Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 573. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 971  —  573. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar ÖSE-þingsins fyrir árið 2012.

         
1. Inngangur.
    Á vettvangi Íslandsdeildar þings Öryggis og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE-þingsins, á árinu 2012 bar hæst efnahags- og fjármálakreppan, öryggi á ÖSE-svæðinu og samstarf ÖSE við Afganistan. Þá voru áhrif smáríkja innan ÖSE einnig til umræðu. Af hálfu Íslandsdeildar bar hæst þingsályktunartillaga Róberts Marshall og Björns Vals Gíslasonar um að bjóða Palestínu áheyrnaraðild að ÖSE-þinginu og tillögur Péturs H. Blöndal um að koma í veg fyrir hringferla peninga hjá hlutafélögum.
    Ársfundur þingsins fór fram í Mónakó og bar að þessu sinni yfirskriftina ÖSE – landsvæði breytinga. Eitt meginviðfangsefni fundarins var efnahags- og fjármálakreppan. Í ályktun þingsins þar að lútandi var lýst yfir áhyggjum af niðurskurði og aðhaldsaðgerðum á ÖSE- svæðinu, einna helst á sviði heilbrigðis- og menntamála, og þeim neikvæðu áhrifum sem aðgerðirnar hefðu á hagvöxt ríkja. Þingið hvatti ríkisstjórnir ÖSE-ríkjanna til að rannsaka vel langtímaáhrif aðhaldsaðgerða, þar á meðal með kynjaðri nálgun. Einnig var lýst yfir áhyggjum af áhrifum greininga lánshæfismatsfyrirtækja á efnahag ríkja, og lýst yfir stuðningi við endurbætur á því kerfi. Fyrir tilstilli Péturs H. Blöndal var í ályktuninni einnig vakin athygli á hringferlum peninga með raðeignarhaldi, lánveitingum og öðrum hætti, sem gerir fyrirtækjum kleift að blása út eignir sínar án innstæðu og leiðir til innstæðulausrar eignabólu fyrirtækja. ÖSE-ríkin voru í því sambandi hvött til að endurskoða fyrirtækjalöggjöf sína. Loks var lýst yfir áhyggjum af auknum félagslegum óróleika víða á ÖSE-svæðinu og minnt á tengslin milli efnahagslegra örðugleika og pólitískrar öfgahyggju, þjóðernishyggju og útlendingahaturs.
    Ályktun Róberts Marshall og Björns Vals Gíslasonar um að bjóða Palestínu áheyrnaraðild að ÖSE-þinginu var rædd á þingfundi ársfundarins og var felld með sex atkvæða meiri hluta, 22 atkvæði með og 28 á móti. Róbert mælti fyrir ályktuninni á þingfundi en mikil andstaða var á meðal þingmanna Bandaríkjamanna og Ítala en hún naut m.a. stuðnings frá fulltrúum Norðurlandaþjóðanna auk Frakklands og Bretlands.
    Í ályktun um öryggismál hvatti þingið aðildarríki ÖSE til að koma í framkvæmd skilyrðum Vínarskjalsins frá 1999 sem snýr að samstarfi ÖSE-ríkja á sviði varnarmála, þar á meðal varðandi varnaráætlanir, árleg skipti á hernaðarupplýsingum og aðgerðum til að draga úr áhættu. Þá lýsti þingið yfir miklum áhyggjum af átökum á ÖSE-svæðinu sem ekki hefur tekist að finna lausn á og hvatti alla aðila til að efla viðleitni sína til að komast að friðsælli og lífvænni niðurstöðu. Þingið hvatti einnig þjóðþing á átakasvæðum til að vera virk í sáttaumleitunum. Þá var ítrekað að þau kerfisbundnu mannréttindabrot sem ættu sér stað innan sumra ÖSE-ríkja, til viðbótar við skort á sterkum lýðræðislegum stofnunum og veikt réttarríki, væru alvarleg ógn við öryggi og stöðugleika. Í ályktuninni var forseti þingsins hvattur til að skipa í embætti sérstakan fulltrúa fyrir Mið-Asíu, og ósk þingsins um að opnuð verði aftur ÖSE-skrifstofa í Hvíta-Rússlandi og í Georgíu var endurvakin. Loks hvatti þingið framkvæmdastjóra ÖSE sterklega til að uppfylla skilyrði jafnréttisáætlunar ÖSE frá árinu 2004, sem kveður m.a. á um að konur séu skipaðar í stöðu yfirmanna eða staðgengils yfirmanna á svæðisskrifstofum ÖSE og eins í forustustöður innan stofnana ÖSE.
    Í ályktun þingsins um samstarf ÖSE við Afganistan til ársins 2014 og síðar var lýst yfir ánægju með ákvörðun ráðherraráðs ÖSE um að auka samstarf sitt við Afganistan, sem stefnt er að að verði nú ekki einungis á sviði stjórn- og hernaðarmála, heldur einnig efnahags-, umhverfis- og mannlífsmála. Að mati þingsins hefur öryggi og stöðugleiki í Afganistan bein áhrif á öryggi á ÖSE-svæðinu. Þingið kallaði eftir því að aðildarríki og samstarfsríki ÖSE styrktu samskipti sín við Afganistan og jyku framlög sín til nýrra samstarfsverkefna ÖSE í landinu, og eins til verkefna stofnunarinnar sem sneru að því að auka öryggi landamæra Afganistan og aðildarríkja ÖSE í Mið-Asíu, Tajikistan og Turkmenistan.
    Í ályktun sinni um áhrif smáríkja innan ÖSE hvatti þingið aðildarríki stofnunarinnar til að styðja smáríki í viðleitni þeirra til að framfylgja stöðlum ÖSE og viðhalda sérkennum sínum, tryggja öryggi þeirra og fullveldi, koma fram við þau á sama grundvelli og önnur aðildarríki og taka mið af þeim takmörkunum sem þau standa frammi fyrir þegar kemur að efnahags-, félags- og umhverfisstefnum. Þingið lýsti enn fremur yfir stuðningi sínum við viðleitni smáríkja til að takast á við sameiginlegar áskoranir og vandamál og tók mið af mikilvægi þess að smáríki deildu upplýsingum og reynslu sinni til að auðveldara væri að styðja við sameiginlega hagsmuni og auka vitund og samstarf um málefni sem varða smáríki sérstaklega.
    Á árinu 2012 leiddi ÖSE-þingið kosningaeftirlit í Kazakhstan, Rússlandi, Armeníu, Serbíu, Hvíta-Rússlandi, Georgíu, Svartfjallalandi, Úkraínu, Bandaríkjunum og Rúmeníu. Umdeildastar voru kosningarnar í Rússlandi, Hvíta-Rússlandi og Úkraínu. Í öllum þremur ríkjunum var talinn vera algjör skortur á raunverulegri samkeppni á milli frambjóðenda, í Rússlandi sökum ríkisafskipta, í Hvíta-Rússlandi sökum þess að frambjóðendur höfðu ekki tjáningar- og fundafrelsi á meðan á kosningabaráttunni stóð, og í Úkraínu sökum ríkisafskipta, skorti á gegnsæi og ójafnvægi í fjölmiðlaumfjöllun. Framfara þótti hins vegar gæta í Serbíu, þar sem kosningarnar þóttu opnar og virk samkeppni vera til staðar, og í Georgíu þar sem kosningarnar þóttu einkennast af virkri samkeppni og þátttöku borgaranna, þó svo að kosningabaráttan hafi á tíðum þótt misvísandi og einkennst af spennu sem stundum fylgdi ofbeldi.

