Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 495. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Prentað upp.

Þingskjal 813  —  495. mál.
Meiri hluti.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 100/2007,
um almannatryggingar, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hönnu Sigríði Gunnsteinsdóttur, Ágúst Þór Sigurðsson, Hrafnkel Hjörleifsson og Lísu Margréti Sigurðardóttur frá velferðarráðuneyti, Guðmund Magnússon og Lilju Þorgeirsdóttur frá Öryrkjabandalagi Íslands og Sigríði Lillý Baldursdóttur frá Tryggingastofnun ríkisins. Þá hafa nefndinni borist umsagnir um málið frá Alþýðusambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Tryggingastofnun ríkisins og Öryrkjabandalagi Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að frítekjumark örorkulífeyrisþega vegna atvinnutekna við útreikning tekjutryggingar skuli vera það sama á árinu 2013 og verið hefur síðustu ár. Það er nú 1.315.200 kr. á ári og hefur verið það síðan 2009. Frítekjumarkið var hækkað í 1.200.000 kr. með ákvæði til bráðabirgða 1. júlí 2008 og hækkað um 9,6% hálfu ári síðar. Síðan þá hefur frítekjumarkið ekki hækkað en bráðabirgðaákvæðið hefur verið framlengt um ár á hverju ári síðan þá. Gert er ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2013 að ákvæðið verði framlengt með sama frítekjumarki. Þá kom fram fyrir nefndinni að mjög óheppilegt væri að svo mikilvægt ákvæði sem frítekjumark vegna atvinnutekna er skuli vera bráðabirgðaákvæði í lögum um almannatryggingar en ekki varanlegt ákvæði. Fram kom að vart væri boðlegt að öryrkjar þyrftu að búa við þá óvissu sem felst í því að ákveða frítekjumark með bráðabirgðaákvæði á hverju ári og þá sérstaklega þegar ákvörðun löggjafans um það liggur ekki fyrir fyrr en rétt fyrir áramót. Það væri til að auka festu og fyrirsjáanleika laganna að lögfesta fjárhæðina varanlega.
    Meiri hlutinn tekur undir framangreindar athugasemdir og tekur einnig fram að starfshópur um endurskoðun almannatrygginga er að störfum og mun hópurinn væntanlega skila stjórnvöldum tillögum að breytingum á örorkulífeyrisgreiðslum og skilyrðum fyrir þeim. Meiri hlutinn telur því eðlilegt að svo stöddu að bráðabirgðaákvæðið verði framlengt um eitt ár.
    Meiri hlutinn leggur til breytingu á frumvarpinu sem breytir ákvæði til bráðabirgða V í lögum um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, sem felur í sér að kostnaði vegna sérstakrar liðveislu á vinnustað og verndaðrar vinnu muni á árinu 2013 skiptast milli ríkis og sveitarfélaga í samræmi við samning þar um. Í upphafi ársins 2011 voru málefni fatlaðs fólks færð frá ríki til sveitarfélaga. Kveðið er á um það í 28. gr. laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðs fólks, að Vinnumálastofnun annist framkvæmd vinnumarkaðsaðgerða fyrir fatlað fólk og í 30. gr. er tiltekið að kostnaður vegna verndaðrar vinnu greiðist úr ríkissjóði. Í ákvæði til bráðabirgða V í lögunum er þó kveðið á um að kostnaður sem til féll vegna sérstakrar liðveislu á vinnustað og verndaðrar vinnu á árinu 2012 skiptist milli ríkis og sveitarfélaga í samræmi við samkomulag þeirra á milli. Þar sem enn er unnið að framtíðarskipan atvinnumála fatlaðs fólks leggur meiri hlutinn til að ákvæðið verði framlengt um ár.
    Því var komið á framfæri við nefndina að í frumvarpinu hefði farist fyrir að gera ráð fyrir framlengingu ákvæðis til bráðabirgða VI í lögum um málefni aldraðra. Þetta ákvæði hefur verið framlengt árlega frá árinu 2007 til að koma í veg fyrir að kostnaðarþátttaka heimilismanna aukist við það að tengingar við tekjur maka voru afnumdar. Þessu var síðast breytt með lögum nr. 178/2011 og í nefndaráliti meiri hluta velferðarnefndar um þá breytingu er vísað til þess að frá því að lögum var breytt árið 2006 hafa tekjur maka ekki haft áhrif á bótafjárhæðir almannatrygginga. Sambærileg breyting var gerð á útreikningi greiðsluþátttöku íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilum. Vegna þeirrar reiknireglu sem viðhöfð var við útreikninginn gat sú breyting í einhverjum tilvikum orðið til þess að greiðsluþátttakan jókst frá því sem áður var. Strax við setningu laganna árið 2006 var því lagt til að heimilt yrði að bera saman greiðsluþátttöku samkvæmt gildandi ákvæði og fyrra ákvæði og greiða það sem lægra reyndist. Ákvæðið hefur verið framlengt árlega frá setningu þess árið 2006 og meiri hluti velferðarnefndar lagði á síðasta ári til framlengingu þess til ársloka 2012. Í nefndaráliti meiri hlutans þá kemur jafnframt fram að hann telji mikilvægt að greiðslufyrirkomulagið verði endurskoðað svo að ekki komi til síendurtekinnar framlengingar ákvæðisins með tilheyrandi óvissu fyrir íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilum um greiðsluþátttöku þeirra. Áréttar meiri hlutinn þessi sjónarmið að nýju og telur brýnt að fyrirkomulagið verði endurskoðað en leggur þó til framlengingu ákvæðisins að nýju til ársloka 2013.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Á undan 1. gr. komi ný kaflafyrirsögn, svohljóðandi: I. kafli, Breyting á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum.
     2.      Á eftir 1. gr. komi tveir nýir kaflar, II. kafli, Breyting á lögum um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, með síðari breytingum, og III. kafli, Breyting á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, með síðari breytingum, með einni grein hvor, svohljóðandi:
                  a.      (2. gr.)
                       Í stað orðanna „á árinu 2012“ í ákvæði til bráðabirgða V í lögunum kemur: á árinu 2013.
                  b.      (3. gr.)
                     Í stað orðanna „1. janúar 2012 til og með 31. desember 2012“ í ákvæði til bráðabirgða VI í lögunum kemur: 1. janúar 2013 til og með 31. desember 2013.
     3.      Fyrirsögn frumvarpsins verði svohljóðandi: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, lögum um málefni fatlaðs fólks og lögum um málefni aldraðra.

Alþingi, 19. desember 2012.



Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,


form., frsm.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.


Þuríður Backman.



Árni Þór Sigurðsson.


Kristján L. Möller.


Guðmundur Steingrímsson,


með fyrirvara.