Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 397. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 673  —  397. mál.
Svarumhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn Þuríðar Backman
um hljóðvist í skólahúsnæði.


     1.      Hafa farið fram langtímamælingar á erilshávaða í skólaumhverfi barna og unglinga? Ef svo er, hverjar hafa niðurstöðurnar verið?
    Samkvæmt 11. gr. reglugerðar nr. 724/2008, um hávaða, skulu heilbrigðisnefndir eftir þörfum láta framkvæma eftirlitsmælingar á hávaða. Engin ákvæði eru um erilshávaða og langtímamælingu í reglugerð um hávaða og því hafa heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga ekki framkvæmt langtímamælingu á erilshávaða í skólaumhverfi barna. Sé óskað eftir mælingu í skólaumhverfi barna bregst heilbrigðiseftirlit við þeirri beiðni. Umhverfisstofnun leitaði eftir upplýsingum frá heilbrigðisnefndum sveitarfélaga um hvernig framkvæmd þessa ákvæðis um eftirlitsmælingar á hávaða sé háttað. Upplýsingar bárust frá átta af tíu heilbrigðiseftirlitssvæðum. Af þeim sem svöruðu höfðu fimm heilbrigðiseftirlitssvæði framkvæmt hljóðmælingar af einhverju tagi í skólahúsnæði. Yfirleitt er um að ræða tíu mínútna til hálftíma mælingar sem notaðar eru til að reikna út jafngildishljóðstig.
    Á Vestfjörðum hefur ómtími íþróttahúsa verið mældur af Vinnueftirliti ríkisins og einn leikskóli hefur nýlega óskað eftir því að heilbrigðiseftirlitið komi til að mæla erilshávaða.
Í Reykjavík voru gerðar mælingar á hljóðstigi í skólamötuneytum árið 2009 og einnig hafa verið gerðar mælingar á ómtíma í kennslustofum og íþróttahúsum grunnskóla auk mælinga á hljóðstigi sem gerðar hafa verið við reglubundið heilbrigðiseftirlit eftir því sem tilefni hefur gefist til. Niðurstöður mælinga í mötuneytum voru birtar á sínum tíma en í stuttu máli voru niðurstöður metnar svo að þar sem stjórnun var góð á hópi barna var hljóðstig lægra.
    Á Kjósarsvæði hafa verið gerðar hljóðmælingar í matsölum, oft eru þetta rými sem ekki voru hönnuð fyrir slíka starfsemi og því getur hávaði verið talsverður. Vandinn er fyrst og fremst talinn sá að ómtími í stofum og sölum er lengri en byggingarreglugerð gerir ráð fyrir.
    Frá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra fengust þær upplýsingar að árið 2006 hefði Vinnueftirlit ríkisins gert hávaðamælingar í sex leikskólum á Akureyri. Var þá hávaði mældur við eyra starfsmanns eins og vinnuverndarlöggjöf leiðbeinir um, þ.e. mæli var komið fyrir í námunda við eyra starfsmanns og bar hann mælinn yfir vinnudaginn. Einnig var ómtími mældur. Valdís I. Jónsdóttir heyrnar- og talmeinafræðingur sá um skýrslugerð í samstarfi við Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra og Vinnueftirlit ríkisins. Framkvæmd hefur verið ein mæling í leikskóla á svæðinu á síðastliðnum vikum og var ástand þar metið innan ákvæða reglugerðar um hávaða.
    Engar hljóðmælingar hafa farið fram á heilbrigðiseftirlitssvæðum Suðurlands, Austurlands og Vesturlands og svör bárust hvorki frá Suðurnesjum né Norðurlandi vestra.

