Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 317. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 753  —  317. mál.




Svar



innanríkisráðherra við fyrirspurn Kristjáns Þórs Júlíussonar
um rannsókn og saksókn kynferðisbrota.


    Vegna fyrirspurnar Kristjáns Þórs Júlíussonar alþingismanns um rannsókn og meðferð kynferðisbrotamála aflaði innanríkisráðuneytið upplýsinga frá öllum lögregluumdæmum og frá embætti ríkissaksóknara svo sem um var beðið.
    Í samræmi við 8. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996, og reglugerð nr. 192/2008 um stjórn lögreglurannsókna, rannsóknardeildir, rannsóknaraðstoð og samvinnu lögreglustjóra við rannsókn opinberra mála, fer rannsókn kynferðisbrotamála hjá lögreglu fram í sérstökum rannsóknardeildum eftirtalinna lögregluembætta:
     1.      lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir umdæmi hans,
     2.      lögreglustjórans á Akranesi fyrir umdæmi hans og lögreglustjóranna í Borgarnesi og í Stykkishólmi,
     3.      lögreglustjórans á Ísafirði fyrir umdæmi hans,
     4.      lögreglustjórans á Akureyri fyrir umdæmi hans og lögreglustjóranna á Blönduósi, Sauðárkróki og Húsavík,
     5.      lögreglustjórans á Eskifirði fyrir umdæmi hans og lögreglustjórans á Seyðisfirði,
     6.      lögreglustjórans á Selfossi fyrir umdæmi hans og lögreglustjóranna á Hvolsvelli og í Vestmannaeyjum,
     7.      lögreglustjórans á Suðurnesjum fyrir umdæmi hans.
    Svör lögregluumdæmanna við einstökum spurningum hafa verið flokkuð eftir rannsóknardeildum lögregluumdæmanna. Lögreglustjórarnir í Stykkishólmi, á Blönduósi, Sauðárkróki, Húsavík, Seyðisfirði, Hvolsvelli og í Vestmannaeyjum taka fram að öll kynferðisbrot í umdæmum þeirra séu rannsökuð hjá viðkomandi rannsóknardeild, sjá þó athugasemdir lögreglustjóranna í Vestmannaeyjum og á Blönduósi sem nánar er gerð grein fyrir í svörum hér á eftir.
    Það skal sérstaklega tekið fram vegna upplýsinga frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu að hjá því embætti var aðeins horft til tilvika þar sem grunur var um brot gegn barni eða börnum á árunum 2009–2011.

     1.      Hvað tekur langan tíma hjá lögreglu, greint eftir umdæmum, að hefja rannsókn þegar kæra kemur fram um kynferðisbrot, t.d. frá barnaverndarnefnd?

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu:
    Þegar kæra berst kynferðisbrotadeild til dæmis í formi bréfs frá barnavernd og rökstuddur grunur er kominn fram um ætlað kynferðisafbrot hefst rannsókn lögreglu. Upphaf rannsóknar markast oftast af kæruskýrslu, skýrslu brotaþola eða vitnis. Tafla 1 sýnir hlutfall brota þar sem grunur var um brot gegn barni sem tilkynnt voru til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á árunum 2009–2011. Fram kemur að í um það bil 70 prósent tilvika hefst rannsókn lögreglu ekki seinna en á öðrum degi frá því að upplýsingar um mál berast.

Tafla 1. Hlutfall kynferðisbrotamála gegn börnum eftir því hve langur tími leið
frá tilkynningu þar til rannsókn hófst.

2009
%
2010
%
2011
%
Samdægurs 43 52 58
1–2 dagar 28 17 12
3–6 dagar 25 13 15
Vika eða meira 5 17 15

Lögreglustjórinn á Akranesi:
    Rannsókn mála hjá lögreglu hefst samdægurs og kæra eða tilkynning er lögð fram. Forráðamenn barna eru kallaðir til ef um tilkynningu frá barnavernd er að ræða og afstaða þeirra til mála fengin. Ef um kærur foreldra eða brotaþola er að ræða hefst rannsókn með framlagningu kæru.

Lögreglustjórinn á Ísafirði:

    2009 – 1 dagur; 2010 – 1 dagur; 2011 – 4 dagar; 2012 – 1 dagur.

