Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 583. máls.

Þingskjal 996  —  583. mál.


Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um Þjóðminjasafn Íslands,
nr. 140/2011 (samstarf við Háskóla Íslands).

(Lagt fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi 2012–2013.)




1. gr.

    Á eftir 1. mgr. 1. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Þjóðminjasafnið er háskólastofnun með sjálfstæðan fjárhag.

2. gr.

    Við 3. gr. laganna bætast þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Stofnunin á samstarf við aðrar stofnanir á háskólastigi samkvæmt sérstökum samningum.
    Samstarf Þjóðminjasafns Íslands og Háskóla Íslands skal byggjast á sérstökum samstarfs- og þjónustusamningi um starfstengsl, fjárhagsleg samskipti og skipan sameiginlegra starfa.
    Safninu er heimilt að veita öðrum háskólum landsins þjónustu eftir því sem nánar er ákveðið í gagnkvæmum þjónustusamningum við einstaka háskóla.

3. gr.

    Á eftir 3. gr. laganna kemur ný grein, 3. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Rannsóknarstaða tengd nafni dr. Kristjáns Eldjárns.

    Við Þjóðminjasafn Íslands skal vera sérstök rannsóknarstaða kennd við dr. Kristján Eldjárn.

4. gr.

    Lög þessi taka gildi 24. febrúar 2013.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Þjóðminjasafn Íslands og Háskóli Íslands hafa átt margháttað samstarf í gegnum langa sögu þessara stofnana. Á síðastliðnu ári voru 100 ár frá stofnun Háskóla Íslands og Þjóðminjasafn Íslands fagnar 150 ára afmæli 24. febrúar nk.
    Í september 2012 var ákveðið, að höfðu samráði við þjóðminjavörð og háskólarektor, að skipa nefnd sem ætlað var það hlutverk að koma fram með tillögur um hvernig efla mætti faglegt samstarf til framtíðar á milli Háskóla Íslands og Þjóðminjasafns Íslands. Nefndin sem skipuð var fulltrúum frá ráðuneytinu, Háskóla Íslands og Þjóðminjasafni Íslands lagði til að lögum um Þjóðminjasafn Íslands yrði breytt svo sem kemur fram í frumvarpstexta.
    Á Þjóðminjasafninu er varðveittur fjölbreyttur safnkostur, á safninu starfa sérfræðingar og þar er vettvangur til að miðla niðurstöðum rannsókna. Í Háskóla Íslands eru rannsóknir og akademískt umhverfi sem stefnir að árangri. Ljóst er að hagur er af því að tengja þessar tvær stofnanir formlega og tryggja þannig betri árangur beggja. Því er í frumvarpinu lagt til að Þjóðminjasafn Íslands verði skilgreint sem háskólastofnun. Með því er undirstrikað það hlutverk safnsins sem felst í rannsóknum og þekkingaröflun á borð við það sem tíðkast í tengdum greinum í háskólum. Hér á landi er þær greinar einkum að finna við Háskóla Íslands, þ.e. fornleifafræði, guðfræði, listfræði, menningarfræði, menningarmiðlun, miðaldafræði, safnafræði, sagnfræði og þjóðfræði. Stofnanirnar stefna að því að ákveðnir starfsmenn safnsins muni, að undangengnu mati, verða gestakennarar við Háskóla Íslands, en kennslan verði hluti af föstu starfi þeirra. Þjóðminjasafnið mun hins vegar fá til sín starfsnema frá Háskólanum sem taka þátt í verkefnum á vegum safnsins.
    Í frumvarpinu er lagt til að tilgreint verði í nýrri málsgrein í 1. gr. laganna að Þjóðminjasafn Íslands sé háskólastofnun með sjálfstæðan fjárhag. Markmiðið með breytingunni er að styrkja náin tengsl Þjóðminjasafns Íslands við Háskóla Íslands í rannsóknum og kennslu á sviði áðurnefndra greina. Tengsl Þjóðminjasafns Íslands og Háskóla Íslands verða nánar skilgreind á hverjum tíma í samstarfs- og þjónustusamningi, sbr. 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins. Sérfræðingar Þjóðminjasafns munu þannig taka virkan þátt í kennslu og efna til rannsóknarsamstarfs við starfsfólk Háskóla Íslands.
    Háskólinn starfar í samræmi við matskerfi opinberra háskóla og hvetur til gæðabirtinga á öllum fræðasviðum. Viðfangsefni rannsókna safnsins eiga að hluta til erindi á slíkan viðurkenndan fræðilegan vettvang. Þjóðminjasafnið mun sem háskólastofnun fá aðgang að þeirri þjónustu sem Háskólaútgáfan veitir.
    Þá er stefnt að því að koma upp sérstakri þverfaglegri rannsóknastofnun um málefni safna innan vébanda Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands, með aðild fræðimanna úr ýmsum greinum við skólann og fulltrúum þriggja höfuðsafna íslensku þjóðarinnar auk fulltrúa annarra safna.
    Í samræmi við reglugerð um Þjóðminjasafn Íslands er við safnið rannsóknarstaða í nafni dr. Kristjáns Eldjárn sem nú er lagt til að verði lögfest. Við Háskóla Íslands er unnið að því að koma á fót sérstakri rannsóknarstöðu kenndri við Matthías Þórðarson sem fyrstur gegndi stöðu þjóðminjavarðar. Þessum rannsóknarstöðum verður ætlað að tengja saman stofnanirnar; þær verða báðar á fræðasviðum Þjóðminjasafns og báðar munu að hluta felast í kennslu við Háskóla Íslands.
    Í frumvarpinu er Þjóðminjasafni Íslands jafnframt veitt heimild til að veita öðrum háskólum landsins þjónustu sem nánar skal kveðið á um í samningum við þá. Ekki er gert ráð fyrir að frumvarp þetta hafi í för með sér kostnaðarauka, heldur mun það stuðla að betri nýtingu fjármuna sem til stofnananna eru veittir á fjárlögum hvers árs.



