Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 571. máls.

Þingskjal 969  —  571. mál.


Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um úrvinnslugjald, nr. 162/2002,
með síðari breytingum (breyting á úrvinnslugjaldi).

(Lagt fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi 2012–2013.)




1. gr.

    Í stað „12,00 kr./kg“ í viðauka I við lögin kemur: 14,00 kr./kg.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á viðauka V við lögin:
     a.      Í stað „15,00 kr./kg“ hvarvetna í viðaukanum kemur: 25,00 kr./kg.
     b.      Í stað „120,00 kr./kg“ hvarvetna í viðaukanum kemur: 150,00 kr./kg.

3. gr.

    Í stað „35,00 kr./kg“ hvarvetna í viðauka VIII við lögin kemur: 42,00 kr./kg.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á viðauka XII við lögin:
     a.      Í stað „84,00 kr./kg“ kemur: 120,00 kr./kg.
     b.      Í stað „140,00 kr./kg“ kemur: 200,00 kr./kg.
     c.      Í stað „280,00 kr./kg“ kemur: 400,00 kr./kg.
     d.      Í stað „336,00 kr./kg“ kemur: 480,00 kr./kg.
     e.      Í stað „448,00 kr./kg“ kemur: 640,00 kr./kg.
     f.      Í stað „672,00 kr./kg“ kemur: 960,00 kr./kg.

5. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2013.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Í frumvarpi þessu er lögð til hækkun á fjárhæð úrvinnslugjalds fyrir plast, leysiefni, olíumálningu og framköllunarefni. Endurskoðun gjalda í þessum flokkum miðar að því að draga úr sjóðshalla sem hefur orðið í þessum flokkum, enda er ætlunin að hver vöruflokkur standi undir sér og skal tekjum hvers uppgjörsflokks eingöngu varið til að mæta gjöldum þess flokks. Frumvarpið byggist á tillögum stjórnar Úrvinnslusjóðs í samræmi við 2. mgr. 4. gr. laganna. Úrvinnslusjóður hefur haft samráð við hagsmunaaðila við undirbúning þessa frumvarps. Í stjórn sjóðsins sitja, auk fulltrúa ráðherra umhverfis- og auðlindamála, fulltrúar tilnefndir af Samtökum iðnaðarins, Samtökum verslunar og þjónustu, Félagi atvinnurekenda og Sambandi íslenskra sveitarfélaga og einn fulltrúi eftir sameiginlegri tilnefningu Samtaka fiskvinnslustöðva og Landssambands íslenskra útvegsmanna. Í 3. mgr. 4. gr. laganna kemur fram að umhverfis- og auðlindaráðherra leggur að fenginni tillögu stjórnar Úrvinnslusjóðs fram tillögu til fjármála- og efnahagsráðherra um breytingar á fjárhæðum úrvinnslugjalds.
    Tekjur Úrvinnslusjóðs af úrvinnslugjaldi ráðast af innflutningi og innlendri framleiðslu á vörum sem falla undir lögin og upphæð úrvinnslugjalds (kr./kg) í hverjum vöruflokki. Kostnaður af rekstri Úrvinnslusjóðs, utan kostnaðar við skrifstofu, ræðst af magni úrgangs sem er safnað og ráðstafað (endurnýting, endurvinnsla eða förgun) af þjónustuaðilum annars vegar og upphæð þjónustugjalds (kr./kg) sem greitt er til þeirra þegar staðfesting á ráðstöfun liggur fyrir hins vegar. Greitt er fyrir flutning og ráðstöfun. Í áætlun Úrvinnslusjóðs er safnað magn áætlað út frá þróun sl. ár. Við mat á ráðstöfuðu magni er auk þess stuðst við þróun skilahlutfalls síðustu ára (ráðstafað magn deilt með álögðu magni). Nokkur tími líður frá því að vara er sett á markað þar til úrgangur af hennar völdum fellur til. Þessi tími er frá einhverjum mánuðum upp í mörg ár, fer eftir vörum. Stærsti kostnaðarliður Úrvinnslusjóðs er greiðsla til þjónustuaðila (skilagjald í tilfelli ökutækja) fyrir ráðstöfun (endurnýting/endurvinnsla/förgun). Í öllum vöruflokkum nema smurolíu og ökutækjum er breyting á þessum greiðslum ákveðin hverju sinni af stjórn sjóðsins. Samningur er við olíufélögin um söfnun smurolíuúrgangs og eru greiðslur þar vísitölubundnar. Upphæð skilagjalds á ökutæki er bundin í lög.
    Breytingarnar sem lagðar eru til í þessu frumvarpi munu fyrst og fremst hafa áhrif á þá sem nota framköllunarefnin en í öðrum tilvikum er úrvinnslugjald óverulegt af verði vörunnar og því mun það ekki hafa veruleg áhrif.
    Tillögur um breytingar á úrvinnslugjaldi miða við að ná viðunandi sjóðsstöðu vöruflokka á næstu þremur árum. Miðað er við að sjóðir verði að jafnaði ekki lægri en um 30% af árskostnaði við vöruflokkinn. Um tillögur um gjaldabreytingar vöruflokka er vísað til athugasemda við einstakar greinar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í greininni er gerð tillaga um breytingu á úrvinnslugjaldi fyrir plast.
    Í ársbyrjun 2008 voru heyrúlluplast og plastumbúðir sameinaðar í einn vöruflokk með sama gjaldi. Við þetta lækkaði gjald á heyrúlluplast. Verð á plasti var hátt á endurvinnslumarkaði erlendis en féll verulega í lok árs 2008 samhliða því að markaðir lokuðust. Endurvinnslumarkaðir hafa síðan verið að taka við sér. Á árinu 2009 var safnað um 3.400 tonnum af um 11.800 tonnum sem lagt var á úrvinnslugjald og flutt til endurvinnslu eða endurnýtingar.
    Lagt er til að úrvinnslugjaldið hækki úr 12,00 kr./kg í 14,00 kr./kg. Um er að ræða hækkun til að mæta sjóðstapi. Mun meiri kostnaður er við innsöfnun og meðhöndlun heyrúlluplasts en umbúðaplasts annarrar gerðar. Felst það í því að heyrúlluplast dreifist um allt land á um 3.000 lögbýli og fylgir því innsöfnun mikill flutningskostnaður. Heyrúlluplastið er þriggja laga plast sem gerir endurvinnslu dýrari en ella. Innsöfnun er jafnframt ákaflega góð og safnast nú ríflega 80% af heyrúlluplasti sem sett er á markað, en samsvarandi árangur í öðrum gerðum plastumbúða er 25%. Reiknað er með að jöfnuður náist í sjóðnum í lok árs 2014.