Lögreglustjórinn á Akureyri:

    Rannsókn lögreglu hefst strax. Í samræmi við fyrirmæli ríkissaksóknara njóta kynferðisbrot forgangs hjá rannsóknardeild lögreglunnar á Akureyri. Þegar brotaþolar eru fullorðnir hefst rannsókn strax. Rannsóknin hefst áður en brotaþoli gefur formlega skýrslu, ef lögreglu er tilkynnt um atburðinn, t.d. frá neyðarmóttöku. Rannsókninni er yfirleitt hætt ef brotaþolar lýsa ekki broti í skýrslu hjá lögreglu, nema sérstaklega standi á. Þegar um börn er að ræða hefjast þau mál yfirleitt á því að barnaverndarnefndir senda kæru til lögreglu eftir að hafa kannað málið með samtölum við barnið, foreldra eða aðra umsjónarmenn barnsins. Slíkar rannsóknir hefjast yfirleitt samdægurs, t.d. með yfirheyrslum yfir foreldri (umsjónaraðila).
    Lögreglustjórinn á Blönduósi tekur fram að almennt fari lögreglan á Akureyri með mál frá Blönduósi, þó hefur Blönduós rannsakað kynferðisbrotamál, eitt á árinu 2010 og annað á árinu 2011. Í báðum málum hófst rannsókn samdægurs.

Lögreglustjórinn á Eskifirði:

    Að jafnaði er þegar hafist handa við rannsókn mála þegar kæra berst. Í þeim tilvikum, sem erindi berast frá félagsmálayfirvöldum í tölvupóst á undan frumriti, er þegar hafinn undirbúningur rannsóknar, ef mögulegt reynist. Fyrstu aðgerðir fara eftir efni og umfangi. Gerð er rannsóknaráætlun í upphafi og síðan farið í aðgerðir sem geta verið allt frá handtökum til þess að taka skýrslur af vitnum og kærða ásamt því að afla ýmissa ótilgreindra gagna.
    Lögreglustjórinn á Seyðisfirði tekur fram að komi upp kynferðisbrot í umdæminu, það tilkynnt eða grunur vakni um slíkt, sé strax haft samband við lögreglufulltrúa í sérstakri rannsóknardeild lögreglustjórans á Eskifirði og hann upplýstur. Gögn séu send rafrænt og síðar með bréfpósti. Samvinna er milli embætta og hefur Seyðisfjörður aðstoðað Eskifjörð við rannsóknir ef álag er mikið.

Lögreglustjórinn á Selfossi:
    Hjá lögreglustjóranum á Selfossi hefst rannsókn strax í 73% tilvika, í 89% tilvika innan þriggja daga og í 95% tilvika innan tíu daga.
    Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum tekur fram að rannsókn hefjist strax og kæra berst.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum:
    Hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum er leitast við að það taki sem skemmstan tíma að hefja rannsókn þegar kæra kemur fram um kynferðisbrot. Yfirleitt er það gert samdægurs en í undantekningartilvikum innan örfárra daga.

     2.      Hvað tekur langan tíma fyrir lögreglu að óska eftir skýrslutöku af brotaþolanum fyrir dómi, greint eftir umdæmum?

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu:
    Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu tekur fram að við greiningu gagna var einungis horft til tilvika þar sem grunur lék á broti gegn barni eða börnum á árunum 2009–2011. Undanskilin voru þau tilvik þar sem ekki var talið að um raunverulegt brot hefði verið að ræða eða þau fyrnd.
    Eingöngu er óskað eftir skýrslutöku fyrir dómi ef brotaþoli er yngri en 15 ára. Eins og fram kemur í töflu 2 þá er í meira en helmingi tilvika óskað eftir skýrslutöku innan tveggja vikna frá skráningu máls. Hér eru ekki talin með þau tilvik þar sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu undirbýr og lætur framkvæma skýrslutökur af börnum fyrir dómi vegna rannsóknarbeiðna frá öðrum umdæmum. Slíkar beiðnir eru alltaf settar í forgang en um er að ræða fimm til tíu mál á ári hverju.


Tafla 2. Hlutfall kynferðisbrotamála gegn börnum eftir því hve langur tími leið
frá skráningu þar til skýrslutöku var óskað.

2009
%
2010
%
2011
%
Minna en vika 20 11 28
Minna en tvær vikur 35 56 22
Minna en mánuður 25 22 28
Meira en mánuður 20 11 22

Lögreglustjórinn á Akranesi:
    Venjulega er pantaður tími í Barnahúsi um leið og kæra kemur fram og dagsetning skýrslutöku ákveðin í samráði við viðkomandi dómstól sem er héraðsdómur Vesturlands í flestum tilvikum. Undanfarin ár hefur það verið gert samdægurs eða um leið og afstaða forráðamanna barns liggur fyrir.

