Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 513. máls.

Þingskjal 691  —  513. mál.


Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks.

(Lagt fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi 2012–2013.)
I. KAFLI
Breyting á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, með síðari breytingum.
1. gr.

    Í stað orðanna „ráðherra er fer með tekjuöflun ríkisins“ í b-lið 3. gr. laganna kemur: ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      4. málsl. 1. mgr. fellur brott.
     b.      Á eftir orðinu „lífeyrissjóðir“ í 4. mgr. kemur: hlutaðeigandi stéttarfélög, félög og heildarsamtök stéttarfélaga sem reka sjúkra- eða styrktarsjóði fyrir launafólk á innlendum vinnumarkaði.
     c.      Við 6. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Þegar Vinnumálastofnun upplýsir umsækjanda um að stofnunin hafi samþykkt umsókn um atvinnuleysisbætur skal hún jafnframt upplýsa hlutaðeigandi um með hvaða hætti stofnunin mun koma upplýsingum eða öðrum boðum til hans meðan á atvinnuleit hans stendur. Komi Vinnumálastofnun upplýsingum eða boðum til umsækjanda með þeim hætti sem stofnunin hefur tiltekið við hlutaðeigandi teljast upplýsingarnar eða boðin hafa borist með sannanlegum hætti samkvæmt lögum þessum.

3. gr.

    Í stað tölunnar „16“ í b-lið 1. mgr. 13. gr. laganna kemur: 18.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 16. gr. laganna:
     a.      Orðin „eða eftir atvikum viðmiðunarfjárhæð hlutaðeigandi ráðherra, sbr. b-lið 3. gr., fyrir reiknað endurgjald í viðkomandi starfsgrein“ falla brott.
     b.      Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þegar um er að ræða launamann sem starfar hjá eigin félagi, svo sem einkahlutafélagi eða samlagsfélagi, skal miða við reglur ríkisskattstjóra, sbr. b-lið 3. gr., um reiknað endurgjald í viðkomandi starfsgrein.

5. gr.

    Í stað tölunnar „16“ í b-lið 1. mgr. 18. gr. laganna kemur: 18.

6. gr.

    Í stað orðanna „hlutaðeigandi ráðherra“ í 1. mgr. og tvívegis í 2., 3. og 4. mgr. 19. gr. laganna kemur: ríkisskattstjóra.

7. gr.

    Í stað orðanna „hlutaðeigandi ráðherra“ í 1. mgr. 24. gr. laganna kemur: ríkisskattstjóra.

8. gr.

    1. mgr. 35. gr. laganna orðast svo:
    Atvinnuleysisbætur skulu greiddar fyrsta virka dag hvers mánaðar og skulu þær greiddar eftir á fyrir undanfarandi mánuð eða hluta úr mánuði þannig að miðist við fyrsta til síðasta dag viðkomandi mánaðar.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 54. gr. laganna:
     a.      Við 1. málsl. 1. mgr. bætist: sbr. þó 4. mgr.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Hafi hinn tryggði fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 30 mánuði eða lengur á sama tímabili skv. 29. gr. þegar atvik sem lýst er í 1. mgr. á sér stað skal hinn tryggði ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfyllir skilyrði 31. gr.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 55. gr. laganna:
     a.      Við 1. málsl. 1. mgr. bætist: sbr. þó 4. mgr.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Hafi hinn tryggði fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 30 mánuði eða lengur á sama tímabili skv. 29. gr. þegar atvik sem lýst er í 1. mgr. á sér stað skal hinn tryggði ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfyllir skilyrði 31. gr.

11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 56. gr. laganna:
     a.      Við 1. málsl. 1. mgr. bætist: enda hafi hann fengið greiddar atvinnuleysisbætur skemur en samtals 30 mánuði á sama tímabili skv. 29. gr.
     b.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Hafi hinn tryggði fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 30 mánuði eða lengur á sama tímabili skv. 29. gr. þegar atvik sem lýst er í 1. og 2. málsl. á sér stað skal hinn tryggði ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfyllir skilyrði 31. gr.
     c.      3. mgr. fellur brott.
     d.      Í stað orðanna „3. mgr.“ í 4. mgr. kemur: 1. og 2. málsl. 1. mgr.

12. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 57. gr. laganna:
     a.      Við 1. málsl. 1. mgr. bætist: sbr. þó 5. mgr.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Hafi hinn tryggði fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 30 mánuði eða lengur á sama tímabili skv. 29. gr. þegar atvik sem lýst er í 1. mgr. á sér stað skal hinn tryggði ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfyllir skilyrði 31. gr.

13. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 58. gr. laganna:
     a.      Við 1. málsl. 1. mgr. bætist: sbr. þó 4. mgr.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Hafi hinn tryggði fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 30 mánuði eða lengur á sama tímabili skv. 29. gr. þegar atvik sem lýst er í 1. mgr. á sér stað skal hinn tryggði ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfyllir skilyrði 31. gr.

14. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 59. gr. laganna:
     a.      Við 1. málsl. 1. mgr. bætist: sbr. þó 4. mgr.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Hafi hinn tryggði fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 30 mánuði eða lengur á sama tímabili skv. 29. gr. þegar atvik sem lýst er í 1. mgr. á sér stað skal hinn tryggði ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfyllir skilyrði 31. gr.

15. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 61. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist: enda hafi hann fengið greiddar atvinnuleysisbætur skemur en samtals 30 mánuði á sama tímabili skv. 29. gr.
     b.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Hafi hinn tryggði fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 30 mánuði eða lengur á sama tímabili skv. 29. gr. þegar atvik sem lýst er í 1. málsl. á sér stað skal hinn tryggði ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfyllir skilyrði 31. gr.
     c.      3. mgr. fellur brott.
     d.      Í stað orðanna „3. mgr.“ í 4. mgr. kemur: 1. málsl. 1. mgr.

16. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 62. gr. laganna:
     a.      Í stað 1. málsl. 1. mgr. koma þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Heimilt er að veita styrki úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna þátttöku atvinnuleitanda í starfs- eða námstengdum vinnumarkaðsúrræðum enda telst viðkomandi tryggður samkvæmt lögum þessum þegar þátttaka í úrræði hefst. Enn fremur er heimilt að veita styrki úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna þátttöku þeirra sem hafa fullnýtt rétt sinn samkvæmt lögum þessum í starfs- og námstengdum vinnumarkaðsúrræðum í allt að tólf mánuði frá þeim tíma er þeir fengu síðustu greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla. Jafnframt er heimilt að veita styrki úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna þátttöku aðila sem um getur í 1. og 2. málsl. í atvinnutengdri starfsendurhæfingu enda mun viðkomandi starfsendurhæfingaráætlun nýtast hlutaðeigandi atvinnuleitanda beint við atvinnuleit að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar auk þess að vera til þess fallin að skila honum árangri við að finna starf.
     b.      Í stað orðanna „Enn fremur“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: Þá.
     c.      2. mgr. orðast svo:
                      Styrkir skv. 1. mgr. skulu greiðast á grundvelli reglugerðar sem ráðherra setur að fenginni tillögu stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs þar sem koma fram nánari skilyrði fyrir greiðslu styrkjanna. Í reglugerðinni er jafnframt heimilt að takmarka greiðslu styrkjanna við einstök átaksverkefni sem ætlað er að stuðla að þátttöku atvinnuleitenda að nýju á vinnumarkaði og/eða einstaka hópa atvinnuleitenda.

17. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Sá sem hefur verið tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins og hefur fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 36 mánuði eða lengur en þó skemur en 42 mánuði 1. janúar 2013 getur átt rétt á sérstökum styrk sem nemur fyrri rétti hlutaðeigandi innan atvinnuleysistryggingakerfisins í allt að sex mánuði til viðbótar en þó aldrei til lengri tíma en að því tímamarki að viðkomandi býðst starfstengt vinnumarkaðsúrræði eða úrræði á sviði atvinnutengdrar starfsendurhæfingar. Samanlagður tími þar sem viðkomandi hefur annars vegar fengið greiddar atvinnuleysisbætur samkvæmt ákvæðum laga þessara og hins vegar styrk samkvæmt ákvæði þessu getur þó aldrei orðið lengri en samtals 42 mánuðir.
    Þegar atvinnuleitanda býðst úrræði, sbr. 1. mgr., fellur niður réttur hlutaðeigandi til framfærslustyrks skv. 1. mgr.
    Ákvæði þetta gildir til 31. desember 2013.

II. KAFLI
Breyting á lögum um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks, nr. 51/1995, með síðari breytingum.
18. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „á hverju almanaksári, sbr. þó einnig 4. mgr.“ í 3. mgr. kemur: á tímabilinu 1. janúar til 30. júní og fyrstu þremur dögunum á tímabilinu 1. júlí til 31. desember á hverju almanaksári, sbr. þó einnig 4. mgr. Enn fremur á fyrirtæki ekki rétt á greiðslu úr Atvinnuleysistryggingasjóði er tímabundna vinnslustöðvun ber upp á föstudag og fimmtudagurinn á undan er lögbundinn frídagur.
     b.      Orðin „auk lífeyrissjóðsiðgjalds og tryggingagjalds atvinnurekenda“ í 4. mgr. falla brott.
     c.      Í stað orðanna „20 greiðsludaga“ og „45 greiðsludaga“ í 4. mgr. kemur: 15 greiðsludaga; og: 35 greiðsludaga.

19. gr.

    Í stað orðanna „að opinberri tilhlutan“ í 1. málsl. 4. gr. laganna kemur: samkvæmt vottuðum námskrám viðurkenndra fræðsluaðila, sbr. lög um framhaldsfræðslu.

20. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2013.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Afleiðingar þeirra efnahagsþrenginga sem urðu hér á landi í byrjun október 2008 hafa komið fram með margvíslegum hætti í íslensku samfélagi og má í því sambandi nefna að enn er nokkurt atvinnuleysi enda þótt dregið hafi úr því á síðustu missirum. Í október 2012 mældist skráð atvinnuleysi 5,2% sem nemur 8.187 atvinnuleitendum að meðaltali í þeim mánuði. Ljóst er að fjölgað hefur í hópi atvinnuleitenda sem hafa verið án atvinnu til lengri tíma. Samkvæmt upplýsingum Vinnumálastofnunar er áætlað að um 350 atvinnuleitendur fullnýti rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins á tímabilinu september til desember 2012 og hafi þannig samtals verið án atvinnu í 48 mánuði. Enn fremur er áætlað að um 1.470 atvinnuleitendur muni hafa verið samtals lengur en 36 mánuði án atvinnu 1. janúar 2013 og að í hverjum mánuði á árinu 2013 muni um 120–170 atvinnuleitendur hafa verið samtals 36 mánuði án atvinnu.
    Í því samráði sem stjórnvöld áttu við Alþýðusamband Íslands, Bandalag háskólamanna, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Kennarasamband Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök atvinnulífsins, fjármála- og efnahagsráðuneyti og Vinnumálastofnun við gerð þessa frumvarps kom meðal annars fram sá vilji aðila að leggja aukna áherslu á virkni þess hóps sem hefur verið lengi án atvinnu í stað þess að lagt yrði til að gildistími ákvæðis til bráðabirgða X í lögum um atvinnuleysistryggingar yrði framlengdur enn um sinn án tilkomu frekari aðgerða. Því hefur verið ákveðið að ráðast í sérstakt átak í þessu efni á árinu 2013 sem ber yfirskriftina Vinna og virkni 2013. Markmið þessa verkefnis er að virkja atvinnuleitendur sem hafa fullnýtt eða munu að óbreyttu fullnýta rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins á árinu 2013 til þátttöku að nýju á vinnumarkaði og koma í veg fyrir að langvarandi atvinnuleysi leiði til óvinnufærni. Er því ráðgert að á árinu 2013 verði unnt að bjóða um 3.700 atvinnuleitendum sem hafa fullnýtt rétt sinn innan kerfisins eða munu fullnýta rétt sinn á tímabilinu frá 1. september 2012 fram til 31. desember 2013 starfstengd vinnumarkaðsúrræði eða úrræði á sviði atvinnutengdrar starfsendurhæfingar eftir því sem við getur átt. Stefnt er að því að sveitarfélögin skapi um 30% af þeim starfstengdu vinnumarkaðsúrræðum sem til þarf, ríkið skapi 10% starfstengdra vinnumarkaðsúrræða og almenni vinnumarkaðurinn 60%. Þetta verkefni er meðal annars byggt á þeirri reynslu að meiri líkur eru taldar vera á að þátttaka í starfstengdum vinnumarkaðsúrræðum leiði til þess að atvinnuleitandi verði ekki á atvinnuleysisskrá þremur mánuðum eftir að úrræðinu lauk samanborið við þátttöku í öðrum virkniúrræðum og þar með líklega annaðhvort í starfi eða námi. Svo þetta átak geti orðið að veruleika eru í frumvarpi þessu lagðar til breytingar á 61. gr. laganna þar sem heimildir til að veita styrki úr Atvinnuleysistryggingasjóði eru rýmkaðar svo þær nái til stærri hóps atvinnuleitenda. Er því lagt til að heimilt verði að veita styrki vegna starfstengdra vinnumarkaðsúrræða eða úrræða á sviði atvinnutengdrar starfsendurhæfingar vegna þátttöku þeirra sem hafa fullnýtt rétt sinn innan kerfisins í allt að tólf mánuði frá því að síðasta greiðsla úr Atvinnuleysistryggingasjóði barst hlutaðeigandi.
    Ljóst er að einhvern tíma mun taka að bjóða svo mörgum atvinnuleitendum starfstengd vinnumarkaðsúrræði eða úrræði á sviði atvinnutengdrar starfsendurhæfingar á fyrstu mánuðum ársins 2013 og þykir því mikilvægt að tryggja þeim sem hafa fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 36 mánuði eða lengur en þó skemur en 42 mánuði miðað við 1. janúar 2013 sérstakan styrk í allt að sex mánuði til viðbótar á árinu 2013 en þó aldrei í lengri tíma en að því tímamarki að viðkomandi býðst starfstengt vinnumarkaðsúrræði eða úrræði á sviði atvinnutengdrar starfsendurhæfingar. Um er að ræða eins konar biðstyrk sem nemur þeim rétti er hlutaðeigandi atvinnuleitandi átti áður innan kerfisins og er eingöngu ætlaður til að brúa þann tíma sem kann að líða frá því að hlutaðeigandi fullnýtir rétt sinn innan kerfisins, sbr. 29. gr. laganna, og til þess tíma að viðkomandi er boðið úrræði innan átaksverkefnisins. Því er gert ráð fyrir að réttur til þessa styrks falli niður þegar atvinnuleitanda hefur boðist starfstengt vinnumarkaðsúrræði eða úrræði á sviði atvinnutengdrar endurhæfingar eftir því sem við á. Enn fremur er gert ráð fyrir að samanlagður tími þar sem viðkomandi atvinnuleitandi hefur annars vegar fengið greiddar atvinnuleysisbætur samkvæmt ákvæðum laga um atvinnuleysistryggingar og hins vegar styrk samkvæmt ákvæðum frumvarps þessa geti aldrei orðið lengri en samtals 42 mánuðir.
    Í því samráði sem stjórnvöld áttu við Alþýðusamband Íslands, Bandalag háskólamanna, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Kennarasamband Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök atvinnulífsins, fjármála- og efnahagsráðuneyti og Vinnumálastofnun var jafnframt talið mikilvægt að leggja til frekari breytingar á lögunum. Í því sambandi má nefna að mikilvægt þykir meðal annars að lögð sé áhersla á að atvinnuleitendur séu í virkri atvinnuleit þann tíma sem þeir fá greiddar atvinnuleysisbætur og sýni vilja til samvinnu við náms- og starfsráðgjafa er starfa við framkvæmd laga nr. 55/2006, um vinnumarkaðsaðgerðir, í því skyni að auka tækifæri sín til að vera virkir á vinnumarkaði eða verði áfram virkir á vinnumarkaði séu þeir í starfi. Eru því lagðar til breytingar á ákvæðum laganna er fjalla um biðtíma eftir atvinnuleysisbótum, sbr. X. kafla laganna, og viðurlög, sbr. XI. kafla laganna, en öllum þeim ákvæðum sem þar er að finna er ætlað að stuðla að aukinni virkni atvinnuleitenda. Þær breytingar sem lagðar eru til í 9.–15. gr. frumvarps þessa felast í því að komi til atvik sem lýst er í 54.–56. gr. laganna og 57.–61. gr. laganna þegar atvinnuleitandi hefur samtals fengið greiddar atvinnuleysisbætur í 30 mánuði eða lengur á sama tímabili skv. 29. gr. laganna eigi hlutaðeigandi ekki frekari rétt til atvinnuleysisbóta á því tímabili. Er gert ráð fyrir að þetta eigi við um þá sem hafa samfellt verið án atvinnu í svo langan tíma og einnig þá sem hafa verið samtals svo lengi án atvinnu enda þótt þeir hafi verið virkir þátttakendur á vinnumarkaði eða í námi einhvern tíma á tímabilinu.
    Jafnframt er í frumvarpinu lagt til að því almenna skilyrði laganna fyrir atvinnuleysistryggingum að umsækjandi um atvinnuleysisbætur skuli hafa náð 16 ára aldri verði breytt þannig að atvinnuleitandi þurfi að hafa náð 18 ára aldri til að teljast tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Rökin fyrir þessari breytingu eru einkum þau að börn undir 18 ára aldri teljast vera á framfæri foreldra sinna, sbr. lögræðislög, nr. 71/1997, með síðari breytingum, og IX. kafla barnalaga, nr. 76/2003, með síðari breytingum. Hins vegar er áfram gert ráð fyrir að ávinnslutímabil samkvæmt lögunum geti hafist við 16 ára afmælisdag barna, sbr. einnig reglur um tilvik sem leiða til þess að atvinnuleysistryggingar geymast skv. V. kafla laganna.
    Þá eru lagðar til breytingar á lögum um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks en frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2013 gerir ráð fyrir að greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði til fiskvinnslufyrirtækja vegna fiskvinnslufólks sem nýtur kauptryggingar á grundvelli kjarasamninga þegar vinna liggur niðri vegna hráefnisskorts falli niður frá og með 1. janúar 2013. Viðræður hafa staðið yfir milli fulltrúa velferðarráðherra, Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka fiskvinnslustöðva þar sem sú ákvörðun að fella lögin úr gildi þótti vega mjög að starfsöryggi fiskvinnslufólks en gera má ráð fyrir að falli greiðslurnar niður verði uppsagnir á starfsfólki innan starfsgreinarinnar tíðari. Fiskvinnslufólk yrði fyrir tekjuskerðingu og ljóst að útgreiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði ykjust þar sem starfsfólkið ætti rétt á greiðslum úr sjóðnum þann tíma sem það væri án atvinnu. Engu síður er ljóst að draga verður úr þeim útgjöldum Atvinnuleysistryggingasjóðs sem leiðir af framkvæmd laganna. Samkomulag hefur náðst milli aðila um hvernig unnt sé að draga úr þeim útgjöldum og byggist frumvarp þetta á efni þess. Breytingarnar lúta aðallega að fjölda þeirra daga er fyrirtækin eiga rétt á greiðslum fyrir úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt lögunum. Þannig er gert ráð fyrir að ekki verði greitt fyrir fyrstu þrjá dagana er falla undir vinnslustöðvun á fyrri hluta ársins og heldur ekki fyrir fyrstu þrjá dagana á seinni hluta ársins. Enn fremur er gert ráð fyrir að heimilt verði að greiða fyrir 15 greiðsludaga í senn og 35 greiðsludaga á ári hverju. Þá er gert ráð fyrir að greiðslan til fyrirtækjanna nemi einungis fjárhæð óskertra grunnatvinnuleysisbóta samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar en ekki jafnframt lífeyrissjóðsiðgjöldum og tryggingagjaldi atvinnurekanda eins og verið hefur. Með þessu er leitast við að viðhalda tilgangi laganna um að stuðla að starfsöryggi fiskvinnslufólks sem nýtur kauptryggingar á grundvelli kjarasamninga þegar vinna liggur niðri vegna hráefnisskorts jafnframt því sem leitast er við að lækka útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.


    Með lögum nr. 128/2009, um tekjuöflun ríkisins, var 1. mgr. 58. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum, breytt með þeim hætti að í stað þess að í ákvæðinu væri kveðið á um að fjármálaráðherra setti árlega við upphaf tekjuárs reglur um reiknað endurgjald að fengnum tillögum ríkisskattstjóra væri kveðið á um að ríkisskattstjóri setti árlega við upphaf tekjuárs slíkar reglur, sbr. a-lið 10. gr. laga nr. 128/2009. Í frumvarpi þessu er lagt til að b-lið 3. gr. laganna verði breytt til samræmis við framangreindar breytingar á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum, þannig að í stað þess að vitnað sé í ákvæðinu til reglna ráðherra sem fer með tekjuöflun ríkisins vegna skila á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi verði vitnað til reglna ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald.

