Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 533. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 976  —  533. mál.




Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur
um Evrópska stöðugleikakerfið.


     1.      Hver yrði hlutur Íslands í Evrópska stöðugleikakerfinu í krónum og evrum talið, tæki Ísland upp evru í kjölfar inngöngu í Evrópusambandið og gengi í ERM II, reiknaður út frá annars vegar mannfjölda og hins vegar landsframleiðslu?
    Evruríkin sautján eru aðilar að stöðugleikasjóði evruríkjanna sem formlega kallast Evrópska stöðugleikakerfið (e. European Stability Mechanism, ESM). Ríki sem eru þátttakendur í gengissamstarfinu ERM II eru þannig ekki aðilar að ESM og greiða ekki í sjóðinn.
    Hlutafé stöðugleikasjóðsins er um 700 milljarðar evra, eða um 120 þúsund milljarðar kr. Þar af er inngreitt hlutafé um 80 milljarðar evra, eða um 14 þúsund milljarðar kr. Innkallanlegt hlutafé (e. callable capital), sem hægt er að kalla eftir hjá evruríkjunum ef þörf er á, er um 620 milljarðar evra, eða um 106 þúsund milljarðar kr. Hið inngreidda hlutafé er talið fram sem skuldbinding evruríkjanna í ríkisreikningi. Ríki, sem þiggja fjárhagsaðstoð frá stöðugleikasjóðnum, greiða ekki framlag til hans.
    Ef Ísland gerðist aðili að Evrópusambandinu (ESB), tæki upp evru og væri ekki þiggjandi fjárhagsaðstoðar frá Evrópska stöðugleikakerfinu, má ætla að hlutur þess yrði um 0,1% af heild. Það þýðir að inngreitt hlutafé Íslands yrði um 14 milljarðar kr.

     2.      Hver er reiknireglan sem notuð yrði við útreikning á hlut Íslands í þessum björgunarsjóði?
    Í sáttmálanum um Evrópska stöðugleikakerfið segir að hlutafé evruríkjanna sé reiknað á sama hátt og hlutur þeirra í Seðlabanka Evrópu. Sú reikniregla miðast við að tekið er meðaltal af hlutdeild ríkjanna í landsframleiðslu og mannfjölda í aðildarríkjum ESB. Samkvæmt tölum Hagstofu ESB, Eurostat, fyrir árið 2011 kemur fram að landsframleiðsla á Íslandi var um 0,08% af landsframleiðslu aðildarríkja ESB. Á sama tíma var mannfjöldi á Íslandi um 0,06% af heildarmannfjölda í aðildarríkjum ESB. Að meðaltali var hlutdeild Íslands í landsframleiðslu og mannfjölda ESB-ríkja á árinu 2011 því um 0,07%.
    Öll aðildarríki ESB eru hluthafar í Seðlabanka Evrópu og er hlutur evruríkjanna í bankanum um 70% á móti 30% hlut frá öðrum aðildarríkjum. Því er hlutur einstakra evruríkja í Evrópska stöðugleikakerfinu hærri en sem nemur hlut þeirra í Seðlabanka Evrópu. Í tilviki Íslands sem evruríkis yrði hlutdeild í Evrópska stöðugleikakerfinu því ekki 0,07% heldur 0,1% (0,07x100/70=0,1).

     3.      Hver yrði eignarhlutur Íslands í Evrópska seðlabankanum og hvernig yrði hann reiknaður út?
    Eignarhlutur Íslands í Seðlabanka Evrópu yrði 0,07% af heild eins og kemur fram í svari við spurningu nr. 2.

     4.      Hvaða ábyrgðir yrðu af Íslands hálfu lagðar til grundvallar eignarhlutanum?
    Ábyrgðir eru ekki lagðar til grundvallar eignarhluta í Seðlabanka Evrópu.

     5.      Hvernig er reiknað út að hlutur Íslands í Evrópska stöðugleikakerfinu yrði 0,1% af eigin fé þess, sbr. svar ráðherra í 231. máli?
    Sjá útreikninga í svari við spurningu nr. 2.