Lögreglustjórinn á Ísafirði:

    Meðaltalstölur fyrir eftirtalin ár eru þessar: Á árinu 2009 tók það að meðaltali 7 daga að óska eftir skýrslutöku af brotaþola fyrir dómi, 3 daga að meðaltali á árinu 2010, 8 daga að meðaltali á árinu 2011 og 9 daga að meðaltali á árinu 2012.

Lögreglustjórinn á Akureyri:
    Yfirleitt líða ekki nema einn eða tveir dagar þar til beðið er um skýrslutöku af barninu fyrir dómi, þ.e. ef barnið er undir 15 ára aldri. Tíminn þar á milli er notaður til að afla upplýsinga og taka skýrslur af vitnum sem síðan eru notaðar þegar skýrslan er tekin af barninu fyrir dómi.

Lögreglustjórinn á Eskifirði:

    Að jafnaði er þegar haft samband við viðkomandi dómstól og upplýst um að beiðni verði lögð fram um skýrslutöku fyrir dómi. Í framhaldi er síðan rituð beiðni til dómsins, en tímalengd frá því mál berst til lögreglu þar til beiðnin er send dómnum tekur mið af þeim aðgerðum sem þarf að fara í áður en skýrslutakan fer fram. Er þar m.a. um að ræða skýrslutökur af vitnum, oft forráðamönnum, svo og fyrsta skýrslutaka af grunaða, ef vitað er hver hann er. Síðan er gengið frá tilnefningu verjanda og réttargæslumanns. Tíminn frá því að mál berst lögreglu þar til beiðni liggur fyrir hjá dómi er að jafnaði 3–10 dagar.

Lögreglustjórinn á Selfossi:
    Það tekur innan við einn dag að óska eftir skýrslutöku af brotaþola fyrir dómi.
    Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum tekur fram að vinna við að óska eftir skýrslutöku af brotaþola hefst yfirleitt strax og kæra hefur borist. Í einstaka tilvikum getur það þó tafist og þá vegna tafa á tilnefningu verjanda og réttargæslumanns.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum:
    Leitast er við að sem skemmstur tími líði frá því að lögreglu berst kæra og þar til óskað er eftir skýrslu af brotaþola sbr. a-lið 1. mgr. 59. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008. Venjan er sú að það sé gert samdægurs eða innan örfárra daga.

     3.      Hvað líður langur tími þar til dómurinn tekur skýrslu af brotaþolanum, greint eftir umdæmum?

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu:
    Eins og fram kemur í töflu 3 líða í flestum tilvikum innan við tvær vikur frá því að óskað er eftir skýrslutöku fyrir dómi og þar til skýrslutaka á sér stað.

Tafla 3. Hlutfall kynferðisbrotamála gegn börnum eftir því hve langur tími leið
frá ósk um skýrslutöku og þar til af henni varð.

2009
%
2010
%
2011
%
Minna en vika 25 25 11
Minna en tvær vikur 50 50 78
Minna en mánuður 25 25 11
Meira en mánuður 0 0 0


Lögreglustjórinn á Akranesi:

    Dómurinn tekur skýrslur af börnunum um leið og laus tími er í Barnahúsi og hann hefur tíma. Er það á bilinu frá 1–5 dagar frá því að beiðni er send dómnum. Biðtími fer eftir því hvort tími fæst í Barnahúsi eða hvað dómurinn telur hæfilegan frest og einnig fer það eftir því hvort foreldrar barna hafa tök á að færa barnið til skýrslutöku þegar það á við, þ.e. þegar börnin eru ekki flutt á vegum barnaverndarnefndar í Barnahús.

Lögreglustjórinn á Ísafirði:
    Meðaltalstölur fyrir eftirtalin ár eru þessar: Á árinu 2009 tók að meðaltali 3 daga að óska eftir skýrslutöku af brotaþola fyrir dómi, 5 daga árið 2010, 8 daga árið 2011 og 3 daga að meðaltali á árinu 2012.