Um 2. gr.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að aldursskilyrði laganna til þess að atvinnuleitandi geti talist tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins verði hækkað úr 16 árum í 18 ár en um nánari skýringar vísast til athugasemda við 3. gr. frumvarps þessa sem og almennra athugasemda. Í ljósi þessa er í ákvæði þessu gert ráð fyrir að 4. málsl. 1. mgr. 9. gr. laganna falli brott þar sem kveðið er á um að sé umsækjandi um atvinnuleysisbætur yngri en 18 ára skuli foreldri eða forráðamaður samþykkja umsóknina með undirritun sinni.
    Enn fremur er lagt til að hlutaðeigandi stéttarfélögum sem og félögum og heildarsamtökum stéttarfélaga sem reka sjúkra- og styrktarsjóði fyrir launafólk á innlendum vinnumarkaði verði gert skylt að láta Vinnumálastofnun í té upplýsingar sem nauðsynlegar eru við framkvæmd laganna. Í þessu sambandi má nefna upplýsingar í tengslum við starfslok einstaklinga hjá tilteknum vinnuveitanda, svo sem ef um einelti hefur verið að ræða. Auk þess má ætla að slík framkvæmd mundi í einhverjum tilvikum flýta fyrir afgreiðslu mála hjá Vinnumálastofnun, svo sem í þeim tilvikum þar sem vinnuveitandavottorð liggur ekki fyrir. Gert er ráð fyrir að hið sama gildi um sjúkra- og styrktarsjóði stéttarfélaga og heildarsamtaka stéttarfélaga eða fjölskyldu- og styrktarsjóði en skv. 51. gr. laganna skulu þeir sem njóta greiðslna úr slíkum sjóðum vegna óvinnufærni að fullu ekki teljast tryggðir samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar á sama tímabili. Þykir því nauðsynlegt að Vinnumálastofnun hafi við framkvæmd laganna heimild til að óska eftir upplýsingum frá hlutaðeigandi stéttarfélögum eða heildarsamtökum stéttarfélaga eftir því sem við á í því skyni að greina í hvaða tilvikum umsækjandi um atvinnuleysisbætur er að fá greiðslur frá stéttarfélagi sem eru ósamrýmanlegar við greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði fyrir sama tímabil. Einnig getur hið sama átt við um aðra framfærslustyrki sem atvinnuleitendur kunna að fá hjá sjúkra- og styrktarsjóðum stéttarfélaga eða heildarsamtaka stéttarfélaga eftir því sem við á eða fjölskyldu- og styrktarsjóðum.
    Vafatilvik hafa komið upp við framkvæmd laganna um atvinnuleysistryggingar um hvenær upplýsingar og önnur boð Vinnumálastofnunar til atvinnuleitenda hafi talist hafa komist til vitundar viðkomandi atvinnuleitenda með sannanlegum hætti í skilningi laganna. Þykir því mikilvægt að Vinnumálastofnun verði gert að upplýsa umsækjanda um atvinnuleysisbætur um með hvaða hætti stofnunin mun koma upplýsingum eða öðrum boðum til hans frá stofnuninni meðan á atvinnuleit hans stendur um leið og stofnunin upplýsir viðkomandi um að stofnunin hafi samþykkt umsókn hans um atvinnuleysisbætur. Þá er gert ráð fyrir að komi Vinnumálastofnun upplýsingum eða boðum til atvinnuleitanda með þeim hætti sem stofnunin hefur tiltekið við hlutaðeigandi teljist upplýsingarnar eða boðin hafa borist honum með sannanlegum hætti, sbr. til dæmis 10. gr. og 3. mgr. 13. gr. laganna. Þetta er talið mjög mikilvægt þar sem samskipti stofnunarinnar við atvinnuleitendur fara í mun ríkari mæli en áður fram með rafrænum hætti í stað þess að bréf séu send á lögheimili viðkomandi atvinnuleitanda. Þykir því nauðsynlegt að stofnunin upplýsi atvinnuleitendur sem sækja um atvinnuleysisbætur hjá stofnuninni með hvaða hætti þeir megi eiga von á upplýsingum og boðum frá stofnuninni, svo sem upplýsingum um störf sem laus eru til umsóknar, boð um þátttöku í vinnumarkaðsúrræði o.s.frv., þannig að þeir geti þá fylgst vel með umræddum samskiptaleiðum.

Um 3. gr.


    Eitt af almennum skilyrðum laganna fyrir atvinnuleysistryggingum er að umsækjandi um atvinnuleysisbætur sé orðinn 16 ára að aldri en yngri en 70 ára, sbr. b-lið 1. mgr. 13. gr. laganna. Samkvæmt lögræðislögum, nr. 71/1997, með síðari breytingum, verða einstaklingar lögráða 18 ára að aldri en fram að þeim tíma eru börn á framfæri foreldra sinn eða forráðamanna, sbr. IX. kafla barnalaga, nr. 76/2003, með síðari breytingum. Sem dæmi eiga foreldrar rétt á barnabótum vegna barna sinna yngri en 18 ára uppfylli foreldrarnir skilyrði laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum, sem og aukagreiðslum, eftir því sem við getur átt, vegna barna njóti þeir réttar innan opinberra framfærslukerfa. Í ljósi þessa þykir því eðlilegt að aldurslágmark laga um atvinnuleysistryggingar verði hækkað úr 16 árum í 18 ár. Þó er áfram gert ráð fyrir að barn geti hafið ávinnslu réttinda innan atvinnuleysistryggingakerfisins á grundvelli laganna við 16 ára afmælisdag sinn, sbr. 8. mgr. 15. gr. laganna. Við mat á ávinnslu innan atvinnuleysistryggingakerfisins yrði þá eftir atvikum tekið mið af vinnuframlagi umsækjanda um atvinnuleysisbætur sem launamanns eða sjálfstætt starfandi einstaklings á tímabilinu frá 16 ára afmælisdegi hans fram til þess tíma er hann sækir um atvinnuleysisbætur eftir að hann er orðinn fullra 18 ára að teknu tilliti til reglna um tilvik sem leiða til þess að atvinnuleysistryggingar geymast skv. V. kafla laganna. Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun voru sex atvinnuleitendur yngri en 18 ára innan Atvinnuleysistryggingakerfisins í október 2012 og var meðalréttur þeirra innan kerfisins 46%.

Um 4. gr.


    Þegar staðreyna skal upplýsingar um starfshlutfall þannig að komið sé í veg fyrir að tilgreint sé hærra starfshlutfall í vottorði vinnuveitanda en hinn tryggði gegndi þar sem tryggingahlutfall hans getur aldrei orðið hærra en sem nemur starfshlutfalli á ávinnslutímabili þykir mikilvægt að skýrt sé við hvaða tekjuviðmið skuli miða þegar um er að ræða þá sem starfa hjá eigin félögum, svo sem einkahlutafélögum eða samlagsfélögum. Í því skyni að skýra framangreint var 2. mgr. 16. gr. laga um atvinnuleysistryggingar breytt með lögum nr. 37/2009, um breytingu á lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum, og er tekið fram í nefndaráliti meiri hluta félags- og tryggingamálanefndar Alþingis vegna þess frumvarps sem varð að þeim lögum að miða skuli við að þeir sem starfi hjá eigin einkahlutafélögum „séu í fullu starfi og hafi fengið greidd laun í samræmi við viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra fyrir reiknað endurgjald í viðkomandi starfsgrein, eins og skattyfirvöld gera ráð fyrir. Er með þessu leitast við að gæta betra jafnvægis milli inn- og útstreymis Atvinnuleysistryggingasjóðs og þá ekki síst á því tímabili þegar tekjutengdar atvinnuleysisbætur eru greiddar.“ Þetta hefur hins vegar ekki þótt nægilega skýrt í framkvæmd. Þykir því mikilvægt að í lögum um atvinnuleysistryggingar verði kveðið skýrar á um að þegar um er að ræða umsækjendur um atvinnuleysisbætur sem hafa starfað hjá eigin félagi, svo sem einkahlutafélagi eða samlagsfélagi á ávinnslutímabilinu, skuli miða við reglur ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald í viðkomandi starfsgrein og eru í því skyni lagðar til viðeigandi breytingar á ákvæði þessu.