2. Almennt um ÖSE-þingið.
Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE, (áður Ráðstefnan um öryggi og samvinnu í Evrópu, RÖSE, eða til ársins 1995) starfar á grundvelli Helsinkisáttmálans (e. Helsinki Final Act) frá árinu 1975. Markmið ÖSE er að stuðla að friði, öryggi, lýðræði og samvinnu á starfssvæði sínu og standa vörð um virðingu fyrir mannréttindum og meginreglum réttarríkisins. ÖSE sinnir hlutverki sínu m.a. með baráttu gegn hryðjuverkum, mansali, þjóðernisofstæki, eiturlyfjasmygli og ólöglegri vopnasölu.
    Á leiðtogafundi ÖSE vorið 1990 var Parísarsáttmálinn samþykktur (e. Charter of Paris for a New Europe). Sáttmálinn kveður m.a. á um stofnun formlegs vettvangs fyrir þingmenn sem komi saman einu sinni á ári. ÖSE-þingið og ÖSE eru þannig greinar af sama meiði. Ólíkt öðrum fjölþjóðlegum stofnunum liggur hins vegar enginn hefðbundinn stofnsáttmáli þeim til grundvallar.
    Fyrsti fundur ÖSE-þingsins var haldinn í júlí 1992. Aðild að ÖSE-þinginu eiga 56 þjóðþing í Evrópu, Norður-Ameríku og Mið-Asíu. Þingið er skipað 320 fulltrúum. Þar af á Alþingi þrjá.
Hlutverk ÖSE-þingsins er að hafa áhrif á stefnumótun og áherslur í starfi ÖSE og að hafa eftirlit með og meta árangurinn af starfi stofnunarinnar. Í málefnanefndum þingsins er unnið að undirbúningi ályktana. Þær eru síðan afgreiddar á ársfundi og komið á framfæri við ráðherraráð ÖSE, sem er vettvangur utanríkisráðherra aðildarríkjanna, og fastaráð ÖSE en þar eiga sæti sendiherrar eða fastafulltrúar aðildarlandanna gagnvart ÖSE. Fastaráðið fundar vikulega í Vín. Í samspili við ÖSE virkar þingið sem hugmyndabanki fyrir áherslur í starfi ÖSE auk þess sem þingið veitir ÖSE bæði stuðning og aðhald með eftirliti sínu og umræðu um starf stofnunarinnar. Hvað viðvíkur formlegum samskiptum ÖSE-þingsins og ÖSE þá ávarpar formaður ráðherraráðs ÖSE-þingið og gefur skýrslu um verkefni sem unnið er að hjá ÖSE. Þá geta þingfulltrúar beint fyrirspurnum til ráðherrans.
    ÖSE-þingið tekur einnig þátt í því að þróa leiðir til að koma í veg fyrir ágreining milli ríkja og stuðla að eflingu lýðræðislegra stofnana á því svæði sem starfsemi ÖSE tekur til. Að lokum hefur kosningaeftirlit verið eitt helsta verkefni þingsins frá upphafi. Sú starfsemi hefur vaxið jafnt og þétt undanfarin ár. ÖSE-þingið á samvinnu við lýðræðis- og mannréttindastofnun ÖSE (ODIHR) um kosningaeftirlit. Nokkur ágreiningur hefur ríkt um verkaskiptingu milli stofnana þrátt fyrir samstarfssamning á milli þeirra frá árinu 1997. Einnig á ÖSE-þingið samvinnu um kosningaeftirlit við aðrar fjölþjóðlegar þingmannasamkundur, eins og Evrópuráðsþingið og Evrópuþingið.
ÖSE-þingið kemur saman til ársfundar í allt að fimm daga í júlí. Einstök aðildarríki skiptast á að halda ársfund. Ársfundur afgreiðir mál úr öllum þremur málefnanefndum þingsins í formi ályktunar ársfundar. Auk þess geta einstakir þingmenn eða landsdeildir lagt fram ályktunartillögur sem verða hluti af ályktun ársfundar að gefnu samþykki í atkvæðagreiðslu.
    Málefnanefndirnar eru nefnd um stjórnmál og öryggismál (1. nefnd), nefnd um efnahags-, vísinda-, tækni-, og umhverfismál (2. nefnd) og nefnd um lýðræðis- og mannréttindamál (3. nefnd). Formaður, varaformaður og skýrsluhöfundur hverrar málefnanefndar eru kjörnir af viðkomandi nefnd í lok hvers ársfundar. Skýrsluhöfundur nefndar velur málefnið sem tekið verður fyrir í nefndinni það árið í samráði við formann og varaformann viðkomandi nefndar. Síðan undirbýr skýrsluhöfundur skýrslu og drög að ályktun sem lögð er fyrir nefndina til umræðu og að lokum til umræðu og afgreiðslu á ársfundi. Málefnanefndir þingsins koma einnig saman á vetrarfundinum sem haldinn er í Vín í febrúar ár hvert. Þar fá þingmenn einnig tækifæri til að hlýða á framlag fastafulltrúa og embættismanna ÖSE sem hafa aðsetur í Vín, eins og fyrr segir. Auk ársfundar og vetrarfundar er haldinn haustfundur þar sem stjórnarnefnd og framkvæmdastjórn þingsins koma saman auk þess sem árleg málefnaráðstefna þingsins fer fram á sama tíma.
    Fyrir utan fastanefndir þingsins, stjórnarnefnd og framkvæmdastjórn getur forseti þingsins skipað tímabundið sérstaka fulltrúa og þingið sérnefndir til að taka aðkallandi mál til skoðunar og vera ráðgefandi um þau. Sem dæmi var starfandi sérstakur fulltrúi vegna fangabúða Bandaríkjahers fyrir meinta hryðjuverkamenn í Guantanamo á Kúbu og sérnefnd vegna stjórnmálaástandsins í Hvíta-Rússlandi.


