Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 93. máls. Ferill 94. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1011  —  93. og 94. mál.

3. umræða.


Nefndarálitum frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 145/1994, um bókhald,
með síðari breytingum (texti bókhaldsbóka og ársreikninga, skoðunarmenn, endurskoðendur), og frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 3/2006,
um ársreikninga, með síðari breytingum (starfrækslugjaldmiðill
og skoðunarmenn og endurskoðendur).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin ákvað að taka málið til frekari umfjöllunar eftir að því hafði verið vísað til hennar að lokinni 2. umræðu. Hefur nefndin fengið á sinn fund Hörpu Theodórsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Guðrúnu Kvaran og Harald Bernharðsson frá Íslenskri málnefnd, Skúla Jónsson frá ríkisskattstjóra, Harald I. Birgisson frá Viðskiptaráði Íslands og Einar Sigurjónsson frá Verðbréfaskráningu Íslands.

Texti bókhaldsbóka og ársreikninga.
    Gerðar voru athugasemdir við þau ákvæði frumvarpanna sem heimila skilaskyldum félögum ef sérstakar aðstæður gefa tilefni til að hafa texta bókhaldsbóka og ársreikninga á dönsku og/eða ensku, sbr. 5. gr. frumvarpsins um ársreikninga (94. mál) og a- og c-liður 1. gr. og 3. gr. frumvarpsins um bókhald (93. mál). Efasemdir komu fram um að ákvæðin samræmdust íslenskri málstefnu sem samþykkt var á Alþingi 12. mars 2009 og þeirri meginreglu að ársreikningum beri að skila á íslensku sem er viðurkennt viðskiptamál hér á landi. Heimildin væri of matskennd og á það bent að beiting hennar yrði að óbreyttu ekki einskorðuð við eignarhald og stjórnarsetur heldur væru þau tilvik tilgreind í dæmaskyni. Fyrirtækin hefðu samkvæmt því nær frjálsar hendur við að ákveða hvort skila ætti inn ársreikningi til ársreikningaskrár á ensku eða dönsku.
    Vakin var athygli á því að nú þegar væri til staðar ákvæði í lögunum sem heimilar fyrirtækjum sem gera upp í erlendri mynt að skila ársreikningi á ensku eða dönsku að fengnu sérstöku leyfi til slíkra skila. Var upplýst að 75% af þeim félögum sem heimild hafa til að gera upp í erlendum gjaldmiðli samkvæmt núverandi regluverki hafa 40% skilað reikningum með íslenskum texta en 60% með enskum. Það eru um 75 sem skila á íslensku og 112 á ensku. Fá dæmi eru um að ársreikningi sé skilað á dönsku.
    Í ljósi framangreinds er það skilningur meiri hlutans að fyrir liggi sú afstaða ráðuneytisins í málinu að það telji með hliðsjón af umsögn Íslenskrar málnefndar ekki tilefni til að gera athugasemd við að 5. gr. frumvarpsins um ársreikninga (94. mál) og a- og c-liður 1. gr. og 3. gr. frumvarpsins um bókhald (93. mál) falli brott.

Gagnsæi eignarhalds.
    Meiri hlutinn lagði til við 2. umræðu frumvarpsins breytingu á þá leið að í skýrslu stjórnar hlutafélaga og einkahlutafélaga þar sem hluthafar eru fleiri en tíu skuli fylgja skrá um alla hluthafa með upplýsingum um hlutafjáreign hvers um sig og hundraðshluta hlutafjár. Sjónarmið komu fram um að þessi upplýsingakvöð geti reynst flókin í framkvæmd og íþyngjandi fyrir félögin. Nefndin ræddi af þeim sökum hvort unnt væri að létta byrðarnar með því að heimila ársreikningaskrá að sækja upplýsingarnar í gagnagrunn ríkisskattstjóra sem m.a. byggir á innsendum hlutafjármiðum. Kom fram að þetta væri unnt að útfæra á þann veg að þegar ársreikningi væri skilað til ársreikningaskrár yrðu nauðsynlegar upplýsingar sóttar í gagnagrunn ríkisskattstjóra og sjálfkrafa búið til skjal um hluthafa félagsins sem hengt yrði við reikninginn.
    Að höfðu samráði við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið leggur meiri hlutinn til breytingu við frumvarpið sem felur í sér að ársreikningaskrá geri félögum kleift, við rafræn skil á ársreikningum, að nota áður innsendar upplýsingar til ríkisskattstjóra um hluthafa í félaginu til að útbúa þann lista. Telur meiri hlutinn að þetta hagræði geti ýtt undir rafræn skil á ársreikningum en kjósi félögin að nýta sér það ekki ber þeim skylda til þess að útbúa listann sjálf og senda inn með ársreikningi.
    Meiri hlutinn leggur til að í skrá yfir alla hluthafa komi bæði fram nöfn og kennitölur. Fram kom að sem stendur væru allar upplýsingar um hlutafjáreign stærri hluthafa sem fylgja ársreikningi tengdar kennitölu, sbr. 9. tölul. 5. mgr. reglna nr. 1220/2007, um rafræn skil ársreikninga til ársreikningaskrár.

Athugasemdir Félags löggiltra endurskoðenda.
    Að lokinni 2. umræðu frumvarpsins lagði ráðuneytið að fengnum athugasemdum Félags löggiltra endurskoðanda til við nefndina að áréttað yrði í 11. gr. frumvarpsins að félög, sem ekki er gert skylt að kjósa sér endurskoðanda til að endurskoða ársreikninga sína, geti valið endurskoðanda, endurskoðunarfyrirtæki eða skoðunarmenn til að yfirfara eða endurskoða ársreikninga sína. Fellst meiri hlutinn á það.
    Hvað varðar óskir félagsins um breytingar á 2. og 16. gr. frumvarpsins taldi ráðuneytið að þær þyrfti að skoða í stærra samhengi og tekur meiri hlutinn undir það. Félagið hefur lýst þeirri skoðun að sá þáttur í störfum skoðunarmanna sem beinist að yfirferð ársreikninga sé ekki nægilega skýr og óljóst geti verið hver réttaráhrif undirritun þeirra hafi. Af hálfu ráðuneytisins hefur komið fram að vinna við endurskoðun laga um ársreikninga standi enn yfir og þar muni þessi mál vera rædd nánar.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Lilja Mósesdóttir skrifar undir álitið með fyrirvara. Fyrirvarinn varðar gagnsæi eignarhalds.

Alþingi, 12. febrúar 2013.Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.


Árni Þór Sigurðsson.Ólína Þorvarðardóttir.


Logi Már Einarsson.


Lilja Mósesdóttir,


með fyrirvara.