Um 2. gr.

    Í greininni er gerð tillaga um breytingu á úrvinnslugjaldi fyrir leysiefni.
    Innflutningur á leysiefnum hefur verið sveiflukenndur á liðnum árum og heldur farið minnkandi. Skilahlutfall hefur verið hátt síðan 2006 vegna breyttrar notkunar á hluta af efnunum þar sem sá hluti leysiefna skilar sér nánast allur til endurnýtingar að notkun lokinni.
    Lagt er til að úrvinnslugjald á leysiefni verði hækkað úr 15,00 kr./kg í 25,00 kr./kg í lægra þrepinu og úr 120,00 kr./kg í 150 kr./kg í hærra þrepinu. Um er að ræða hækkun til að mæta sjóðstapi og er reiknað með að jöfnuður í sjóðnum náist á árinu 2015.

Um 3. gr.

    Í greininni er gerð tillaga um breytingu á úrvinnslugjaldi fyrir olíumálningu.
    Rekstur vöruflokks olíumálningar hefur verið erfiður undanfarin ár. Samstarf hefur verið við framleiðendur, innflytjendur og þjónustuaðila um leiðir til að ná niður kostnaði við meðhöndlun og förgun á málningarúrgangi. Meðalkostnaður hefur lækkað nánast stöðugt frá árinu 2003. Aðeins er lagt gjald á olíumálningu, ekki vatnsmálningu.
    Gerð er tillaga um hækkun úrvinnslugjalds úr 35,00 kr./kg í 42,00 kr./kg. Um er að ræða hækkun til að mæta sjóðstapi og er reiknað með að jöfnuður í sjóðnum náist á árinu 2015.

Um 4. gr.

