Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 513. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 817  —  513. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu



um frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar
og lögum um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks.

Frá velferðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hönnu Sigríði Gunnsteinsdóttur og Bjarnheiði Gautadóttur frá velferðarráðuneyti, Björgu Ástu Þórðardóttur frá Félagi atvinnurekenda, Halldór Grönvold frá ASÍ, Ragnar Árnason frá Samtökum atvinnulífsins, Gissur Pétursson frá Vinnumálastofnun og Stefán Aðalsteinsson frá BHM. Þá hefur nefndinni borist umsögn um málið frá ASÍ.

Efni frumvarpsins.
    Frumvarpið er afrakstur samstarfs stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins og Vinnumálastofnunar. Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, og lögum um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks, nr. 51/1995. Þar á meðal er lagt til að ráðist verði í sérstakt átak á árinu 2013 sem nefnist Vinna og virkni 2013. Markmið verkefnisins er að virkja atvinnuleitendur sem hafa fullnýtt eða munu að óbreyttu fullnýta rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins frá september 2012 fram til loka árs 2013 til þátttöku að nýju á vinnumarkaði og koma í veg fyrir að langvarandi atvinnuleysi leiði til óvinnufærni. Í því skyni er lagt til að heimilt verði að veita styrki vegna starfstengdra vinnumarkaðsúrræða eða úrræða á sviði atvinnutengdrar starfsendurhæfingar vegna þátttöku þeirra sem enn eru tryggðir samkvæmt lögunum þegar úrræði hefst sem og þátttöku þeirra sem hafa fullnýtt rétt sinn innan kerfisins í allt að tólf mánuði frá því að síðasta greiðsla úr Atvinnuleysistryggingasjóði barst viðkomandi. Þá munu atvinnuleitendur sem hafa fengið greiddar atvinnuleysisbætur í 36 mánuði eða lengur en þó skemur en 42 mánuði 1. janúar 2013 einnig geta sótt um að fá greiddan nokkurs konar biðstyrk í allt að sex mánuði en þó aldrei lengur en fram að þeim tíma er þeim býðst úrræði þar sem fyrirséð er að ekki verður mögulegt að bjóða öllum atvinnuleitendum í þessari stöðu starfstengd vinnumarkaðsúrræði eða atvinnutengda starfsendurhæfingu í upphafi árs 2013 heldur muni það verða gert á fyrstu mánuðum ársins. Hið sama gildir um þá sem munu fullnýta rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins á árinu 2013 þannig að hafi þeim ekki boðist úrræði þegar þeir hafa fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 36 mánuði muni þeir geta sótt um umræddan styrk í framhaldinu.
    Enn fremur er lagt til að ákvæðum laganna um biðtíma og viðurlög verði breytt í þeim tilgangi að leggja enn frekari áherslu á mikilvægi þess að atvinnuleitendur séu í virkri atvinnuleit þann tíma sem þeir fá greiddar atvinnuleysisbætur. Lagt er til að komi til atvik sem að öðru jöfnu geta leitt til þess að komi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar um biðtíma eða viðurlög þegar atvinnuleitandi hefur samtals fengið greiddar atvinnuleysisbætur í 30 mánuði eða lengur á sama tímabili eigi hlutaðeigandi ekki frekari rétt til atvinnuleysisbóta á því tímabili. Viðkomandi öðlast þá aftur rétt innan atvinnuleysistryggingakerfisins eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. 24 mánuði. Enn fremur er gert ráð fyrir að ef slík tilvik hafa tvisvar sinnum áður komið upp hjá sama atvinnuleitanda sem hefur fengið greiddar atvinnuleysisbætur skemur en 30 mánuði leiði það til þess að sá hinn sami öðlist ekki aftur rétt innan atvinnuleysistryggingakerfisins fyrr en hann hefur starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur í stað tveggja mánaða samkvæmt gildandi lögum komi slík tilvik upp í þriðja sinn á sama tímabili.
    Þá er lögð til breyting frá því almenna skilyrði laganna fyrir greiðslu atvinnuleysistrygginga að umsækjandi um atvinnuleysisbætur skuli hafa náð 16 ára aldri og þetta aldursmark fært í 18 ár. Einstaklingur undir 18 ára aldri telst barn samkvæmt barnalögum og er á framfæri foreldra samkvæmt þeim lögum og lögræðislögum.
    Að lokum eru lagðar til breytingar á lögum um um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks, nr. 51/1995. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2013 er gert ráð fyrir að greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði til fiskvinnslufyrirtækja vegna fiskvinnslufólks sem nýtur kauptryggingar á grundvelli kjarasamninga þegar vinna liggur niðri vegna hráefnisskorts falli niður frá og með 1. janúar 2013. Ekki reyndist unnt að framlengja ákvæðið óbreytt enda mikilvægt að draga úr útgjöldum Atvinnuleysistryggingasjóðs. Samkomulag náðist við Starfsgreinasamband Íslands og Samtök fiskvinnslustöðva um hvernig unnt sé að draga úr útgjöldum en tryggja áfram starfsöryggi fiskvinnslufólks.