Um 5. gr.


    Í ákvæði þessu er lögð til samsvarandi breyting á lögum um atvinnuleysistryggingar hvað varðar sjálfstætt starfandi einstaklinga og lögð er til í 3. gr. frumvarps þessa hvað varðar launamenn og er því vísað til athugasemda við 3. gr.

Um 6. gr.


    Þær breytingar sem lagðar eru til í ákvæði þessu tengjast þeim breytingum sem lagðar eru til í 1. gr. frumvarps þessa og er því vísað til athugasemda við 1. gr.

Um 7. gr.


    Þær breytingar sem lagðar eru til í ákvæði þessu tengjast þeim breytingum sem lagðar eru til í 1. gr. frumvarps þessa og er því vísað til athugasemda við 1. gr.

Um 8. gr.


    Samkvæmt 1. mgr. 35. gr. laganna skulu atvinnuleysisbætur greiddar eftir á, fyrir undanfarandi mánuð eða hluta úr mánuði þannig að miðist við 20. dag mánaðar til 19. dags næsta mánaðar, fyrsta virkan dag hvers mánaðar. Þetta skipulag hefur valdið ákveðnum erfiðleikum við framkvæmd laganna þegar svo háttar til að atvinnuleitandi er í hlutastarfi eða hefur tekið tilfallandi vinnu í þeim mánuði sem um ræðir hverju sinni. Í ljósi þess mikla samspils sem atvinnuleysistryggingakerfinu er ætlað að hafa við þátttöku atvinnuleitenda á vinnumarkaði þykir ákveðin hagræðing vera fólgin í því að miða útgreiðslu atvinnuleysistrygginga við sama tímabil og almennt gildir um útreikning mánaðarlauna á innlendum vinnumarkaði. Er því lagt til að útgreiðsla atvinnuleysistrygginga verði miðuð við almanaksmánuð í stað hluta úr einum mánuði sem og hluta úr öðrum mánuði þar á eftir. Áfram er þó gert ráð fyrir að greiðslur atvinnuleysistrygginga skuli fara fram fyrsta virka dag hvers mánaðar fyrir undanfarandi mánuð. Enda þótt slíkt fyrirkomulag geti komið til þess að frádráttur tekna skv. 36. gr. laganna geti komið til eftir á þegar atvinnuleitandi hefur til dæmis tekið starfi í lok þess mánaðar sem greitt er fyrir þykir samt betra að finna út hver raunverulegur frádráttur vegna launatekna skuli vera þegar miðað er við sama tímabil og gert er almennt við útreikninga á mánaðarlaunum.

Um 9.–15. gr.


    Í þeim tilgangi að undirstrika mikilvægi þess að atvinnuleitendur séu í virkri atvinnuleit þann tíma sem þeir fá greiddar atvinnuleysisbætur og sýni vilja til samvinnu við náms- og starfsráðgjafa í því skyni að auka tækifæri sín til að vera virkir á vinnumarkaði eða verða áfram virkir á vinnumarkaði eru lagðar til breytingar á ákvæðum laganna er fjalla um biðtíma eftir atvinnuleysisbótum, sbr. X. kafla laganna, og viðurlög, sbr. XI. kafla laganna. Í því sambandi verður að hafa í huga að öll þau tilvik sem fjallað er um í 54.–55. gr. laganna eða 57.–58. gr. laganna eru til þess fallin að auka virkni atvinnuleitenda. Er þessum ákvæðum því ætlað meðal annars að hvetja atvinnuleitendur til að halda því starfi sem þeir eru þegar í eða halda áfram námi. Enn fremur er ákvæðunum ætlað að stuðla að þátttöku atvinnuleitenda á vinnumarkaði að nýju með því að efla færni hlutaðeigandi og gera hann þar með færari og jafnframt betur í stakk búinn að taka starfi bjóðist það síðar. Á þetta ekki síst við um þá sem hafa verið lengi án atvinnu. Er þannig lagt til að komi til atvik sem lýst er í 54.–56. gr. laganna og 57.–61. gr. laganna þegar atvinnuleitandi hefur samtals fengið greiddar atvinnuleysisbætur í 30 mánuði eða lengur á sama tímabili skv. 29. gr. laganna eigi hlutaðeigandi ekki frekari rétt til atvinnuleysisbóta á því tímabili. Á þetta bæði við um þá sem hafa samfellt verið án atvinnu í svo langan tíma og einnig þá sem hafa verið samtals svo lengi án atvinnu enda þótt þeir hafi tekið tímabundnum störfum eða jafnvel stundað nám einhvern tíma á tímabilinu. Enn fremur á þetta við um þá sem hafa tekið starfi sem þeir hafa síðan sagt upp án gildra ástæðna, sbr. 9. gr. frumvarps þessa, eða byrjað nám sem þeir hafa hætt í án gildra ástæðna, sbr. 10. gr. frumvarps þessa. Ekki síst á þetta við um þá sem hafna starfi eða atvinnuviðtali, sbr. 12. gr. frumvarpsins, eða hafna því að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. 13. gr. frumvarps þessa. Þegar svo háttar til sem að framan er rakið öðlast sá hinn sami aftur rétt innan atvinnuleysistryggingakerfisins eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur, sbr. 31. gr. laganna. Enn fremur er lagt til að þegar atvik sem lýst er í 54.–55. gr. laganna eða 57.–60. gr. laganna hafa endurtekið sig þrisvar sinnum hjá sama atvinnuleitanda sem hefur fengið greiddar atvinnuleysisbætur skemur en 30 mánuði leiði það til þess að sá hinn sami öðlist aftur rétt innan atvinnuleysistryggingakerfisins eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur, sbr. 31. gr. laganna.

Um 16. gr.


