Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 366. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 834  —  366. mál.




Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Atla Gíslasonar um gildissvið stjórnsýslulaga.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Telur ráðherra koma til álita að breyta gildissviði stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, með síðari breytingum, þannig að þau taki, eftir því sem við getur átt, til fyrirtækja, svo sem banka, fjölmiðla, olíufélaga, tryggingafélaga, verslunarsamsteypa og annarra stórfyrirtækja sem hafa mikla eða ráðandi markaðshlutdeild og fyrirtækja sem taka að sér þjónustuverkefni í almannaþágu?
    Samkvæmt 1. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, ná lögin til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Lögunum er aðeins ætlað að gilda þegar stjórnvöld, þar á meðal stjórnsýslunefndir, taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skjóli opinbers valds, þ.e. stjórnvaldsákvarðanir sem beinast að borgurunum.
    Stjórnsýslulög taka aðeins til þeirrar starfsemi sem heyrir undir framkvæmdarvaldið samkvæmt þrískiptingu ríkisvaldsins, sem mælt er fyrir um í 2. gr. stjórnarskrárinnar, þ.e. eiginlegrar stjórnsýslu í þágu ríkis eða sveitarfélaga. Einkaaðili, sem fengið hefur verið opinbert vald, getur þannig fallið undir ákvæði laganna, þar með talin þau fyrirtæki sem nefnd eru í fyrirspurninni. Fyrirtæki í eigu hins opinbera, sem stunda aðeins almennan atvinnurekstur, falla hins vegar utan gildissviðs þeirra. Lögin taka ekki til þeirra ákvarðana stjórnvalda sem teljast einkaréttar eðlis.
    Með vísan til þeirrar skýru afmörkunar gildissviðs stjórnsýslulaga, þ.e. þess að þau nái aðeins til þess þegar teknar eru ákvarðanir um rétt eða skyldur manna, hvort sem er einstaklinga eða lögaðila, hefur ekki komið til álita af hálfu ráðherra að breyta gildissviði stjórnsýslulaga með þeim hætti sem lýst er í fyrirspurninni.