Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 299. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 674  —  299. mál.




Svar



fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Birgis Þórarinssonar
um vexti og framfærslukostnað.


     1.      Hvað eru vextir stór hluti af framfærslukostnaði heimilanna?
    Ekki er til nein opinber skilgreining á því hvernig meta skuli framfærslukostnað heimila. Hér er miðað við að einkaneysla heimila alls sé ígildi framfærslukostnaðar. Vaxtagjöld eru vaxtagjöld vegna íbúðarkaupa, kaupleiguíbúða og önnur vaxtagjöld heimila.
    Líkt og sjá má á töflunni hér að neðan jukust vaxtagjöld íslenskra heimila allt til ársins 2009 þegar þau námu rúmlega 116 milljörðum króna eða sem nam 15,8% af einkaneyslu heimila alls. Árið 2010 og 2011 hafa útgjöldin síðan dregist nokkuð saman í kjölfar lægri vaxta og endurskipulagningar á efnahagsreikningum heimila. Hlutfall vaxtagjalda af einkaneyslu heimila hefur sömuleiðis dregist saman og nam 10,6% árið 2011.

     2.      Til hvaða ráðstafana hefur ráðuneytið gripið til þess að draga úr þessum kostnaði?
    Árin 2009 og 2010 voru allar viðmiðunarfjárhæðir við greiðslur vaxtabóta hækkaðar verulega en tímabundið sem hluti af ráðstöfunum stjórnvalda til að bæta stöðu skuldsettra heimila. Í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2011 var gert ráð fyrir að þessi hækkun gengi til baka vegna aðhaldsráðstafana en fallið var frá þeirri ákvörðun í fjárlögum það ár. Miðað er við fyrrgreint viðmið í útgreiðslu vaxtabóta í frumvarpi til fjárlaga 2013.
    Í fjárlögum fyrir árin 2011 og 2012 var veitt sex milljarða króna árlegt tímabundið framlag sem nefndust sérstakar vaxtaniðurgreiðslur. Niðurgreiðslan var almenn og óháð tekjum. Framlagið var fjármagnað í samkomulagi við fjármálafyrirtæki og lífeyrissjóði að hluta en ríkissjóður hefur þó greitt bróðurpartinn af niðurgreiðslunni.
    Árið 2011 nam hlutfall vaxtabóta af vaxtagjöldum heimila alls 21,9% og hafði rúmlega tvöfaldast á milli ára. Ef eingöngu er miðað við vaxtagjöld vegna öflunar íbúðarhúsnæðis, en það eru einu vaxtagjöldin sem koma til athugunar við úthlutun vaxtabóta, þá nam hlutfallið 35,2%. Gera má ráð fyrir svipuðum hlutföllum fyrir árið 2012.

Vaxtagjöld, vaxtabætur og einkaneysla (millj. kr. á verðlagi hvers tíma) .


              

Vaxtagjöld heimila alls

Vaxtagjöld heimila vegna íbúðarkaupa

Vaxtabætur

Hlutfall vaxtabóta af vaxtagjöldum heimila
alls (%)

Hlutfall vaxtabóta af vaxtagjöldum heimila vegna íbúðarkaupa (%)

Einkaneysla heimila
alls

Hlutfall vaxtagjalda heimila alls af einkaneyslu heimila
alls (%)

2000

26.801

20.311

4.309 16,1 21,2 400.154 6,7
2001 31.353

23.271

4.721 15,1 20,3 418.190 7,5
2002 35.608

26.458

5.117

14,4
19,3

430.988

8,3
2003 38.224 28.801 5.756 15,1 20,0 463.476 8,2
2004 45.337 34.503 5.458 12,0 15,8 511.808 8,9
2005 50.628 36.786 5.472 10,8 14,9 588.997 8,6
2006 56.130 36.605 5.351 9,5 14,6 656.333 8,6
2007 68.442 42.859 5.633 8,2 13,1 725.158 9,4
2008 86.111 53.898 7.013 8,1 13,0 760.286 11,3
2009 116.124 60.002 10.429 9,0 17,4 733.218 15,8
2010 107.401 60.263 11.721 10,9 19,4 759.821 14,1
2011               86.470 53.849 18.970 21,9 35,2 813.192 10,6
Heimild: Hagstofa Íslands