Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 422. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 762  —  422. mál.




Svar



fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Sigurðar Inga Jóhannssonar
um opinber innkaup og Ríkiskaup.


     1.      Hvaða úrræðum getur Ríkiskaup beitt gegn þeim ríkisstofnunum sem virða ekki rammasamninga?
    Allar ríkisstofnanir eru sjálfkrafa aðilar að rammasamningum ríkisins og er kaupanda óheimilt að bjóða út innkaup eða kaupa inn með öðrum hætti ef rammasamningur tekur til viðkomandi innkaupa og honum hefur ekki verið sagt upp eða rift. Kaupandi sem ekki vill vera bundinn af rammasamningi verður að segja sig frá rammasamningi áður en hann getur keypt inn sjálfstætt. Ríkisstofnanir geta, ef um sérstakar þarfir er að ræða, sagt sig frá einstökum rammasamningum. Skv. 38. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, ber forstöðumaður ábyrgð á að stofnun sem hann stýrir starfi í samræmi við lög. Ríkiskaup hafa skyldum að gegna vegna samningsstjórnunar bæði hvað varðar stofnanir (kaupendur) og ekki síður vegna söluaðila sem samningar eru gerðir við. Hér er þó ekki um lögbundna eftirlitsskyldu að ræða. Úrræði Ríkiskaupa felast í almennri fræðslu, sérstaklega gagnvart þeim stofnunum sem virða ekki rammasamninga.

     2.      Hafa ríkisstofnanir sagt sig frá rammasamningum Ríkiskaupa? Ef svo er, hversu margar og á hvaða forsendum?
    Samkvæmt upplýsingum frá Ríkiskaupum hafa sex stofnanir sagt sig frá fjórum rammasamningum að hluta eða í heild. Ástæða úrsagnar er annaðhvort sérstaða viðkomandi stofnunar eða að viðkomandi stofnun hafi fyrir gerð rammasamningsins boðið út eða gert samninga um viðkomandi vöru eða þjónustu.

     3.      Hafa ríkisstofnanir, fyrir utan Ríkiskaup, tekið að sér útboð fyrir einstakar stofnanir?
    Fyrir utan Ríkiskaup geta aðeins þær stofnanir sem hafa framkvæmdaleyfi skv. 3. mgr. 17. gr. laga nr. 84/2001, um skipan opinberra framkvæmda, séð um eigin útboð. Vegagerðin og Siglingastofnun hafa slíkt leyfi.

     4.      Er heimilt samkvæmt lögum um opinber innkaup að stofna sérstök innkaupasambönd innan ráðuneyta?
    Samkvæmt 85. gr. laga um opinber innkaup er Ríkiskaup miðlæg innkaupastofnun ríkisins og sér um innkaup fyrir ríkisstofnanir. Sérstök innkaupasambönd innan ráðuneyta geta ekki tekið þetta hlutverk að sér. Rammasamningar Ríkiskaupa eru dæmi um algengt form samræmdra innkaupa á vöru og þjónustu.

     5.      Er verið að færa útboðsmál úr höndum Ríkiskaupa yfir til stofnana?
    Nei. Hlutverk Ríkiskaupa er skýrt í 85. gr. laga um opinber innkaup, nr. 84/2007.

     6.      Hver er stefna ráðherra í þessum málum?
    Í lögum um opinber innkaup, nr. 84/2007, er lögð áhersla á að tryggja jafnræði fyrirtækja við opinber innkaup og stuðla að hagkvæmni í opinberum rekstri með virkri samkeppni við opinber innkaup. Ríkiskaupum er sérstaklega ætlað að beita sér í þessum efnum en skv. 85. gr. laganna skal á vegum ríkisins vera rekin miðlæg innkaupastofnun. Stofnunin skal annast innkaup fyrir ríkisstofnanir og ríkisfyrirtæki, rannsaka sameiginlegar þarfir á vörum og þjónustu og beita sér fyrir samræmdum innkaupum til þarfa ríkisins. Einnig skal stofnunin láta í té aðstoð og leiðbeiningar um útboð og innkaup eftir því sem þörf krefur. Engar breytingar eru fyrirhugaðar á þessari stefnumörkun hvað varðar hlutverk Ríkiskaupa í innkaupum hjá ríkinu. Ríkiskaup skulu annast innkaup fyrir ríkisstofnanir.