Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 106. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1010  —  106. mál.

3. umræða.


Nefndarálitum frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 128/2011, um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði (lykilupplýsingar, markaðssetning,
samrunasjóðir, Evrópupassi og höfuðsjóðir og fylgisjóðir).


Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Berglindi Helgu Jónsdóttur, Guðlaugu Maríu Valdemarsdóttur og Kristján Andrésson frá Fjármálaeftirlitinu og Jón Karlsson og Guðmund Sigbergsson frá Seðlabanka Íslands.
    Frumvarpinu var vísað til nefndarinnar við lok 2. umræðu og þess óskað að sérstaklega yrði litið til þess hvort þær breytingar sem frumvarpið boðar geti skapað möguleika á að gjaldeyrishöftin verði sniðgengin, t.d. af erlendum vogunarsjóðum. Við skoðun sína á málinu fékk nefndin atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og Seðlabanka Íslands til að skoða frumvarpið með hliðsjón af lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál.
    Meiri hlutinn áréttar að lög um gjaldeyrismál ganga framar lögum um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði. Fulltrúar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og Seðlabanka Íslands hafa bent á að fjármagnshreyfingar þær sem gætu átt sér stað meðal annars við samruna sjóða milli landa falli undir 13. gr. b laga um gjaldeyrismál og eftir atvikum önnur ákvæði þeirra laga. Í minnisblaði Seðlabanka Íslands frá 12. febrúar 2013 var efni frumvarpsins rýnt með hliðsjón af ákvæðum laga um gjaldeyrismál og er þar hnykkt á þjóðhagslegu mikilvægi þess að ákvæði laga um gjaldeyrismál gangi framar ákvæðum frumvarpsins (sjá fylgiskjal).
    Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið vakti athygli á ummælum sem fram koma í athugasemdum sem fylgdu lögum, nr. 127/2011, um breytingu á lögum um gjaldeyrismál, nr. 87/1992: „Af 1. og 3. mgr. 13. gr. b leiðir að ekki er heimilt að flytja verðbréf, hlutdeildarskírteini í verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum, peningamarkaðsskjöl og aðra framseljanlega fjármálagerninga, útgefna í innlendum gjaldeyri, úr vörslu erlends fjármálafyrirtækis yfir á vörslureikninga í innlendu fjármálafyrirtæki nema að fenginni undanþágu frá Seðlabanka Íslands.“ Þá benti ráðuneytið á að skv. 13. gr. e væri fjárfesting í verðbréfum, hlutdeildarskírteinum verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, peningamarkaðsskjölum eða öðrum framseljanlegum fjármálagerningum útgefnum í erlendum gjaldeyri óheimil en aðilum sem fjárfest hafa í slíkum fjármálagerningum fyrir 28. nóvember 2008 er þó heimilað að endurfjárfesta. Seðlabankinn hefur eftirlit með því að starfsemi aðila sé í samræmi við lögin um gjaldeyrismál.
    Ráðuneytið hefur enn fremur vakið athygli nefndarinnar á því að hyggist verðbréfasjóður markaðssetja hlutdeildarskírteini sín utan aðildarríkis beri honum að tilkynna þau áform til lögbærs eftirlitsaðila í heimaríkinu og að þar skuli m.a. greina frá áhættu í rekstri sjóðsins, sbr. ákvæði 55. og 56. gr. laga um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði. Rekstrarfélagi ber því að upplýsa um áhrif laga um gjaldeyrismál sem takmarka og banna í tilteknum tilvikum fjármagnshreyfingar milli landa, við markaðssetningu innlendra sjóða og skal það tekið fram í lykilupplýsingum og erlendu kynningarefni.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 12. febrúar 2013.Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.


Árni Þór Sigurðsson.Pétur H. Blöndal.


Ólína Þorvarðardóttir.


Logi Már Einarsson.Fylgiskjal.

Seðlabanki Íslands:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.