Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 424. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 708  —  424. mál.




Svar



atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn
Ásmundar Einars Daðasonar um makrílkvóta.


    Ráðuneytið leitað umsagnar Fiskistofu vegna fyrirspurnarinnar. Svör við 1,. 4. og 5. tölul. byggjast á umsögn Fiskistofu.

     1.      Hvaða rök bjuggu að baki því að við síðustu úthlutun markílkvóta var úthlutað 514 tonnum meira en reglugerð nr. 329/2012 kveður á um að skuli ráðstafað?
    Ráðherra ákvað að leyfilegur heildarafli íslenskra skipa við makrílveiðar skyldi miðaður við 145.227 lestir, sbr. 3. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 329/2012.
    Viðmiðun leyfilegs heildarafla var ráðstafað til fjögurra flokka skipa sem eru eftirfarandi:
     1.      Bátar sem stunda línu- eða handfæraveiðar, 845 lestir.
     2.      Skip sem ekki frysta afla um borð, 8.066 lestir.
     3.      Vinnsluskip, 31.259 lestir.
     4.      Skip sem veiddu makríl í flottroll og nót á árunum 2007, 2008 og 2009, 105.057 lestir.
    Hér má sjá töflu sem sýnir úthlutun aflaheimilda í makríl árið 2012, flutning heimilda, veiddan afla og stöðuna í hverjum flokki eftir að veiðitímabili er lokið. Taflan miðar við lestir.

Úthlutun Flutt frá fyrra ári Flutt milli flokka Aflaheimild Afli Staða
Aflareynsluskip 105.057* 4.822 –3.431 106.428* 101.776 4.651
Vinnsluskip 31.259 589 3.218 35.066 34.826 240
Skip án vinnslu 8.601 506 213 9.321 8.162 1.158
Lína og handfæri 845 0 0 845 1.099 –254
Án makrílleyfis 0 0 0 0 7 –7
Samtals 145.761 5.917 0 151.660 145.870 4.788
* 20 lestir féllu niður í þessum flokki þar sem ekki náðist skilyrði reglugerðar um 50% veiðar.

    Leyfilegum heildarafla í flokkum 2, 3 og 4 var skipt á einstök skip. Við nánari skoðun Fiskistofu við úthlutun aflaheimilda kom í ljós að skip sem hafði áður verið í flokki vinnsluskipa var ekki lengur í þeim flokki. Viðkomandi útgerð átti þar með rétt á að tilnefna skip í þess stað og eina skipið sem útgerðin hafði til makrílveiða var í flokki 2. Skip í flokki 2 fékk því úthlutun í samræmi við þá úthlutun sem fyrra skip viðkomandi útgerðar hefði fengið úr vinnsluskipapotti. Á þessum tíma hafði þegar verið skipt aflaheimildum milli annarra skipa í flokki vinnsluskipa. Með réttu hefði átt að lækka hlut hvers vinnsluskips sem þessu næmi en það láðist að gera það. Framangreind tafla sýnir að veiddur makrílafli fór þó ekki yfir þau mörk sem ráðherra setti í reglugerð um makrílveiðar.

     2.      Hvaða rök voru fyrir magntölum og skiptingu milli einstakra veiðiflokka (línu- og handfæraveiðar, ísfiskskip, frystitogarar og aflareynsluskip)?
    Þegar að makríll fór að veiðast hér í einhverju magni á seinni hluta síðasta áratugar komu fram sjónarmið um að horft væri til þess að í ýmsum löndum, þ.m.t. Noregi, væru veiðar á þessari fisktegund stundaðar með fjölbreyttum hætti. Svo fór þó að á fiskveiðiárinu 2009 voru beinar veiðar á makríl stöðvaðar í byrjun júlí vegna mikils meðafla við veiðar á norsk- íslenskri síld. Því var þá í reynd lítið sem ekkert svigrúm að skapa möguleika fyrir aðra en uppsjávarútgerðina að reyna fyrir sér í þessum veiðum. Þegar að aflaheimildir á fiskveiðiárinu 2010 voru auknar um 18 þúsund tonn milli ára var horft til þess að rétt væri að skapa slíkt svigrúm og niðurstaðan var sú að festa uppsjávarútgerðina miðað við 112 þúsund tonn en úthluta því sem til viðbótar var til annarra útgerðarflokka. Það sama var gert 2011 og 2012 en á þeim árum var þessu umfram magni skipt á smábáta, ísfiskskip og frystitogara. Það sem réði skiptingu á magni milli flokka grundvallaðist fyrst og fremst á mati á veiðimöguleikum innan þeirra eftir að nokkur reynsla hafði skapast árið 2010. Hitt er svo annað mál að í dag geta skip innan allra þessara flokka veitt meira en til þeirra hefur verið úthlutað. Ástæða þess er fyrst og fremst sú að þróun þekkingar á veiðunum hefur vaxið gríðarlega sem sýnir vel þann mikla sveigjanleika sem íslenskur sjávarútvegur hefur haft yfir að ráða.

     3.      Af hverju er ekki sama veiðiskylda á skipum mismunandi veiðiflokka?
    Á árinu 2012 var aðgangi að svokölluðum frystiskipaflokki lokað þannig að aðeins þau skip sem stundað höfðu veiðar 2011 gátu sótt um leyfi til makrílveiða 2012. Samhliða þessu var takmörkun á flutningi aflaheimilda sem byggðist á veiðiskyldu innan útgerða aflétt sem hafði þær afleiðingar að útgerðir með fleiri en eitt skip gátu beitt ýtrasta hagræði við veiðarnar. Þetta eru sömu reglur og hafa gilt um veiðar uppsjávarskipanna frá 2010. Öðru máli gegndi um svokallaðan flokk ísfiskskipa. Þeim flokki var ekki lokað 2012 og gat hver sem vildi, að skilyrðum uppfylltum, fengið leyfi fyrir skip í þeim flokki. Af þeirri ástæðu var nauðsynlegt að viðhalda veiðiskyldu í flokki ísfiskskipa á árinu 2012.

     4.      Hversu hátt hlutfall af heildarafla fór til vinnslu, sundurliðað á einstaka veiðiflokka?
    Það hlutfall aflans í hverjum veiðiflokki sem fór til vinnslu (annarrar en bræðslu) er eftirfarandi:
Veiðiflokkur Til vinnslu
Aflareynsluskip 76,0%
Án makrílleyfis 100,0%
Lína og handfæri 100,0%
Skip án vinnslu 98,7%
Vinnsluskip 99,8%

     5.      Hvernig er eftirliti Fiskistofu háttað með því ákvæði að ráðstafa skuli 70% af makrílafla til vinnslu?
    Ráðstöfun aflans er skráð í gagnagrunna Fiskistofu við löndun þannig að stofnunin hefur yfirsýn yfir hvernig aflinn er unninn á hverju tíma. Hefðbundið eftirlit um borð í veiðiskipum og í löndunarhöfn felst m.a. í að fylgjast með að skráning á vinnslu aflans í gagnagrunnana sé rétt.