Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 101. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 792  —  101. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu



um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld (breytingar er varða framkvæmd o.fl.).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingibjörgu Helgu Helgadóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Ingvar Rögnvaldsson og Guðrúnu Jenný Jónsdóttur frá ríkisskattstjóra, Svandísi Sigmarsdóttur frá umboðsmanni skuldara, Jónu Björk Guðnadóttur frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Magnús Ásgeirsson frá Kauphöll Íslands og Harald Inga Birgisson frá Viðskiptaráði Íslands. Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá Kauphöll Íslands, ríkisskattstjóra, Samtökum fjármálafyrirtækja, Seðlabanka Íslands og Viðskiptaráði Íslands.

Efni frumvarpsins.
    Frumvarp þetta er endurflutt en það var lagt fram á síðasta þingi og varð þá ekki útrætt. Ákvæði frumvarpsins eru að mestu óbreytt að því undanskildu að ákvæði 10. gr. sem í fyrra frumvarpi varðaði breytingu á lögum um umhverfis- og auðlindaskatta hefur verið fellt út og í stað þess sett ákvæði um breytingu á lögum um gjald af áfengi og tóbaki.
    Í frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á ákvæðum skattalaga. Í 1. gr. er lögð til breyting á B-lið 68. gr. tekjuskattslaga á þá leið að við ákvörðun vaxtabóta skuli farið eftir þeim reglum sem um hjón gilda þegar einungis annað hjóna er skattskylt hér á landi og upplýsingar liggja fyrir um tekjur beggja. Í 2. gr. er lögð til breyting sem tengist skuldbindingum Íslands samkvæmt EES-rétti og felur í sér að menn sem bera takmarkaða skattskyldu hér á landi í skilningi 5. tölul. 1. mgr. 3. gr. og 5. tölul. 70. gr. tekjuskattslaga verður heimilt að draga frá leigutekjum af íbúðarhúsnæði hér á landi leigugreiðslur erlendis í samræmi við 3. mgr. 30. gr. laganna. Í 3. gr. er lögð til breyting á ákvæði til bráðabirgða XL í tekjuskattslögum sem varðar skattaleg áhrif dóms Hæstaréttar frá 15. febrúar sl., í máli nr. 600/2011, um endurreikning gengistryggðra húsnæðis- og bílalána. Markmið breytingarinnar er að girða fyrir skattaleg áhrif dómsins og að ekki komi til endurákvörðunar á vaxtabótum af þessum sökum vegna áranna 2012 og 2013 nema skattaðili fari fram á endurákvörðun þeirra skv. 2. mgr. 101. gr. tekjuskattslaga. Í 4. gr. er lögð til lagfæring á lagatilvísunum sem fram koma í ákvæði til bráðabirgða L í tekjuskattslögum en þar er mælt fyrir um fyrirframgreiðslu sérstaks fjársýsluskatts sem lagður er á skv. 2. og 3. málsl. 3. mgr. 71. gr. laganna.
    Í 5. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 7. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda þar sem kveðið er skýrt á um skyldu milligönguaðila til að halda eftir staðgreiðslu. Breytingin er lögð til í ljósi úrskurðar yfirskattanefndar, í máli nr. 138/2010, þar sem kröfu skattyfirvalda um staðgreiðsluskil viðskiptabanka vegna milligöngu um sölu á hlutabréfum erlends aðila í íslensku félagi var talin skorta lagastoð.
    Í 6. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 9. gr. laga um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur sem felur í sér að skilaskyldum aðilum samkvæmt lögunum verði skylt að láta sundurliðun fylgja skilagreinum frá og með 1. janúar 2013 með sama hætti og kveðið er á um í 20. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda.
    Í 7. og 8. gr. frumvarpsins er lagt til að dagsetningu gjalddaga tryggingagjalds vegna lögaðila verði breytt í 1. nóvember í stað 1. ágúst ár hvert.
    Í 9. gr. frumvarpsins er lagt til að felld verði brott skylda ríkisskattstjóra til að gera erfingjum og eftir atvikum skiptastjóra viðvart um að yfirferð hans yfir erfðafjárskýrslu sé lokið. Af athugasemdum við greinina má ráða að skattyfirvöld álíti slíkar tilkynningar með öllu óþarfar.
    Í 10. gr. frumvarpsins er lagt til að tóbaksgjald verði einungis lagt á vörur sem innihalda tóbak og falla undir 24. kafla viðauka I við tollalög. Yfirlýst markmið þessarar breytingar er að koma í veg fyrir að vörur sem svipar til tóbaks í útliti án þess að innihalda tóbak falli undir gjaldtökuna eins og dæmi eru um.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Samtök fjármálafyrirtækja, Viðskiptaráð og Kauphöllin gerðu athugasemdir við 5. gr. frumvarpsins og telja að ákvæðið leggi íþyngjandi kvaðir á þá aðila sem annast milligöngu um hlutabréfaviðskipti. Telja þessir umsagnaraðilar að ákvæðið sé illframkvæmanlegt og ósanngjarnt þar sem umræddir milligönguaðilar hafi sjaldnast fullnægjandi forsendur til þess að ákvarða rétt staðgreiðsluskil nema þeir búi yfir vitneskju um stofnverð bréfa í hendi seljanda. Við umfjöllun málsins á síðasta löggjafarþingi komu einnig fram sjónarmið um að ákvæðið væri í ósamræmi við frádráttarheimildir skattalaga, sbr. 9. tölul. a 31. gr. tekjuskattslaga, og ákvæði tvísköttunarsamninga sem almennt gerir ráð fyrir því að hagnaður af sölu hlutabréfa sé skattlagður í því ríki þar sem seljandi hefur heimilisfesti.