Áherslur nefndarinnar og breytingartillögur.
Virkni atvinnuleitenda og virkniúrræði.
    Nefndin hefur fjallað um málið og rætt einstök atriði þess. Nefndin telur brýnt að auka tækifæri fólks sem hefur verið lengi á atvinnuleysisskrá til að komast inn á vinnumarkaðinn að nýju. Brýnt er að stemma stigu við langvarandi atvinnuleysi og að það leiði til óvinnufærni til langframa. Nefndin bendir á að skilyrði fyrir því að fá greiddar atvinnuleysisbætur er að viðkomandi atvinnuleitandi sé í virkri atvinnuleit. Telur nefndin þær breytingar sem lagðar eru til og miða að því að auka virkni atvinnuleitenda mikilvægar enda hafa rannsóknir sýnt að langvarandi atvinnuleysi og óvirkni minnkar líkur á að atvinnuleitendur skili sér aftur út á vinnumarkaðinn. Þá draga þessar breytingar úr hættu á misnotkun á atvinnuleysistryggingakerfinu.

Styrkur til atvinnuleitenda sem hafa fullnýtt bótarétt.
    Í 17. gr. frumvarpsins er kveðið á um atvinnuleitendur sem hafa verið tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins samtals 36 mánuði eða lengur en þó skemur en 42 mánuði miðað við 1. janúar 2013 geti fengið sérstakan styrk úr Atvinnuleysistryggingasjóði sem nemur þeim rétti sem hlutaðeigandi átti áður innan kerfisins þegar hann fékk greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli laganna. Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að þessir styrkir eru hluti atvinnuátaksins Vinna og virkni sem fyrirhugað er að ráðast í á árinu 2013 en um er að ræða átaksverkefni stjórnvalda í samvinnu við sveitarfélög sem og aðila vinnumarkaðarins. Skilyrði styrkjar eru að viðkomandi hafi ekki hafnað því starfs- eða námstengda vinnumarkaðsúrræði eða úrræði á sviði atvinnutengdrar starfsendurhæfingar sem honum stóð til boða enda gert ráð fyrir að styrkurinn falli niður bjóðist hlutaðeiganda slíkt úrræði. Þá er gert ráð fyrir að heimilt verði að greiða styrkinn í allt að sex mánuði en þó aldrei lengur en að því tímamarki að viðkomandi bjóðast framangreind úrræði innan atvinnuátaksins.
    Á fundi nefndarinnar með fulltrúum velferðarráðuneytis kom fram að ákvæðið á að gilda um alla þá sem eru að ljúka 36 mánaða bótatímabili á árinu 2013 en ekki eingöngu þeirra sem missa bótarétt sinn 1. janúar 2013 eins og orðalag ákvæðisins gefur til kynna. Telur nefndin brýnt að leiðrétta þetta og tryggja að sá styrkur sem kveðið er á um í ákvæðinu standi öllum til boða sem á árinu 2013 hafa fullnýtt þriggja ára bótarétt sinn enda uppfylli þeir að öðru leyti skilyrði ákvæðisins.
    Nefndin leggur jafnframt til tæknilega breytingu á 17. gr. en í 2. mgr. hennar er vísað til framfærslustyrks skv. 1. mgr. hennar. Í 1. mgr. er þó ekki notað hugtakið framfærslustyrkur heldur eingöngu vísað til styrks og leggur nefndin til breytingu til að samræma orðalagið.

