Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 93. máls. Ferill 94. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Prentað upp.

Þingskjal 665  —  93. og 94. mál.
Flutningsmenn.

2. umræða.


Nefndarálitum frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 145/1994, um bókhald,
með síðari breytingum (texti bókhaldsbóka og ársreikninga, skoðunarmenn, endurskoðendur), og frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 3/2006,
um ársreikninga, með síðari breytingum (starfrækslugjaldmiðill
og skoðunarmenn og endurskoðendur).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.

    Nefndin hefur fjallað um málin og fengið á sinn fund Hörpu Theodórsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Ingvar Rögnvaldsson, Skúla Jónsson og Guðrúnu Jennýju Jónsdóttur frá ríkisskattstjóra, Maríu Rúriksdóttur og Berglindi Helgu Jónsdóttur frá Fjármálaeftirlitinu, Sturlu Jónsson og Jón Rafn Ragnarsson frá Félagið löggiltra endurskoðenda, Árna Þór Hlynsson frá Félagi bókhaldsstofa, Yngva Örn Kristinsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja og Harald Inga Birgisson frá Viðskiptaráði Íslands. Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá ríkisskattstjóra, Fjármálaeftirlitinu, Félagi löggiltra endurskoðenda, Viðskiptaráði Íslands, Kauphöll Íslands og Alþýðusambandi Íslands.

Tilurð og efni frumvarps til breytinga á lögum um ársreikninga (94. mál).
    Frumvarpið er afrakstur endurskoðunar á lögum um ársreikninga sem unnin var í samráði við ársreikningaskrá, Fjármálaeftirlitið, Viðskiptaráð, Félag löggiltra endurskoðenda, Félag viðurkenndra bókara og Félag bókhaldsstofa. Markmið frumvarpsins er að skýra þær kröfur sem gerðar eru til reikningsskila fyrir félög með takmarkaða ábyrgð þannig að þau gefi sem gleggsta mynd af stöðu þeirra hverju sinni. Til grundvallar frumvarpinu liggur skýrsla nefndar um málefni endurskoðenda frá janúar 2011 sem unnin var á vegum ráðuneytisins. Frumvarpinu er ekki ætlað að breyta störfum endurskoðenda eða skoðunarmanna en helstu breytingar eru:
          Lagt er til að skýrari greinarmunur verði gerður á störfum endurskoðenda annars vegar og skoðunarmanna hins vegar og því talað um að endurskoðandi áriti ársreikning að lokinni endurskoðun en að skoðunarmaður undirriti ársreikning að lokinni yfirferð. Breytingin er lögð til með hliðsjón af lögum um endurskoðendur þar sem fram kemur að einungis þeir sem fá löggildingu ráðherra endurskoði reikningsskil og áriti þau í samræmi við endurskoðun.
          Lagt er til að framsetningu skilyrða fyrir heimild til færslu bókhalds og ársreiknings í erlendum gjaldmiðli verði breytt en það er að fenginni reynslu ársreikningaskrár sem veitir heimildina.
          Lagt er til að þegar sérstakar ástæður eru fyrir hendi verði félögum sem heyra undir gildissvið ársreikningalaga heimilt að hafa texta ársreiknings á dönsku eða ensku. Fram til þessa hefur heimild til að hafa texta ársreiknings á dönsku eða ensku verið bundin við félög sem heimild hafa til færslu bókhalds og gerð ársreikninga í erlendum gjaldmiðli.
          Lagt er til að í skýrslu stjórnar með ársreikningi verði upplýst að lágmarki um tíu stærstu hluthafa eða alla ef hluthafar eru færri en tíu, og hundraðshluta hvers þeirra í lok ársins. Markmiðið með þessu er að auka gagnsæi eignarhalds frá því sem nú er en gildandi lög gera ráð fyrir að upplýst skuli um hundraðshluta hlutafjár þeirra hluthafa sem eiga a.m.k. 10% hlutafjár félagsins í lok ársins.
          Í frumvarpinu er lagt til að móðurfélag þurfi ekki að semja samstæðureikning ef það á aðeins dótturfélög sem skipta óverulegu máli bæði ein sér og sem heild.

