Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 518. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 724  —  518. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á umferðarlögum, nr. 50/1987 (fullnaðarskírteini).

Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


1. gr.

    1. málsl. 3. mgr. 51. gr. laganna orðast svo: Fullnaðarskírteini gildir í 15 ár.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 19. janúar 2013.

Greinargerð.


    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/126/EB frá 20. desember 2006 um ökuskírteini var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 29/2008 hinn 14. mars 2008. Í tilskipuninni kemur fram að reglur um ökuskírteini séu veigamikill þáttur í sameiginlegri stefnu í flutningamálum, þær auki umferðaröryggi og auðveldi frjálsa för fólks sem tekur sér búsetu í öðru aðildarríki en ríkinu þar sem skírteinið er gefið út. Þar eð notkun einstaklingsfarartækja er mikil stuðlar það að frjálsri för og staðfesturétti fólks að hafa ökuskírteini sem er viðurkennt í gistiaðildarríki. Þrátt fyrir framfarir, sem hafa orðið með því að samræma reglur um ökuskírteini, er enn verulegur munur milli aðildarríkjanna á reglum um það hve oft skuli endurnýja ökuskírteini og um undirflokka ökutækja, sem þarf að samræma betur.
    Með 1. gr. frumvarpsins er lögð til sú breyting á gildandi lögum að fullnaðarskírteini gildi ekki lengur þar til hlutaðeigandi er fullra 70 ára heldur einungis í 15 ár frá útgáfu þess. Lög þessi skulu þó ekki hafa áhrif á ökuréttindi sem hafa verið veitt eða verið aflað fyrir gildistökudag laganna. Gildistökuákvæðið er miðað við gildistöku 19. janúar 2013 en frá og með þeirri dagsetningu skulu skírteinin gefin út samkvæmt hinum nýja gildistíma, eða í 15 ár. Því er áríðandi að lögin verði samþykkt og birt fyrir 19. janúar 2013.
    Með lögum þessum er innleitt ákvæði a-liðar 2. mgr. 7. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2006/126/EB frá 20. desember 2006 um ökuskírteini, sem tekin var upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 29/2008 frá 14. mars 2008.