    Í svari fjármála- og efnahagsráðuneytisins við fram komnum athugasemdum kemur fram að söluhagnaðar af hlutabréfum sé staðgreiðsluskyldur í tilviki erlendra aðila en ekki innlendra þar sem hinir síðarnefndu gera upp við álagningu. Er talið að ákvæði 5. gr. sé forsenda þess að skattlagning söluhagnaðar hlutabréfa hjá aðilum sem bera takmarkaða skattskyldur hér á landi skv. 7. tölul. 3. gr. nái fram að ganga. Fjármála- og efnahagsráðuneytið fellst því hvorki á að ákvæði tekjuskattslaga né alþjóðlegar skuldbindingar standi breytingunni í vegi þar sem henni er ætlað að tryggja skilvirka skattheimtu enda þótt milligönguaðilar þurfi í einhverjum tilvikum að kalla eftir upplýsingum frá seljanda um stofnverð bréfa.
    Ráðuneytið telur með hliðsjón af stöðu íslensks hlutabréfamarkaðar nú um stundir að ákvæði 5. gr. frumvarpsins eigi ekki að leiða til umfangsmikilla breytinga á tölvukerfum og verkferlum og tekur því ekki undir óskir Samtaka fjármálafyrirtækja sem óskað hafa eftir að fresta gildistöku 5. gr. fram til haustsins 2013.
    Fram kom á fundum nefndarinnar að 1. gr. frumvarpsins fæli í sér að við útreikning vaxtabóta sé miðað við allar fjárhæðir eins og um hjón sé að ræða sem bæði eru skattskyld hér á landi og eiga rétt til vaxtabóta hér á landi. Tekið er þannig tillit til tekna beggja hjóna við skerðingu vaxtabóta. Þegar þannig útreiknaðar vaxtabætur hafa verið reiknaðar fær það hjóna sem ber ótakmarkaða skattskyldu hér á landi helming reiknaðra vaxtabóta. Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hefur hingað til ekki verið tekið tillit til tekna makans sem er erlendis þegar skerðing vaxtabóta hefur verið reiknuð út, þ.e. grunnfjárhæðir við útreikning vaxtabóta hafa miðast við hjón og útreiknaðar vaxtabætur skertar í samræmi við tekjur þess hjóna sem hér er skattskylt – en ekki skert um tekjur þess sem er erlendis. Helmingur þannig útreiknaðra vaxtabóta hefur svo komið í hlut þess hjóna sem er skattskylt hér á landi.
    Innan nefndarinnar komu fram sjónarmið um mikilvægi þess að skattyfirvöld fylgdust með því hvort rétthafar vaxtabóta hér á landi væru þiggjendur sams konar ívilnana erlendis þar sem um meðferð opinberra fjármuna væri að ræða.
    Í tengslum við 3. gr. frumvarpsins telja sumir í ljósi þeirra viðmiða við endurútreikning gengistryggðra lána sem lögð hafa verið til grundvallar í Hæstaréttardómi, sbr. mál nr. 600/ 2012 og nú síðast mál nr. 464/2011, að óeðlilegt sé með tilliti til jafnræðis að skuldarar umræddra samninga þurfi ekki að standa ríkinu skil á vaxtabótum sem ákvarðaðar hafa verið á grundvelli hinna ólögmætu vaxtakjara. Á móti vegur sjónarmið um að óeðlilegt geti talist með tilliti til jafnræðis lántaka sem undir þessa dóma falla að láta aðra reglu gilda þegar endurútreikningur og þar með inneignarvextir eru ákvarðaðir á árunum 2012 og 2013 en gilt hefur vegna inneignarvaxta sem ákvarðaðir hafa verið vegna þessa á árunum 2010 og 2011. Hafa verði í huga að framkvæmd endurútreiknings af hálfu þeirra sem veittu hin ólögmætu gildistryggðu lán er ekki enn lokið og óvíst hvenær honum líkur.
    Nefndin hefur án árangurs reynt að útvega upplýsingar um hvert umfang mögulegra endurgreiðslna ríkissjóðs gætu numið yrði umrætt bráðabirgðaákvæði ekki framlengt og telur því rétt að bíða um sinn með lögfestingu 3. gr. frumvarpsins. Fulltrúar ríkisskattstjóra gerðu nefndinni þó grein fyrir því að verulegum vandkvæðum væri bundið að áætla þær fjárhæðir.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirtöldum

BREYTINGUM:


     1.      3. gr. falli brott
     2.      11. gr. orðist svo:
                      Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2013. Þó skulu 4. og 5. gr. öðlast gildi 1. apríl 2013.

    Jón Bjarnason og Lilja Mósesdóttir skrifa undir álitið með fyrirvara. Jón er með almennan fyrirvara en fyrirvari Lilju varðar 3. gr. frumvarpsins sem lagt er til að verði felld brott.

Alþingi, 19. desember 2012.



Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.


Magnús Orri Schram.



Jón Bjarnason,


með fyrirvara.


Skúli Helgason.


Lilja Mósesdóttir,


með fyrirvara.