    Í greininni er gerð tillaga um breytingu á úrvinnslugjaldi fyrir framköllunarefni. Undanfarin ár hefur taprekstur verið nokkur á rekstri sjóðs framköllunarefna. Erfitt hefur reynst að láta úrvinnslugjald standa undir rekstri vöruflokksins og vinna jafnframt á viðvarandi tapi. Skýringin er sú að notkun framköllunarefna fer stöðugt minnkandi vegna stafrænnar tækni við ljósmyndun hvers konar. Sjóðurinn hefur gert ráðstafanir á undanförnum árum til að mæta þessari þróun. Framköllunarefni eru flutt inn í mismunandi styrkleika og með mismunandi úrvinnslugjaldi sem reiknað er út frá grunngjaldi framköllunarefna.
    Gerð er tillaga um 43% hækkun úrvinnslugjalds á framköllunarvökva. Um er að ræða hækkun til að mæta sjóðstapi og er reiknað með að jöfnuður í sjóðnum náist á árinu 2015.

Um 5. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.

Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 162/2002,
um úrvinnslugjald, með síðari breytingum (breyting á úrvinnslugjaldi).

    Í frumvarpinu eru lagðar til hækkanir á fjárhæðum úrvinnslugjalds á plastumbúðir og heyrúlluplast, leysiefni, olíumálningu og framköllunarefni. Markmið með þessum hækkunum er að draga úr sjóðshalla sem hefur orðið í þessum uppgjörsflokkum. Samkvæmt lögum um úrvinnslugjald skulu tekjur af gjaldinu standa undir kostnaði við förgun eða endurvinnslu viðkomandi vöruflokka og skal þeim eingöngu varið til að mæta gjöldum viðkomandi uppgjörsflokks þannig að hver flokkur verði fjárhagslega sjálfstæður.
    Frumvarpið byggist á tillögum stjórnar Úrvinnslusjóðs um breytingu á fjárhæðum úrvinnslugjalds í samræmi við ákvæði laga um úrvinnslugjald. Tillögur um breytingar á úrvinnslugjaldi miða við að ná viðunandi sjóðstöðu í hverjum uppgjörsflokki á næstu þremur árum þannig að staðan verði að jafnaði ekki lægri en um 30% af árskostnaði hvers flokks. Samkvæmt rekstraráætlun Úrvinnslusjóðs fyrir árið 2013, sem tekur mið af innfluttu og áætluðu magni vöru í viðkomandi flokki, er áætlað að hækkun á úrvinnslugjaldi sem frumvarpið mælir fyrir um skili samtals um 41,8 m.kr. í auknum ríkistekjum á ársgrundvelli. Tillögurnar fela í sér umtalsverða hlutfallslega hækkun á magneiningu í einstökum gjaldflokkum. Þannig er lagt til að gjald á hvert kíló af leysiefnum í tveimur flokkum hækki um annars vegar 67% en hins vegar um 25%. Gjald á olíumálningu hækkar samkvæmt frumvarpinu um 20%, gjöld á framköllunarefni í nokkrum flokkum hækka um 43% og gjald á plastumbúðir um 17%. Vakin er athygli á því að 1. janúar 2011 tóku í gildi hækkanir á úrvinnslugjaldi, þar sem m.a. gjald á plastumbúðir og heyrúlluplast hækkaði um 140% en gjald á lífræn leysiefni um 114%. Að auki hækkaði úrvinnslugjald á bæði olíumálningu og vörur í ljósmyndaiðnaði um 17%. Hér er því um umtalsverða hækkun úrvinnslugjalds á þessa vöruflokka að ræða á tæpum þremur árum. Hins vegar hafa úrvinnslugjöldin ekki það mikið vægi í verði á þessum vörum að hækkanirnar ættu ekki að hafa teljandi verðlagsáhrif.
    Samkvæmt lögum um úrvinnslugjald renna tekjur af úrvinnslugjaldi, þ.m.t. vaxtatekjur, óskiptar til Úrvinnslusjóðs að frádregnu 0,5% umsýslugjaldi sem rennur í ríkissjóð. Gera má ráð fyrir að útgjöld hækki sem nemur tekjunum og að afkoma ríkissjóðs haldist óbreytt til lengri tíma litið þó að einhver munur geti verið á því hvernig tekjur og kostnaður falli til á hverjum tíma. Verði frumvarpið samþykkt er gert ráð fyrir að lögin öðlist gildi 1. júlí 2013. Ekki er gert ráð fyrir þessari hækkun tekna og útgjalda ríkissjóðs sem frumvarpið mælir fyrir um í fjárlögum 2013.