Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 132. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 949  —  132. mál.

3. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um skráð trúfélög, nr. 108/1999,
með síðari breytingum (lífsskoðunarfélög, aðild barna að skráðum
trúfélögum og lífsskoðunarfélögum o.fl.).

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Frumvarpinu var vísað til nefndarinnar milli 2. og 3. umræðu.
    Nefndin hefur fjallað um málið að nýju og fengið á sinn fund Hermann Sæmundsson og Svanhildi Þorbjörnsdóttur frá innanríkisráðuneytinu.
    Meiri hlutinn vill árétta þann skilning sinn að sóknargjöld séu ekki framlög úr ríkissjóði með einstaklingum sem ríkissjóður greiðir sóknargjöld með heldur séu þau félagsgjöld sem íslenska ríkið hefur tekið að sér að innheimta. Frumvarpið felur í sér réttarbót sem felur ekki í sér skerðingu á sóknargjöldum til annarra trúfélaga. Þessar breytingar sem lagðar eru til eiga að tryggja jafnan rétt ólíkra lífsskoðana en eitt af meginmarkmiðum frumvarpsins er að tryggja vernd fyrir hugsana-, samvisku-, trúar- og sannfæringarfrelsi.
    Nefndin ræddi skilgreiningu frumvarpsins á skráðum lífsskoðunarfélögum. Á fundi nefndarinnar kom fram að skilgreiningin á sér fyrirmynd í norskri löggjöf. Meiri hlutinn bendir á að skilyrði fyrir skráningu eru ítarlegri í frumvarpinu en þau sem eru í norsku lögunum en skilgreiningin tekur mið af skilgreiningu gildandi laga um skilyrði fyrir skráningu trúfélags. Jafnframt bendir meiri hlutinn á að sú nefnd sem veitir ráðherra álit á því hvort veita skuli trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi skráningu á sér fyrirmynd í gildandi lögum um skráð trúfélög, sbr. 4. mgr. 4. gr. laganna.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Tryggvi Þór Herbertsson var fjarstaddur við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 24. janúar 2013.

Björgvin G. Sigurðsson,
form.
Skúli Helgason,
frsm.
Þráinn Bertelsson.

Sigmundur Ernir Rúnarsson.
Margrét Pétursdóttir.
Birgitta Jónsdóttir.