Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 303. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 677  —  303. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008,
með síðari breytingum (samningar sjúkratryggingastofnunar).


Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðbjart Hannesson velferðarráðherra, Guðríði Þorsteinsdóttur, Steinunni M. Lárusdóttur og Önnu Sigrúnu Baldursdóttur frá velferðarráðuneyti og Steingrím Ara Arason frá Sjúkratryggingum Íslands. Þá hafa nefndinni borist umsagnir um málið frá Landspítala – háskólasjúkrahúsi, Læknafélagi Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Sjúkratryggingum Íslands og Sveitarfélaginu Árborg.
    Með frumvarpinu er annars vegar lagt til að frestað verði gildistöku ákvæðis varðandi samninga sjúkratryggingastofnunar við sveitarfélög og rekstraraðila hjúkrunarheimila um tvö ár, frá 1. janúar 2013 til 1. janúar 2015, og að jafnframt verði heimild ráðherra til að ákveða með reglugerð daggjöld vegna heilbrigðisþjónustu sem veitt er í hjúkrunarrýmum framlengd. Hins vegar er lagt til að ráðherra verði heimilt að setja reglugerð um gerð samninga þar sem kveða skal á um tegund og umfang þeirrar heilbrigðisþjónustu sem sjúkratryggingastofnun semur um, m.a. um heilbrigðisþjónustu á vegum ríkisins. Síðarnefnda ákvæðinu hefur verið frestað í þrígang frá gildistöku laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar. Lagt er til að fyrrnefndu ákvæði verði frestað þar sem nú er unnið að yfirfærslu á málefnum aldraðra frá ríki til sveitarfélaga og rétt þykir að yfirfærslan eigi sér stað áður en greiðslufyrirkomulagi vegna þjónustunnar verði breytt.
    Gildistöku ákvæða um kaupandahlutverk Sjúkratrygginga Íslands vegna heilbrigðisþjónustu hefur verið frestað reglulega frá því lög um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, voru samþykkt. Í athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum nr. 112/2008 kemur m.a. fram að sameining þátta er varða kaup og samninga ríkisins um heilbrigðisþjónustu í eina stofnun hafi ýmsa kosti, m.a. þá að stórbæta samningsstöðu ríkisins, stuðla að hagkvæmum rekstri heilbrigðisþjónustu og styrkja hlutverk ríkisins sem kaupanda heilbrigðisþjónustu. Af hálfu Sjúkratrygginga Íslands kom fram fyrir nefndinni að rétt væri að lögin tækju gildi að fullu en að Sjúkratryggingar Íslands mundu sinna sínu hlutverki í samræmi við getu. Hins vegar kom það fram fyrir nefndinni að vegna niðurskurðar síðustu ára hefur sjúkratryggingastofnun ekki verið efld með mannafla og nauðsynlegri sérþekkingu, m.a. í samningatækni, til að hún geti á viðunandi hátt sinnt kaupandahlutverki sínu að öllu leyti. Á meðan svo er verður það ekki talið forsvaranlegt að fela stofnuninni þetta hlutverk. Þá verður einnig að líta til þess að ákvæði 39. gr. laganna er mjög opið líkt og fram kemur í athugasemdum við frumvarpið og nauðsynlegt, á meðan Sjúkratryggingar Íslands hafa ekki verið efldar líkt og til stóð, að ráðherra setji með reglugerð reglur um umfang og tegund þeirrar þjónustu sem Sjúkratryggingar Íslands semja um.
    Nefndin óskaði upplýsinga frá velferðarráðuneytinu um vinnu við yfirfærslu á málefnum aldraðra til sveitarfélaga. Bárust þær upplýsingar að nefnd hafi tekið til starfa í nóvember 2011 sem vinnur að yfirfærslunni. Stefnt er að því að hún eigi sér stað 1. janúar 2015 en horft er til þess að niðurstöður úr endurmati á tilfærslu málaflokks fatlaðs fólks árið 2014 liggi fyrir áður en af yfirfærslu á málefnum aldraðra verður. Þá er einnig rétt að sveitarfélögin komi að samningum um hjúkrunarrými og aðra heilbrigðisþjónustu á vegum þeirra í kjölfar yfirfærslunnar.
    Meiri hlutinn telur rétt að ákvæði um samninga Sjúkratrygginga Íslands vegna hjúkrunarrýma og heilbrigðisþjónustu á vegum sveitarfélaga verði frestað til 1. janúar 2015 og leggur því til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Ólína Þorvarðardóttir er með fyrirvara á álitinu þar sem hún hefur ekki tekið þátt í efnislegri umfjöllun nefndarinnar um málið.
    Þuríður Backman og Árni Þór Sigurðsson eru með fyrirvara á álitinu og telja að endurskoða eigi hlutverk Sjúkratrygginga Íslands sem kaupanda heilbrigðisþjónustu.

Alþingi, 10. desember 2012.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,
form., frsm.
Jónína Rós Guðmundsdóttir.
Þuríður Backman,
með fyrirvara.

Ólína Þorvarðardóttir,
með fyrirvara.
Árni Þór Sigurðsson,
með fyrirvara.