Lögreglustjórinn á Akureyri:
    Lögreglustjórinn á Akureyri vísar til svars héraðsdóms Norðurlands eystra við þessari spurningu. Í svari héraðsdóms kemur fram að á árinu 2010 fóru fram 6 yfirheyrslur af börnum og ungmennum samkvæmt beiðni lögreglustjórans á Akureyri. Stystur tími frá því að beiðni lögreglustjóra barst héraðsdómi og þar til hún fór fram var 4 sólarhringar, en lengstur 28 sólarhringar. Meðaltalið var 13 sólarhringar. Á árinu 2011 fóru fram 4 yfirheyrslur. Stystur tími frá því að beiðni lögreglustjóra barst héraðsdómi og þar til yfirheyrslan fór fram var 4 sólarhringar, en lengstur 11 sólarhringar. Meðaltal 7,8 sólarhringar.
    Á árinu 2012, frá 1. janúar til 31. október, hafa farið fram 8 yfirheyrslur. Stystur tími frá því að beiðni lögreglustjóra barst héraðsdómi og þar til hún fór fram var 1 sólarhringur, en lengstur tími 16 sólarhringar. Meðaltalið var 6,8 sólarhringar.

Lögreglustjórinn á Eskifirði:
    Algengt er að skýrslutaka fyrir dómi fari fram 5–10 dögum eftir að beiðni berst dómnum. Rétt er að geta þess að í þessum landshluta þurfa aðilar ýmist að fara í Barnahús eða í héraðsdóm Reykjavíkur til skýrslutöku.

Lögreglustjórinn á Selfossi:
    Það líður að jafnaði um ein vika þar til dómurinn tekur skýrslu af brotaþolanum.
    Í svari lögreglustjórans í Vestmannaeyjum kemur fram að frá því beiðni um skýrslutöku fyrir dómi er send til héraðsdóms líður yfirleitt ein til tvær vikur þar til skýrslutaka fer fram.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum:
    Almennt líða örfáir dagar. Í þeim tilvikum þegar rannsóknarhagsmunir eru í húfi fer skýrslutaka fram samdægurs en annars geta liðið nokkrir dagar en þó yfirleitt aldrei meira en 5–7 virkir dagar.

     4.      Hvað tekur langan tíma þar til yfirheyrsla dómsins yfir brotaþola berst lögreglu þannig að hægt sé að vinna með hana, greint eftir umdæmum?

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu:
    Svara lögreglustjórans kemur fram í töflu 4.

Tafla 4. Hlutfall kynferðisbrotamála gegn börnum eftir því hve langur tími leið
frá skýrslutöku þar til endurrit var skráð í kerfi lögreglu.

2009
%
2010
%
2011
%
Minna en vika 55 38 33
Minna en tvær vikur 30 38 22
Minna en mánuður 10 12 22
Meira en mánuður 5 12 22

Lögreglustjórinn á Akranesi:
    Ekki þarf að bíða eftir að efni yfirheyrslu berist lögreglu. Undantekningarlaust er lögregla viðstödd skýrslutökur í Barnahúsi og fær afhenta myndupptöku af skýrslutöku strax að skýrslutöku lokinni þannig að innihald skýrslutöku er strax komið í hendur lögreglu. Ekkert hlé verður á rannsókn mála af þessum sökum. Endurrit berst lögreglunni á Akranesi innan tveggja daga frá upptöku, stundum innan sólarhrings ef sérstaklega stendur á.

Lögreglustjórinn á Ísafirði:
    Meðaltalstölur fyrir eftirtalin ár eru þessar: Á árinu 2009 tók það að meðaltali 13 daga uns yfirheyrsla dómsins yfir brotaþola barst lögreglu þannig að hægt væri að vinna með hana, 17 daga að meðaltali á árinu 2010, 46 daga að meðaltali á árinu 2011 og 17 daga að meðaltali á árinu 2012.

