Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 151. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 723  —  151. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu



um frumvarp til laga um sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.


Frá meiri hluta fjárlaganefndar.



    Frumvarpinu var vísað til fjárlaganefndar 25. september sl. Nefndin sendi frumvarpið til umsagnar til sautján aðila og bárust skriflegar umsagnir frá þremur þeirra, auk þess sem við bættist umsögn frá einstaklingi.
    Hinn 10. desember komu á fund nefndarinnar Halldór Árnason frá Samtökum atvinnulífsins, Lúðvík Júlíusson, Jón Gunnar Jónsson frá Bankasýslu ríkisins og Sigríður Benediktsdóttir og Lúðvík Elíasson frá Seðlabanka Íslands.
    Tilgangur frumvarpsins er að veita ráðherra fjármála almenna heimild til að selja eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum þeim sem komust í eigu ríkisins í kjölfar falls íslenska bankakerfisins haustið 2008. Með frumvarpinu er settur almennur rammi um hvernig sölumeðferð eignarhlutanna skuli háttað. Gert er ráð fyrir að undanskilinn söluheimild verði 70% eignarhlutur ríkisins í Landsbankanum hf. Þau mörk eru til samræmis við langtímaáætlun ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum 2012–2015. Þar er miðað við að ríkið sé, eftir því sem aðstæður leyfa, tilbúið til þess að losa að fullu um eignarhluti sína í Arion banka og Íslandsbanka, en ekki standi til að eignarhlutur ríkisins í Landsbankanum fari niður fyrir 66–75% í nánustu framtíð.
    Umsagnaraðilar voru almennt jákvæðir gagnvart frumvarpinu og töldu það til bóta, en bentu jafnframt á nokkur atriði sem nauðsynlegt væri að taka tillit til í söluferlinu.
    Umsagnaraðilar voru sammála um nauðsyn þess að vanda mjög til vals á kaupendum, sérstaklega þegar kemur að hlut ríkisins í Landsbankanum, sem vegur langþyngst, jafnvel þótt ekki verði selt meira en sem nemur 30% af hlutafénu. Einnig kom fram að fara þarf vandlega yfir áhrif þess hvort kaupendur verða erlendir eða innlendir aðilar. Það skiptir miklu máli fyrir áhrif á erlenda stöðu þjóðarbúsins, greiðslujöfnuð, gengi krónunnar og gjaldeyrisforða.
    Fram kom hjá einum umsagnaraðila að ef eigendum aflandskróna verður heimilt að taka þátt í útboði vegna sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum getur það leitt til ójafnræðis vegna afsláttar sem þessir aðilar njóta í fjárfestingum sínum hérlendis. Meiri hlutinn tekur undir þessa athugasemd og varar við því að sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum verði fjármögnuð með þeim hætti.
    Sala eignarhluta gæti aukið samkeppni á fjármálaþjónustumarkaði og því komið neytendum til góða með hagstæðari kjörum en nú bjóðast. Hins vegar er vandmeðfarið að velja hugsanlega kaupendur. Æskilegt er að kjölfestufjárfestar komi fram sem jafnframt séu með langtímamarkmið um uppbyggingu fjármálamarkaðar í huga, í stað skammtímagróða. Í þessu sambandi er nauðsynlegt að betur takist til en reyndin varð með einkavæðingu Landsbankans og Búnaðarbankans á sínum tíma. Nauðsynlegt er að Bankasýsla ríkisins birti skýrslu um söluferlið fyrir hverja sölu fyrir sig.
    Meiri hlutinn tekur einnig undir sjónarmið um að æskilegt sé að selja hlut ríkissjóðs í sparisjóðum, Íslandsbanka og Arion banka áður en kemur að sölu í Landsbankanum. Með því séu auknar líkur á að hagstæðara verð fáist fyrir hlut í Landsbankanum heldur en ef hlutur í honum er seldur fyrst.
    Þrátt fyrir gjaldeyrishöft og óvissu um eignastöðu fjármálastofnana voru gestir fjárlaganefndar sammála um að fyllilega væri raunhæft að selja töluverða eignarhluti á næsta ári. Það er helst hlutur í Landsbankanum sem er vandmeðfarinn að þessu leyti.
    Meiri hlutinn gerir ekki upp á milli söluaðferða, vel er hugsanlegt að beita tvíhliða söluferli, hafa bæði almenna sölu með skráningu á markaði og einnig að vera með opið útboð með því að selja stóra hluti til fagfjárfesta.
    Til að bregðast við athugasemdum Seðlabanka Íslands leggur meiri hlutinn til að í 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins verði kveðið á um að ráðherra skuli leita umsagnar Seðlabanka Íslands um jafnræði bjóðenda, líkleg áhrif sölu á gjaldeyrismarkað, gjaldeyrisforða og laust fé í umferð.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Á eftir 1. málsl. 1. mgr. 2. gr. komi nýr málsliður, svohljóðandi: Ráðherra skal jafnframt leita umsagnar Seðlabanka Íslands um jafnræði bjóðenda, líkleg áhrif sölu á gjaldeyrismarkað, gjaldeyrisforða og laust fé í umferð.

Alþingi, 14. desember 2012.



Björn Valur Gíslason,


form., frsm.


Björgvin G. Sigurðsson.


Lúðvík Geirsson.



Sigmundur Ernir Rúnarsson.


Árni Páll Árnason.