Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 110. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 773  —  110. mál.

3. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu



um frumvarp til laga um breytingu á lögum um bókmenntasjóð og fleira,
nr. 91/2007 (Miðstöð íslenskra bókmennta).


Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Málinu var vísað til nefndarinnar á milli 2. og 3. umræðu. Nefndin ræddi sérstaklega þær athugasemdir sem bárust frá Bandalagi íslenskra listamanna.
    Í frumvarpinu er lagt til að heiti laganna verði lög um stuðning við íslenskar bókmenntir þar sem lögin eru um fjárhagslegan stuðning við íslenska bókaútgáfu og stuðning við að koma íslenskum bókmenntum á framfæri. Nefndin telur eðlilegra að heiti laganna verði lög um bókmenntir þar sem bókmenntasjóði er í frumvarpinu einnig ætlað að styðja við útgáfu vandaðra erlendra bókmennta. Það yrði í samræmi við kvikmyndalög, nr. 137/2001, og myndlistarlög, nr. 64/2012. Leggur nefndin til breytingu þessu að lútandi.
    Fram kemur í umsögn Bandalags íslenskra listamanna að í ljósi þess hversu umfangsmikið hlutverk Miðstöðvar íslenskra bókmennta verður samkvæmt frumvarpinu sé mikilvægt að fjárveitingum til miðstöðvarinnar verði skipt upp á tvo fjárlagaliði, til samræmis við Kvikmyndamiðstöð og Kvikmyndasjóð. Með þessum breytingum væri fjárveitingarvaldinu falin ábyrgðin á því hversu háar fjárhæðir væru ætlaðar til að styrkja höfunda, þýðendur og útgefendur, og stjórn miðstöðvarinnar og sjóðsins væri þá meðvituð um hvað væri ætlað til annarra verkefna miðstöðvarinnar. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið og leggur til breytingu á e-lið 1. gr. frumvarpsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



     1.      Við e-lið 1. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Fjárveitingar, sbr. 2. gr., skulu sérgreindar í fjárlögum hverju sinni.
     2.      4. gr. orðist svo:
                  Heiti laganna verður: Lög um bókmenntir.

    Þráinn Bertelsson og Birgitta Jónsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 19. desember 2012.



Björgvin G. Sigurðsson,


form.


Skúli Helgason,


frsm.


Sigmundur Ernir Rúnarsson.



Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.


Tryggvi Þór Herbertsson.


Þorgerður K. Gunnarsdóttir.



Siv Friðleifsdóttir.