Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 431. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 991  —  431. mál.




Svar



fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Jóns Bjarnasonar um kostnað
við breytingar á tölvukerfum á sviði virðisaukaskatts í tengslum
við aðildarviðræður Íslands við Evrópusambandið.


     1.      Hver er kostnaðurinn við aðlögunarvinnu íslenskra stjórnvalda að Evrópusambandinu vegna breytinga á tölvukerfum á sviði virðisaukaskatts skv.16. samningskafla aðildarviðræðnanna um skattamál, m.a. við:
                  a.      að skipta út núverandi tölvukerfi, sem uppfyllir ekki kröfur Evrópusambandsins um gagnaskiptakerfi,
                  b.      rekstrarsamhæfingu og samtengingar fyrir bein rafræn gagnaskipti milli innlendra virðisaukaskattsstjórnvalda og samtengingu fyrir upplýsingaskipti milli aðildarríkja,
                  c.      sérstakt kerfi fyrir rafræna þjónustu (Voes) sem seljendur utan ESB veita borgurum sambandsins,
                  d.      sérstakt kerfi til endurgreiðslu virðisaukaskatts sem byggist á tilskipun 2008/9/EB?
    Samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkisskattstjóra hefur enn sem komið er ekki verið framkvæmt mat á þeim kostnaði sem í þarf að leggja til að samhæfa tölvukerfi embættisins við þau kerfi sem nefnd eru í fyrirspurninni. Þá hafa ekki verið gerðar neinar breytingar á tölvukerfum embættisins vegna aðildarumsóknar Íslands. Embættið hefur óskað eftir svokallaðri TAIEX-aðstoð frá Evrópusambandinu vegna VOES-tölvukerfis, sbr. c-lið, og er gert ráð fyrir að sú aðstoð fáist á öðrum ársfjórðungi 2013 eða síðar. Þá er rétt að láta þess getið að ríkisskattstjóri er að undirbúa nýtt virðisaukaskattskerfi óháð aðild að ESB þar sem það kerfi sem er í notkun í dag fullnægir ekki þeim öryggiskröfum sem almennt eru gerðar til kerfa sem þessara. Við þarfagreiningu á nýju kerfi er horft til mögulegrar aðildar og gætt að því að nýtt kerfi geti aðlagast Evrópusambandskerfunum verði aðild að ESB samþykkt. Þessi vinna er þó skammt á veg komin og kostnaðargreining liggur ekki fyrir.

     2.      Eru fleiri slík verkefni við breytingar á tölvukerfum fyrirhuguð í tengslum við aðildarumsókn að Evrópusambandinu en framangreind, til að mynda þverlæg?
    Ekki svo vitað sé.

     3.      Hver er kostnaðurinn við að efla stjórnsýslugetu embættis ríkisskattstjóra og tollstjóra vegna þessara verkefna, með ráðningum og þjálfun starfsmanna?
    Samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkisskattstjóra hefur ekki verið kannað sérstaklega hvaða kostnaðarauki yrði á sviði virðisaukaskatts vegna aðildar að Evrópusambandinu. Tölvukerfi á sviði virðisaukaskatts varða ekki tollstjóraembættið með beinum hætti.

     4.      Hvaða tæknibúnað þarf vegna þessara verkefna, í hvaða áföngum hefur verið lofað að taka búnaðinn í notkun og hverjar eru tímasetningar áfanganna?
    Ekki liggur fyrir mat á því hvaða breytingar þyrfti að gera á tæknibúnaði embættis ríkisskattstjóra í þessu sambandi eða tímasett áfangaáætlun þar að lútandi.

     5.      Hverjir eru áfangar eða tímamörk fyrir verkefnin, er vinna við þau hafin, hvenær á þeim að ljúka og hvenær er gert ráð fyrir að innleiðingu verði lokið?
    Vísað er til svars við 4. tölul.

     6.      Í hvaða tilvikum er stuðst við útvistunarsamninga vegna þessara verkefna, svo sem þróunar, prófana, reksturs og viðhalds hugbúnaðar, vélbúnaðar og samskiptakerfa?
    Vísað er til svars við 4. tölul.

     7.      Hefur verið gerð grein fyrir kostnaði við verkefnin í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2013? Verður gert ráð fyrir honum í útgjaldaáætlun fyrir 2014 og í áætlun um ríkisfjármál, sbr. 4. mgr. 25. gr. laga um þingsköp Alþingis?
    Samkvæmt fjárlögum ársins 2013 eru embætti ríkisskattstjóra veittar 90 millj. kr. til að fjármagna endurbætur á tölvukerfi vegna virðisaukaskatts, en sú fjárveiting er óháð mögulegri aðild Íslands að ESB. Ekki er að finna sérstakar fjárveitingar til þessa verkefnis í langtímaáætlun um ríkisfjármál.