Lögreglustjórinn á Akureyri:
    Lögreglan og lögfræðingur frá ákærusviði er viðstaddur skýrslutöku af barninu. Lögreglan skrifar hjá sér athugasemdir um það helsta sem kemur fram í skýrslutökunni og lögreglan og lögfræðingurinn taka ákvörðun um framhaldið strax eftir skýrslutökuna. Að öðru leyti vísar lögreglustjórinn til bréfs héraðsdóms Norðurlands eystra með svari við ofangreindri spurningu þar sem segir:
    „Á árinu 2010 leið styst 1 sólarhringur frá því að skýrslutaka fór fram og þar til hún var send í vélrituðu endurriti og á myndbandsspólum til lögreglustjóra, en lengst 4 sólarhringar. Meðaltalið 1,5 sólarhringur. Á árinu 2011 leið styst 1 sólarhringur frá því að skýrslutaka fór fram og þar til hún var send í endurriti og á myndbandsspólu til lögreglustjóra, en lengst 3 sólarhringar. Meðaltal 2,3 sólarhringar. Á árinu 2012, 1. janúar til 31. október, var í eitt skipti vélritað endurrit ásamt myndbandsspólum sent samdægurs, en lengst liðu 6 sólarhringar. Meðaltal 2,6 sólarhringar. Heildarmálsmeðferðartíminn hjá Héraðsdómi Norðurlands eystra á Akureyri vegna ofangreindra mála, þ.e. frá því að beiðni barst um yfirheyrslu og þar til vélritað endurrit og gögn voru send lögreglustjóra, var á árinu 2010 að meðaltali 14,7 sólarhringar. Á árinu 2011 var málsmeðferðartíminn að meðaltali 10 sólarhringar og á árinu 2012 var hann 9,1 sólarhringur.“

Lögreglustjórinn á Eskifirði:
    Að skýrslutöku lokinni er lögreglu afhent eintak af framburði, þ.e.a.s. í hljóði og mynd. Lögreglan lætur síðan rita hann upp orðrétt eða annast það sjálf. Það líða því á bilinu 2-8 dagar frá því að skýrslutaka fer fram þar til endurrit liggur fyrir.

Lögreglustjórinn á Selfossi:
    Það tekur engan tíma þar til yfirheyrsla dómsins yfir brotaþola berst lögreglu þannig að hægt sé að vinna með hana. Rannsóknarlögreglumaður er alltaf viðstaddur yfirheyrslu og tekur með sér upptöku af yfirheyrslu að henni lokinni.
    Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum tekur fram að eftir að skýrslutöku fyrir dómi lýkur fær lögreglan strax í hendur afrit af skýrslutökunni og þá strax er byrjað að vinna með gögnin.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum:
    Yfirheyrslur í Barnahúsi berast lögreglu samdægurs þannig að sama dag er unnt að vinna með þau gögn.

     5.      Hvað tekur rannsókn kynferðisbrota að jafnaði langan tíma hjá lögreglu, þ.e. frá því að kæra berst og þar til ákærusvið viðkomandi lögreglustjóraembættis fær málið til afgreiðslu? Óskað er eftir upplýsingum um árin 2009, 2010 og 2011, greint eftir umdæmum.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu:
    Sum mál fara ekki áfram til ákærusviðs þar sem rannsókn er hætt m.a. vegna þess að viðkomandi ákveður að kæra ekki brot eða ef í ljós kemur að ekki var um brot á lögum að ræða. Tafla 5 sýnir rannsóknartíma mála sem fóru áfram til afgreiðslu ákærusviðs embættisins, þ.e. þeirra mála þar sem grunur var um brot gegn barni, á árunum 2009–2011. Fram kemur að í kringum 40% mála eru innan við þrjá mánuði til rannsóknar og um 70 prósent mála eru innan við hálft ár til rannsóknar.
    Hér eru ekki talin með þau tilvik þar sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu framkvæmir ýmsar rannsóknaraðgerðir í tengslum við rannsókn ætlaðra brota gegn börnum fyrir önnur umdæmi. Slíkar beiðnir eru alltaf settar í forgang en um er að ræða fimm til tíu mál á ári hverju.

     Tafla 5. Hlutfall kynferðisbrotamála gegn börnum eftir málsmeðferðartíma
hjá ákærusviði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

2009
%
2010
%
2011
%
0–45 dagar 16 20 9
46–60 dagar 10 7 6
61–90 dagar 10 13 18
91-180 dagar 32 27 44
Meira en 180 dagar 32 33 24

Lögreglustjórinn á Akranesi:
    Á árunum 2009–2012 var málsmeðferðartími 49% kynferðisbrota innan við 60 dagar hjá lögreglu, 27% innan við 90 dagar og í 24% tilfella varð málsmeðferðartími lengri. Oft var þá um að ræða mál sem voru flókin eða umfangsmikil í rannsókn eða að tafir urðu á afgreiðslu vegna þess að gagna frá utanaðkomandi sérfræðingum var beðið. Gögnin sem um ræðir voru svo dæmi séu tekin skýrslur sálfræðinga, geðlækna og annarra aðila.

