Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 93. máls. Ferill 94. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 731  —  93. og 94. mál.

2. umræða.


Nefndarálitum frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 145/1994, um bókhald, með síðari breytingum (texti bókhaldsbóka og ársreikninga, skoðunarmenn, endurskoðendur),
og frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 3/2006, um ársreikninga, með síðari breytingum (starfrækslugjaldmiðill og skoðunarmenn og endurskoðendur).


Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.    Minni hlutinn fagnar því að meiri hlutinn hafi komið til móts við tillögu minni hlutans og fleiri nefndarmanna um að upplýst verði ekki aðeins um tíu stærstu hluthafa eða alla ef hluthafar eru færri en tíu (sbr. 7. gr. frumvarpsins) heldur um alla eigendur.
    Það veldur hins vegar vonbrigðum að meiri hlutanum hafi ekki fundist ástæða til að skylda fyrirtæki til að birta upplýsingar um raunverulega eigendur (sbr. 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 64/2006) til að draga úr ávinningi af kennitöluflakki og skráningu í skattaskjólum með það að markmiði að jafna samkeppnisstöðu fyrirtækja með starfsemi á Íslandi. Minni hlutinn leggur fram breytingartillögu sem felur í sér að lögaðili þurfi að upplýsa um raunverulegt eignarhald tíu stærstu hluthafa sinna. Gert er ráð fyrir að sönnunarbyrði um raunverulegt eignarhald hvíli á lögaðilum sem skila inn ársreikningi til að tryggja að slíkar upplýsingar komi fram. Vogunarsjóðir eða eignarhaldsfélög sem leyna upplýsingum um raunverulega eigendur, m.a. með skráningu í skattaskjólum, eru komnir með víðtækt eignarhald í íslensku atvinnulífi. Nægir í því sambandi að benda á eignarhald Íslandsbanka og Arion banka en þessir bankar eru í meirihlutaeigu kröfuhafa Glitnis og Kaupþings. Um 80% krafna í þrotabú þessara banka hafa gengið kaupum og sölum frá falli þeirra. Uppkaup á kröfum í gjaldþrota fyrirtæki einkenna hina svokölluðu hrægammasjóði (e. vulture funds) sem greiða aðeins sem nemur broti af andvirði kröfunnar til fyrri eigenda sem telja kröfuna tapaða eða geta ekki beðið eftir útgreiðslu úr þrotabúi. Hrægammasjóðir beita síðan öllum tiltækum ráðum til að tryggja fullar endurheimtur kröfunnar (sbr. málaferli vogunarsjóðanna NML Capital og Aurelius Capital Management gegn ríkissjóði Argentínu í Bandaríkjunum). Fyrirtæki í eigu kennitöluflakkara og skjólstæðinga skattaskjóla reyna að leyna eignarhaldi til að fela peningaslóð sína fyrir skiptastjórum, skattyfirvöldum og almenningi. Með því að ganga ekki alla leið og skylda fyrirtæki til að upplýsa um raunverulega eigendur heldur meiri hlutinn í raun hlífiskildi yfir kennitöluflökkurum, skattsvindlurum og hrægammasjóðum.
    Minni hlutinn leggur auk þess til að ársreikningaskrá verði falið að birta reglulega með rafrænum og aðgengilegum hætti lista yfir eigendur félaga og eignarhlut þeirra sem byggist á upplýsingum skv. 3. mgr. 65. gr. laga um ársreikninga. Mörg dæmi eru um að gagnsæi upplýsinga sé skert með því að svara ekki beiðnum um upplýsingar eða krefjast hárrar þóknunar fyrir slíkar upplýsingar. Mikilvægt er því að fela ársreikningaskrá það verkefni að taka saman og birta rafrænt upplýsingar um alla raunverulega eigendur fyrirtækja á Íslandi.
    Margvísleg rök eru fyrir gagnsæju eignarhaldi fyrirtækja með takmarkaði ábyrgð en takmörkuð ábyrgð þýðir að eigendur bera ekki ábyrgð á öllum skuldbindingum fyrirtækis. Kröfur sem ekki fást greiddar við gjaldþrot falla á aðra í samfélaginu, þ.e. viðskiptavini og skattgreiðendur. Samfélagið á því rétt á að vita hverjir raunverulegir eigendur félagsins eru til að geta metið hvaða áhætta er tekin með viðskiptum við viðkomandi fyrirtæki. Falið eignarhald fyrirtækja gerir Samkeppniseftirlitinu erfitt fyrir að tryggja að samkeppnislögum sé framfylgt. Krafan um gagnsætt eignarhald gerir aðilum á markaði kleift að forðast að eiga viðskipti við einstaklinga sem stundað hafa svokallað kennitöluflakk til þess m.a. að komast hjá því að greiða viðskiptaskuldir sínir. Ef upplýsingar liggja fyrir um alla eigendur fyrirtækja geta lánastofnanir og eftirlitsstofnanir greint krosseignartengsl og þannig metið hver raunveruleg áhætta af lánveitingu til viðkomandi eiganda er. Vogunarsjóðir eru orðnir umsvifamiklir í íslensku atvinnulífi. Eitt af því sem einkennir starfsemi þeirra er óljóst eignarhald, þar sem sjóður á sjóð og svo koll af kolli. Ógagnsætt eignarhald fyrirtækja gerir fjárfestum kleift að komast undan skattgreiðslum þar sem skattyfirvöld geta ekki rakið slóð til dæmis arðgreiðslu til raunverulegs eiganda. Með gagnsæju eignarhaldi er tryggð betri skattheimta. Ef skilgreining laga um peningaþvætti er notuð til að tryggja að fyrirtæki upplýsi um raunverulega eigendur mun eignarhald ekki aðeins vera rekjanlegt til eignarhaldsfélaga í skattaskjólum heldur til einstaklinga sem njóta ávinnings af starfseminni. Forsenda þess að traust aukist í samfélaginu er að upplýsingar um eignarhald sé aðgengilegt öllum rafrænt og að gjaldtaka sé ekki notuð til að takmarka aðganginn. Aukið gagnsæi leiðir til upplýstari ákvarðana kaupenda og seljanda á mörkuðum og tryggir því betur en annars væri að lögmál markaðarins leiði til hámarksframleiðslu og skilvirkustu nýtingar framleiðsluþátta í hagkerfinu.

Alþingi, 28. nóvember 2012.

Lilja Mósesdóttir.