Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 416. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 850  —  416. mál.

3. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um breytingu á lögum um rannsóknarnefndir, nr. 68/2011.

Frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið á ný eftir 2. umræðu og fengið á sinn fund Þórhall Vilhjálmsson, aðallögfræðing Alþingis.
    Nefndin fjallaði um ákvæði 3. gr. um skaðleysi nefndarmanna og þær breytingar sem meiri hlutinn lagði til og hafa verið samþykktar. Meiri hlutinn tekur fram að með þeim breytingum er búið að þrengja ákvæðið um skaðleysi þannig að það nái eingöngu til nefndarmanna sem bera ábyrgð á nefndarstarfinu en ekki annarra starfsmanna. Þá er ákvæðið eftir breytingarnar einnig takmarkað við þær skýrslur sem nefndin skilar og nær því ekki til þess sem nefndarmenn segja eða skrifa á öðrum vettvangi.
    Í greininni, eftir framangreindar breytingar, verður kröfum í einkamáli og málum skv. 2. og 3. tölul. 242. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, með síðari breytingum, út af atriðum er fram koma í skýrslu rannsóknarnefndar eða öðrum skýrslum í tengslum við rannsóknina ekki beint gegn nefndarmönnum sem unnið hafa að rannsókninni. Sama gildir ef mál er höfðað út af málsmeðferð eða í tilefni af henni. Íslenska ríkið ber ábyrgð á athöfnum þeirra eftir almennum reglum hvort sem mál er höfðað fyrir innlendum eða erlendum dómstól.
    Fyrir nefndinni kom fram að ákvæðið er skýrt að því leyti að kröfum út af ómerkingu ummæla samkvæmt almennum hegningarlögum verður aðeins beint að einstaklingum en af 3. málsl. 3. gr. frumvarpsins leiðir að ábyrgð íslenska ríkisins tekur einvörðungu til bótaábyrgðar. Kröfu um ómerkingu ummæla í skýrslu rannsóknarnefndar verður því hvorki beint að nefndarmönnum né íslenska ríkinu. Meiri hlutinn tekur hins vegar fram að einstaklingur sem telur sig hafa borið fjárhagslegan skaða af ærumeiðandi ummælum í skýrslu rannsóknarnefndar getur sótt mál á hendur íslenska ríkinu og krafist fébóta.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt.

Alþingi, 21. desember 2012.



Valgerður Bjarnadóttir,


form.


Álfheiður Ingadóttir,


frsm.

Róbert Marshall.



Lúðvík Geirsson.


Oddný G. Harðardóttir.


Vigdís Hauksdóttir,


með fyrirvara.



Margrét Tryggvadóttir.