Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 830, 141. löggjafarþing 303. mál: sjúkratryggingar (samningar sjúkratryggingastofnunar).
Lög nr. 131 28. desember 2012.

Lög um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, með síðari breytingum (samningar sjúkratryggingastofnunarinnar).


1. gr.

     Við 39. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Ráðherra er heimilt að setja nánari ákvæði um gerð samninga skv. 2. mgr. í reglugerð. Þar skal kveðið á um tegund og umfang þeirrar heilbrigðisþjónustu sem sjúkratryggingastofnunin semur um, m.a. um heilbrigðisþjónustu á heilbrigðisstofnunum í eigu ríkisins.

2. gr.

     2. málsl. 2. mgr. 56. gr. laganna orðast svo: Enn fremur koma ákvæði IV. kafla til framkvæmda eigi síðar en 1. janúar 2015 að því er varðar samninga við sveitarfélög og aðra er reka hjúkrunarheimili.

3. gr.

     Í stað orðanna „1. janúar 2013“ í 1. málsl. ákvæðis til bráðabirgða IV í lögunum kemur: 1. janúar 2015.

4. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2013.

Samþykkt á Alþingi 21. desember 2012.