Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 93. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 905  —  93. mál.

2. umræða.


Breytingartillagavið frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 145/1994, um bókhald, með síðari breytingum (texti bókhaldsbóka og ársreikninga, skoðunarmenn, endurskoðendur).

Frá Sigríði Á. Andersen.


    3. gr. falli brott.

Greinargerð.


    Með frumvarpinu er lagt til að heimilað verði að texti ársreiknings verði á erlendu máli, ensku eða dönsku. Er gert ráð fyrir að þessa heimild megi nýta í sérstökum tilvikum, svo sem vegna erlends eignarhalds eða erlendra stjórnarmanna. Tilvikin eru þó ekki tæmandi talin í frumvarpinu og því alls óljóst hversu víðtæk heimild þessi er. Um rökstuðning er aðeins vísað til kostnaðar við þýðingar.
    Með þessu er stigið skref í ranga átt. Það er sjálfsögð regla að ársreikningur íslensks félags sé ritaður á íslensku og verður að gæta að hlutverki ársreiknings og tilgangi opinberrar útgáfu hans að hluta. Ársreikningurinn er ekki ætlaður stjórnarmönnum til fróðleiks heldur hluthöfum og ekki síður viðsemjendum félagsins. Vissulega felst kostnaður við þýðingar skjala en í samanburði við þá hagsmuni íslenskra hluthafa, íslenskra eftirlitsaðila og annarra af því að geta kynnt sér ársreikninga félaga með takmarkaðri ábyrgð á íslensku verður kostnaður þessi ekki talinn slíkur að réttlætt geti víðtæka heimild sem þessa.
    Því er lagt til að fallið verði frá þeirri reglu sem lögð er til í 3. gr. frumvarpsins.