Tilurð og efni frumvarps til breytinga á lögum um bókhald (93. mál).
    Frumvarpið er lagt fram samhliða framangreindu lagafrumvarpi. Lög um bókhald hafa að geyma ákvæði um bókhaldsskyldu, bókfærslu og bókhaldsskjöl og geymslu þessara gagna, auk almennra ákvæða um ársreikninga fyrir önnur félög en þau sem falla undir lög um ársreikninga. Helstu breytingar eru þessar:
          Lagðar eru til breytingar til samræmis við frumvarp til laga um breytingar á lögum um ársreikninga varðandi hlutverk endurskoðenda annars vegar og skoðunarmanna hins vegar.
          Í frumvarpinu er lagt til að bókhaldsskyldum félögum verði veitt heimild til að hafa texta bókhaldsbóka á dönsku eða ensku. Breytingin felur í sér að heimildin verður ekki lengur bundin við félög sem hafa heimild til að færa bókhald og semja ársreikninga í erlendum gjaldmiðli enda hefur reynslan sýnt að fjölmörg félög hafa ársreikninga sína á ensku þrátt fyrir að reikningsskilin séu í íslenskum krónum. Sérstakar ástæður þurfa að vera fyrir hendi til að félög geti nýtt sér þetta hagræði, t.d. vegna erlends eignarhalds eða erlendra stjórnarmanna.
          Lagt er til að bókhaldsskyldum félögum verði veitt heimild til að varðveita bókhaldsbækur erlendis í allt að sex mánuði. Breytingin felur í sér að heimildin verður ekki lengur bundin við félög sem hafa heimild til að færa bókhald og semja ársreikninga í erlendum gjaldmiðli. Fram kemur í athugasemdum við greinina að félögum sé skylt að flytja gögnin heim fyrr ef eftirlitsaðilar krefjast aðgangs og jafnframt að aðgangur verði alltaf óheftur að rafrænum bókhaldsgögnum, án tillits til þess hvar bókhald er vistað.
          Lagt er til að bókhaldsskyldum félögum verði heimilað þegar sérstakar ástæður eru fyrir hendi að hafa texta ársreiknings á dönsku eða ensku. Sams konar ákvæði er í 5. gr. frumvarps til breytinga á lögum um ársreikninga.
          Lagt er til að félagsmenn í bókhaldsskyldum félögum sem fara með 10% atkvæða geti krafist þess að kosinn verði a.m.k. einn endurskoðandi, endurskoðunarfyrirtæki eða skoðunarmaður. Fram til þessa hefur heimildin verið bundin við félagsmenn í félögum, sjóðum og stofnunum sem tilgreind eru í 7. tölul. 1. gr. laga um bókhald. Í b-lið 11. gr. frumvarps til laga um breytingar á lögum um ársreikninga er kveðið á um að aðalfundur eða almennur félagsfundur félaga sem ekki er skylt að kjósa endurskoðanda samkvæmt ársreikningalögum eða samþykktum sínum skuli kjósa einn eða fleiri skoðunarmenn ársreikninga. Í d-lið 13. gr. sama frumvarps er mælt fyrir um að félagsmenn, sem fara með minnst einn tíunda hluta atkvæða á fundi félags sem ekki er skylt að kjósa endurskoðanda, geti á fundi krafist þess að kosinn verði a.m.k. einn endurskoðandi.

Umfjöllun nefndarinnar.
Gæði ársreikninga.
    Með hliðsjón af því mikla verðmætatapi sem varð í aðdraganda og í kjölfar hrunsins haustið 2008 komu fram efasemdir um að ársreikningar gæfu raunsanna mynd af stöðu félaga. Ræddi nefndin ábyrgð endurskoðenda í því sambandi og röksemdir sem koma fram varðandi þetta í frumvarpi Péturs H. Blöndals um hringferla fjár (þskj. 177, 176. mál.). Í athugasemdum við frumvarpið eru leiddar líkur að því að eigið fé félaga á árunum fyrir hrun hafi verið stórlega ofmetið fyrir tilstilli krosseignatengsla á milli félaga og lána til starfsmanna, slíkar veilur hlutafélagaformsins hafi ásamt ónógu eftirliti verið ein af meginorsökum hrunsins. Frumvarpshöfundur álítur að um alþjóðlegan vanda sé að ræða sem leita verði lausna á á vettvangi viðeigandi alþjóðastofnana.

