Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 496. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 814  —  496. mál.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum (hækkun greiðslna og lenging).


Frá meiri hluta velferðarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hönnu Sigríði Gunnsteinsdóttur og Ágúst Þór Sigurðsson frá velferðarráðuneyti, Magnús M. Norðdahl frá ASÍ, Ernu Guðmundsdóttir frá BHM og Kennarasambandi Íslands, Helgu Jónsdóttur frá BSRB, Margréti Steinarsdóttur frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, Sólveigu B. Gunnarsdóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Kristínu Þóru Harðardóttur frá Samtökum atvinnulífsins, Kristínu Ástgeirsdóttur og Hugrúnu Hjaltadóttur frá Jafnréttisstofu, Báru Sigurjónsdóttur og Elísabetu Guðnadóttur frá embætti umboðsmanns barna, Ernu Reynisdóttur og Margréti Júlíu Rafnsdóttur frá Barnaheillum og Ingólf V. Gíslason, lektor við Háskóla Íslands.
    Þá hafa nefndinni borist umsagnir um málið frá ASÍ, BSRB, Barnaheillum, Femínistafélagi Íslands, Jafnréttisstofu, Kennarasambandi Íslands, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Rannsóknastofnun um barna- og fjölskylduvernd, Samtökum atvinnulífsins, SFR – stéttarfélagi í almannaþjónustu og Valdimari Tr. Hafstein.

Efni frumvarpsins.
    Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, sem miða að því að færa reglur um fæðingarorlof til fyrra horfs í áföngum eins og þær voru áður en gripið var til sparnaðaraðgerða í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 þegar draga þurfti úr útgjöldum Fæðingarorlofssjóðs vegna þrenginga í ríkisfjármálum. Er því með frumvarpinu lagt til að hámarksgreiðslur sem foreldrar eiga rétt á frá Fæðingarorlofssjóði hækki frá því sem nú er enda þótt þær munu ekki ná þeirri upphæð sem var áður en þær voru fyrst lækkaðar haustið 2008. Enn fremur er lagt til að foreldrar eigi aftur rétt á sem nemur 80% meðalheildarlauna á tilteknu viðmiðunartímabili í fæðingarorlofi, sbr. þó hámarksgreiðslurnar. Þá er einnig lagt til að fært verði til fyrra horfs sá tími sem foreldrum er heimilt að dreifa fæðingarorlofi sínu á þannig að heimilt verði að dreifa fæðingarorlofi á fyrstu 18 mánuðina í lífi barns eða eftir að barn kemur inn á heimili í stað 36 mánaða.
    Enn fremur er lagt til að fæðingarorlof verði lengt úr 9 mánuðum í 12 mánuði í áföngum og er við það miðað að hvort foreldri eigi jafnan rétt til fæðingarorlofs, þ.e. að hvort foreldri eigi fjóra mánuði og síðan eru fjórir mánuðir sameiginlegir sem foreldrar geta skipt á milli sín að eigin vild. Síðast en ekki síst er einnig lögð til breyting á 17. og 22. gr. laganna um lengingu á fæðingarorlofi vegna veikinda barns og er lagt til að hætt verði að horfa til þess hvort barn þurfi að dvelja á sjúkrahúsi í beinu framhaldi af fæðingu heldur verði eingöngu litið til þess að ástand barnsins krefjist sérstakrar umönnunar foreldra. Verði foreldrum þannig gert mögulegt að lengja fæðingarorlof um allt að sjö mánuði að undangengnu mati sérfræðilæknis ef um er að ræða alvarlegan sjúkleika barns eða alvarlega fötlun sem krefst nánari umönnun barns. Breytingin á einnig við um fæðingarstyrk foreldra.
Lengd fæðingar- og foreldraorlofs.
    Frá setningu laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, hefur lengd fæðingarorlofs verið þrír mánuðir fyrir hvort foreldri, sem óheimilt er að framselja þeirra á milli, og þrír mánuðir sem foreldrar eiga sameiginlega og geta skipt á milli sín að vild eða annað foreldri tekið að öllu leyti. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að sameiginlegi hluti fæðingarorlofs foreldra sé iðulega nýttur af móðurinni. Gestir sem komu fyrir nefndina vöktu einnig máls á þessu. Frá setningu laganna árið 2000 hafa feður í síauknum mæli nýtt rétt sinn til töku fæðingarorlofs sem er afar jákvæð þróun. Bakslag varð í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 en engin ástæða er til að ætla annað en að þróunin verðu nú áfram jákvæð og feður nýti rétt sinn til fæðingarorlofs í meira mæli en verið hefur síðust þrjú ár.
    Með frumvarpinu er lagt til að fæðingarorlofið verði lengt í þremur skrefum og að haldið verði við núverandi hlutfallsskiptingu, þ.e. að þegar lengingin er öll komin til framkvæmda eigi hvort foreldri um sig fjóra mánuði í fæðingarorlof og fjórir mánuðir verði sameiginlegir sem foreldrar geta skipt á milli sín. Meiri hlutinn telur það mikið framfararskref að nú sé lagt til að lengja fæðingarorlofið og að um mikilvægt hagsmunamál sé að ræða fyrir barnafjölskyldur og ungt fólk sem er að stofna fjölskyldu. Hins vegar telur meiri hlutinn að miðað við þá reynslu af framkvæmd laganna sem sýnir að mæður nýti að stærstum hluta sameiginlegan rétt foreldra, sé það ekki í samræmi við þá sterku jafnréttishugsun sem lögin byggja á að fjölga sameiginlegum mánuðum um einn um leið og réttur hvors foreldris er jafnframt lengdur um einn. Þar með muni sá tími, sem mæður eru í fæðingarorlofi, og því frá vinnumarkaði, lengjast. Meiri hlutinn leggur því til breytingu á frumvarpinu sem snýr að lengingu fæðingarorlofs. Leggur meiri hlutinn til að á árinu 2014 muni bætast hálfur mánuður við sjálfstæðan rétt hvors foreldris en sameiginlegur réttur þeirra verði áfram þrír mánuðir. Á árinu 2015 skal sjálfstæður réttur foreldra verða fjórir mánuðir og sameiginlegur réttur þeirra þrír mánuðir. Á árinu 2016 þegar breytingin verður að fullu komin til framkvæmda mun hvort foreldri um sig eiga sjálfstæðan óframseljanlegan rétt til fæðingarorlofs í fimm mánuði en sameiginlegur réttur foreldra verði tveir mánuðir. Meiri hlutinn telur að breytingin samræmist betur markmiðum laganna um að tryggja börnum samvistir við báða foreldra og stuðla að auknu jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði.

