Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 440. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1000  —  440. mál.
Svarfjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Ásmundar Einars Daðasonar
um gjaldeyrisvarasjóð.


     1.      Hver er heildarvaxtakostnaður af gjaldeyrisvaralánum sem tekin voru eftir haustið 2008, sundurliðað eftir lánum?
    Hér að aftan er tafla yfir lántökur frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS) og samstarfsþjóðum, útgáfur markaðsbréfa og innlán innlendra fjármálafyrirtækja í erlendri mynt hjá Seðlabanka Íslands. Í töflu 1 eru vaxtagjöld á árunum 2009–2011 sundurliðuð fyrir hvert lán. Uppgjöri fyrir 2012 er ekki lokið. Á árinu 2012 var tekið lán að fjárhæð einn milljarður bandaríkjadala á 5,875% vöxtum til 10 ára. Lánsfjárhæðin var notuð til fyrirframgreiðslu á lánum AGS og Norðurlandanna.

Tafla 1. Vaxtagjöld gjaldeyrislána árin 2009–2011.

Lán ríkissjóðs og Seðlabanka Lántökudagur Gjaldmiðill Grunnvextir Vaxtaálag Vaxtagjöld
í ma. kr.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn 1.11. 2008 XDR SDR-vextir 2,4–3,4% 10,8
Tvíhliðalán Noregur 31.12. 2008 EUR Euribor 2,75% 2,4
Tvíhliðalán Færeyjar 24.3. 2009 DKK FÖ-ríkisvextir 0,15% 0,5
Tvíhliðalán Finnland 19.12. 2009 EUR Euribor 2,75% 1,6
Tvíhliðalán Danmörk 21.12. 2009 EUR Euribor 2,75% 2,5
Tvíhliðalán Svíþjóð 29.12. 2009 EUR Euribor 2,75% 2,6
Markaðslán EUR 2025 (Avens) 1.6. 2010 EUR Euribor 2,75% 3,0
Tvíhliðalán Pólland
29.6. 2010
PLN
PL- ríkisbréfavextir
2,0–1,3%

0,9
Markaðslán USD 2016 16.6. 2011 USD 4,875% 2,8
Vaxtagjöld vegna innstæðna fjármálastofnana
Breytilegir

3,1
Samtals: 30,4

     2.      Hverjir eru heildarinnlánsvextir af sömu lánum, sundurliðað eftir lánum?
    Vaxtatekjur vegna einstakra lána eru ekki sundurgreinanlegar vegna þess að andvirði lánanna er ávaxtað í heild sinni sem hluta af gjaldeyrisforðanum. Þar sem erlend lán sem tekin voru fyrir árið 2008 eru ekki sundurgreinanleg í forðanum var lagt mat á vaxtatekjur vegna þeirra og tekjur lækkaðar sem því nemur. Hér að neðan er tafla um vaxtatekjur fyrir árin 2009–2011. Uppgjöri fyrir 2012 er ekki lokið. Athuga ber að ávöxtun skuldabréfa í forða er bókfærð annars vegar sem vaxtatekjur og hins vegar sem verðendurmat, en verðbreytingarnar eru ekki teknar með hér.

Tafla 2. Vaxtatekjur gjaldeyrisforðans árin 2009–2011.

Tekjuliðir ríkissjóðs og Seðlabanka

Vaxtatekjur
í ma. kr.

Gjaldeyrisforði:
    Innstæður í erlendum gjaldmiðlum
    Verðbréf í erlendum gjaldmiðlum
    Aðrar erlendar eignir
5,7
10,5
0,3
Samtals: 16,5

     3.      Hver er heildarvaxtakostnaður umfram innlánsvexti af sömu lánum?
    Heildarvaxtagjöld samkvæmt töflu 1 eru 30,4 ma. kr. og heildarvaxtatekjur af sömu lánum námu 16,5 ma. kr. Heildarvaxtakostnaður umfram innlánsvexti á árunum 2009–2011 er um 13,9 ma. kr.