Úrræði vegna vanskila á ársreikningum.
    Nefndin ræddi úrræði ársreikningaskrár til að bregðast við töfum á skilum og birtingu ársreikninga. Upplýst var að sektarheimild ársreikningaskrár skv. 3. mgr. 126. gr. laga um ársreikninga tæki m.a. til félaga með takmarkaða ábyrgð sem væru undir stærðarviðmiðunum 2. tölul. 1. gr. laganna en einnig tilgreindra félaga með ótakmarkaða ábyrgð þar sem félagsaðilar væru allir félög með takmarkaða ábyrgð. Ársreikningaskrá hefði samkvæmt því ekki heimild til að leggja sektir á skráð félög og stærri félög samkvæmt umræddum viðmiðunum nema þegar þau legðu fram ófullnægjandi ársreikninga en að skránni bæri að vísa vanskilum þessara félaga á ársreikningum til skattrannsóknarstjóra.
    Fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra lagði til að undir gildissvið laga um ársreikninga yrðu felld samlagsfélög þar sem ábyrgðaraðilar eru félög með takmarkaða ábyrgð. Er á það bent í umsögn embættisins að þegar félagsaðild að samlagsfélagi er þannig háttað að félag með takmarkaða ábyrgð er látið bera persónulega ábyrgð á öllum skuldbindingum samlagsfélagsins sé í raun um að ræða takmarkaða ábyrgð. Aðstaðan sé því sambærileg við það þegar sameignarfélög eru eingöngu í eigu félaga með takmarkaða ábyrgð en í þeim tilvikum er skylt að skila ársreikningi. Af hálfu ráðuneytisins kom fram að vinna við endurskoðun laga um ársreikninga standi enn yfir þar sem þetta atriði á að skoða.
    Viðskiptaráð Íslands lagði á það áherslu við meðferð málsins að nefndin kallaði eftir hugmyndum frá ríkisskattstjóra um hert viðurlög vegna vanskila á ársreikningum. Telur ráðið að umfangsmikil vanskil ársreikninga dragi úr tiltrú á atvinnulífið, bæði hér heima og erlendis, og hafi neikvæð áhrif á viðskipti, viðskiptakostnað og viðskiptakjör. Nefndin ræddi af því tilefni þörf á að fjölga úrræðum ársreikningaskrár þegar skil á ársreikningi dragast umfram lögbundinn skilafrest, eftir atvikum með því að stytta skilafrestinn, fella sektir á stjórnendur vegna vanskila eða jafnvel heimila slit á félagi ef stjórnendur þess sinntu ekki ítrekuðum viðvörunum.
    Í minnisblaði ríkisskattstjóra frá 13. nóvember 2012, sem sent var formanni efnahags- og viðskiptanefndar að beiðni formanns, er með hliðsjón af danskri og norskri löggjöf gerð grein fyrir kostum þess að lögfesta tvö ný úrræði vegna vanskila á ársreikningum, þ.e. að heimilt verði annars vegar að beita stjórnarmenn fésektum og hins vegar að afskrá félög. Kemur fram að þess háttar breytingar gætu komið að gagni í báráttunni við kennitöluflakk, einkum ef réttaráhrif afskráningar vegna vanrækslu á upplýsingagjöf mundi hafa það í för með sér að hluthafar yrðu gerðir ábyrgir fyrir skuldum hlutafélags. Hluthafar mundu e.t.v. gefa félög sín sjálfviljugir í gjaldþrotaskipti í stað þess að eiga á hættu að skuldirnar færðust yfir á þá sjálfa og samfara því gæti skiptastjóri gripið fyrr inn í ólögmætar eignatilfærslur.
    Innan efnahags- og viðskiptanefndar virðist vera samstaða um að veita ársreikningaskrá aukin eftirlitsúrræði. Þá kom fram að innan atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis væri verið að vinna tillögur að lagabreytingum og aðgerðum til þess að verjast kennitöluflakki sem að væri stefnt að leggja fram á þessu ári. Undirbúningur málsins í ráðuneytinu væri unnin í samstarfi við Alþýðusamband Íslands, Viðskiptaráð, Fjármálaeftirlitið, Fyrirtækjaskrá, Hagstofu Íslands og sérstakan saksóknara.