3. Íslandsdeild ÖSE-þingsins.
    Á árinu 2012 voru aðalmenn Íslandsdeildar ÖSE-þingsins Róbert Marshall, formaður, þingflokki Samfylkingarinnar, Björn Valur Gíslason, varaformaður, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og Pétur H. Blöndal, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Varamenn voru Lúðvík Geirsson, þingflokki Samfylkingarinnar, Árni Þór Sigurðsson, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og Tryggvi Þór Herbertsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Kjartan Fjeldsted var ritari Íslandsdeildar fram í febrúar 2012 þegar Arna Gerður Bang tók tímabundið við til 24. september þegar Vilborg Ása Guðjónsdóttir tók við starfi ritara.

    Þrjár málefnanefndir starfa á vegum ÖSE-þingsins og var skipan þeirra af hálfu Íslandsdeildar ÖSE-þingsins árið 2012 eftirfarandi:

1. Nefnd um stjórnmál og öryggismál: Róbert Marshall
2. Nefnd um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál: Pétur H. Blöndal
3. Nefnd um lýðræðis- og mannréttindamál: Björn Valur Gíslason

4. Starfsemi Íslandsdeildar ÖSE-þingsins 2012.
    Íslandsdeild ÖSE-þingsins hélt tvo fundi á árinu. Á þeim fyrri var farið yfir þær ályktanir sem aðalmenn Íslandsdeildar höfðu lagt inn og óskað eftir stuðningi við. Róbert Marshall og Björn Valur Gíslason höfðu lagt fram ályktun um að bjóða Palestínu áheyrnaraðild að ÖSE- þinginu og Pétur H. Blöndal ályktun um að koma í veg fyrir hringferla peninga hjá hlutafélögum. Á síðari fundinum var þátttaka í haustfundi ÖSE-þingsins undirbúin. Hvað varðar trúnaðarstörf fyrir ÖSE-þingið gegndi Pétur H. Blöndal sem fyrr starfi sínu sem sérlegur fulltrúi forseta ÖSE-þingsins í fjárreiðum ÖSE. Hann gaf stjórnanefnd þingsins skýrslu um störf sín á haustfundinum í Tirana í október, sjá nánar í umfjöllun um fundinn hér að neðan.