    Áhrifa þeirra efnahagsþrenginga sem urðu hér á landi í byrjun október 2008 gætir víða í íslensku samfélagi og hafa þrengingarnar kallað á margs konar aðgerðir og viðbrögð stjórnvalda. Hafa afleiðingar þrenginganna meðal annars komið fram í fjölgun langtímaatvinnuleitenda þar sem tækifæri fólks til að taka aftur virkan þátt á vinnumarkaði hafa verið takmörkuð. Mikilvægt þykir því að finna leiðir til að virkja atvinnuleitendur sem hafa fullnýtt rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins eða munu að óbreyttu fullnýta þann rétt sinn innan skamms til þátttöku að nýju á innlendum vinnumarkaði. Má ætla að þannig megi koma í veg fyrir að langvarandi atvinnuleysi leiði til óvinnufærni. Í því sambandi þarf jafnframt að gæta þess að þeir sem ætla má að séu ófærir til að taka störfum vegna óvinnufærni fái tækifæri til að fara í atvinnutengda starfsendurhæfingu í tiltekinn tíma til að fá þann stuðning sem nauðsynlegur er til að verða aftur virkir á vinnumarkaði, sbr. einnig lög um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, nr. 60/2012. Á þetta ekki síst við þar sem ljóst þykir að þeim mun lengur sem einstaklingar eru án virkni þeim mun erfiðara geti það orðið fyrir viðkomandi að verða aftur virkir þátttakendur á vinnumarkaði. Er því í frumvarpi þessu lagt til að heimilt verði að veita styrki úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna þátttöku stærri hóps en áður í starfs- og námstengdum vinnumarkaðsúrræðum en um er að ræða atvinnuleitendur sem hafa verið tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins en hafa hins vegar fullnýtt rétt sinn. Er þá við það miðað að heimilt verði að greiða fyrrnefnda styrki úr Atvinnuleysistryggingasjóði í allt að tólf mánuði frá þeim degi er þeir fullnýttu rétt sinn innan kerfisins. Þannig yrði til dæmis heimilt að veita styrk vegna þátttöku atvinnuleitanda í starfstengdu vinnumarkaðsúrræði í allt að sex mánuði einhvern tíma á fyrstu tólf mánuðum eftir að hann fékk síðustu greiðsluna úr Atvinnuleysistryggingasjóði á grundvelli laganna. Er jafnframt lagt til að sama gildi um styrki til þeirra sem þurfa á atvinnutengdri starfsendurhæfingu að halda enda muni starfsendurhæfingaráætlun sú er gerð verði nýtast viðkomandi atvinnuleitanda beint við atvinnuleit hans að mati ráðgjafa auk þess að vera til þess fallin að skila honum árangri við að finna starf.
    Lögð er áhersla á að greiðsla styrkja skv. 62. gr. laganna byggist á reglugerð sem ráðherra setur að fengnum tillögum stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs í hverju tilviki fyrir sig eins og verið hefur. Þannig er ekki gert ráð fyrir að einstaka atvinnuleitandi byggi rétt til styrks beint á 1. mgr. 62. gr. enda eingöngu um að ræða heimildarákvæði fyrir ráðherra að setja nánari reglur þar um. Er jafnframt lagt til að ráðherra verði heimilt að takmarka styrki úr Atvinnuleysistryggingasjóði á grundvelli ákvæðisins við einstök átaksverkefni sem ætlað er að stuðla að þátttöku atvinnuleitenda að nýju á vinnumarkaði en í því sambandi er átt við ýmiss konar átaksverkefni sem stjórnvöld, í samvinnu við samtök aðila vinnumarkaðarins, sveitarfélög og/eða aðra aðila, ráðast í hverju sinni. Hið sama gildir um heimild ráðherra til að takmarka styrkina við einstaka hópa atvinnuleitenda.

Um 17. gr.


    Lagt er til að atvinnuleitendur sem hafa verið tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins samtals 36 mánuði eða lengur en þó skemur en 42 mánuði miðað við 1. janúar 2013 geti fengið sérstakan styrk úr Atvinnuleysistryggingasjóði sem nemur þeim rétti sem hlutaðeigandi átti áður innan kerfisins þegar hann fékk greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli laganna. Þessir styrkir eru hluti átaksins til vinnu 2013, Vinna og virkni, sem fyrirhugað er að ráðast í á árinu 2013 en um er að ræða átaksverkefni stjórnvalda í samvinnu við sveitarfélög sem og aðila vinnumarkaðarins. Styrkur þessi er háður því að viðkomandi hafi ekki hafnað því starfs- eða námstengda vinnumarkaðsúrræði eða úrræði á sviði atvinnutengdrar starfsendurhæfingar sem honum stóð til boða enda gert ráð fyrir að styrkurinn falli niður bjóðist hlutaðeiganda slíkt úrræði. Gert er ráð fyrir að heimilt verði að greiða styrkinn í allt að sex mánuði en þó aldrei lengur en að því tímamarki að viðkomandi býðst framangreind úrræði innan atvinnuátaksins. Enn fremur er gert ráð fyrir að samanlagður tími þar sem viðkomandi hefur annars vegar fengið greiddar atvinnuleysisbætur samkvæmt ákvæðum laga um atvinnuleysistryggingar og hins vegar framfærslustyrk samkvæmt ákvæði þessu geti aldrei orðið lengri en samtals 42 mánuðir. Áætlað er að það reyni á ákvæði þetta á fyrstu mánuðum ársins 2013 meðan verið er að bjóða þeim atvinnuleitendum úrræði innan átaksverkefnisins sem hafa verið hvað lengst án atvinnu en á vormánuðum árið 2013 er gert ráð fyrir að flestum í þessum hópi hafi boðist úrræði. Engu síður þykir rétt að ákvæði þetta gildi allt árið 2013 eða á því tímabili sem gert er ráð fyrir að fyrrnefnt átaksverkefni standi yfir.

Um 18. gr.


    Lagt er til að fyrirtæki, sem starfrækir fiskvinnslu og greiðir starfsfólki sínu föst laun fyrir dagvinnu í tímabundinni vinnslustöðvun í samræmi við ákvæði kjarasamninga, eigi rétt á greiðslum úr Atvinnuleysistryggingasjóði fyrir hvern heilan vinnudag að undanskildum fyrstu þremur dögunum á hverju almanaksári eins og verið hefur. Þó er gert ráð fyrir að auk fyrstu þriggja daganna á hverju almanaksári verði ekki heldur greitt fyrir fyrstu þrjá dagana á seinni hluta ársins, þ.e. á tímabilinu 1. júlí til 31. desember.
    Reynslan af framkvæmd laganna er sú að hver vinnslustöðvun varir að meðaltali fáeina daga í senn. Þær geta hins vegar verið nokkuð tíðar á ári hverju hjá sama fyrirtæki. Greiðsludögunum hefur þó verið að fjölga að meðaltali hjá fyrirtækjunum á síðustu árum enda þótt þeim hafi fækkað milli áranna 2010 og 2011. Heildarfjöldi greiðsludaga á ári hverju var um 19 dagar að meðaltali á tímabilinu 2006–2011 en var áður 16 dagar. Þess ber þó að geta að nýting fyrirtækja á þessari heimild getur verið nokkuð breytileg milli ára. Lagt er til að greiðsludagar sem heimilt er að bæta fyrirtækjum í einni vinnslustöðvun verði 15 en ekki 20 eins og verið hefur. Enn fremur er lagt til að heimilt verði að greiða fyrir sem nemur 35 vinnudögum á ári hverju til sama fyrirtækis í stað 45 daga áður. Þá er jafnframt lagt til að fyrirtækin fái ekki greitt fyrir vinnslustöðvanir sem bera upp á föstudaga þegar fimmtudagurinn á undan er lögbundinn frídagur. Sem dæmi má nefna föstudagana eftir sumardaginn fyrsta og uppstigningardag en þessir tveir dagar eru alltaf á fimmtudögum. Hið sama gildir þegar aðra lögbundna frídaga ber upp á fimmtudaga, svo sem 1. maí, 17. júní og annan í jólum (26. desember). Miðað er við að undanþáguheimild 5. mgr. 1. gr. haldi gildi sínu þar sem upp geta komið mjög sérstakar aðstæður er leiða til þess að hráefnisskortur veldur því að vinnsla liggur niðri sem rekja má m.a. til byggðasjónarmiða og landfræðilegra aðstæðna. Ítrekað er að skýra ber þessa undanþáguheimild þröngt.
    Enn fremur er gert ráð fyrir að greiðslan til fyrirtækjanna nemi einungis fjárhæð óskertra grunnatvinnuleysisbóta samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar en ekki jafnframt lífeyrissjóðsiðgjöldum og tryggingagjaldi atvinnurekanda eins og áður.

