Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 280. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Nr. 11/141.

Þingskjal 884  —  280. mál.


Þingsályktun

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 168/2012 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.


     Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 168/2012, frá 28. september 2012, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn eftirfarandi gerðir:
     1.      Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 583/2010 frá 1. júlí 2010 um framkvæmd tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/65/EB að því er varðar lykilupplýsingar fyrir fjárfesta og skilyrði sem skulu uppfyllt þegar lykilupplýsingar fyrir fjárfesta eða lýsingin er lögð fram á varanlegum miðli öðrum en pappír eða á vefsetri.
     2.      Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 584/2010 frá 1. júlí 2010 um framkvæmd tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/65/EB að því er varðar snið og inntak staðlaðrar tilkynningar og staðfestingar á verðbréfasjóði, notkun rafrænna samskipta milli lögbærra yfirvalda vegna tilkynninga og verklagsreglur vegna sannprófunar á staðnum og rannsókna sem og upplýsingaskipti milli lögbærra yfirvalda.
     3.      Tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2010/43/ESB frá 1. júlí 2010 um framkvæmd tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/65/EB að því er varðar skipulagskröfur, hagsmunaárekstra, viðskiptahætti, áhættustýringu og inntak samkomulagsins milli vörslufyrirtækis og rekstrarfélags.
     4.      Tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2010/44/ESB frá 1. júlí 2010 um framkvæmd tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/65/EB að því er varðar tiltekin ákvæði varðandi samruna sjóða, skipan höfuðsjóða og fylgisjóða og tilkynningaraðferð.

Samþykkt á Alþingi 22. desember 2012.