5. Fundir ÖSE-þingsins.
    ÖSE-þingið kemur saman til reglulegra fundahalda þrisvar sinnum á ári. Yfirleitt er ársfundur haldinn að sumri, haustfundur í október og vetrarfundur í febrúar.

Vetrarfundur ÖSE-þingsins í Vínarborg 23.–24. febrúar 2012.
    Af hálfu Íslandsdeildar ÖSE-þingsins sóttu fundinn Róbert Marshall, formaður, Björn Valur Gíslason, varaformaður, og Pétur H. Blöndal, auk Kjartans Fjeldsted ritara. Fundinn sóttu um 250 þingmenn frá fleiri en 50 ríkjum en að venju funduðu stjórnarnefnd og málefnanefndir þingsins með embættismönnum ÖSE auk þess sem fram fór sameiginlegur fundur málefnanefndanna. Meginefni fundarins var efnahagskreppan í Evrópu, takmarkanir á vígbúnaði á ÖSE-svæðinu, dómskerfi og umbætur í fangelsismálum, staða þjóðernisminnihluta og fjölmiðlafrelsi.
    Í opnunarávarpi sínu sagði forseti ÖSE-þingsins, Petros Efthymiou, að traust á yfirvöldum væri lágt víðast hvar í ríkjum ÖSE og nauðsynlegt væri að bregðast við því. Hann ítrekaði fyrri ályktanir ÖSE-þingsins um að auka þyrfti gagnsæi og skilvirkni í starfsemi ÖSE, m.a. með því að fastaráðið hittist í heyranda hljóði, sem koma mundi í veg fyrir að ríki gætu beitt neitunarvaldi um mikilvæg málefni án vitundar almennings. Hann þakkaði framkvæmdastjóra ÖSE, Lamberto Zannier, fyrir nýlega heimsókn hans til skrifstofu ÖSE-þingsins í Kaupmannahöfn sem hann taldi til marks um batnandi samskipti ÖSE-þingsins og ÖSE-stofnunarinnar. Lýsti hann yfir stuðningi við áherslur írsku formennskunnar, en Írland tók við formennsku í ráðherraráðs ÖSE af Litháen í upphafi árs 2012.
    Barbara Prammer, forseti austurríska þingsins, kallaði eftir að skuldbindingar ÖSE á sviði mannlegu víddarinnar yrðu styrktar. Slíkt væri sérstaklega mikilvægt nú þegar ekki hefði náðst samstaða um slíkt á ráðherrafundi ÖSE í Vilníus í desember 2011. Lamberto Zannier, framkvæmdastjóri ÖSE, kallaði eftir nánari samvinnu ÖSE-þingsins og ÖSE-stofnunarinnar og hvatti þingmenn til að leika virkara hlutverk í að koma með hugmyndir og leggja sitt af mörkum til starfsemi ÖSE. Hann benti á að ákvarðanir ráðherrafundarins í Vilníus um lausn átaka, sterkari tengsl við Afganistan og önnur samstarfsríki ÖSE og baráttu gegn fjölþjóðlegum ógnum tækju tillit til þess að þörf væri á meiri samstöðu meðal aðildarríkja ÖSE til að ná fram sameiginlegum markmiðum.
    Fund lýðræðis- og mannréttindanefndar þingsins ávörpuðu m.a. Thomas Greminger, sendiherra og formaður nefndar um mannlega vídd ÖSE, Janez Lenarcic, framkvæmdastjóri ODIHR, og Dunja Mijatovic, sérlegur fulltrúi ÖSE í málum er varða fjölmiðlafrelsi. Fram fór sérstök umræða um dómskerfi og umbætur í fangelsismálum á ÖSE-svæðinu með þátttöku Manfreds Nowaks, fyrrverandi sérstaks skýrsluhöfundar Sameinuðu þjóðanna um pyntingar, Luciu Uva, Bill Browder, Írínu Bogdanóvu og Jevgeníu Tímosjenkó, dóttur Júlíu Tímósjenkó, fyrrverandi forsætisráðherra Úkraínu, sem hafði þá nýverið var dæmd í sjö ára fangelsi vegna meintrar valdníðslu í embætti.
    Pétur H. Blöndal tók til máls í umræðu um efnahagskreppuna á fundi nefndar þingsins um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál. Lýsti hann áhyggjum af því að ríki hefðu ekki gert nóg til að skilja orsakir efnahagskreppunnar og draga af þeim lærdóm. Ein meginorsök kreppunnar væri til að mynda sú að núverandi reglur, þar sem hlutafélög mega fjárfesta hvert í öðru og í sjálfum sér í gegnum eignarhald sitt í öðrum félögum, væru gallaðar og gerðu hlutafélögum kleift að búa til hlutafé sem væri í raun ekki til. Vandamálið væri fjölþjóðlegt í eðli sínu og þörf fyrir samræmdar reglur til að skylda hlutafélög til að gefa upp bæði eigin eigendur og þau hlutafélög sem þau ættu hlut í.
    Sameiginlegan fund málefnanefndanna þriggja ávörpuðu Knut Vollebæk, sérstakur fulltrúi ÖSE í málefnum þjóðernisminnihluta, Lucinda Creighton, Evrópumálaráðherra Írlands, og Hedy Fry, sérlegur fulltrúi ÖSE-þingsins í jafnréttismálum. Creighton gerði fundinum grein fyrir helstu áherslum írsku formennskunnar í ÖSE á fyrri hluta ársins, en þær eru tjáningarfrelsi á internetinu, fjölþjóðlegar ógnir og góðir stjórnsýsluhættir. Lagði hún sérstaka áherslu á það hlutverk sem samstarf þjóðþinga gæti leikið í að vinna áherslumálum formennskunnar brautargengi. Þá fór fram sérstök umræða um takmörkun vígbúnaðar í álfunni og stöðu samningsins um hefðbundinn herafla í Evrópu, CFE-sáttmálann.
    Á fundi stjórnarnefndarinnar bar það helst til tíðinda að fundurinn ákvað að ógilda ákvörðun framkvæmdastjóra ÖSE-þingsins um að senda ekki kosningaeftirlitsmenn til að fylgjast með forsetakosningunum í Rússlandi 4. mars 2012. ÖSE-þingið sendi því fulltrúa sína til að fylgjast með kosningunum.
    Í lok fundar gaf forseti ÖSE-þingsins út yfirlýsingu fyrir hönd þingsins þar sem hann harmaði áframhaldandi átök og mannfall í Sýrlandi og kallaði eftir því að mannréttindi væru virt að fullu. Vottaði hann þeim blaðamönnum sem látið hefðu lífið við að færa umheiminum fréttir af ástandinu þar í landi virðingu sína.