Gagnsæi eignarhalds og tillaga Viðskiptaráðs um upplýsingar um fjölda stöðugilda
    Lagt er til í 7. gr. frumvarpsins til laga um breytingu á lögum um ársreikninga að í skýrslu stjórnar með ársreikningi skuli upplýsa um „að lágmarki“ tíu stærstu hluthafa eða alla ef hluthafar eru færri en tíu, og hundraðshluta hvers þeirra í lok ársins. Við útreikning þennan ber að líta á samstæðu sem einn aðila. Markmiðið með þessu er að auka gagnsæi eignarhalds frá því sem nú er en gildandi lagaákvæði gerir ráð fyrir að upplýst skuli um hundraðshluta hlutafjár þeirra hluthafa sem eiga a.m.k. 10% hlutafjár félagsins í lok ársins.
    Ef atkvæðahlutdeild er mismunandi miðað við fjárhæð hluta mælir frumvarpsgreinin fyrir um að gera skuli grein fyrir atkvæðahlutdeild þeirra tíu hluthafa sem fara með stærstu atkvæðahlutdeild í félaginu í lok ársins. Ákvæði gildandi laga gerir ráð fyrir að upplýst skuli um atkvæðahlutdeild þeirra hluthafa sem ráða yfir a.m.k 10% allra atkvæða í félaginu.
    Nefndin ræddi þörfina fyrir að ganga lengra en gert er í umræddri frumvarpsgrein til að upplýsa um eignarhald fyrirtækja. Ræddar voru hugmyndir um hvort gera ætti áskilnað um að ársreikningi félaga þar sem hluthafar eru fleiri en tíu fylgdi listi yfir alla hluthafa en um gagnsemi þess hefur ráðuneytið efasemdir. Ráðuneytið bendir á, í ljósi þess að skil á ársreikningi til ársreikningaskrár eiga að fara fram í síðasta lagi átta mánuðum eftir lok reikningsárs, að þessi áskilnaður sé ekki til þess fallinn að veita upplýsingar um eignarhaldið í rauntíma og enn síður ef viðskipti með hlutabréf í félaginu eru tíð. Á móti komu fram ábendingar um að upplýsingar um hlutabréfaeign í lok reikningsárs geti haft þýðingu fyrir skattyfirvöld og umræddur áskilnaður geti ekki talist of íþyngjandi fyrir stjórnir hlutafélaga og einkahlutafélaga sem ber lagaleg skylda til að útbúa hlutaskrá þar sem tilgreint er nafn eiganda, kennitala og heimilisfang. Réttaráhrif skráningar í hlutaskrá felist einkum í því að hluthafar geti ekki beitt ýmsum réttindum sínum í félagi nema nafn þeirra hafi verið fært í skrána eða þeir hafi tilkynnt og fært sönnur á eign sína á hlutunum. Nefndin ræddi ásamt fulltrúum ríkisskattstjóra og fulltrúa atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis hvort til framtíðar litið mætti binda slík réttaráhrif við opinbera skráningu hluthafa.
    Um þörf á auknum kröfum til gagnsæis eignarhalds fyrirtækja er m.a. fjallað í frumvarpi Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur um gagnsæi eignarhalds hlutafélaga og einkahlutafélaga (þskj. 111, 111. mál.). Frumvarpshöfundur telur þar að óljóst eða hulið eignarhald á fyrirtækjum valdi því að erfitt sé að festa hendur á hagsmunir hvaða einstaklinga ráði för í rekstri þeirra. Þetta hafi m.a. átt við um hin föllnu fjármálafyrirtæki í aðdraganda hrunsins. Í minnisblaði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins frá 23. nóvember sl. til nefndarinnar er athygli vakin á því að samkvæmt 4. mgr. 19. gr. laga um fjármálafyrirtæki ber fjármálafyrirtækjum að tilgreina á vefsíðu nöfn og hlutfallslegt eignarhald allra þeirra sem eiga 5% eða stærri hlut í fyrirtækinu. Ráðuneytið bendir einnig á að innan þess standi yfir vinna við gerð lagafrumvarps sem hefði að markmiði að styrkja enn frekar heimildir Fjármálaeftirlitsins til að hafa eftirlit með meðferð virks eignarhluta í fjármálafyrirtæki, m.a. með því að kveða á um að í ársreikningum fjármálafyrirtækja skuli tilgreina alla þá með nöfnum og heimilisfangi, sem eiga umfram 1% af hlutafé eða stofnfé og sé um lögaðila að ræða skuli koma fram hver sé forráðamaður viðkomandi lögaðila.
    Viðskiptaráð leggur til að í skýrslu stjórna verði veittar upplýsingar um fjölda stöðugilda og telur að það geti orðið til þess að bæta hagtölugerð á sviði fyrirtækja og auðvelda eftirlit með lögunum, t.d. með tilliti til kynjakvóta. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti telur ábendinguna vera góða og lýsir vilja til að taka tillöguna til skoðunar á síðari stigum. Meiri hlutinn tekur undir sjónarmið Viðskiptaráðs og vinnur að gerð breytingartillögu þar að lútandi.