Fjárhæð greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.
    Frá hausti 2008 var hámarksfjárhæð greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði lækkuð í áföngum úr 535.700 kr. á mánuði í 300.000 kr. frá og með 1. janúar 2010. Var fjárhæðin lækkuð vegna þrenginga í ríkisfjármálum eins og áður sagði en ávallt lögð á að það áhersla að um tímabundnar aðgerðir væri að ræða. Með frumvarpinu er lagt til að hámarksfjárhæðin hækki í 350.000 kr. á mánuði frá 1. janúar nk. Þá kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að kerfið verði ekki endurheimt nema í áföngum og að hámarksgreiðslur frá Fæðingarorlofssjóði muni hækka á næstu tveimur árum og verði sambærileg þeirri fjárhæð sem miðað var við fyrir árið 2009.
    Fyrir nefndinni komu fram þau sjónarmið að mikilvægara væri fyrir foreldra að hámarksfjárhæðir myndu hækka frekar en að fæðingarorlofið yrði lengt. Myndi það hafa mun meiri áhrif á afkomu foreldra ef hámarksfjárhæðir myndu hækka enda ljóst að margir þurfa að taka á sig kjaraskerðingu í fæðingarorlofi þegar hámarksgreiðslur eru 300.000 kr. á mánuði. Meiri hlutinn tekur undir þessar athugasemdir en bendir jafnframt á að í greinargerð kemur fram að fjárhæðirnar muni hækka á komandi árum. Meiri hlutinn telur afar mikilvægt að af því verði þar sem lægri hámarksfjárhæðir rýra lífskjör barnafjölskyldna og ýta undir að mæður taki fremur lengra fæðingarorlof en feður vegna kynbundins launamunar og getur jafnframt orðið til þess að feður nýti síður sinn rétt.

