Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 151. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 758  —  151. mál.

2. umræða.


Nefndarálitum frumvarp til laga um sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.


Frá minni hluta fjárlaganefndar.    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ráðherra fái heimild til að selja að öllu leyti eða að hluta eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum að fengnum tillögum frá Bankasýslu ríkisins. Um er að ræða eignarhlut ríkisins í Arion banka hf., Íslandsbanka hf., eignarhlut ríkisins í Landsbankanum hf. umfram 70% hlut ríkisins af heildarhlutafé bankans og eignarhlut ríkisins í sparisjóðum.
    Ríkisstjórnin hefur lagt fram svokallaða fjárfestingaáætlun sem minni hlutinn hefur fjallað um í nefndaráliti sínu um fjárlagafrumvarp 2013. Ætlunin er meðal annars að fjármagna þá útgjaldaáætlun með söluandvirði af eign ríkissjóðs í bönkum og sparisjóðum. Minni hlutinn telur að verja ætti andvirðinu til niðurgreiðslu skulda í stað þess að fjármagna hallarekstur ríkisins og slaka á í aðhaldi með ríkisfjármálum eins og ætlunin virðist miðað við tillögur meiri hlutans í fjárlagafrumvarpinu.
    Við meðferð frumvarpsins hjá fjárlaganefnd kom ekki fram að fjármálaráðuneytið hefði notið ráðgjafar um heppilega tímasetningu sölunnar. Það er mat minni hlutans að fara þurfi varlega í að selja hlutinn fyrr en almennt er talið að sölutíminn sé heppilegur. Að mati minni hlutans hefði verið æskilegt að setja á fót faglega ráðgjafarnefnd til að móta reglur um söluferlið og fylgja sölunni eftir með það að meginmarkmiði að hámarka virði eignarhlutanna. Nú er um of treyst á ráðgjöf innan fjármálaráðuneytisins og frá Bankasýslunni.
    Í 2. gr. frumvarpsins kemur fram að þegar ráðherra hafi fallist á tillögu Bankasýslu ríkisins um sölu eignarhlutar ríkisins í fjármálafyrirtæki skuli hann útbúa greinargerð um ráðgerða sölumeðferð og leggja fyrir fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis. Að mati minni hlutans þyrfti slík greinargerð að vera fylgirit með frumvarpinu. Minnt er á að þegar bankarnir voru seldir á sínum tíma lágu fyrir reglur um með hvaða hætti selja átti og til dæmis var hætt við sölu Búnaðarbankans á tímabili þar sem ekki var talið að væntanlegt söluverð væri nógu hátt. Þá liggur ekki fyrir með skýrum hætti hverjir eru núverandi eigendur Arion banka hf. og Íslandsbanka hf. og því ekki með öllu ljóst hvaða áhrif samsetning eigendahópsins kann að hafa. Gera þarf kröfur um að kaupandinn hafi flekklausan feril og geti staðið að baki bankanum þurfi hann á því að halda. Einnig þarf að huga að þeim áhrifum sem salan hefur á erlenda stöðu þjóðarbúsins, gengi krónunnar og gjaldeyrisforða.

Alþingi, 18. desember 2012.Kristján Þór Júlíusson,


frsm.


Ásbjörn Óttarsson.


Ragnheiður Ríkharðsdóttir.