Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 1. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 693  —  1. mál.

3. umræða.


Nefndarálit


við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2013.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.


    Nefndin hefur fjallað áfram um frumvarpið frá því að 2. umræða fór fram dagana 29.–30. nóvember og 3.–6. desember. Nefndin hefur haldið fjóra fundi og ýmis fjárhagsmál verið tekin fyrir, m.a. farið ítarlega yfir stöðu Íbúðalánasjóðs.
    Meiri hlutinn gerir tillögu um 13 milljarða kr. framlag til sjóðsins til að styrkja eiginfjárstöðu hans þannig að eigið fé hækki upp í um 3% af efnahag. Tillagan byggist á niðurstöðum starfshóps sem fjallaði um stöðu og horfur um efnahag Íbúðalánasjóðs. Framlagið er ekki gjaldfært en kallar á hækkun vaxtagjalda um 585 m.kr. á næsta ári þar sem framlagið er greitt með útgáfu skuldabréfs sem kallar á aukin vaxtagjöld.
    Þá eru lagðar til breytingar í tengslum við fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar, en við 2. umræðu voru tvær tillögur meiri hlutans dregnar til baka þar sem þær þörfnuðust frekari skoðunar. Þær vörðuðu hús íslenskra fræða og uppsetningu á náttúrminjasýningu í Perlunni. Nú koma þessar tillögur fram aftur en með breyttri fjármögnun.
    Í upphaflegri fjárfestingaráætlun kom fram að unnið sé að áætlun um byggingu nýs Landspítala í samræmi við lög nr. 64/2010 sem gera ráð fyrir að allar fasteignir framkvæmdarinnar séu teknar á leigu til langs tíma. Þessi áform hafa nú breyst. Í sameiginlegu minnisblaði fjármála- og efnahagsráðherra og velferðarráðherra sem ríkisstjórnin samþykkti þann 30. nóvember er lagt til að um hefðbundna opinbera framkvæmd verði að ræða. Ráðherrarnir leggja til að undirbúið verði frumvarp um breytingar á umræddum lögum og það verði lagt fram á Alþingi í janúar. Ekki eru gerðar tillögur um gjaldaheimildir núna, en við frumvarpsgerðina verði jafnframt athugað hvort finna megi svigrúm í langtímaáætlun um ríkisfjármál á næstu árum með það að markmiði að hefja framkvæmdir við stærstu verkþættina sem opinbera ríkisframkvæmd. Við þá skoðun verði lögð áhersla á að halda jöfnuði í ríkisfjármálum auk þess sem tekið verði tillit til hagræðingar og hagrænna áhrifa framkvæmdanna.
    Í samræmi við niðurstöðu þeirrar skoðunar verði gerð tillaga að því hvernig megi áfangaskipta og forgangsraða mikilvægustu verkþáttunum með það að markmiði að þeir nýtist spítalanum sem fyrst. Verði frumvarpið samþykkt og að öðrum skilyrðum uppfylltum yrði mögulegt að auglýsa þá þegar opinber útboð framkvæmdanna með hefðbundnum fyrirvara um samþykki Alþingis við samningsgerðina og fjárheimildir. Í minnisblaðinu kemur einnig fram að talið sé að innlendur verktakamarkaður hafi varla burði til að fjármagna stærstu verkþættina og bera á þeim fjárhagslega ábyrgð á grundvelli langtímaleigusamnings, en eitt frumskilyrði fyrir leiguleiðinni er að áhættan af kostnaði við byggingu og rekstur sé hjá þeim einkaaðila sem byggir og annast rekstur húsnæðisins. Hins vegar eru tvö minnstu húsin, sjúkrahótelið og skrifstofu- og bílastæðahúsið af þeirri stærð að þau geta rúmast innan leiguleiðar og samkvæmt núgildandi lögum nr. 64/2010 er Nýjum Landspítala ohf. heimilt að bjóða nú þegar út byggingarnar með fyrirvara um samþykki Alþingis á leigusamningunum.
    Breytingartillögur nema samtals 3.294,7 m.kr. til hækkunar á sundurliðun 2, þ.e. fjármálum ríkisaðila í A-hluta. Þar vega þyngst áðurnefndar breytingar á fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar, með 800 m.kr. framlag til byggingar húss íslenskra fræða og 400 m.kr. til uppsetningar á sýningu Náttúruminjasafns Íslands. Eins og áður sagði hækka vaxtagjöldin um 585 m.kr. vegna útgáfu skuldabréfs til að fjármagna eiginfjáraukningu Íbúðalánasjóðs. Þá er gert ráð fyrir að millifæra 440 m.kr. til að undirbúa styttingu framhaldsskóla með vinnu við gerð aðalnámskrár, en á móti lækka framlög til átakins Nám er vinnandi vegur um sömu fjárhæð. Meiri hlutinn gerir einnig tillögu um 200 m.kr. hækkun framlaga til löggæslumála til að styrkja þau embætti sem lakast standa og er innanríkisráðherra falið að skipta framlaginu á einstök embætti. Útgjöld Alþingis og stofnana þess hækka samtals um rúmar 400 m.kr. og þar vega þyngst útgjöld vegna væntanlegra Alþingiskosninga og rekstrarkostnaðar við rannsóknarnefndir þingsins. Önnur hækkunartilefni vega minna og koma fram í skýringum við einstakar breytingartillögur.
    Á móti hækkunum vegur 150 m.kr. lækkun áætlunar um útgjöld Ábyrgðasjóðs launa þar sem gjaldþrotum fyrirtækja hefur fækkað og að meðtaldri breytingu sem gerð var við 2. umræðu er búið að lækka útgjaldaáætlun liðarins um 300 m.kr. frá fyrstu áætlunum.
    Tekjur ríkissjóðs hækka um 317 m.kr. þar sem lagt er til að fjármögnun næsta árs á byggingu húss íslenskra fræða verði með því móti að 650 m.kr. verði fjármagnaðar með framlagi Happdrættis Háskóla Íslands en framlag ríkissjóðs verði þá 150 m.kr.
    Meiri hlutinn gerir einnig tillögu um breytingar á 5. gr. frumvarpsins um lántökur ríkisins og 6. gr. um heimildir til að kaupa, leigja eða selja húsnæði, auk ýmissa annarra heimilda.
    Halli ríkissjóðs í A-hluta verður 2.994,7 m.kr. eða tæpum 200 m.kr. meiri en í frumvarpinu. Heildartekjur eru áætlaðar 579.938,8 m.kr. og heildargjöld 582.933,5 m.kr.
    Hér á eftir fylgja skýringar á breytingartillögum meiri hlutans á gjaldahlið.

SKÝRINGAR VIÐ EINSTAKAR BREYTINGARTILLÖGUR
Á GJALDAHLIÐ FRUMVARPSINS



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum þeim sem skýrðar hafa verið og gerð er tillaga um í sérstökum þingskjölum.

Alþingi, 12. desember 2012.

Björn Valur Gíslason,
form., frsm.
Sigmundur Ernir Rúnarsson.
Lúðvík Geirsson.

Valgerður Bjarnadóttir.
Skúli Helgason.