Tafla 6: Málsmeðferðartími hjá lögreglustjóranum á Akranesi í kynferðisbrotamálum gegn börnum.

Meðferðartími: Fjöldi mála:
2009 Minna en 60 dagar 4 57%
60–90 dagar 2 29%
Meira en 90 dagar 1 14%
2010 Minna en 60 dagar 8 67%
60–90 dagar 3 25%
Meira en 90 dagar 1 8%
2011 Minna en 60 dagar 1 11%
60–90 dagar 3 33%
Meira en 90 dagar 5 56%

Lögreglustjórinn á Ísafirði:
    Meðaltalstölur fyrir eftirtalin ár eru þessar: Á árinu 2009 tók rannsókn kynferðisbrota hjá lögreglu, þ.e. frá því að kæra barst og þar til ákærusvið viðkomandi lögreglustjóraembættis fékk málið til afgreiðslu, að meðaltali 112 daga, 189 daga að meðaltali á árinu 2010, 290 daga að meðaltali á árinu 2011 og 173 daga að meðaltali á árinu 2012. Lögreglustjórinn tekur fram að rannsóknartími lögreglu sé misjafnlega langur en rétt er að hafa í huga að töluverð bið er oft eftir nauðsynlegum vottorðum, s.s. vottorðum frá sálfræðingum sem taka meðferðarviðtöl við brotaþola eftir að dómsyfirheyrslan hefur farið fram. Þessi gögn þykja skipta miklu varðandi sönnunarbyrði. Meðferðarviðtölin eru gerð með nokkurra vikna og jafnvel mánaða millibili. Það er rétt að geta þess að í ríkari mæli hefur lögregla lagt hald á tölvu- og fjarskiptabúnað sem rannsakaður er hjá tölvurannsókna- og rafeindadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Oftar en ekki hafi fundist sönnunargögn við leit í slíkum gögnum. Þessi vinna tekur yfirleitt nokkrar vikur.

Lögreglustjórinn á Akureyri:
    Af 104 málum sem hafa verið rannsökuð á árunum 2009–2012 hefur rannsókn 51 máls tekið minna en 60 daga. Rannsókn 17 mála hefur tekið 60–90 daga en rannsókn 29 mála lengri tíma en 90 daga. Þá eru 7 mál enn í rannsókn. Lögreglustjórinn tekur fram að í upplýsingum um málsmeðferðartímann eru teknar með tölur frá árinu 2012 en að það skekki ekki á neinn hátt niðurstöðuna. Með svari lögreglustjórans eru sendar tölulegar upplýsingar sem rannsóknardeild lögreglunnar á Akureyri útbjó um rannsóknir sínar á kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga.

Tafla 7: Málsmeðferðartími hjá lögreglustjóranum á Akureyri í kynferðisbrotamálum gegn börnum .

Meðferðartími styttri en 60 dagar 51 49%
Meðferðartími 60–90 dagar 17 16%
Meðferðartími lengri en 90 dagar 29 28%
Mál í rannsókn 7 7%
Mál til meðferðar alls 2009–30.10.2012 104 100%

    Lögreglustjórinn á Blönduósi tekur fram að í þeim tveimur málum sem rannsökuð voru á vegum embættis hans hafi rannsókn fyrra málsins á árinu 2010 tekið 119 daga, mál hófst 02.12.2010 og rannsókn lauk 31.03.2011. Í síðara málinu á árinu 2011 tók rannsóknin 86 daga, mál hófst 16.07.2011 og rannsókn lauk 12.10.2011).

Lögreglustjórinn á Eskifirði:
    Meðalmálsmeðferðartími hjá rannsóknardeild, þ.e. frá tilkynningu brots til lögreglu þar til rannsókn er lokið og málið sent ákærusviði embættis, er eftirfarandi:
    Árið 2009 (fjögur mál) 59,7 dagar, árið 2010 (fimm mál) 91 dagur, árið 2011 (átta mál) 80,4 dagar. Rétt er að geta þess að árin 2010 og 2011 er eitt mál hvort ár sem verulega lengir meðaltalstímann.