Um 19. gr.

    Lagt er til að lögin verði færð til betra samræmis við skipulag framhaldsfræðslu í landinu en lög um framhaldsfræðslu tóku gildi á árinu 2010. Þau taka mið af fyrirkomulagi sem hefur þróast hér á landi á síðustu árum og með þeim var því lagður grunnur að frekari eflingu heildstæðs kerfis framhaldsfræðslu þar sem stuðningur er veittur einstaklingum óháð stéttarfélagsaðild. Fræðslan byggist á vottuðum námskrám eða námslýsingum og gert er ráð fyrir að fræðslan sé veitt af viðurkenndum aðilum. Með vottun er staðfest að námið uppfylli almennar kröfur um skipulag og gæði kennslu ásamt þeim sértæku kröfum sem gera má hverju sinni með tilliti til inntaks náms. Eðlilegt þykir að sama gildi um þau starfsfræðslunámskeið sem fiskvinnslufólki standa til boða á grundvelli 4. gr. laga um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks.

Um 20. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.


Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks.

    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á tvennum lögum er varða annars vegar atvinnuleysistryggingar og hins vegar greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks. Tilgangur frumvarpsins er meðal annars að tryggja að átaksverkefnið „Vinna og virkni 2013“ nái fram að ganga en með því verkefni er ætlunin að gera tilteknar hliðarráðstafanir í tengslum við 1,8 mia.kr. sparnað í útgjöldum Atvinnuleysistryggingasjóðs í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarpsins 2013 vegna brottfalls fjórða árs bótaréttar atvinnulausra. Auk þess er markmiðið að virkja atvinnuleitendur til þátttöku á vinnumarkaði til að koma í veg fyrir að langvarandi atvinnuleysi leiði til óvinnufærni. Frumvarpið tekur einnig til forsendu fjárlagafrumvarpsins er varðar útfærslu á 350 m.kr. aðhaldsmarkmiði sem fólst í því að fella úr gildi lög um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks. Útfærslan í þessu frumvarpi nær hins vegar ekki að fullu fram því markmiði og er útlit fyrir að einungis náist um 160 m.kr. sparnaður á árinu 2013 í stað 350 m.kr. eins og gert var ráð fyrir í forsendum fjárlagafrumvarpsins.
    Meðal helstu breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu eru tvær breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar sem tengjast átaksverkefninu „Vinna og virkni 2013“. Annars vegar er lagt til að heimildir Atvinnuleysistryggingasjóðs til greiðslu á styrkjum vegna starfstengdra vinnumarkaðsúrræða og atvinnutengdrar endurhæfingar verði rýmkaðar þannig að heimilt verði að veita styrki í allt að tólf mánuði frá því að síðasta greiðsla úr Atvinnuleysistryggingasjóði barst atvinnuleitanda. Rýmkun heimildarinnar er gerð til að uppfylla skilyrði fyrrgreinds átaksverkefnis en því verkefni er ætlað að koma til móts við um 3.700 atvinnuleitendur sem áætlað er að muni hafa fullnýtt rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins á tímabilinu frá 1. september 2012 fram til 31. desember 2013. Stefnt er að því að bjóða um 2.200 starfstengd vinnumarkaðsúrræði, hvert um sig í sex mánuði, fyrir þennan hóp og er gert ráð fyrir að almennur vinnumarkaður bjóði fram 60% þeirra úrræða eða 1.320 úrræði, sveitarfélög 30% eða 660 úrræði og loks ríkið 220 úrræði eða 10%. Atvinnuleysistryggingasjóður mun greiða styrk með viðkomandi atvinnuleitendum og mun hann nema 80–100% af atvinnuleysisbótum ásamt mótframlagi vegna úrræða sem verða til í desember 2012 og á árinu 2013 og verða ákvæði þess efnis sett í reglugerð.
    Til viðbótar er gert ráð fyrir að boðið verði upp á úrræði fyrir um 900 einstaklinga sem áætlað er að þurfi á atvinnutengdri endurhæfingu að halda. Greiddir verða styrkir vegna samninga í tengslum við þetta úrræði og er um að ræða þriggja mánaða samninga sem heimilt er að framlengja um sama tíma að því gefnu að starfsendurhæfingin hafi borið viðunandi árangur. Vakin er athygli á því að ákvæðið um heimildina sem hér um ræðir er varanlegt og því ríkir talsverð óvissa um hver útgjaldaáhrif þess verða til lengri tíma en þó er einnig lagt til í frumvarpinu að heimilt verði að setja reglugerð sem takmarki styrkina við einstök átaksverkefni og/eða einstaka hópa atvinnuleitenda.
    Loks er lagt til í frumvarpinu að sett verði bráðabirgðaákvæði sem heimili Atvinnuleysistryggingasjóði að greiða framfærslustyrki í allt að sex mánuði til þeirra sem fengið hafa greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 36 mánuði eða lengur en þó skemur en 42 mánuði miðað við 1. janúar 2013. Í átaksverkefninu hér að framan er gert ráð fyrir að bjóða tiltekinn fjölda starfstengdra vinnumarkaðsúrræða frá og með 1. janúar. Þeir sem falla innan framangreinds skilyrðis fá greiddan framfærslustyrk þangað til þeim býðst úrræði en þó mega samtals greiðslur atvinnuleysisbóta og framfærslustyrks ekki vara lengur en í 42 mánuði. Í þessu sambandi er rétt að benda á að ef ekki næst að skapa tiltekinn fjölda starfstengdra vinnumarkaðsúrræða í byrjun ársins 2013 er hætta á því að útgjöldin verði umtalsvert meiri en gert hefur verið ráð fyrir.
    Þegar á heildina er litið gerir fjármála- og efnahagsráðuneytið ráð fyrir að framangreind úrræði verði útfærð með þeim hætti að nettóútgjöld þeirra verði 2,1 mia.kr. á móti u.þ.b. 3,9 mia.kr. lækkun útgjalda við brottfall fjórða árs bótaréttar atvinnulausra þannig að 1,8 mia.kr. aðhaldsmarkmiði fjárlagafrumvarpsins verði náð.