Hlutverk, ábyrgð og menntun skoðunarmanna og eftirlit með störfum þeirra.
    Nefndin ræddi hlutverk skoðunarmanna en í 1. mgr. 7. gr. frumvarps til laga um breytingar á lögum um bókhald kemur m.a. fram að þeir skuli hafa þá reynslu af bókhaldi og reikningsskilum sem með hliðsjón af starfsemi og stærð félagsins teljist nauðsynleg til rækslu starfans. Ábendingar komu fram um að sá þáttur í störfum skoðunarmanna sem beindist að yfirferð ársreikninga væri ekki nægilega skýr og að óljóst væri hver réttaráhrif undirritun þeirra hefði. Huga þyrfti að hlutverki, ábyrgð, eftirliti og kröfum um menntun þeirra. Fjármálaeftirlitið lagði áherslu á að sami skilningur ríkti á því í hverju yfirferð skoðunarmanna ársreikninga fælist og tók undir áhyggjur þeirra sem töldu að ekki yrði ráðið hvaða vinnu skoðunarmanns hann staðfesti með undirritun sinni. Þetta væri ekki síst mikilvægt í ljósi þess að stærstur hluti íslenskra félaga fellur utan viðmiða sem skylda þau til að kjósa sér endurskoðanda. Félag löggiltra endurskoðenda telur að ef leggja á skyldur á herðar öllum félögum um aðkomu fagmanna að gerð reikninsskila, sé eðlilegasta leiðin sú að þýða og innleiða alþjóðlegan staðal nr. 4410, sem útgefin er af IFAC.
    Fulltrúi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins áréttaði á fundum nefndarinnar að skoðunarmanni bæri að kanna bókhaldsgögn félags og aðra þætti er varða rekstur þess og stöðu en um störf endurskoðanda færi samkvæmt lögum um endurskoðendur, sbr. einkum III. kafla laganna um starfsemi endurskoðenda. Hugsunin að baki þeim breytingum sem hér eru til umfjöllunar hefði fyrst og fremst verið sú að færa lög um ársreikninga og lög um bókhald til samræmis við lög um endurskoðendur en fram kom að vinnu við endurskoðun þessara lagabálka væri ekki lokið innan ráðuneytisins. Ráðuneytið benti einnig á að áform stjórnvalda á fyrri þingum um að fella hugtakið skoðunarmaður brott úr lögum hefðu mætt töluverðri andstöðu hagsmunaaðila. Enn fremur minnti ráðuneytið á að ábyrgð reikningsskila lægi hjá stjórn félags.
    Í 16. gr. frumvarps til laga um breytingar á lögum um ársreikninga er lagt til að 1. mgr. 102. gr. laganna þar sem mælt er fyrir um að endurskoðendur eða skoðunarmenn endurskoði ársreikninga í samræmi við góða endurskoðunarvenju verði breytt. Í skýringum ráðuneytisins kemur fram að góð endurskoðunarvenja sé nú þegar skilgreind í lögum um endurskoðendur og í siðareglum endurskoðenda. Aftur á móti sé ekki unnt að gera þá kröfu til skoðunarmanna að þeir endurskoði með viðurkenndum aðferðum í samræmi við leiðbeinandi reglur endurskoðenda en að til sé annar staðall sem kveði á um skyldur við óendurskoðuð reikningsskil. Ráðuneytið telur enn fremur viðeigandi að fella brott 106. gr. laga um ársreikninga þar sem mælt er fyrir um lágmarksupplýsingar sem áritun endurskoðenda og skoðunarmanna skuli innihalda.
    Í 12. gr. frumvarps til laga um breytingar á lögum um ársreikninga er lagt til að skoðunarmaður skuli uppfylla sömu óhæðisskilyrði og fram koma í 1. og 2. mgr. 19. gr. laga um endurskoðendur og að hann megi ekki vera í skuld við félagið sem hann tekur að sér að vinna fyrir. Samkvæmt nefndum lagaákvæðum eiga endurskoðandi og endurskoðunarfyrirtæki að vera óháð viðskiptavini sínum, bæði í reynd og ásýnd. Endurskoðandi skal eigi framkvæma endurskoðun ef einhver þau tengsl eru á milli endurskoðandans og viðskiptavinar hans sem eru til þess fallin að vekja efa um óhæði hans hjá vel upplýstum þriðja aðila, svo sem atvinnutengsl, bein eða óbein fjárhagsleg tengsl eða viðskiptatengsl önnur en leiðir af endurskoðuninni. Þá er endurskoðanda óheimilt að taka þátt í ákvörðunum stjórnar eða stjórnenda þess aðila sem hann endurskoðar. Frumvarpsgreinin gerir ekki ráð fyrir að skoðunarmenn setji sér siðareglur líkt og lög um endurskoðendur mæla fyrir um.