Ársfundur ÖSE þingsins í Mónakó 5.–9. júlí 2012.
    Af hálfu Íslandsdeildar ÖSE-þingsins sóttu fundinn Róbert Marshall, formaður, Björn Valur Gíslason, varaformaður, og Pétur H. Blöndal, auk Örnu Gerðar Bang ritara. Fundinn sóttu um 270 þingmenn frá 54 ríkjum en yfirskrift fundarins var að þessu sinni ÖSE – landsvæði breytinga. Auk umbóta á starfsemi ÖSE var ástandið í ríkjum arabaheimsins, staða mála í Hvíta-Rússlandi, gangsæi í hernaði og alheimsefnahagskreppan meðal meginviðfangsefna fundarins.
    Á fundi stjórnarnefndar ÖSE-þingsins kynnti framkvæmdastjóri ÖSE-þingsins, Spencer Oliver, skýrslu um starfsemi þingsins auk þess sem Roberto Battelli, gjaldkeri ÖSE-þingsins, fór yfir fjárhagsáætlun þingsins fyrir árið 2013. Battelli sagði fjármál þingsins hafa fengið jákvæða endurskoðun og tekist hafi að halda úti virkri starfsemi þrátt fyrir að fjárframlög hefðu verið þau sömu eða „frosin“ síðustu fjögur árin. Samþykkt var samhljóða að fjárhagsáætlun ÖSE-þingsins fyrir árið 2012 –2013 yrði óbreytt frá fyrra ári og ekki kæmi til neinnar hækkunar árgjalds. Þá flutti sérstakur fulltrúi sérstakrar nefndar um kosningaeftirlit skýrslu auk þess sem forseti albanska þingsins, Jozefina Topalli, sagði fundargestum frá undirbúningi haustfundar ÖSE-þingsins. Enn fremur voru 26 viðbótarefni samþykkt til umræðu á ársfundinum, m.a. frá Róbert Marshall og Birni Vali Gíslasyni um að bjóða Palestínu áheyrnaraðild að ÖSE-þinginu. Tólf efnum var vísað til umræðu og afgreiðslu ályktana í 1. málefnanefnd, fjórum til 2. nefndar, sex til 3. nefndar og fjórum til afgreiðslu á þingfundi ársfundar.
    Í upphafsávarpi sínu ræddi Petros Efthymiou, forseti ÖSE-þingsins, m.a. um ástandið í Úkraínu, sem verður með formennsku í ÖSE árið 2013. Lamberto Zannier, framkvæmdastjóri ÖSE, ávarpaði einnig setningarfund þingsins og lagði áherslu á framtíðarsýn stofnunarinnar sem samþykkt var á leiðtogafundi ÖSE í Astana í desember 2010. Hann sagði 40 ára afmæli Helsinkisáttmálans árið 2015 frábært tækifæri og hvata til frekari framfara fyrir stofnunina. Þá ræddi hann hlutverk ÖSE við kosningaeftirlit í Kósóvó og hvernig þingmenn gætu tekið þátt í því að auka þekkingu aðildarríkjanna á stofnuninni. Næstur tók til máls formaður ráðherraráðs ÖSE, írski aðstoðarráðherrann Eamon Gilmore, og gaf hann nefndarmönnum skýrslu um málefni ÖSE og verkefni sem unnið er að hjá stofnuninni. Hann sagði það hafa verið markmið fyrsta hluta írsku formennskunnar að útfæra ákveðin forgangsatriði sem mundu tryggja jafnvægi og samhengi milli verkefna stofnunarinnar. Þá lagði hann áherslu á mikilvægi náins samstarfs við ÖSE-þingið með sameiginleg markmið að leiðarljósi.
    Meðal annarra tignargesta sem ávörpuðu þingið má nefna Michel Roger, forsætisráðherra Mónakó, og Jean-François Robillon, þingforseta Mónakó. Robillon sagði að með því að halda ársfund ÖSE-þingsins í Mónakó hafi stofnunin enn og aftur sýnt að öll aðildarríkin hafi gilda rödd í ÖSE óháð stærð. Sérlegur fulltrúi ÖSE-þingsins um jafnrétti kynjanna, dr. Hedy Fry, kynnti skýrslu sína um konur og minnihlutahópa. Í skýrslunni leggur Fry áherslu á stöðu kvenna í minnihlutahópum í aðildarríkjum ÖSE og veitir yfirsýn yfir misjafna stöðu kynjanna á ólíkum sviðum. Þá lofaði Fry sérstaklega landsdeildir Kyrgyzstan og Tyrklands fyrir að efla og auka þátttöku kvenna á ÖSE-þinginu.
    Málefnanefndirnar þrjár tóku fyrir fram ákveðin mál til umfjöllunar með áherslu á yfirskrift ársfundarins ÖSE – landsvæði breytinga. Róbert Marshall tók þátt í störfum 1. nefndar um stjórn- og öryggismál. Nefndin samþykkti m.a. ályktanir um aukið öryggi á ÖSE- svæðinu, leiðir til að sporna við ofbeldissinnuðu ofstæki sem leiðir til hryðjuverka, stuðning við stefnu Sameinuðu þjóðanna gegn hryðjuverkum og aukið samstarf yfir landamæri í kjölfar átaka. Björn Valur Gíslason tók þátt í störfum 3. nefndar um lýðræðis- og mannréttindamál. Þar var m.a. rætt og ályktað um nauðsyn gagnsæis sem tengingar milli réttarfarslegs sjálfstæðis dómara og skilyrða í fangelsum.