Fylgiskjal.

Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Þjóðminjasafn Íslands,
nr. 140/2011 (samstarf við Háskóla Íslands).

    Tilgangur frumvarpsins er að styrkja tengsl Þjóðminjasafns Íslands við Háskóla Íslands á sviði rannsókna og kennslu. Margháttað samstarf þessara stofnana á sér langa sögu en á síðastliðnu ári voru 100 ár frá stofnun Háskóla Íslands og Þjóðminjasafn Íslands fagnar 150 ára afmæli á þessu ári.
    Í frumvarpinu er lagt til að Þjóðminjasafn Íslands verði háskólastofnun með sjálfstæðan fjárhag. Tengsl Þjóðminjasafnsins sem háskólastofnunar við Háskóla Íslands og eftir atvikum aðrar háskólastofnanir munu verða skilgreind á hverjum tíma í samstarfs- og þjónustusamningum samkvæmt frumvarpinu. Þjóðminjasafninu verði heimilt að veita háskólum landsins þjónustu eftir því sem nánar er ákveðið í gagnkvæmum þjónustusamningum við einstaka háskóla. Í frumvarpinu er sérstaklega kveðið á um gerð samstarfs- og þjónustusamnings um starfstengsl, fjárhagsleg samskipti og skipan sameiginlegra starfa milli Þjóðminjasafns Íslands og Háskóla Íslands.
    Í reglugerð um Þjóðminjasafn Íslands er gert ráð fyrir að við stofnunina sé starfrækt rannsóknasrtaða í nafni dr. Kristjáns Eldjárn. Með frumvarpinu er lagt til að sú staða verði lögfest. Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að við Háskóla Íslands sé unnið að því að koma á fót sérstakri rannsóknarstöðu kennda við Matthías Þórðarson sem fyrstur gegndi stöðu þjóðminjavarðar. Gert er ráð fyrir að kostnaður vegna þessa rúmist innan fjárheimilda skólans.
    Ætla verður að rekstur Þjóðminjasafns Íslands rúmist innan núverandi fjárheimilda og að útgjöld ríkissjóðs aukist ekki vegna lögfestingar á frumvarpinu. Í samstarfs- og þjónustusamningum Þjóðminjasafnsins við háskólastofnanir verði þess gætt að stofnunin fari ekki umfram þær fjárheimildir sem hún hefur til ráðstöfunar í fjárlögum hvers árs.