Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 403. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 675  —  403. mál.




Svar



mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur og
Ásmundar Einars Daðasonar um námskeið um samband Íslands og Evrópu.


     1.      Hvaða stefnumótun eða reglur gilda um þá samstarfsaðila sem Endurmenntun Háskóla Íslands velur að starfa með?
    Markmið Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands, sem hefur verið starfrækt frá árinu 1983, er að veita háskólamenntuðu fólki og almenningi fjölbreytt tækifæri til sí- og endurmenntunar. Stofnunin hefur margþætt tengsl við íslenskt samfélag og teygir anga sína víða. Stefna Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands er að vera ávallt eftirsóknarverðasti kostur fyrirtækja, stofnana og einstaklinga til símenntunar á Íslandi. Hlutverk Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands, með öflugri nýsköpun í námsframboði og þjónustu, er að efla hæfni og þekkingu fólks í leik og starfi.
    Í 3. gr. reglna um Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands, nr. 844/2001, kemur m.a. fram að hlutverk hennar er að efna til og viðhalda samstarfi við þá aðila sem stuðlað geta að auknu og betra framboði námskeiða, þ.m.t. fagfélög, stofnanir, einstaklinga og fyrirtæki. Til að framfylgja þessum reglum og þjóna þörfum samfélagsins fyrir endurmenntun, á stofnunin í formlegu samstarfi við flest fagfélög háskólafólks, stærstu fyrirtæki á Íslandi og ýmsar stofnanir. Samstarfsaðilar eiga það sameiginlegt að vilja tryggja félagsmönnum sínum eða starfsmönnum bestu mögulegu fræðslu og vinna því með Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands að því að greina þarfir fyrir hana.
    Formlegum samstarfssamningum hefur fjölgað jafnt og þétt undanfarin missiri og eru á fjölbreyttum sviðum samfélagsins. Auk formlegra samstarfssamninga gerir Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands samninga við ýmsa aðila um námskeiðahald. Í þeim tilvikum annast Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands umsjón ákveðinna þátta við framkvæmd námskeiðanna, svo sem skráningu, innheimtu, kennslukönnun, markaðssetningu og húsnæði. Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands stendur ekki fyrir þeim námskeiðum heldur eru þau á vegum viðkomandi aðila. Val á þeim aðilum byggist á mati sérfræðinga Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands um gæði og trúverðugleika.
    Á heimasíðu Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands er að finna eftirfarandi lista yfir samstarfsaðila stofnunarinnar sem eru með samstarfssamning við hana:

Actavis,
Advania,
Arkitektafélag Íslands,
Félag fasteignasala,
Félag geislafræðinga,
Félag um hugræna atferlismeðferð,
Félag leiðsögumanna,
Félag leikskólakennara,
Félag lífeindafræðinga,
Félag náms- og starfsráðgjafa,
Félag stjórnenda leikskóla,
Félag stjórnsýslufræðinga,
Félag tölvunarfræðinga,
Félag viðskiptafræðinga og hagfræðinga,
Geðsvið Landspítala háskólasjúkrahúss,
Iðjuþjálfafélag Íslands,
Íslandsbanki,
Konfúsíusarstofnunin Norðurljós,
Kvasir – Fræðslumiðstöðvar,
Landsbanki Íslands,
Landsvirkjun,
Listahátíð í Reykjavík,
Ljósmæðrafélag Íslands,
Marel,
Matsmannafélagið,
Matvæla- og næringarfræðafélag Íslands,
Rannsóknarstofnun í barna- og fjölskylduvernd,
Siðfræðistofnun,
Sjóvá,
Skipti,
Starfsmennt,
Stjórnvísi,
Tæknifræðingafélag Íslands,
Velferðarráðuneytið,
Verkfræðingafélag Íslands,
VÍS,
Þroskaþjálfafélag Íslands.

Aðrir samstarfsaðilar eru:
Bíó Paradís,
Bókmenntasjóður,
Borgarleikhúsið,
Evrópustofa,
Forlagið,
HORTICUM menntafélag,
Starfsleikni,
Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum,
Þjóðleikhúsið,
Þjóðminjasafnið,
Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga.