    Pétur H. Blöndal tók þátt í störfum 2. nefndar um efnahags-, vísinda-, tækni-, og umhverfismál en þar var m.a. rætt og ályktað um skýrslu breska þingmannsins Tony Lloyd. Pétur lagði fram þrjár breytingartillögur við ályktunina og voru þær samþykktar. Pétur mælti fyrir breytingartillögunum sem miða að því að koma í veg fyrir hringferla peninga með raðeignarhaldi, lánveitingum og öðrum hætti sem gerir fyrirtækjum kleift að blása út eignir sínar án innstæðu og leiða til innstæðulausrar eignabólu fyrirtækja. Pétur sagði þetta vera alþjóðlegt vandamál og því væri mikilvægt að reglur væru samræmdar um allan heim. Ekki væri nóg að koma í veg fyrir veilu sem þessa í einstaka löndum. Formaður efnahagsnefndarinnar tók undir orð Péturs og hvatti þingmenn sérstaklega til að fylgja tillögum hans eftir heima fyrir. Í framhaldinu átti Pétur fund um eftirfylgni við málið með formanni þýsku sendinefndarinnar og ritara bandarísku sendinefndarinnar.
    Ályktun Róberts Marshall og Björns Vals Gíslasonar um að bjóða Palestínu áheyrnaraðild að ÖSE-þinginu var rædd á þingfundi ársfundarins og var felld með sex atkvæða meiri hluta, 22 atkvæði með og 28 á móti. Róbert mælti fyrir ályktuninni á þingfundi en mikil andstaða var á meðal þingmanna Bandaríkjamanna og Ítala en hún naut m.a. stuðnings frá fulltrúum Norðurlandaþjóðanna auk Frakklands og Bretlands. Tillagan fól í sér að heimastjórn Palestínu hefði verið veittur réttur til að sitja fundi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu án þess þó að hafa þar tillögu- eða atkvæðisrétt. Sex aðrar Miðjarðarhafsþjóðir hafa þennan rétt, þar á meðal Ísrael, en fulltrúar þeirra beittu sér einnig gegn samþykkt tillögunnar. Þá benti Róbert á að heimastjórn Palestínumanna hefði þegar verið veittur þátttökuréttur á fundum Evrópuráðsþingsins, Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) og UNESCO.
    Mikil umræða skapaðist um ályktun um mál Sergei Magnitsky, lögfræðings frá Rússlandi, sem lést í fangelsi þar í landi eftir illa meðferð og pyntingar. Ályktunin var samþykkt og tók bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn John McCain m.a. til máls henni til stuðnings. Þá hvatti forseti ÖSE-þingsins aðildarríkin til að leggja á vegabréfsrefsiaðgerðir og frystingu fjármuna hjá þeim aðilum sem bera ábyrgð á fangelsun, þyrmingu og dauða Sergei Magnitsky.
    Í ályktun ársfundarins var m.a. samþykkt að ÖSE-þingið ynni að stjórnmálalegri yfirlýsingu þar sem lagt er til að ríkisstjórnir, þjóðþing og ÖSE skoði sérstaklega mannréttindamál, gagnsæi í hernaði og alþjóðlegu efnahagskreppuna. Þingið samþykkti 25 ályktanir sem fjölluðu m.a. um leiðir til að finna diplómatískar lausnir við spurningum varðandi kjarnorkuáætlun Írans og hvernig styðja megi við verðandi lýðræðisstofnanir í arabaheiminum.
    Loks fór fram kjör í helstu embætti ÖSE-þingsins. Ítalski þingmaðurinn Riccardo Migliori var kjörinn forseti ÖSE-þingsins til eins árs og tók við embætti af Petros Efthymiou. Þá voru fimm varaforsetar ÖSE-þingsins kjörnir, þeir Robert Aderholt frá Bandaríkjunum, Jean- Charles Gardetto frá Mónakó, Alain Neri frá Frakklandi, George Tsereteli frá Georgíu og Uta Zapf frá Þýskalandi. Þá var Asa Lindestam frá Svíþjóð kjörin formaður stjórnmálanefndar, Serhiy Shevtsjúk frá Úkraínu formaður efnahagsnefndar og Matteo Mecacci frá Ítalíu endurkjörinn formaður lýðræðis- og mannréttindanefndar. Að venju var einnig efnt til sérlegs kvennafundar ÖSE-þingsins og sótti Íslandsdeild fundinn.