Heimild til að hafa texta bókhaldsbóka og ársreikninga á dönsku og ensku.
    Viðskiptaráð og Kauphöllin (NASDAQ OMX Iceland hf.) styðja þá breytingu að bókhaldsskyldum félögum verði heimilað þegar sérstakar ástæður gefa tilefni til að hafa texta ársreiknings á dönsku eða ensku. Kauphöllin bendir á að mikil aukning hafi verið í því undanfarin ár að erlendir einstaklingar og lögaðilar komi með virkum hætti að rekstri íslenskra fyrirtækja og það réttlæti heimildina. Viðskiptaráð Íslands hvetur til þess í sinni umsögn að ársreikningarskrá útlisti nánar hvenær sérstakar ástæður teljist vera fyrir hendi. Ríkisskattstjóri telur á móti að tillaga um að bókhaldsskyldum félögum verði með sama skilyrði veitt heimild til að hafa texta bókhaldsbóka á dönsku eða ensku feli í raun í sér að skattaðilum verði í sjálfsvald sett að ákveða hvort bókhaldsbækur séu á íslensku eða erlendu tungumáli. Embættið hefur nokkrar efasemdir um að þessi tilhögun sé í samræmi við íslenska málstefnu, sbr. lög 61/2011, en bendir auk þess á að fáist vilyrði fyrir því af hálfu fjárveitingarvaldsins megi haga uppsetningu tölvukerfa ársreikningaskrár þannig að yfirlit fáist yfir helstu upplýsingar ársreiknings á fjölda tungumála á einfaldan og fljótlegan hátt.

Heimild til að varðveita bókhaldsbækur erlendis í allt að sex mánuði.
    Nefndin ræddi 2. gr. frumvarps til laga um breytinga á lögum um bókhald þar sem lagt er til að bókhaldsskyldum félögum verði veitt heimild til að varðveita bókhaldsbækur erlendis í allt að sex mánuði. Breytingin felur í sér að heimildin verði ekki lengur bundin við félög sem hafa heimild til að færa bókhald og semja ársreikninga í erlendum gjaldmiðli. Ríkisskattstjóri telur að þessi tillaga geti haft varasamar afleiðingar í för með sér þar sem tímafrekara og erfiðara verði fyrir skattyfirvöld að fá aðgang að nauðsynlegum gögnum hjá skattaðila, m.a. til að staðreyna skattframtöl og sinna lögbundnu eftirliti. Embættið bendir auk þess á að aðgangur að rafrænum bókhaldsgögnum, sem samkvæmt athugasemdum við frumvarpsgreinina er óheftur, verði ekki jafnað til aðgangs að frumgögnum bókhalds og þeim undirgögnum sem rafrænar bókhaldsfærslur byggist á. Í athugasemdunum er þó tekið fram að félögum sé skylt að flytja gögnin heim fyrr ef eftirlitsaðilar krefjast aðgangs.
    Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið benti á við umfjöllun nefndarinnar að miklar breytingar ættu sér stað á sviði rafræns bókhalds og geymslu rafrænna gagna og að mikilvægt væri að hafa í huga að gögnin væru örugg, rekjanleg og aðgengileg yfirvöldum. Fjármálaeftirlitið leggur áherslu á að tölvupóstar séu varðveittir í sjö ár eins og önnur bókhaldsgögn, sbr. 1. mgr. 20. gr. laga um bókhald.

