Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 484. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 747  —  484. mál.




Svar



mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn Bjarkeyjar Gunnarsdóttur um námsgögn og starfsnám nemenda á starfsbrautum fyrir fatlaða í framhaldsskólum.


     1.      Með hvaða hætti hyggst ráðherra koma á gæðastöðlum um starfsnám/starfsþjálfun nemenda á starfsbrautum fyrir fatlaða í framhaldsskólum?
    Í október 2012 ákvað ráðuneytið að eiga frumkvæði að viðræðum við Vinnumálastofnun um fyrirkomulag starfsnáms á starfsbrautum. Sú vinna er ekki hafin en stefnt er að því að koma á samræmdu kerfi fyrir framhaldsskóla til að leita eftir samstarfi við fyrirtæki og stofnanir. Við þá vinnu má sjá fyrir sér að sett verði gæðaviðmið um starfsþjálfun nemenda hjá bæði framhaldsskólum og fyrirtækjum.

     2.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að vinnustöðum verði greitt fyrir að taka á móti fötluðum nemendum starfsbrauta í starfsnám/starfsþjálfun?
    Í framangreindri vinnu með Vinnumálastofnun verða þau viðmið sem gilda um nemendur sem eru í starfsþjálfun eða á samningi vegna náms síns á verknámsbrautum og styrktir eru af hinum nýja vinnustaðanámssjóði höfð til hliðsjónar. Í reglum um úthlutun styrkja til vinnustaðanáms segir í 1. gr. að mennta- og menningarmálaráðuneyti úthluti styrkjum til fyrirtækja og stofnana er bjóða vinnustaðanám sem er hluti af starfsnámi á framhaldsskólastigi. Markmiðið með styrkjunum er að hvetja fyrirtæki og stofnanir til þess að taka við nemendum sem stunda vinnustaðanám sem hluta af námi á framhaldsskólastigi og gera þeim kleift að hefja og/eða ljúka tilskildu vinnustaðanámi samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla. Það á við um fatlaða nemendur eins og aðra þar sem vinnustaðanám er hluti af skipulagi náms.

     3.      Hvernig er tryggingum nemenda háttað sem stunda starfsnám/starfsþjálfun á vinnustað?
    Í samræmi við almenna stefnu ríkisins um tryggingar stofnana eru nemendur ekki tryggðir sérstaklega frekar en aðrir.

     4.      Er á döfinni að útbúinn verði miðlægur námsgagnagrunnur sem sérstaklega er ætlaður nemendum starfsbrauta?
    Í tillögum þeim sem ráðherra samþykkti í október sl. og greint er frá í 1. tölul. var lagt til að ráðuneytið kannaði, í samráði við Félag starfsbrautakennara í framhaldsskólum, að koma á samráðsvettvangi framhaldsskóla um námsefnisgerð og lokaðri vefsíðu fyrir starfsfólk þar sem hægt væri að skiptast á hugmyndum og efni. Tillagan er ekki komin til framkvæmda en væntanlega mun ráðuneytið eiga frumkvæði að því að koma á slíku samstarfi við framhaldsskóla.