     4.      Hvar hafa þessir fjármunir verið ávaxtaðir frá lántökudegi og til dagsins í dag?
    Meginhluti gjaldeyrisforðans er annars vegar varðveittur í skuldabréfum ríkja og stofnana með fullnægjandi lánshæfismat samkvæmt starfsreglum Seðlabankans. Hins vegar er fjármagn geymt hjá öðrum seðlabönkum og Alþjóðagreiðslubankanum.
    Bankastjóri setur starfsreglur um varðveislu og ávöxtun gjaldeyrisforða. Þess er vandlega gætt að bankinn geti ætíð staðið við skuldbindingar sínar og sinnt skyldum sínum. Með þetta að leiðarljósi er fjármununum ráðstafað þannig að fjárhagsleg áhætta í tengslum við skuldbindingar bankans í erlendum gjaldmiðlum verði sem minnst og langtímaafrakstur í hlutfalli við áhættu verði sem mestur af hreinni gjaldeyriseign bankans.
    Við stýringu forða hefur á undanförum árum verið í auknum mæli horft til þróunar í alþjóðlegri greiðslumiðlun. Í hagtölum Seðlabankans kemur fram að á seinni hluta árs 2010 var dregið úr því hlutfalli forðans sem geymt er hjá erlendum viðskiptabönkum og aukið við innstæður hjá öðrum seðlabönkum, Alþjóðagreiðslubankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þá kemur fram í ársskýrslu Seðlabankans að lánshæfismat verðbréfa í skuldabréfasafni Seðlabankans, sem almennt er mjög hátt, hefur batnað enn frekar. Samhliða því hefur verið lögð áhersla á að auka landfræðilega dreifingu útgefanda skuldabréfa og enn fremur að draga alveg úr eignarhaldi skuldabréfa frá jaðarríkjum á evrusvæðinu.

     5.      Hefur íslenska ríkið tryggt sig með einhverjum hætti ef ske kynni að fjármálastofnanir þar sem lánin eru ávöxtuð færu í þrot?
    Stýringu gjaldeyrisforðans er þannig háttað að áhættu gagnvart fjármálastofnunum er haldið í lágmarki en þó þannig að hægt sé að sinna reglulegri greiðslumiðlun. Meginþorri gjaldeyrisforðans er ávaxtaður hjá seðlabönkum, Alþjóðagreiðslubankanum eða í skuldabréfum með hæsta lánshæfismat og mikinn seljanleika. Seðlabankinn kaupir ekki skuldabréf á fjármálastofnanir nema lánshæfismat viðkomandi stofnunar sé viðunandi samkvæmt fjárfestingarheimildum.

     6.      Við mat hvaða sérfræðinga var stuðst þegar ákvörðun um stærð gjaldeyrisvarasjóðs var tekin?
    Ákvörðunin um stærð gjaldeyrisforðans er hluti af efnahagsáætlun stjórnvalda. Hún var unnin í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og byggist á greiðslujafnaðargreiningu sem unnin var af Seðlabankanum og AGS. Helstu þættirnir sem hafa áhrif við mat á stærð gjaldeyrisforðans eru: (i) umgjörð peningastefnu (t.d. hvort rekin er fastgengisstefna eða gengið látið fljóta), (ii) aðgangur að fjármálamörkuðum, (iii) umfang utanríkisviðskipta, (iv) skuldir ríkissjóðs og erlendar skammtímaskuldir hins opinbera og einkageirans hvort sem er í krónum eða erlendri mynt.
    Fjármagnshöftin og vel heppnaðar útgáfur ríkissjóðs á erlendum fjármálamörkuðum hafa dregið úr þörf Íslands fyrir gjaldeyrisforða. Skemmri lán hafa verið forgreidd til að draga úr vaxtakostnaði. Þá er það mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að vænt losun hafta hafi töluverð neikvæð áhrif á forða og auki þörf ríkissjóðs á lántöku. Verði fjármagnshöftin leyst, áður en nægilegar góðar aðstæður til þess eru fyrir hendi, mun þörf fyrir forða aukast og aðgangur að lánamörkuðum gæti orðið erfiðari.

     7.      Hver ber ábyrgð á stærð gjaldeyrisvarasjóðsins? Er um að ræða ákvörðun Seðlabanka Íslands, ríkisstjórnar Íslands eða sameiginlega ákvörðun beggja aðila?
    Seðlabanki Íslands varðveitir gjaldeyrisforðann og metur æskilega stærð hans. Telji Seðlabankinn þörf á að auka forðann með erlendri lántöku eða gjaldeyriskaupum getur hann gert það í eigin nafni eða í samstarfi við ríkissjóð. Gjaldeyriskaup á innlendum markaði eru ákvörðun bankastjóra.
    Fjármögnun gjaldeyrisforðans hefur á síðustu árum verið unnin í samstarfi Seðlabankans og fjármálaráðuneytisins, nú fjármála- og efnahagsráðuneytisins, og byggist því jafnframt á mati ráðuneytisins á nauðsynlegri og æskilegri stærð varaforðans.