Heimild til að færa bókhald og semja ársreikning í erlendum gjaldmiðli.
    Heimild til að færa bókhald og semja ársreikning í erlendum gjaldmiðli er komin undir því að viðkomandi gjaldmiðill geti talist vera starfrækslugjaldmiðill félagsins. 6. gr. frumvarpsins til laga um breytingu á lögum um ársreikninga gerir ekki ráð fyrir að heimildinni verði efnislega breytt heldur er framsetningu ákvæðisins breytt á þann veg að í stað þess að telja upp skilyrði sem félag þarf að uppfylla er skilgreint hvað átt er við með starfrækslugjaldmiðli. Skilgreiningin tekur mið af ákvæði alþjóðareikningsskilastaðals IAS 21, um áhrif gengisbreytinga erlendra gjaldmiðla.
    Í athugasemdum við umrædda frumvarpsgrein kemur fram að samkvæmt staðlinum skuli miða starfrækslugjaldmiðilinn við það efnahagsumhverfi sem félag starfar í og mest áhrif hefur á söluverð vöru og þjónustu. Við það mat sé einkum litið til þess gjaldmiðils sem ákvarðar söluverð vöru og þjónustu fyrir tilstilli samkeppnisafla, laga og reglugerða og mest áhrif hefur á rekstrarkostnað félags og fjármögnun þess. Félagi er ekki ætlað að hafa frjálsar hendur við val á starfrækslugjaldmiðli sínum og ber því að afla heimild ársreikningaskrár fyrir fram til að færa bókhald og semja ársreikning í öðrum gjaldmiðli en íslenskri krónu. Einnig skal starfrækslugjaldmiðill vera skráður hjá Seðlabanka Íslands eða viðskiptabanka félagsins hér á landi.
    Yfirlýstur tilgangur þess að heimila félögum að færa bókhald í erlendum gjaldmiðli er að koma til móts við íslensk félög sem eru í samkeppni á alþjóðamarkaði bæði um sölu framleiðslu sinnar og um erlent fjármagn. Viðskiptaráð tekur undir þetta markmið en telur þörf á að skoða hvort skylda eigi fyrirtæki að sækja fyrir fram um heimild til uppgjörs í erlendum gjaldmiðlum. Er það skoðun ráðsins í ljósi eftirlits ársreikningaskrár með beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla að fullnægjandi sé að félagið tilkynni henni um starfrækslugjaldmiðil og að ársreikningaskrá geti aðeins synjað ef skilyrði IFRS eru ekki uppfyllt. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti telur á móti æskilegra að félög afli heimildar ársreikningaskrár fyrir fram í stað þess að skráin hafni eða geri athugasemd við framlagða ársreikninga eftir á, einkum þegar um er að ræða félög sem skráð eru á skipulegum verðbréfamarkaði.

Heimild félaga til að senda ársreikningaskrá samandreginn rekstrarreikning.
    Í 116. gr. laga um ársreikninga er kveðið á um heimild félaga undir tilgreindum stærðarmörkum til að senda ársreikningaskrá samandreginn rekstrarreikning þegar sérstakar samkeppnisástæður eru fyrir hendi. Frumvarpsgreinin mælir fyrir um að fjárhæðarviðmiðin hækki og að þau verði einnig látin gilda um rekstrarreikning samstæðureiknings.
    Fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra leggur til að heimild félaga til að skila samandregnum reikningum vegna sérstakra samkeppnisástæðna verði felld brott. Er á það bent að næstum öll félög falli undir þau stærðarmörk sem tilgreind eru, auk þess sem embættið hafi litlar sem engar forsendur til að meta hvenær sérstakar samkeppnisástæður séu fyrir hendi. Fyrirtækjaskrá mótmælir því einnig að heimildin verði látin taka til rekstrarreiknings samstæðureiknings eins og lagt er til í frumvarpinu.
    Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti er reiðubúið að taka athugasemd fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra til skoðunar en telur ekki rétt að leggja til slíka breytingu að svo stöddu.