Hlutaatvinnuleysisbætur.
    Í nefndinni var nokkuð rætt um hlutaatvinnuleysisbætur en í kjölfar hrunsins árið 2008 voru lögfestar heimildir til handa Atvinnuleysistryggingasjóði til að greiða hlutabætur til starfsmanna þar sem starfshlutfall hefði verið skert vegna sérstakra aðstæðna á vinnumarkaði í kjölfar hrunsins. Fyrirtæki sem áttu í rekstrarvanda vegna þessara aðstæðna voru því hvött til að skoða þann kost að lækka starfshlutfall starfsmanna sinna fremur en að grípa til uppsagna. Var með þessu lögð áhersla á að sem flestir gætu verið virkir þátttakendur á vinnumarkaði að einhverju leyti, sjálfum sér og samfélaginu til hagsbóta, sem og að koma til móts við aðstæður fólks sem þurfti að taka á sig kjaraskerðingar í formi minnkaðs starfshlutfalls vegna tímabundins rekstrarvanda fyrirtækis sem það starfaði hjá.
    Ákvæði til bráðabirgða var bætt við lögin og var þar meðal annars gert að skilyrði að launamenn héldu að lágmarki 50% starfi til að öðlast rétt á hlutfallslegum atvinnuleysisbótum á móti vinnuframlagi samkvæmt ákvæði til bráðabirgða V. Um tímabundin ákvæði var að ræða og féllu þau úr gildi 31. desember 2011 eftir að hafa verið framlengd nokkrum sinnum frá 21. nóvember 2008 er þau tóku fyrst gildi. Þrátt fyrir að starfsmaður hafi einungis fengið greiddar hlutfallslegar atvinnuleysisbætur í samræmi við skert starfshlutfall reiknaðist hver dagur sem bæturnar voru greiddar sem heill dagur af því tímabili sem atvinnuleitandi getur fengið greiddar atvinnuleysisbætur. Þetta tímabil er 36 mánuðir skv. 29. gr. laganna.
    Nefndinni voru kynnt sjónarmið þess efnis að í ljósi aðstæðna þegar þetta ákvæði kom til væri sanngjarnt að draga úr þeim áhrifum sem ákvarðanir vinnuveitanda um skerðingu starfshlutfalls kunna að hafa á réttindi launafólks innan kerfisins. Því bæri að leggja til að hver dagur sem greiddar voru hlutfallslegar atvinnuleysisbætur á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða V á tímabilinu 21. nóvember 2008 til og með 31. desember 2011 teldist sem hálfur dagur af tímabili skv. 29. gr. laganna í stað þess að reiknast sem heill dagur. Var nefndinni bent á að þetta sjónarmið hefði ítrekað komið fram við endurskoðun laganna um atvinnuleysistryggingar frá því að bráðabirgðaákvæðið kom fyrst fram.
    Tekur nefndin undir þessi sjónarmið og leggur til breytingu þessu til samræmis. Þannig er ákvæðinu ætlað að mæta aðstæðum þess launafólks sem missti vinnuna í framhaldi af skerðingu á starfshlutfallinu samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu eða fékk ekki sama starfshlutfall og áður, þ.e. í þeim tilfellum sem bráðabirgðaákvæðið skilaði ekki tilætluðum árangri.
    Þá er til einföldunar við framkvæmdina gengið út frá því að atvinnuleitandi sem á rétt samkvæmt ákvæðinu sæki um að fá tímann sem hann var á hlutabótum samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu viðurkenndan með þeim hætti sem tiltekið er hér að framan. Með því má komast hjá flóknum, kostnaðarsömum og í flestum tilfellum óþörfum endurútreikningi á bótatímabili allra þeirra sem fengu greiddar atvinnuleysisbætur samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    Við 17. gr.
     a.      Í stað orðanna „1. janúar 2013“ í 1. efnismgr. komi: á árinu 2013.
     b.      Í stað orðsins „framfærslustyrks“ í 2. efnismgr. komi: styrks.
     c.      Við bætist nýr liður, svohljóðandi: Við bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                  Sá sem hefur verið tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins og hefur fengið greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða V á gildistíma þess getur sótt um og fengið viðurkennt að sá tími teljist hluti tímabils skv. 29. gr. þannig að einungis skal reikna hvern dag sem viðkomandi fékk greiddar hlutfallslegar atvinnuleysisbætur sem hálfan dag.

Alþingi, 19. desember 2012.


                                  

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,


form., frsm.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.


Krisján L. Möller.



Þuríður Backman.


Árni Þór Sigurðsson.


Guðmundur Steingrímsson,


með fyrirvara.


Einar K. Guðfinnsson,


með fyrirvara.


Unnur Brá Konráðsdóttir.


Birkir Jón Jónsson.