Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 536. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 977  —  536. mál.




Svar



atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn Margrétar Tryggvadóttur
um svarta atvinnustarfsemi í ferðaþjónustu.


     1.      Hver er stefna stjórnvalda varðandi svarta atvinnustarfsemi í ferðaþjónustu?
    Starfsemi á samkeppnismarkaði á að fara að leikreglum og lúta þeim lögum og reglum sem settar eru. Svört atvinnustarfsemi eykur á ójafnvægi í greininni og gerir eftirlit og aðgengi að upplýsingum, sem nauðsynlegar eru fyrir þróun greinarinnar, erfitt.
    Í frumvarpi til breytinga á lögum um skipan ferðamála, nr. 73/2005, sem lagt hefur verið fram á Alþingi er mörkuð ákveðin stefna varðandi svarta atvinnustarfsemi. Lagt hefur verið til að eitt af skilyrðum fyrir útgáfu ferðaskipuleggjenda- og ferðaskrifstofuleyfa verði að umsækjandi hafi skráð starfsemi sína hjá ríkisskattstjóra. Tilgangurinn er að auðvelda eftirlit og sporna við svartri atvinnustarfsemi.

     2.      Hafa stjórnvöld gert úttekt á umfangi svartrar atvinnustarfsemi í ferðaþjónustu? Ef svo er hver er niðurstaða hennar? Ef ekki, stendur til að gera slíka úttekt?
    Ekki hefur verið farið í sérstaka úttekt á umfangi svartrar atvinnustarfsemi þar sem fyrirtæki í ferðaþjónustu eru eingöngu tekin fyrir.
    Síðastliðin tvö ár hefur Ferðamálastofa farið í sérstakt átak varðandi þá sem stunda leyfisskylda starfsemi ferðaskipuleggjenda og ferðaskrifstofa en hafa ekki sótt um leyfi. Þótt stöðug fjölgun hafi verið í útgefnum leyfum er vitað að talsvert hefur verið um leyfislausa aðila í rekstri og var markmið átaksins að ráða bót á því. Án þess að það hafi verið skoðað sérstaklega þá kann að vera að átakið hafi haft einhver áhrif á svarta atvinnustarfsemi.
    Í maí 2011 efndu ríkisskattstjóri, Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands til tímabundins átaks þar sem m.a. var lögð áhersla á að sporna við svartri atvinnustarfsemi. Átakið var afmarkað við lítil og meðalstór fyrirtæki með ársveltu undir einum milljarði króna. Ferðaþjónustan var ekki sérstaklega tekin fyrir en hún var hluti af átakinu.
    Helstu niðurstöður átaksins samkvæmt skýrslu dagsettri 2. nóvember 2011 voru að svört atvinna var að meðaltali 12% í úrtaki 6.167 starfsmanna á landsvísu og var langmest hjá fyrirtækjum með veltu undir 150 milljónum á ári. Samfélagslegt tap vegna svartrar vinnu var um 13,8 milljarðar króna á ári. Reynt var að greina útbreiðslu svartrar atvinnustarfsemi eftir atvinnugreinum en þar sem gögnin voru nokkuð ófullkomin reyndust niðurstöður ekki marktækar. Gögnin gáfu þó vísbendingar um að ástandið væri einna verst í hótel- og veitingaþjónustu og í bygginga- og mannvirkjagerð.
    Það var mat þeirra sem að átakinu komu að skortur væri á viðeigandi eftirlitsúrræðum, þau sem til staðar væru hentuðu oft illa í einföldum eftirlitsstörfum eins og þeim sem átakið beindist að. Fyrir hendi þyrfti að vera t.d. þvingunarúrræði sem hægt væri að beita tiltölulega fljótt og hefði þann tilgang að fá fyrirtæki til að fara eftir lögum og reglum. Þau úrræði sem til staðar eru taka oft langan tíma og geta leitt til þess að tilsett markmið nást ekki.
    Enn fremur var það mat aðila að samstarfið hefði gagnast öllum og vel hefði tekist til við alla framkvæmd átaksins. Aðilar voru sammála um að átakið hefði skilað miklum árangri sem mikilvægt væri að byggja á til framtíðar.
    Átakinu var síðan fylgt eftir frá október 2011 til mars 2012 með nýrri úttekt. Úrtakið var minna en í fyrra átaki og náði úttektin einungis til höfuðborgarsvæðisins, Suðurnesja, Vestur- og Suðurlands. Niðurstöður gáfu vísbendingar um að dregið hefði úr svartri atvinnustarfsemi.
    Samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu mun ráðuneytið setja á fót starfshóp sem ætlað er að skoða svarta atvinnustarfsemi í ferðaþjónustu. Auk fjármálaráðuneytisins munu fulltrúar frá atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu, Samtökum ferðaþjónustunnar og ríkisskattstjóra eiga sæti í starfshópnum.
    Niðurstöður starfshópsins kunna að leiða til þess að farið verði í slíka úttekt með sama hætti og gert var í átaki ríkisskattstjóra, Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins.

     3.      Með hvaða hætti hyggjast stjórnvöld sporna við svartri atvinnustarfsemi í ferðaþjónustu?
    Það mun starfshópurinn skoða og koma með tillögur um.