Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 482. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 909  —  482. mál.




Svar



velferðarráðherra við fyrirspurn Lilju Mósesdóttur um heimildir Íbúðalánasjóðs
til að veita óverðtryggð lán.


     1.      Hvers vegna hefur reglugerð um ÍLS-veðbréf og íbúðabréf, nr. 522/2004, einkum 13. gr. hennar, ekki verið breytt til samræmis við þær breytingar sem gerðar voru á 19. og 21. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998, með lögum nr. 134/2011, um heimild sjóðsins til að veita óverðtryggð lán?
     2.      Hvenær er fyrirhugað að gera þær breytingar á framangreindri reglugerð sem gera Íbúðalánasjóði kleift að veita óverðtryggð lán í samræmi við breytingar á lánsheimildum sjóðsins samkvæmt lögum nr. 134/2011?

    Með lögum nr. 134/2011, um breytingu á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum, sem tóku gildi 1. október 2011 var Íbúðalánasjóði heimilað að bjóða upp á óverðtryggð lán. Mikil og vönduð vinna hefur síðan farið fram af hálfu sjóðsins til að skoða möguleika á að veita óverðtryggð lán sem verði fjármögnuð með útgáfu nýs, óverðtryggðs uppgreiðanlegs skuldabréfaflokks. Ekki hefur þótt ástæða til að gefa út reglugerð þessa efnis áður en endanlegar ákvarðanir um veitingu óverðtryggðra lána hafa verið teknar. Í því sambandi ber að geta þess að ríkisstjórnin ákvað 27. nóvember 2012 að ákvarðanir óverðtryggðra lána yrðu teknar þegar staða sjóðsins hefði verið treyst með þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin kynnti sama dag.

     3.      Hefur það verið metið hvort gera þurfi aðrar breytingar á lögum og reglugerðum svo að Íbúðalánasjóður geti veitt óverðtryggð lán og fjármagnað þau, t.d. með útgáfu óverðtryggðra skuldabréfa til fjárfesta og annarra aðila?
    
Ekki er talið að gera þurfi aðrar breytingar á lögum og reglugerðum til þess að sjóðnum verði unnt að veita óverðtryggð lán.

     4.      Hefur verið lagt mat á þá aðferð að fjármagna óverðtryggð útlán Íbúðalánasjóðs með sértryggðum skuldabréfum í því skyni að takmarka áhættu fjárfesta vegna þeirrar óvissu sem ríkir um stöðu sjóðsins?

    Gert er ráð fyrir að útgáfa sjóðsins verði áfram með ríkisábyrgð eins og verið hefur en ekki verður talið að sértryggð skuldabréf séu fremur til þess fallin að takmarka áhættu fjárfesta en ríkisábyrgð. Þá metur sjóðurinn það þannig að innleiðing á notkun sértryggðra skuldabréfa við fjármögnun húsnæðislána sé ekki tímabær meðan ekki hefur verið lokið við breytingar á fjármögnunarhlið sjóðsins, svo sem vegna óverðtryggðra lána. Þess ber þó að geta að lánaferlum hjá Íbúðalánasjóði hefur verið breytt í samræmi við aðferðir sem fylgja innleiðingu sértryggðra skuldabréfa en á árunum 2011 og 2012 fór Íbúðalánasjóður í fyrsta sinn í gegnum „ mortgage audit“ sem er stöðluð endurskoðun á lánaferlum sem liggja til grundvallar útgáfu sértryggðra skuldabréfa.