Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 531. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 984  —  531. mál.




Svar



umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn Unnar Brár Konráðsdóttur
um land Skógræktar ríkisins í Fljótshlíð.


     1.      Hvaða áform eru uppi vegna lands Skógræktar ríkisins í Fljótshlíð?
    Skógrækt ríkisins stundar ræktun skóga og tilraunir í skógrækt á fjórum jörðum í Fljótshlíð. Það svæði sem lengst hefur verið í umsjá stofnunarinnar er Múlakot, þar sem m.a. er eitt elsta og fjölbreyttasta trjásafn landsins. Hinar þrjár jarðirnar eru samliggjandi og heita Tumastaðir, Tunga og Stóri-Kollabær (alls um 400 ha). Auk þess er sameign með nokkrum nágrannajörðum. Á Tumastöðum var stofnuð gróðrarstöð árið 1944 sem síðustu ár hefur verið leigð út til Barra hf. Einnig er merkilegt trjá- og runnasafn á Tumastöðum. Gróðursett hefur verið í stærstan hluta lands Skógræktar ríkisins á svæðinu og vaxa þar upp nytjaskógar, fræreitir og ýmsar langtímatilraunir í skógrækt. Einnig hefur stofnunin umsjón með jörðinni Kotmúla. Þar hafa verið gróðursett skjólbelti og skógarreitir.
    Helstu áform vegna landa Skógræktar ríkisins á svæðinu eru að auka við grisjun skóga, halda áfram gróðursetningu og bæta aðgengi almennings. Stefnt er að því að bæta við áningarstað með bálskýli í nágrenni Tunguskógar sem er elsti hluti skóga á Tumastöðum og er í eigu Rangárþings eystra. Í tengslum við það stendur fyrir dyrum hönnunarsamkeppni á vegum Framkvæmdasýslu ríkisins. Nýjar gönguleiðir eru fyrirhugaðar í svokölluðum Teitsskógi sem gróðursett var til árin 2011–2012 í um 25 ha lands fyrir dánargjöf í minningu Teits Sveinssonar frá Grjótá í Fljótshlíð. Er það verkefni unnið í samvinnu við Skógræktarfélag Rangæinga. Nýjustu áform gera ráð fyrir fræræktaraðstöðu innan dyra þar sem unnið verður að kynbótum á birkiyrkinu Emblu.

     2.      Hvernig er landið nýtt núna?
    Ræktaðir eru fjölbreyttir skógar á stærstum hluta landsvæða Skógræktar ríkisins í Fljótshlíð, bæði skógar sem hugsaðir eru til timburnytja, jólatrjáareitir, kvæmasöfn, frægarðar ýmissa tegunda sem og birkiskógar og er unnið að því að ljúka gróðursetningu á þeim hlutum svæðisins sem enn eru skóglausir og henta til gróðursetningar. Á síðustu árum hefur arinviðarvinnsla og aðrar timburnytjar verið að aukast og munu enn aukast á næstu árum.

     3.      Hverjir hafa afnot af því?
    Allur almenningur hefur aðgang og möguleika til útivistar í öllum löndum Skógræktar ríkisins í Fljótshlíð. Töluverð vinna hefur verið lögð í að gera svæðin aðgengileg almenningi og verður því haldið áfram á næstu árum.

     4.      Hafa verið seldar spildur úr landinu?
    Engar spildur hafa verið seldar úr löndum Skógræktar ríkisins í Fljótshlíð utan að 1 ha lóð fylgdi íbúðar- og útihúsum sem seld voru árið 2007.

     5.      Hverjar eru tekjur Skógræktar ríkisins af nýtingu landsins?
    Helstu tekjur af nýtingu landsins hafa verið leigutekjur af gróðrarstöðinni á Tumastöðum. Einnig eru íbúðarhús á Tumastöðum, Kollabæ og Kotmúla leigð út. Tekjur af grisjun skóga, jólatrjám, arinviðarvinnslu, sölu á hnausplöntum úr skógi, græðlingum af víði og ösp, frætínslu og frævinnslu hafa fengist á síðustu árum. Árið 2012 voru tekjur af rekstri Skógræktar ríkisins á jörðum í Fljótshlíð um 8,4 millj. kr.

     6.      Hver er kostnaður Skógræktar ríkisins af landinu?
    Kostnaður Skógræktar ríkisins af löndum í Fljótshlíð er margþættur. Opinber gjöld eru greidd af byggingum og er nokkur kostnaður af viðhaldi þeirra. Öll löndin eru afgirt og er töluverður kostnaður fólginn í viðhaldi girðinga. Enn fremur fellur til kostnaður við slóðagerð og viðhald gönguleiða. Langstærsti kostnaðarliðurinn er þó launagreiðslur til starfsmanna sem sjá um umhirðu svæðisins, grisjun, gróðursetningu, smölun og annað sem tengist ræktun skóganna. Heildarkostnaður af rekstri á löndum Skógræktar ríkisins í Fljótshlíð var um 16,7 millj. kr. árið 2012.