Lengd fæðingarorlofs.
    Samkvæmt núgildandi lögum er foreldrum heimilt að taka fæðingarorlof allt að 36 mánuðum eftir fæðingu barns eða eftir að barn kemur inn á heimili vegna ættlæðingar eða töku barns í varanlegt fóstur. Var tímabilið lengt með lögum um ráðstafanir í ríkisfjármálum sumarið 2009 úr 18 mánuðum og var öðrum þræði um að ræða sparnaðaraðgerðir fyrir ríkissjóð svo foreldrar gætu dreift töku fæðingarorlofs yfir lengri tíma. Með frumvarpinu er lagt til að þessi tími verði færður til fyrra horfs og verði 18 mánuðir.
    Fyrir nefndinni kom fram að flestir gestir og umsagnaraðilar væru sáttir við þessa breytingu enda væri það sjaldgæft að foreldrar dreifðu fæðingarorlofi yfir lengra tímabil en fyrstu 18 mánuðina í lífi barns. Þá væri það í samræmi við markmið laganna um samvistir barns með foreldrum sínum að foreldrar tækju fæðingarorlof til að annast barnið. Eftir að börn eru orðin tveggja ára eru flest þeirra komin á leikskóla og því myndi fæðingarorlof eftir þann aldur vart þjóna tilgangi sínum. Fyrir nefndinni kom þó einnig fram að oft væri erfitt fyrir foreldra að brúa bilið frá því barn nær 18 mánaða aldri og þar til það verður tveggja ára því mörg börn fá ekki inni á leikskólum fyrr en við tveggja ára aldur. Meiri hlutinn telur eðlilegt að sveigjanleiki foreldra við töku fæðingarorlofs sé meiri en sem nemur því sem lagt er til með frumvarpinu og leggur því til þá breytingu að foreldrum verði heimilt að taka fæðingarorlof á fyrstu 24 mánuðum í lífi barns eða allt að 24 mánuðum eftir að barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur.

Réttur einstæðra foreldra vegna tæknifrjóvgunar, ættleiðingar eða töku í varanlegt fóstur.
    Á 138. og 140. löggjafarþingi flutti Guðfríður Lilja Grétarsdóttir frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, þar sem lögð var til sú breyting að einhleypar mæður, sem eignast barn sem getið er við tæknifrjóvgun og einhleypir sem ættleitt hafa barn eða tekið barn í varanlegt fóstur, ættu rétt á níu mánaða orlofi. Málið náði ekki fram að ganga en nefndin hefur fjallað um það á fyrri þingum og telur það fela í sér þarfa réttarbót. Meiri hlutinn leggur því til þá breytingu að einhleypar mæður sem hafa gengist undir tæknifrjóvgun eða einhleypir foreldrar sem hafa einir ættleitt börn eða tekið börn í varanlegt fóstur geti nýtt sér fullan rétt til fæðingarorlofs í ljósi þess að sannanlega er ekki annað foreldri til staðar til að annast barnið. Má líkja aðstæðum þessa hóps foreldra við aðstæður eftirlifandi foreldra þegar hitt foreldrið hefur andast á meðgöngu barnsins eða skömmu eftir fæðingu þess og fjallað er um í 4. mgr. 8. gr., 2. mgr. 18. gr. og 2. mgr. 19. gr. laganna. Með þessari breytingu er komið til móts við réttindi þessa hóps barna til að njóta samvista við foreldri sitt í jafnlangan tíma og önnur börn þó svo aðeins annað foreldranna sé til staðar.

Framsal réttar til fæðingarorlofs.
    Nefndin fjallaði um það hvort rétt væri að leyfa í vissum undantekningartilfellum að réttur annars foreldris verði framseldur til hins, þegar annað foreldrið getur ekki af gildum og sannanlegum ástæðum nýtt rétt sinn til töku fæðingarorlofs. Ákvæði af þessum meiði eru nú í 8. gr. laganna en undir vissum kringumstæðum er foreldri heimilt að framselja rétt sinn til hins.
    Hér er um álitaefni að ræða sem skiptar skoðanir eru um. Meiri hlutinn telur að fjalla þurfi ítarlega um þetta álitaefni áður en frekari skref yrðu tekin í þessu efni.
    Þá leggur meiri hlutinn einnig til þá breytingu að greiðslur úr Ábyrgðasjóði launa verði jafnsettar greiðslum úr öðrum sjóðum og að miðað verði við hverjar rauntekjur foreldra hefðu átt að vera þar sem þak er á greiðslum úr Ábyrgðasjóði launa.
    Guðmundur Steingrímsson gerir svohljóðandi fyrirvara: „Málið kom of seint frá ráðuneyti til þingsins, í ljósi þess að það þarf að afgreiða fyrir áramót. Ég hefði kosið að nefndin hefði fengið meiri tíma til þess að fjalla um þetta mál, sem er framfaramál en inniber þó stór álitaefni sem nauðsynlegt er að afgreiða í yfirgripsmikilli sátt og samræðu. Ég styð málið í þeirri trú að nefndin hafi komist að skynsamlegri niðurstöðu, þrátt fyrir tímaþröng.“
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir og lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 19. desember 2012.



Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,


form., frsm.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.


Kristján L. Möller.



Þuríður Backman.


Guðmundur Steingrímsson,


með fyrirvara.