Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 507. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 890  —  507. mál.




Svar



atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar
um uppgreiðslur ólögmætra gengistryggðra lána.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Er vitað hversu margir einstaklingar eða lögaðilar greiddu upp ólögmæt gengistryggð lán til SPRON á tímabilinu 30. júlí 2008 til 21. mars 2009 og geta því ekki lýst yfir skuldajöfnuði vegna ákvæðis 1. mgr. 100. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/ 1991?
     2.      Er vitað hversu margir einstaklingar eða lögaðilar greiddu upp ólögmæt gengistryggð lán til Frjálsa fjárfestingarbankans hf. á tímabilinu 23. mars 2009 til 23. júní 2009 og geta því ekki lýst yfir skuldajöfnuði vegna ákvæðis 1. mgr. 100. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991?


    Ráðuneytið býr ekki yfir umbeðnum upplýsingum.
    Samkvæmt 1. mgr. 57. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, getur alþingismaður óskað upplýsinga eða svars frá ráðherra um opinbert málefni. Í 3. mgr. 49. gr. þingskapalaga segir: „Með opinberu málefni er átt við sérhvert málefni er tengist hlutverki og starfsemi ríkisins og stofnana þess, svo og félaga og annarra lögaðila sem eru að hálfu eða meira í eigu ríkisins og annast stjórnsýslu eða veita almenningi opinbera þjónustu á grundvelli laga, stjórnvaldsfyrirmæla eða samnings.“
    Fyrir liggur að þrotabú SPRON er ekki ríkisstofnun eða félag sem annast stjórnsýslu eða veitir opinbera þjónustu. Slitastjórnir starfa samkvæmt lögum, eru skipaðar af dómstólum og starfa í þágu og á ábyrgð kröfuhafa, auk þess að sæta tilteknu eftirliti af hálfu Fjármálaeftirlitsins. Að framangreindu virtu er vandséð hvernig rökstyðja megi að þær upplýsingar sem um er beðið séu „opinbert málefni“ á sviði ráðuneytisins. Ráðuneytið er því ekki í aðstöðu til að krefjast þess að slitastjórn SPRON veiti þær upplýsingar sem óskað er eftir.
    Í tilefni af fyrirspurninni hefur ráðuneytið hins vegar sent slitastjórn SPRON bréf þar sem vakin er athygli á fyrirspurninni. Slitastjórn SPRON er því meðvituð um efni hennar og getur lagt mat á það hvort hún telur ástæðu til að veita fyrirspyrjanda umbeðnar upplýsingar.