Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 423. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 911  —  423. mál.
Svarfjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Sigurðar Inga Jóhannssonar um
skattumhverfi lífdísils og annarra grænna orkugjafa.


     1.      Hvernig er háttað virðisaukaskatti á lífdísil? Er fyrirhugað að breyta fyrirkomulaginu á næstu missirum?
    Álagning virðisaukaskatts á lífdísil er í engu frábrugðin álagningu virðisaukaskatts á aðrar vörur, þ.e. sala á lífdísil telst til skattskyldrar veltu og skattskyldir aðilar greiða til ríkissjóðs mismun útskatts og innskatts hvers uppgjörstímabils. Engin áform eru um breytingar á þessu fyrirkomulagi á næstu missirum.

     2.      Hvernig er skattumhverfi annarra grænna orkugjafa háttað, t.d. metans og metanóls? Eru fyrirhugaðar breytingar á næstu missirum?
    
„Grænir orkugjafar“, svo sem metangas, metanól og vetni bera virðisaukaskatt, en ekki olíu-, bensín- eða kolefnisgjald. Sé þessum eldsneytistegundum blandað saman við eldsneyti af jarðefnauppruna, þá er sá hluti blöndunar sem ekki er af jarðefnauppruna undanþeginn eldsneytisgjöldunum en ekki virðisaukaskatti. Það sama á við um lífdísil.

     3.      Hver er stefna ráðherra varðandi styrki til grænna orkugjafa, sbr. þingsályktun um eflingu græna hagkerfisins?

    Stefnu ráðherra varðandi styrki til grænna orkugjafa er nokkuð vel lýst með þeim aðgerðum sem þegar hefur verið gripið til með það að markmiði að stuðla að orkuskiptum í samgöngum og aukinni notkun vistvænna orkugjafa. Vörugjaldi af ökutækjum og bifreiðagjaldi hefur verið breytt á þann hátt að gjöldin endurspegla losun ökutækisins á koltvísýringi. Engin vörugjöld og lágmarks bifreiðagjöld eru innheimt af ökutækjum sem losa lítinn eða engan koltvísýring, t.d. rafmagns- og tengiltvinnbifreiðum. Virðisaukaskattur hefur jafnframt verið felldur niður af rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbifreiðum upp að ákveðnu marki. Vörugjald nýrra ökutækja sem ganga fyrir metani er fellt niður upp að 1.250.000 kr. og styrkjum allt að 100.000 kr. er veitt til breytinga á notuðum ökutækjum til að nýta metan. Til viðbótar má nefna það mikilvæga skref að íblöndun á vistvænum orkugjöfum í jarðefnaeldsneyti er gjaldfrjáls.
    Eins og sést af þessari upptalningu hefur það verið stefna ráðherra og er enn að styrkja vistvæna orkugjafa og gera notkun þeirra hagfelldari en hefðbundins jarðefnaeldsneytis svo orkuskipti í samgöngum muni verða að veruleika á Íslandi svo fljótt sem mögulegt er.