     2.      Hvaða reglur eru í gildi varðandi þátttöku utanaðkomandi aðila í kostnaði við námskeið fyrir almenning?
    Samkvæmt reglum um Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands, nr. 844/2001, aflar stofnunin tekna annars vegar með innheimtu námskeiðsgjalda og hins vegar með styrkjum og öðru sjálfsaflafé. Þótt Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands sé undirstofnun Háskóla Íslands nýtur stofnunin ekki framlaga á fjárlögum til Háskóla Íslands, heldur er stofnunin sjálfbær hvað varðar tekjuöflun. Öll námskeið sem Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands stendur fyrir verða því að standa undir þeim kostnaði sem verður til við námskeiðin.
    Í þeim tilvikum sem Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands annast framkvæmd einstakra námskeiða fyrir utanaðkomandi aðila semur stofnunin um þóknun fyrir framkvæmdina en annar kostnaður er greiddur af viðkomandi aðila. Sem dæmi um þess konar samstarfsaðila mætti nefna Þróunarsamvinnustofnun, mennta- og menningarmálaráðuneytið, velferðarráðuneytið, Starfsmennt, tollstjóraembættið og Evrópustofu ásamt fjölda fyrirtækja.

     3.      Hvernig er hlutleysi Endurmenntunar Háskóla Íslands tryggt í samstarfi við utanaðkomandi aðila?
    Sérfræðingar á vegum Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands leggja mat á þá aðila sem stofnunin gengur til samstarfs við. Sérfræðingarnir verða að vera viðurkenndir aðilar í samfélaginu og sýna af sér fagmennsku í hvívetna.
    Starfsfólk og stjórn Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands ritskoða ekki náms- og kynningarefni sem stuðst er við í einstökum námskeiðum, enda samræmist það ekki ákvæðum 2. gr. a í háskólalögum, nr. 63/2006, um fræðilegt sjálfstæði starfsmanna háskóla. Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands tekur því ekki afstöðu til málefna sem kunna að koma til umfjöllunar á námskeiðum sem haldin eru í samstarfi við hana.

     4.      Er námskeið fyrir almenning, Ísland og Evrópa: Samband á tímamótum, hjá Endurmenntun Háskóla Íslands niðurgreitt af Evrópustofu og/eða ESB um rúmlega 80%? Ef svo er, telur ráðherra það eðlilegt?
    Námskeiðið er haldið á vegum Evrópustofu sem ber allan kostnað af námskeiðinu. Evrópustofa hefur samið við Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands um ákveðin framkvæmdaatriði vegna námskeiðsins. Þau eru m.a. skráning, innheimta, kennslukönnun, markaðssetning og húsnæði. Fyrir þá framkvæmd fær Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands umsamda þóknun. Ráðherra virðir fræðilegt sjálfstæði þeirra sérfræðinga Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands sem fást við að meta gæði og trúverðugleika þeirra stofnana sem leita til stofnunarinnar og telur afskipti ráðherra af fræðilegu starfi háskóla ekki samræmast lögum um háskóla. Ráðherra telur þó eðlilegt að í siðareglum háskóla sé kveðið á um hvernig samskiptum við hagsmunaaðila skuli háttað og að háskólastofnanir setji sér slíkar reglur.

     5.      Er fyrirhugað að ráðuneytið styrki Endurmenntun til þess að halda viðlíka námskeið um Evrópusambandið, óháð Evrópustofu og/eða ESB, og að það muni kosta almenning það sama?
    Ráðuneytið hefur ekki í hyggju að styrkja slík námskeið á vegum Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands.

     6.      Hver stendur straum af kostnaði við námskeið sem Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands stendur fyrir og er sérstaklega skipulagt fyrir starfsmenn stjórnsýslu og stofnana ríkis og sveitarfélaga sem regluverk ESB hefur áhrif á?
    Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands heldur tvö námskeið á haustmissiri 2012 sem gætu fallið undir efni þessarar fyrirspurnar. Þátttakendur greiða þátttökugjald sem stendur undir kostnaði af viðkomandi námskeiði.

     7.      Fá stofnanir ríkisins og sveitarfélög styrki til að senda starfsfólk á málþing á vegum Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands í samvinnu við Félag forstöðumanna ríkisstofnana og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands? Ef svo er, hvaðan koma styrkirnir og hver eru skilyrðin, ef einhver, fyrir þeim?
    Ráðuneytinu er hvorki kunnugt um slíka styrki til stofnana ríkisins né til sveitarfélaga.