Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 406. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 685  —  406. mál.




Svar



fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Atla Gíslasonar
um víkjandi lán til banka við endurreisn bankakerfisins.


     1.      Hvaða víkjandi lán veitti ríkissjóður bönkum við endurreisn bankakerfisins eftir bankahrunið haustið 2008?
    Í samningum um endurfjármögnun Íslandsbanka og Arion banka var kveðið á um heimild ríkissjóðs til að veita bönkunum víkjandi lán.
    Samkvæmt samningum skilanefndar Glitnis og íslenska ríkisins sem undirritaðir voru í september 2009 veitti ríkissjóður Íslandsbanka hinn 31. desember 2009 víkjandi lán að fjárhæð 138,1 milljón evra, að þávirði 24,8 mia.kr., til að styrkja eiginfjár- og lausafjárstöðu bankans.
    Samkvæmt samkomulagi við skilanefnd Kaupþings sem undirritað var í desember 2009 var mælt fyrir um að ríkissjóður legði Arion banka til víkjandi lán sem nam 4% af áhættugrunni bankans þannig að eiginfjárhlutfallið hækki úr 12% í 16%. Í október 2010 var gengið frá láni, á grundvelli áætlaðs mats á áhættugrunni, sem nam 162,9 milljónum evra, að þávirði 29,6 mia.kr. Við endurmat á áhættugrunni árið 2011 var séð að fyrri áætlanir uppfylltu ekki efni samningsins og var Arion banka veitt til viðbótar víkjandi lán að fjárhæð 20 milljónir bandaríkjadala og 19,9 milljónir breskra punda, að þávirði 6,5 mia.kr., til að eiginfjárhlutfallið næði 16%.

     2.      Hvaða bankar fengu víkjandi lán og hver var fjárhæð hvers láns?

Íslandsbanki 138 milljónir EUR 22.775 milljónir ÍSK*
Arion banki 163 milljónir EUR 26.864 milljónir ÍSK*
20 milljónir USD 2.586 milljónir ÍSK*
20 milljónir GBP 4.081 milljónir ÍSK*
* Staða hinn 15. nóvember 2012.

     3.      Hverjir voru samningsskilmálar hvers láns, svo sem um lengd lánanna, vaxtakjör og endurgreiðslur?
    Lán til Íslandsbanka er tíu ára eingreiðslubréf í evrum. Vaxtaviðmið er þriggja mánaða Euribor með 400 bp álagi fyrstu fimm árin og 500 bp seinni fimm árin. Vextir reiknast frá 31.12.2009 og greiðast á þriggja mánaða fresti. Fyrirframgreiðsla og/eða uppgreiðsla skuldabréfs er heimil eftir fimm ár frá útgáfudegi eða fyrr að fenginni heimild FME.
    Fyrra lán til Arion banka er tíu ára eingreiðslubréf í evrum. Vaxtaviðmið er þriggja mánaða Euribor með 400 bp álagi fyrstu fimm árin og 500 bp seinni fimm árin. Vextir reiknast frá 8. janúar 2010 og greiðast á þriggja mánaða fresti. Fyrirframgreiðsla og/eða uppgreiðsla skuldabréfs er heimil eftir fimm ár frá útgáfudegi eða fyrr að fenginni heimild FME.
    Seinna lán til Arion banka er tíu ára eingreiðslubréf í bandaríkjadal og bresku pundi. Vaxtaviðmið er þriggja mánaða Libor með 300 bp álagi fyrstu þrjú árin, 400 bp næstu tvö árin og 500 bp í fimm ár. Fyrirframgreiðsla og/eða uppgreiðsla skuldabréfs er heimil eftir fimm ár frá útgáfudegi eða fyrr að fenginni heimild FME.

     4.      Hefur verið greitt af lánunum? Sé svo, er óskað eftir yfirliti yfir greiðslur af lánunum, skipt í afborganir og vexti.
    Bréfin eru eingreiðslubréf og því hafa eingöngu verið greiddir umsamdir vextir af lánunum frá 2010.

Tölur í m.kr. 2010 2011 2012/09 Samtals
Íslandsbanki 1.057 1.206 842 3.105
Arion banki 1.213 1.813 1.176 4.202
Samtals 2.270 3.019 2.018 7.307

     5.      Hverjar eru horfur á því að lánin verði endurgreidd?
    Eigið fé Arion banka nam um 128 mia.kr. í lok september 2012 og nam eiginfjárhlutfall bankans 22,5%. Eigið fé Íslandsbanka nam um 140 mia.kr. í lok september 2012 og nam eiginfjárhlutfall bankans 24,3%. Í báðum tilfellum hafa eiginfjárhlutföll styrkst frá því lánin voru veitt og eru þau jafnframt umfram þau viðmið sem FME setur.
    Miðað við núverandi stöðu er ekki ástæða til að ætla annað en að lánstími og uppgjör vaxta og höfuðstóls verði í samræmi við gildandi lánssamninga.

     6.      Hvaða rök lágu að baki ákvörðunum um að veita bönkunum víkjandi lán í stað þess að leggja til hlutafé sem jafngilti fjárhæðum hinna víkjandi lána?
    Eitt af þeim vandamálum sem leysa þurfti úr við endurreisn viðskiptabankanna var misvægi þeirra í gjaldeyrisjöfnuði. Meiri hluti þeirra lána sem tekin voru yfir í nýju bankana, og mynduðu eign þeirra, voru í erlendum myntum en innstæðurnar (skuldirnar) voru að mestu í krónum. Í tilfelli Landsbankans var þetta ekki vandamál þar sem fyrir lá að hann mundi gefa út skuldabréf í erlendum myntum til að gera upp mismun eigna og skulda. Í tilfelli Arion banka og Íslandsbanka var ekki um slíka skuldabréfaútgáfu að ræða og var því samið um að stuðningur ríkissjóðs við fjármögnun þessara tveggja banka fælist aðallega í veitingu víkjandi lána í erlendri mynt sem draga mundu úr gjaldeyrismisvægi þessara banka og ykju þannig fjárhagslegan stöðugleika þeirra. Við þrot koma víkjandi lán til greiðslu á undan hlutafé og er veiting þeirra því áhættuminni en hlutafjárframlög.
    Markmiðið sem stefnt var að varðandi gjaldeyrisjöfnuð bankanna var að viðkomandi banki ætti að hafa gjaldeyrisskuld á móti útlánum til aðila með gjaldeyristekjur en að öðrum útlánum í erlendri mynt yrði smám saman breytt í útlán í íslenskum krónum.

    Með svari ráðherra fylgdu lánssamningar á ensku en þeir eru ekki prentaðir í þessu skjali. Þau gögn liggja frammi á skrifstofu þingsins.