Lögreglustjórinn á Selfossi:
    Árið 2009 var meðalmálshraði 140 dagar, 2010 var meðalmálshraði 209 dagar og árið 2011 var hann 201 dagur.
    Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum tekur fram að meðaltalslengd rannsókna er u.þ.b. átta mánuðir eða allt frá einum mánuði upp í 20 mánuði á tímabilinu 2009–2011. Í tólf málum tók rannsókn skemur en sex mánuði, í 15 málum tók rannsókn sex mánuði til tólf mánuði og í 13 málum lengur en eitt ár.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum:
    Á árinu 2009 tók rannsókn hvers máls að meðaltali 50,4 daga í rannsókn og á árinu 2010 að meðaltali 77,9 daga í rannsókn. Þó er rétt að geta þess að á árinu 2010 komu upp tvö mál til rannsóknar sem reyndust mjög tímafrek og höfðu mikil áhrif á meðalrannsóknartíma á því ári. Á árinu 2011 tók rannsókn hvers máls að meðaltali 100,5 daga. Rétt er að geta þess að á árinu 2011 komu upp fjögur mál, þ.e. þrjú á hendur sama aðila, sem reyndust mjög tímafrek og höfðu mikil áhrif á meðalrannsóknartíma á því ári.

     6.      Hvað er ákærusvið viðkomandi embættis lengi að afgreiða málin, annaðhvort með því að hætta rannsókn eða senda málið áfram til ríkissaksóknara, miðað við framangreind ár, greint eftir umdæmum?

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu:
    Svar lögreglustjórans kemur fram í töflu 8.

Tafla 8. Tími sem fór til ákvörðunar hjá ákærusviði í kynferðisbrotamálum gegn börnum.

2009
%
2010
%
2011
%
0–7 dagar 58 38 29
8–14 dagar 10 0 10
15–30 dagar 13 38 26
30–60 dagar 10 8 23
Meira en 60 dagar 10 15 13

Lögreglustjórinn á Akranesi:
    Afgreiðslutími hjá ákærusviði embættisins hefur á undaförnum þremur árum 2009–2012 verið einn til sjö dagar að jafnaði áður en tekin er ákvörðun um hvort rannsókn verði hætt eða málið sent til ríkissaksóknara.

Lögreglustjórinn á Ísafirði:
    Meðaltalstölur fyrir eftirtalin ár eru þessar: Á árinu 2009 var afgreiðslutími hjá ákærusviði embættisins 4 dagar, á árinu 2010 að meðaltali 14 dagar, að meðaltali 6 dagar á árinu 2011 og 7 dagar að meðaltali á árinu 2012.

Lögreglustjórinn á Akureyri:
    Í tölum rannsóknardeildar lögreglunnar á Akureyri um málsmeðferðartíma eru mál sem lögreglan á Akureyri hefur komið að en þar sem stjórn rannsóknar er í höndum annars embættis. Þau mál eru þá send því embætti að lokinni rannsókn á Akureyri og embættið sem tekur við málinu afgreiðir það. Þar af leiðandi getur verið smávægilegt misræmi milli talna um afgreidd mál hjá ákærusviði og lögreglu, þar sem bara er spurt um hve langan tíma tekur að senda mál til ríkissaksóknara eða hætta rannsókn.
    Á árinu 2009 voru 14 mál send ríkissaksóknara. Af þeim voru fjögur send sama dag og þau komu til ákærusviðs, sjö voru send á 1. til 5. degi og tvö má voru send á 10. til 11. degi. Mál sem hætt var rannsókn í voru þrjú og þau voru afgreidd á 1., 4. og 10. degi.
    Á árinu 2010 voru 30 mál send til ríkissaksóknara, fimm send sama dag og þau komu, sautján voru send á 1. til 5. degi, fjögur mál voru send á 6. til 7. degi og eitt mál var sent á 20. degi. Af málum sem hætt var rannsókn í voru þrjú afgreidd á 1. til 3. degi. Hin voru afgreidd á 14. degi, 29. degi og 35. degi.
    Á árinu 2011 voru 14 mál send til ríkissaksóknara. Að þeim voru tvö mál send sama dag og þau komu, sjö voru send á 1. til 5. degi, tvö voru send á 6. degi, eitt mál var sent á 10. degi og annað á 20. degi. Á þessu ári var rannsókn hætt í 14 málum, fimm voru afgreidd samdægurs eða á 5. degi, sjö voru afgreidd á 6.–10. degi og hin voru afgreidd á 14. og 30. degi.
    Lögreglustjórinn á Blönduósi tekur fram að í því kynferðisbrotamáli, sem kom til kasta embættisins á árinu 2010, tók það ákærusvið embættisins 12 daga að senda málið til ríkissaksóknara en í málinu sem kom til kasta embættisins á árinu 2011 tók það ákærusvið embættisins 45 daga að senda málið til ríkissaksóknara.