    Í frumvarpinu eru einnig lagðar til breytingar er varða greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks. Lagt er til að greiðsla sjóðsins til fiskvinnslufyrirtækis nemi fjárhæð óskertrar grunnatvinnuleysisbóta, án lífeyrissjóðsiðgjalds og tryggingagjalds atvinnurekenda, fyrir hvern starfsmann í fullu starfi sem er verkefnalaus sökum hráefnisskorts. Í dag svarar fjárhæðin einnig til greiðslu lífeyrissjóðsiðgjalds og tryggingagjalds atvinnurekenda en áætlað er að með þessu muni útgjöld sjóðsins lækka um 50 m.kr. Einnig er lagt til að hráefnislausum dögum sem ekki koma til endurgreiðslu verði fjölgað úr þremur í sex daga. Árinu verður tvískipt og koma þrír fyrstu dagar í vinnslustöðvun fyrirtækja í hvorum árshluta ekki til greiðslu. Gert er ráð fyrir að þessi breyting lækki útgjöldin um 25 m.kr. á ári. Loks er lagt til að fyrirtækin fái ekki greitt fyrir vinnslustöðvanir sem ber upp á föstudaga þegar fimmtudagurinn á undan er lögbundinn frídagur svo sem sumardaginn fyrsta og uppstigningardag. Áætlað er að útgjöld sjóðsins lækki um 4–5 m.kr. á ári vegna þessa. Loks er lagt til að fjöldi greiðsludaga sem heimilt er að greiða í samfelldri vinnslustöðvun verði 15 dagar í stað 20 áður og að hámarki verði greiddir 35 dagar á hverju almanaksári til sama fyrirtækis í stað 45 daga áður. Áætlað er að þær breytingar lækki útgjöldin um 20 m.kr. á ári. Samanlagt er áætlað að framangreindar breytingar er varða greiðslur sjóðsins til fiskvinnslufólks lækki útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs varanlega um 100 m.kr. á ári miðað við áætluð útgjöld ársins 2012. Hins vegar áætlar velferðarráðuneytið að útgjöld ársins 2013 verði lægri um allt að 60 m.kr. vegna fjölgunar starfa í sjávarútvegi vegna fyrirséðrar aflaaukningar á fiskveiðiárinu 2012/2013 og með auknu eftirliti með greiðslum til fiskvinnslufyrirtækja.
    Loks eru lagðar til í frumvarpinu nokkrar minni breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar svo sem að aldurslágmark til greiðslu atvinnuleysisbóta verði 18 ár í stað 16, útgreiðsla atvinnuleysisbóta miðist við almanaksár í stað 20. dags fyrri mánaðar til 19. dags líðandi mánaðar, breytingar verði gerðar á ákvæðum um biðtíma eftir atvinnuleysisbótum auk annarra breytinga er tengjast framkvæmd laganna. Áætlað er að þessar breytingar hafi óveruleg áhrif á útgjöld ríkissjóðs til skamms tíma en hugsanlega kunna breytingarnar á ákvæðum um aldurslágmarkið og biðtíma að leiða til einhverrar lækkunar útgjalda til lengri tíma litið og þá einkum ákvæðið um biðtímann. Núverandi ákvæði um biðtíma eftir atvinnuleysisbótum kveða á um tveggja mánaða biðtíma, til að mynda þegar atvinnuleitandi hafnar starfi. Í frumvarpinu er lagt til að kveðið verði á um að komi til atvik svo sem að atvinnuleitandi, sem hefur samtals fengið atvinnuleysisbætur greiddar í 30 mánuði eða lengur á sama tímabili, hafni til dæmis starfi eða þátttöku í vinnumarkaðsúrræðum þá missir viðkomandi rétt til atvinnuleysisbóta á því tímabili. Þann rétt öðlast viðkomandi ekki aftur nema eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í 24 mánuði frá því hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur.
    Í frumvarpi til fjárlaga 2013 var gert ráð fyrir því að útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs mundu lækka í kjölfar þess að heimild til greiðslu atvinnuleysisbóta í fjögur ár félli úr gildi í lok árs 2012. Á móti var gert ráð fyrir að gripið yrði til hliðarráðstafana vegna þeirra einstaklinga sem mundu falla af bótaskránni þannig að nettó útgjaldalækkun sjóðsins yrði um 1,8 mia.kr. á árinu 2013. Með lögfestingu þessa frumvarps er áætlað að útgjöld muni aukast um tæplega 2,2 mia.kr. í tengslum við átaksverkefnið „Vinna og virkni 2013“ en til viðbótar er lagt til að 175 m.kr. verði veittar í tengslum við verkefnið í aukna ráðgjöf annars vegar hjá Vinnumálastofnun og hins vegar hjá vinnumiðluninni STARF sem er á vegum Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Ætlunin er að nýta það viðbótarfjármagn til að fjölga ráðgjöfum og auka eftirfylgni með atvinnuleitendum þar sem áherslan verði lögð á þá sem eru langtímaatvinnulausir. Samtals áætlar fjármála- og efnahagsráðuneytið að verkefnið verði útfært með þeim hætti að útgjöld þess verði rúmlega 2,3 mia.kr. en áætlað svigrúm til hliðarráðstafana nemi um 2,1 mia.kr. Lagt er til að mismunurinn verði fjármagnaður af fjárlagaviðfangi fyrir námskeiðahald, úrræði o.fl. undir fjárlagalið Atvinnuleysistryggingasjóðs. Lagt er til að dregið verði úr námskeiðahaldi, átaksverkefnum o.fl. um 200 m.kr. á næsta ári í þessu skyni auk þess sem gert er ráð fyrir að útgjöld vegna styrkja í tengslum við verkefnið „Nám er vinnandi vegur“ sem greiðist af liðnum verði 45 m.kr. lægri en var gert ráð fyrir í forsendum fjárlagafrumvarpsins 2013. Gerðar verða tillögur að breytingum við 3. umræðu fjárlagafrumvarpsins 2013 vegna framangreindra atriða. Í fjárlagafrumvarpinu var enn fremur ekki gert ráð fyrir fjárheimildum til Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna greiðslna til fiskvinnslufyrirtækja þar sem áætlað var að lögin mundu falla úr gildi. Með því var áætlað að útgjöld ríkissjóðs yrðu lækkuð sem næmi 350 m.kr. en útfærsla þessa frumvarps felur á hinn bóginn einungis í sér varanlega lækkun útgjalda sem nemur 100 m.kr. á ári. Á árinu 2013 er hins vegar áætlað að útgjöldin verði 60 m.kr. lægri vegna aflaaukningar í í sjávarútvegi og aukins eftirlits með greiðslum til fiskvinnslufyrirtækja. Talsverð óvissa er þó um hvort sú lækkun útgjalda muni ganga eftir.
    Að óbreyttum lögum er gert ráð fyrir að með brottfalli fjórða árs bótaréttar atvinnulausra muni útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs lækka um 3,9 mia.kr. en með 2,1 mia.kr. nettó útgjöldum í hliðarráðstafanir í tengslum við átakið „Vinna og virkni 2013“ verður lækkun útgjalda hins vegar 1,8 mia.kr. en það er í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarpsins. Útgjöld ríkissjóðs munu hins vegar aukast um 190 m.kr. á árinu 2013 vegna aukinna greiðslna til fiskvinnslufyrirtækja sem ekki var gert ráð fyrir í forsendum fjárlagafrumvarpsins.