Haustfundur ÖSE-þingsins í Tirana 5.7. október 2012.
    Af hálfu Íslandsdeildar ÖSE-þingsins sóttu fundinn Björn Valur Gíslason, varaformaður, og Pétur H. Blöndal, auk Vilborgar Ásu Guðjónsdóttur ritara. Til viðbótar við hefðbundinn fund stjórnarnefndar ÖSE-þingsins fór fram ráðstefna um þrjú málefni: eflingu og vernd fjölþjóða- og fjölmenningarsamfélaga í aðildarríkjum ÖSE, efnahags- og fjármálakreppuna og hvort heillavænlegra sé að bregðast við henni með niðurskurði eða aðgerðum til eflingar hagvaxtar, og hlutverk fjölmiðla við eflingu góðra stjórnunarhátta. Meðal ræðumanna voru yfirmenn skrifstofa ÖSE á Balkanskaga og sérfræðingar á sviði fjármála, fjölmiðla og umburðarlyndis.
    Í setningarávarpi sínu lagði Riccardo Migliori, forseti þingsins, áherslu á mikilvægi umræðu á milli þjóðarbrota, lofaði viðleitni Albaníu til að styrkja tengslin á milli samfélaga sem aðhyllast mismunandi trú og hvatti ÖSE til að nálgast alþjóðlegar áskoranir á fyrirbyggjandi hátt. Hann kallaði einnig eftir aðgerðum gegn bagalegri stöðu mannúðarmála í Sýrlandi í kjölfar árása sýrlenska hersins á Tyrkland, eitt aðildarríkja ÖSE. Setningarfundinn ávarpaði einnig forseti albanska þingsins, Jozefina Topalli, forsætisráðherra Albaníu, Sali Berisha, og framkvæmdastjóri ÖSE, Lamberto Zannier. Topalli hvatti til fjárfestinga í Albaníu og minnti fundargesti á framfarir landsins á síðustu missirum sem ættu rætur sínar að rekja til aukins frelsis í landinu. Berisha þakkaði ÖSE fyrir framlag sitt til endurbóta í landinu sem hefðu átt sinn þátt í því að Albanía væri ekki lengur á meðal fátækustu ríkja heims, heldur á meðal þeirra ríkja á sínu heimssvæði sem yxu hvað hraðast. Zannier vakti athygli fundargesta á umræðunni um Helsinki +40 ferlið sem snýr að stefnumótun fyrir verkefni ÖSE til ársins 2015. Hann ræddi einnig um verkefni stofnunarinnar gegn fjölþjóðlegum ógnum, líkt og hryðjuverkum og ólöglegum viðskiptum, sem að hans mati gera ÖSE í vaxandi mæli að verðugum hnattrænum samstarfsaðila Sameinuðu þjóðanna og annarra svæðisbundinna stofnana.
    Á fundi stjórnarnefndar þingsins kynnti Zannier fjárhagsáætlun ÖSE fyrir árið 2013 en samkvæmt henni verða ekki breytingar á heildarútgjöldum stofnunarinnar frá árinu 2012, sem verða því áfram 148 milljónir evra. Helstu breytingar eru þær að gert er ráð fyrir lægri framlögum til verkefna á Balkanskaga en hærri framlögum til skrifstofu ÖSE í Tajikistan og til höfuðstöðva ÖSE í Vínarborg. Pétur H. Blöndal, sérlegur fulltrúi forseta ÖSE-þingsins í fjárreiðum ÖSE, gagnrýndi að heildarútgjöld yrðu þau sömu og árið 2011 og að fjárhagsáætlunin tæki ekki mið af verðbólgu. Hann varaði við því að verðbólga ákvarðaði niðurskurð í stað pólitískrar ákvörðunar. Þá gagnrýndi hann einnig að dregið yrði úr framlögum til vettvangsskrifstofa á meðan að framlög til höfuðstöðva ÖSE yrðu aukin, og lýsti yfir áhyggjum af áhrifum þessarar þróunar á starfsemi vettvangsskrifstofanna. Pétur lagði einnig til að ÖSE- þinginu yrði falið að ráða endurskoðanda fyrir reikninga ÖSE, sem mundi heyra undir ÖSE-þingið, og greina því beint frá niðurstöðum sínum. Það gæti aukið skilning milli ÖSE og ÖSE-þingsins. Loks ræddi Pétur um starf sitt í Albaníu og sagði m.a. frá ferð sinni þangað árið 2007 þegar hann heimsótti skrifstofu ÖSE í Tirana. Tilgangur ferðarinnar hefði verið að öðlast upplýsingar um verkefni sem sneru að stofnun albanskrar þjóðskrár og skrásetningu heimilisfanga í Albaníu. Ferðinni hefði verið fylgt eftir með símafundi árið 2010 og fundi í Tirana á meðan á haustfundinum stóð. Niðurstöður væru þær að verkefnin gengju almennt vel og bæri þar hæst að stofnun þjóðskrár hefði haft mjög jákvæð áhrif á baráttuna gegn mansali.
    Í lok fundar samþykkti stjórnarnefndin ályktun sem fordæmir árásir sýrlenska hersins á tyrkneska bæinn Akçakale. Í ályktuninni er tekið undir yfirlýsingar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um að átökin í Sýrlandi hafi áhrif á öryggi í nágrannaríkjum þess, sem og á svæðisbundinn frið og stöðugleika. Í henni er enn fremur krafist þess að brot á alþjóðalögum verði tafarlaust hætt og brýnt fyrir Sýrlandi að virða friðhelgi yfirráðasvæða og fullveldi nágrannaríkja sinna.

