Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 502. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1021  —  502. mál.

2. umræða.


Nefndarálitum frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 99/2010, um ívilnanir
vegna nýfjárfestinga á Íslandi, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þórð Reynisson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Þórð Hilmarsson frá Íslandsstofu og Halldór Árnason frá Samtökum atvinnulífsins. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Alþýðusambandi Íslands, Byggðastofnun, Íslandsstofu, ríkisskattstjóra og Samtökum atvinnulífsins.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi. Markmið breytinganna er að bæta stöðu Íslands í samkeppni um nýfjárfestingar við önnur lönd. Markmiðið er útfært á þann hátt í frumvarpinu að lagðar eru til breytingar sem fela í sér ívilnanir til félaga vegna fjárfestingarverkefna, tekjuskattshlutfall þeirra verði 18% í stað 20%, undanþága verði heimiluð frá stimpilgjöldum, afsláttur af fasteignaskatti verði hækkaður upp í 50% úr 30% og afsláttur af almennu tryggingagjaldi verði hækkaður í 50% úr 20%. Þá er lagt til að heimild til veitingar ívilnana í formi beins fjárstuðnings, þ.e. stofnfjárstyrkja, verði felld úr lögunum.
    Skilningur meiri hlutans er að í ákvörðun ESA, dags. 6. desember 2006, hafi falist að íslensk stjórnvöld megi veita byggðastyrki til nýfjárfestinga í landsbyggðarkjördæmunum þremur í samræmi við byggðakort sem gildir á Íslandi út árið 2013. Ákvörðunin byggist á undanþágu frá almennri reglu um að óheimilt sé að veita rekstrarstyrki, þ.m.t. skattaívilnanir sem hafi það að markmiði að lækka rekstrarútgjöld fyrirtækja. Undanþágan grundvallast á því að aðstoðin hafi þann tilgang að styðja við byggðaþróun.
    Af lestri athugasemda frumvarpsins má sjá að samráð hefur verið haft við helstu aðila við undirbúning málsins, þ.e. Eftirlitsstofnun EFTA, fjármála- og efnahagsráðuneytið, velferðarráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, fjárfestingarsvið Íslandsstofu, fjárfestingarvaktina og Samkeppniseftirlitið.
    Nefndinni bárust fimm umsagnir um málið. Umsagnir Alþýðusambands Íslands og ríkisskattstjóra innihalda hlutlausar ábendingar, Byggðastofnun telur fyrirætlanirnar sem koma fram í frumvarpinu líklegar til að laða að nýja fjárfesta. Í umsögnum Íslandsstofu og Samtaka atvinnulífsins koma fram nokkrar athugasemdir.
    Íslandsstofa fagnar málinu, leggur áherslu á að löggjöfin sé til staðar en telur að byggja þurfi upp meiri sveigjanleika í henni en nú er þannig að betur verði unnt að koma til móts við hagsmuni nýrra atvinnugreina. Þá bendir Íslandsstofa á að betra geti verið að fella reglur 8. og 12. gr. laganna um þjálfunarstyrki og stofnfjárstyrki brott úr lögunum frekar en að láta þær standa ónotaðar enda skapi tilvist þeirra óæskilegar væntingar meðal fjárfestingaraðila. Stærsta athugasemd Íslandsstofu snýr að því að löggjöfina beri að endurskoða á árinu 2013 og eðlilegra væri að framkvæma slíka heildarendurskoðun nú þegar frekar en að ráðast í tíðar breytingar á löggjöfinni. Telur stofan tíðar lagabreytingar gefa til kynna ákveðið stefnuleysi af hálfu stjórnvalda. Þá telur Íslandsstofa að fyrirhugaðar breytingar frumvarpsins falli að ákveðnu leyti illa að þeirri reynslu sem hefur hlotist af lögunum. Í umsögn Íslandsstofu er að lokum sérstaklega tekið fram að hún leggi ekki til að breytingartillögur frumvarpsins frestist eða taki ekki gildi.
    Í umsögn Samtaka atvinnulífsins kemur í meginatriðum fram gagnrýni af sama tagi og gagnrýni Íslandsstofu. Samtökin ganga þó lengra og leggjast gegn samþykkt frumvarpsins, setja fram þá skoðun að heildarendurskoðun laganna eigi ekki að fara fram fyrr en lögð hefur verið fram tímasett áætlun um aðgerðir til bæta samkeppnisstöðu Íslands og efla markaðs- og kynningarstarf eins og ákveðið hafi verið með samþykkt ályktunar Alþingis 11. júní 2012 um stefnu um beina erlenda fjárfestingu.
    Að mati meiri hlutans er vissulega heppilegt að lög séu stöðug og ekki séu gerðar tíðar breytingar á þeim. Engu að síður verður að telja það jákvætt þegar gerðar eru lagfæringar á lögum þegar þau eru ekki bær til þess að ná þeim markmiðum sem að er stefnt. Slíkt kann að eiga við í ríkara mæli þegar lög taka til umhverfis sem er breytilegt.
    Fyrir liggur að heildarendurskoðun laganna muni eiga sér stað á þessu ári. Við það tilefni mun gefast rúm til þess að fella inn í lögin ákvæði sem endurspegla eins og kostur er þá reynslu sem mótast hefur. Þangað til væri hægt að bíða og viðhalda ríkjandi ástandi. Hinn kosturinn er að gera strax smávægilegar breytingar sem líklegar eru til að gera Ísland meira aðlaðandi sem fjárfestingarkost. Með slíkri breytingu mætti gefa skýra vísbendingu um að stjórnvöldum er alvara þegar að nýfjárfestingu kemur. Síðarnefndi kosturinn er meiri hlutanum meira að skapi.
    Í ljósi framangreinds leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Jónína Rós Guðmundsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en er fylgjandi afgreiðslunni og ritar undir álit þetta, sbr. 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 14. febrúar 2013.Lilja Rafney Magnúsdóttir,


form.


Jónína Rós Guðmundsdóttir,


frsm.


Logi Már Einarsson.Björn Valur Gíslason.


Ólína Þorvarðardóttir.