Aðrar athugasemdir.
     1. gr. frumvarps til laga um breytingar á lögum um ársreikninga: Í ákvæðinu er lagt til að dótturfélög skráðra félaga sem eru innifalin í samstæðureikningsskilum þeirra falli framvegis undir 2.–4. tölul. 1. gr. laganna í stað 1. tölul. greinarinnar. Um ástæðu breytingarinnar segir í skýringum ráðuneytisins til nefndarinnar að hún sé „bein afleiðing þess er skylda dótturfélaga var felld niður að fylgja reikningsskilum móðurfélags ef það átti að semja ársreikninga og samstæðureikninga samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum. Skyldan var felld niður með lögum nr. 171/2007 en láðist að lagfæra þessa grein laganna samhliða. Það er ekki talin forsenda að gera aðrar kröfur til dótturfélaga en eru almennt gerðar til annarra sambærilegra félaga sem semja eiga ársreikninga samkvæmt almennum reglum ársreikningslaganna.“
     9. gr. frumvarpsins til laga um breytingar á lögum um ársreikninga: Í ákvæðinu er lagt til að móðurfélag þurfi ekki að semja samstæðureikning ef það á aðeins dótturfélög sem skipta „óverulegu máli“ bæði ein sér og sem heild en skal þá gefa á því skýringar í ársreikningi. Breytingin felur í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2009/49/EB sem tekin var upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 157/2009. Tilgangur tilskipunarinnar virðist vera sá að létta stjórnsýslulegum byrðum að litlum og meðalstórum fyrirtækjum en á móti þessu hagræði vegur meginreglan um að samstæðureikningi er ætlað að gefa glögga mynd af fjárhagsstöðu og afkomu allra félaga innan sömu samstæðu eins og um eitt félag sé að ræða.
     10. gr. frumvarpsins til laga um breytingar á lögum um ársreikninga: Með ákvæðinu er veitt lagastoð fyrir töku gjalds af öllum félögum sem ársreikningaskrá skyldar til að semja ársreikninga samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum og félögum sem tilkynna ársreikningaskrá ákvörðun sína og uppfylla skilyrði laganna til að beita þeim stöðlum. Umrædd félög eru undir sérstöku eftirliti ársreikningaskrá sem birtir árlega lista yfir þau á heimasíðu RKS.

Breytingartillögur.
Við frumvarp til laga um breytingar á lögum um ársreikninga (94. mál).
     1.      Við 1. gr. Gerð er tillaga í samræmi við ábendingar ríkisskattstjóra sem lagði til að undir gildissvið laga um ársreikninga yrðu felld samlagsfélög þar sem ábyrgðaraðilar eru félög með takmarkaða ábyrgð.
     2.      Við 7. gr. Lagt er til að í skýrslu stjórnar með ársreikningi verði upplýst um fjölda ársverka á reikningsári og er tillagan gerð með hliðsjón af ábendingum Viðskiptaráðs eins og að ofan greinir. Í annan stað er gerð tillaga um að tiltekið orðalag í 4. efnismálsl. verði fært til samræmis við orðalag í 2. efnismálsl. sömu greinar. Loks er lagt til að við greinina verði bætt áskilnaði um að í hlutafélögum og einkahlutafélögum þar sem hluthafar eru fleiri en tíu skuli fylgja skrá um alla hluthafa með upplýsingum um hlutafjáreign hvers um sig.
     3.      Við 26. gr. Í samræmi við ábendingar Viðskiptaráðs Íslands er gerð tillaga um að í ákvæðinu verði vísað til Viðskiptaráðs Íslands í stað Viðskiptaráðs.
     4.      Við 28. gr. Frumvarpsgreinin gerir ráð fyrir að ársreikningaskrá geti veitt þeim félögum, sem skila ársreikningi eða samstæðureikningi með fullnægjandi upplýsingum og skýringum innan 60 daga frá tilkynningu sektarfjárhæðar, allt að 50% afslátt af sektarfjárhæð geri félagið upp skuld sína að fullu. Í samræmi við óskir ríkisskattstjóra er lagt til að þetta hlutfall verði 60%.
     5.      Við 31. gr. Gerð er tillaga um að ákvæði um lækkun sektarfjárhæðar skv. 28. gr. frumvarpsins gildi fyrir ársreikninga og samstæðureikninga fyrir hvert það reikningsár sem hefst 1. janúar 2012 eða síðar. Þar sem afsláttur af sektum kemur ekki til framkvæmda fyrr en eftir að félög skila ársreikningi til ársreikningaskrár, þ.e. síðasta lagi átta mánuðum eftir lok reikningsárs, kæmi breyting skv. 28. gr. að óbreyttu gildistökuákvæði ekki til framkvæmda fyrr en eftir tæp tvö ár. Æskilegt er að slíkur afsláttur komi til framkvæmda sem fyrst til að hvetja félög til að skila ársreikningum sem er markmiðið með breytingu á 28. gr.

Við frumvarp til laga um breytingar á lögum um bókhald (93. mál).
    Við 8. gr. Gerð er tillaga um að frumvarpið verði látið gilda fyrir hvert það reikningsár sem hefst 2013 eða síðar eins og frumvarpið um ársreikningana.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til á sérstökum þingskjölum.
    Jón Bjarnason skrifar undir álitið með fyrirvara.
    Margrét Tryggvadóttir áheyrnarfulltrúi var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 28. nóv. 2012.Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.


Magnús Orri Schram.Jón Bjarnason,


með fyrirvara.


Skúli Helgason.