvelst lengur en í mánuð samfellt á sjúkrahúsi sem er á föstum fjárlögum falla lífeyrisgreiðslur almannatrygginga niður ef vistin hefur varað lengur en sex mánuði undanfarna tólf mánuði.
    Heimilismenn geta þurft að taka þátt í dvalarkostnaði sínum vegna varanlegrar búsetu á dvalar- eða hjúkrunarheimili og er greiðsluþátttakan tengd tekjum. Ef tekjur heimilismanna eru yfir 65.005 kr. á mánuði eftir staðgreiðslu skatta, þá taka þeir þátt í kostnaði við dvöl sína með þeim tekjum sem umfram eru, sbr. reglugerð um stofnanaþjónustu fyrir aldraða. Greiðsluþátttaka verður þó aldrei hærri en 310.888 kr. á mánuði, þ.e. daggjald samkvæmt reglugerð um daggjöld fyrir hjúkrunar-, dvalar- og dagvistarrými margfaldað með dagafjölda ársins og deilt í með mánaðafjölda (10.221 x 365/12). Heimilismenn byrja að greiða frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að búseta hefst og gilda sömu reglur um útreikning á þátttöku í dvalarkostnaði hvort sem um er að ræða búsetu á dvalar- eða hjúkrunarheimili.
    Við útreikning á þátttöku í dvalarkostnaði eru bornar saman reiknireglur eins og þær voru árið 2006, í mars 2008 og árinu 2012. Sú leið er valin sem leiðir til lægstu kostnaðarþátttöku heimilismanna. Eldri reglur kunna til dæmis að leiða til minni kostnaðarþátttöku ef heimilismaður hefur hærri tekjur en maki hans sem er heima, en samkvæmt eldri reglum skiptust allar tekjur hjóna til jafns á milli þeirra. Samkvæmt lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, hafa tekjur maka engin áhrif á útreikning á greiðsluþátttöku íbúa fyrir utan fjármagnstekjur sem teljast ávallt til sameiginlegra tekna hjóna, en fjármagnstekjur umfram 98.640 kr. á ári eru taldar til tekna við útreikning á kostnaðarþátttöku. Frítekjumark vegna atvinnutekna er nú 480.000 kr. á ári. Bætur frá lífeyristryggingum almannatrygginga, bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og séreignarlífeyrissparnaður teljast ekki til tekna við útreikning á kostnaðarþátttöku heimilismanna.
    Þegar lífeyrisgreiðslur falla niður vegna búsetu á dvalar- eða hjúkrunarheimili getur íbúi með lágar eða engar tekjur átt rétt á vasapeningum, sbr. 8. mgr. 48. gr. almannatryggingalaga, 24. gr. laga um málefni aldraðra og reglugerð um greiðslur vasapeninga sjúkratryggðra, nr. 213/1991, með síðari breytingum. Fullir vasapeningar eru 46.873 kr. á mánuði. Vasapeningar eru tekjutengdir og koma 65% af tekjum til lækkunar á þeim uns þeir falla niður þegar tekjur heimilismanns ná 72.112 kr. á mánuði.