Lögreglustjórinn á Eskifirði:
    Meðalákvörðunartími ákærusvið embættisins er eftirfarandi: Árið 2009 5,5 dagar, árið 2010 7,8 dagar og árið 2011 7,8 dagar.

Lögreglustjórinns á Selfossi:
    Árið 2009 tók afgreiðsla hjá ákærusviði að meðaltali 16 daga, 22 daga á árinu 2010 og 16,5 daga að meðaltali á árinu 2011.
    Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum tekur fram að rannsóknardeildin við embætti lögreglustjórans á Selfossi annist mál er varði brot sem framin eru í umdæmi Vestmannaeyja. Verklagsreglan hefur verið þannig að þegar kæra berst lögreglunni í Vestmannaeyjum þá er lögreglustjórinn á Selfossi látinn vita og rannsókn hefst þá strax í samvinnu beggja embætta, en undir stjórn lögreglustjórans á Selfossi. Frumrannsóknin eigi sér yfirleitt stað í umdæmi Vestmannaeyja en sé svo send til lögreglunnar á Selfossi í samráði við þá.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum:
    Hvert mál var að meðaltali 14,9 daga í afgreiðslu hjá lögfræðisviði árið 2009, 8,5 daga árið 2010 og 15 daga í afgreiðslu hjá lögfræðisviði að meðaltali árið 2011.

     7.      Í hve mörgum tilvikum á framangreindum árum hefur ríkissaksóknari snúið við ákvörðun lögregluembættis um að hætta rannsókn kynferðisbrota, greint eftir umdæmum?
    Svar ríkissaksóknara kemur fram í töflu 9.

Tafla 9. Fjöldi mála þar sem ríkissaksóknari hefur snúið við ákvörðun
lögregluembættis um að hætta rannsókn kynferðisbrota
.

2009 Alls 8 mál Embætti
LRH
Ákvörðun staðfest 6
Ákvörðun felld úr gildi 2
2010 Alls 7 mál Embætti
LRH Akureyri
Ákvörðun staðfest 2 1
Ákvörðun felld úr gildi 3 1
2011 Alls 7 mál Embætti
LRH Akranes Suðurnes
Ákvörðun staðfest 3 0 1
Ákvörðun felld úr gildi 2 1 0

     8.      Hve mörg mál hefur ríkissaksóknari endursent lögregluembættum á framangreindum árum til frekari rannsóknar? Hve lengi hefur sú viðbótarrannsókn staðið og hver hefur niðurstaða ríkissaksóknara verið í málunum, greint eftir umdæmum?
    Svar ríkissaksóknara kemur fram í töflu 10.

Tafla 10. Fjöldi mála sem ríkissaksóknari hefur endursent lögregluembættum
og niðurstaða í þeim eftir viðbótarrannsókn.

2009
    Endursend mál alls 25:
LRH Suðurnes Akranes Vestfirðir Akureyri Selfoss
Endursent 2 2 1 2 6 12
Dagafjöldi 19–27 76–140 123 13–50 20–401 28–98
Meðaltal 23 108 31 111 60
    Niðurstaða ríkissaksóknara:
Ákært 1 1 1 4 9
Fellt niður 1 1 2 2 3
2010
    Endursend mál alls 36:
LRH Suðurnes Akranes Vestfirðir Akureyri Eskifjörður Selfoss
Endursent 10 3 5 2 9 1 6
Dagafjöldi 16–199 11–451 22–122 63–99 12–384 7 51–324
Meðaltal 61 160 64 81 127 172
    Niðurstaða ríkissaksóknara:
Ákært 6 1 4 1 5 4
Fellt niður 4 1 1 1 4 1 1
Skilorðsb. ákærufrestun 1 1
2011
    Endursend mál alls 17:
LRH Akranes Vestfirðir Akureyri Selfoss
Endursent 2 3 3 5 4
Dagafjöldi 54–66 10–97 48–141 25–242 11–32
Meðaltal 60 41 79 116 27
    Niðurstaða ríkissaksóknara:
Ákært 2 1 1 1
Fellt niður 1 2
Fallið frá saksókn 1
Óafgreitt 1 1 2 1 3