Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 291. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 740  —  291. mál.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga,
nr. 4/1995, með síðari breytingum (hlutverk Jöfnunarsjóðs
og heimild til skerðingar á framlögum hans).


Frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.



    Nefndin fékk á sinn fund Elínu Pálsdóttur og Guðna Geir Einarsson frá innanríkisráðuneyti til að kynna frumvarpið. Nefndinni barst ein umsögn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og hefur nefndin fjallað um málið.
    Samkvæmt athugasemdum við frumvarpið er markmið þess annars vegar að styrkja og skilgreina hlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og hins vegar að festa í lög heimild til skerðingar á framlögum Jöfnunarsjóðs vegna yfirfærslu grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga og framlögum til jöfnunar á tekjutapi vegna fasteignaskatts til þeirra sveitarfélaga er hafa heildarskatttekjur verulega umfram landsmeðaltal, þ.e. tekjur af útsvari og fasteignaskatti á hvern íbúa miðað við fullnýtingu þeirra tekjustofna. Þá kemur fram í umsögnum innanríkisráðuneytis og fjármálaráðuneytis að verði frumvarpið að lögum muni það ekki hafa fjárhagsleg áhrif á sveitarfélögin sem heild. Ekki sé um að ræða lækkun á framlögum úr Jöfnunarsjóði til sveitarfélaga almennt heldur sé um að ræða breytingu á innbyrðis skiptingu framlaga milli sveitarfélaga, í samræmi við hlutverk sjóðsins eins og því er lýst í 1. gr. frumvarpsins.
    Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga var sérstaklega bent á að markmið lagabreytingarinnar sé liður í stærra verkefni, sem sé að auka innbyrðis jafnvægi í jöfnunarkerfinu og að jöfnunarframlög endurspegli raunverulega þörf sveitarfélaga fyrir auknar tekjur til að mæta útgjöldum. Þá kemur fram í umsögninni að Samband íslenskra sveitarfélaga geri ekki athugasemd við að frumvarpið verði að lögum. Í umfjöllun um málið hefur komið fram að þörf sé á að fjármagn Jöfnunarsjóðsins sé nýtt betur til að létta undir með sveitarfélögum sem raunverulega þurfa á jöfnunarframlögum að halda. Þá hefur komið fram að ef heimildarákvæðið verði ekki sett í lög sem fyrst muni það fresta því verulega að markmiðum þeim sem stefnt er að með Jöfnunarsjóði verði náð.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 14. desember 2012.



Guðfríður Lilja Grétarsdóttir,


form.


Ólína Þorvarðardóttir,


frsm.


Róbert Marshall.



Álfheiður Ingadóttir.


Lúðvík Geirsson.


Atli Gíslason.