Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 29. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1026  —  29. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu.


Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og hafa henni borist umsagnir frá Ákærendafélagi Íslands, Landssambandi lögreglumanna, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Persónuvernd.
    Samkvæmt tillögunni er innanríkisráðherra falið að vinna og leggja fyrir Alþingi frumvarp sem veitir lögreglu sambærilegar heimildir og lögregla annarra norrænna ríkja hefur til að rannsaka og grípa til fyrirbyggjandi aðgerða gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Við undirbúning slíkra heimilda til handa lögreglu ber að hafa í huga félagafrelsisákvæði 74. gr. stjórnarskrárinnar og rétt fólks til að taka þátt í starfsemi frjálsra félagasamtaka sem ekki ógna almannaheill.
    Nefndin vekur athygli á því að þingsályktunartillaga sama efnis var flutt á 139. löggjafarþingi (507. mál) og síðan aftur á 140. löggjafarþingi (26. mál). Þá lagði meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar til að tillagan yrði samþykkt óbreytt (sbr. nefndarálit á þingskjali 1567, sjá fylgiskjal). Nefndin bendir á að við meðferð málsins nú fyrir nefndinni hafi ekkert nýtt komið fram sem gefi tilefni til breyttrar afstöðu. Nefndin áréttar því þau sjónarmið sem fram hafa komið við meðferð þingsályktunartillögunnar á fyrri stigum.
    Í ljósi framangreinds leggur nefndin til að tillagan verði samþykkt óbreytt.
    Skúli Helgason skrifar undir álit þetta með fyrirvara um að heimildir lögreglu til að beita fyrirbyggjandi aðgerðum eigi ávallt að skýra þröngt og skuli ekki beita gegn frjálsum félagasamtökum sem ekki stunda skipulagða glæpastarfsemi og að slíkar heimildir eigi ekki að beinast að starfsemi frjálsra félagasamtaka.
    Ólafur Þór Gunnarsson og Arndís Soffía Sigurðardóttir skrifa undir álit þetta með fyrirvara sem lýtur að því að með tillögunni feli þingið innanríkisráðherra að kanna lagaumhverfi hinnar almennu lögreglu á Norðurlöndunum til að hafa sem fyrirmynd að lagafrumvarpi um starfsemi lögreglunnar, ekki síst með tilliti til svokallaðrar skipulagðrar glæpastarfsemi. Á engan hátt sé með tillögunni verið að hvetja til þess að á Íslandi verði stofnuð einhvers konar öryggis-, njósna- ellegar leyniþjónusta, hvað svo sem líði lagasetningu okkar stærri frændþjóða um slíkar stofnanir.
    Birgitta Jónsdóttir og Tryggvi Þór Herbertsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 14. febrúar 2013.

Björgvin G. Sigurðsson,
form.
Þorgerður K. Gunnarsdóttir,
frsm.
Skúli Helgason,
með fyrirvara.

Ólafur Þór Gunnarsson,
með fyrirvara.
Sigmundur Ernir Rúnarsson.
Arndís Soffía Sigurðardóttir, með fyrirvara.

Siv Friðleifsdóttir.


Fylgiskjal.


Nefndarálit meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar um tillögu til þingsályktunar um forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu.

(Þingskjal 1567 í 26. máli 140. löggjafarþings.)


    Nefndin hefur fjallað um málið og hafa henni borist umsagnir frá Ákærendafélagi Íslands, Evu Hauksdóttur, Herbert Snorrasyni, Smára McCarthy og Guðmundi D. Haraldssyni, Landssambandi lögreglumanna, lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Persónuvernd, ríkislögreglustjóra, ríkissaksóknara, Sigurði Arnarssyni og stjórn Persónuverndar.
    Samkvæmt tillögunni er innanríkisráðherra falið að vinna og leggja fyrir þingið frumvarp sem veitir lögreglu sambærilegar heimildir og lögregla annarra norrænna ríkja hefur til að rannsaka og grípa til fyrirbyggjandi aðgerða gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Við undirbúning slíkra heimilda til handa lögreglu ber að hafa í huga félagafrelsisákvæði 74. gr. stjórnarskrár og rétt fólks til að taka þátt í starfsemi frjálsra félagasamtaka sem ekki ógna almannaheill.
    Það er því miður staðreynd að skipulögð glæpastarfsemi hefur aukist hérlendis og eins og bent er á í einni umsagna um málið er ástæðulaust að ætla að sú þróun gangi til baka. Benda má á að nýverið lagði allsherjar- og menntamálanefnd fram og afgreiddi síðar til 2. umræðu í þinginu tillögu til þingsályktunar um aðgerðir gegn skipulagðri glæpastarfsemi (717. mál).
Ljóst er að lagaumgjörðin um slíkar heimildir þarf að vera skýr og sömuleiðis er brýnt að tryggja eftirlit með beitingu heimildanna. Meiri hlutinn telur mikilvægt að farið verði gaumgæfilega yfir lagaumgjörðina að þessu leyti annars staðar á Norðurlöndum.
    Með samþykkt tillögu þessarar felur þingið ráðherra að fara yfir lagaumgjörð á Norðurlöndum og leggja fram frumvarp byggt á þeirri yfirferð. Þingið mun taka afstöðu til þess frumvarps þegar þar að kemur og fara ítarlega yfir ákvæði þess. Tilteknar breytingar á heimildum lögreglu verða því ekki gerðar nema að undangenginni þinglegri meðferð.
    Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.
    Skúli Helgason skrifar undir álit þetta með fyrirvara um að heimildir lögreglu til að beita fyrirbyggjandi aðgerðum eigi ávallt að skýra þröngt og að slíkar heimildir eigi ekki að beinast að starfsemi frjálsra félagasamtaka.
    Þráinn Bertelsson og Þuríður Backman skrifa undir álit þetta með fyrirvara sem lýtur að því að með tillögunni feli þingið innanríkisráðherra að kanna lagaumhverfi hinnar almennu lögreglu á Norðurlöndunum til að hafa sem fyrirmynd að lagafrumvarpi um starfsemi lögreglunnar, ekki síst með tilliti til svokallaðrar skipulagðar glæpastarfsemi. Á engan hátt sé með tillögunni verið að hvetja til þess að á Íslandi verði stofnuð einhvers konar öryggis-, njósna- ellegar leyniþjónusta, hvað svo sem líði lagasetningu okkar stærri frændþjóða um slíkar stofnanir.

Alþingi, 31. maí 2012.

Björgvin G. Sigurðsson,
form.
Þorgerður K. Gunnarsdóttir,
frsm.
Skúli Helgason,
með fyrirvara.

Þráinn Bertelsson,
með fyrirvara.
Magnús Orri Schram.
Þuríður Backman,
með fyrirvara.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir.
Eygló Harðardóttir.