Alþingi, 31. jan. 2013.


Róbert Marshall,


form.


Björn Valur Gíslason, varform.


Pétur H. Blöndal.




Fylgiskjal.

Ályktanir og skýrslur ÖSE-þingsins árið 2012.


Eftirfarandi ályktanir og skýrslur voru samþykktar á ársfundi ÖSE-þingsins árið 2012:
               Ályktun ársfundar og málefnanefndanna þriggja. –
               Ályktun um Úkraínu.
               Ályktun um réttarríkið í Rússlandi, mál Sergei Magnitsky.
               Ályktun um þátttöku kvenna til jafns við karla í ákvarðanatöku ÖSE.
               Ályktun um kyn og minnihlutahópa á ÖSE-svæðinu.
               Ályktun um eflingu öryggis á ÖSE-svæðinu.
               Ályktun um þróun samstarfs ÖSE við Afganistan til ársins 2014 og síðar.
               Ályktun um Moldavíu.
               Ályktun um ÖSE og komandi lýðræðisríki í arabaheiminum.
               Ályktun um kjarnorkuáætlun Írans.
               Ályktun um ástandið í Georgíu.
               Ályktun um að auka áhrif samstarfsáætlana þvert yfir landamæri í kjölfar átaka.
               Ályktun um Helsinki +40 ferlið.
               Ályktun um að berjast gegn ofbeldisfullri öfgastefnu og róttæknivæðingu sem leiðir til hryðjuverka.
               Ályktun um áhrif smáríkja innan ÖSE.
               Ályktun um stuðning við stefnu Sameinuðu þjóðanna gegn hryðjuverkum (e. United Nations Global Counter-Terrorism Strategy).
               Ályktun um stuðning við og notkun nýrra og endurnýjanlegra orkugjafa.
               Ályktun um að deila sérþekkingu á endurheimtun vatnsauðlinda til að styrkja alþjóðlegt matvælaöryggi.
               Ályktun um aðstoð til barna eftir hættuástand.
               Ályktun um frjálsa för fólks innan ÖSE-svæðisins.
               Ályktun um að vernda viðkvæma borgara fyrir mansali.
               Ályktun um Hvíta-Rússland.
               Ályktun um að takast á við kynþáttafordóma og útlendingahatur gegn fólki af afrískum uppruna á ÖSE-svæðinu.
               Ályktun um fangaflutninga.Ályktun um endurbætur á kosningaeftirliti í aðildarríkjum ÖSE.
               Ályktun um fjölþjóðlega afbrotamenn á flótta.
         
     Ályktun um þróun mála á landamærum Tyrklands og Sýrlands.