     2.      Telur ráðherra ástæðu til að fylgjast með hljóðvist í skólaumhverfi barna og unglinga með tilliti til endurbóta í eldra húsnæði og hönnunar nýrra bygginga á öllum skólastigum?
    Afar mikilvægt er að fylgst sé með hljóðvist í öllu umhverfi barna og hefur ráðherra lagt áherslu á að efla þennan þátt, bæði hvað varðar endurbætur á eldra húsnæði og hönnun nýs húsnæðis sem og skipulag skólastarfs. Eins og önnur málefni er varða velferð barna þá er hér um gríðarlega mikilvægt málefni að ræða. Sífellt verða til fleiri uppsprettur hávaða í umhverfi barna og má slá því föstu að áreiti vegna hávaða sé mun meira í dag en á árum áður og að börn búi jafnvel við stöðugt áreiti hávaða í skólanum. Skólinn er vinnustaður barna sem dvelja mesta hluta skóladagsins í skólabyggingum, hvort sem það er í kennslustofu, íþróttahúsi eða mötuneyti. Í lögum um leikskóla og lögum um grunnskóla og reglugerðum settum á grundvelli þessara laga er sérstaklega fjallað um skólahúsnæði og aðbúnað í skólanum. Taka skal mið af þörfum barna og þeirri starfsemi sem fram fer í skóla. Leggja skal áherslu á öruggt og rúmgott náms- og starfsumhverfi. Húsnæði og allur aðbúnaður skal taka mið af því að tryggja öryggi og vellíðan barna og starfsfólks, svo sem hvað varðar húsbúnað, hljóðvist, lýsingu og loftræstingu. Sama á við um skólalóðir. Þótt lagaákvæði kveði nokkuð skýrt á um það hvernig aðbúnaði barna í leik- og grunnskóla skuli háttað, þá benda niðurstöður hávaðamælinga í skólum og leikskólum til þess að hönnun húsnæðis hvað hljóðvist varðar sé oft ábótavant.
    Fyrir þremur árum lagði ráðherra áherslu á að skerpt yrði á kröfum varðandi þau mannvirki þar sem börn dvelja. Ný lög um mannvirki tóku gildi 1. janúar 2011 og í framhaldi af því fór fram umfangsmikil vinna í ráðuneytinu við endurskoðun byggingarreglugerðar og var ný byggingarreglugerð gefin út í byrjun þessa árs. Þar er ítarlega fjallað um hljóðvist og varnir gegn hávaða. Meginmarkmið þess er að byggingar og önnur mannvirki séu þannig hönnuð og byggð að heilsu og innra umhverfi sé ekki spillt af völdum hávaða og óþægindum af hans völdum sé haldið í lágmarki. Í markmiðsgrein hljóðvistarkafla reglugerðarinnar er kveðið á um að þess skuli gætt sérstaklega að hljóðvist sé góð í umhverfi barna, svo sem í leikskólum, grunnskólum, frístundaheimilum og öðrum stöðum þar sem börn dvelja.
    Þá er kominn út íslenskur staðall um hljóðvist þar sem kveðið er á um hljóðflokkun fyrir skólabyggingar og fjallað um hljóðhönnun sem tryggir góða hljóðvist í námsumhverfi barna. Á grundvelli þessarar stefnumótunar eru Umhverfisstofnun og Mannvirkjastofnun nú að ljúka við gerð leiðbeininga um hljóðvistarkröfur í leik- og grunnskólum og annars staðar sem börn dvelja, þar sem hætta er talin á að hávaði geti valdið þeim ónæði eða verið heilsuspillandi. Útgáfa leiðbeininganna er áætluð fyrir lok þessa árs. Í leiðbeiningunum er fjallað um eftirfarandi þætti:
               a.      Hljóðvist – flokkun íbúðar- og atvinnuhúsnæðis, ÍST 45:2011.
               b.      Reglugerð nr. 724/2008, um hávaða.
               c.      Byggingarreglugerð nr. 112/2012.
               d.      Eftirlit með hljóðvist í umhverfi barna.
               e.      Hönnun húsnæðis þar sem börn dvelja og hætta er talin á að hávaði geti valdið þeim ónæði eða verið heilsuspillandi.
               f.      Góð ráð.
    Í hávaðareglugerð frá árinu 2008 er sérstök áhersla lögð á hávaðavarnir í leik- og grunnskólum.
    Margt hefur áunnist varðandi hljóðvist í umhverfi barna og mikilvægt er að vinna áfram í að bæta úr, bæði hvað varðar mannvirkjamál og hollustuhætti. Húsnæði skóla og skipulag skólastarfs þarf að taka tillit til hljóðvistar og að í skólum eru börn með mismunandi þarfir og mismunandi heyrn.

     3.      Mun ráðherra beita sér fyrir endurskoðun byggingarreglugerðar með tilliti til hljóðvistar í skólahúsnæði og þá sérstaklega hvað varðar hljómburð og erilshávaða?
    Í 11. hluta nýrrar byggingarreglugerðar, nr. 112/2012, sem tók gildi í upphafi þessa árs, er um hljóðvist vísað til staðalsins ÍST 45:2011. Í staðlinum eru kröfur til skólahúsnæðis skilgreindar og hertar verulega frá fyrri kröfum til slíks húsnæðis. Kröfur reglugerðarinnar eru í samræmi við norrænar kröfur. Ekki er komin reynsla af þessum kröfum hér á landi þar sem reglugerðin hefur nýlega tekið gildi. Hins vegar er rík ástæða til þess að fylgjast vel með þeirri reynslu sem fæst og bregðast við ef reynslan sýnir að endurskoða þurfi ÍST 45:2011 og byggingarreglugerðina.
    Jafnframt er rétt að kanna hvort endurskoða þurfi reglugerð nr. 724/2008, um hávaða, með tilliti til þess hvort þörf sé á að setja ákvæði um svokallaðan „erilshávaða“, þ.e. hávaða sem stafar ekki af utanaðkomandi hávaða vegna umferðar, atvinnustarfsemi eða framkvæmda, heldur athöfnum einstaklinga og tæknibúnaði innan rýmis. Ábendingar og kvartanir til heilbrigðiseftirlits um hávaða í skólahúsnæði eru yfirleitt vegna hávaða af því tagi. Rannsóknir sýna að hönnun rýmis m.t.t. ómtíma, hljóðbærni og hljóðdempunar hefur mikið að segja um stig hávaða vegna erils í rými, sem og kennslufræðileg sjónarmið. Samhliða þessu þarf að endurskoða tilvísun í staðla því þeir staðlar, sem vísað er til í núgildandi reglugerð, ná ekki yfir hávaða vegna erils.